Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðlast og málfrelsi

Muh-hund.jpgNýverið hélt sænski teiknarinn Lars Vilks fyrirlestur um málfrelsi og sýndi glærur. Hann er einn af þeim sem teiknað hafa myndir af Múhameð spámanni, múslímum til mikils ergelsis. Múslímskir áhorfendur réðust að honum og reyndu að berja hann á meðan nokkrir aðrir í salnum æptu ALLAH AKHBAR eins og múslímum virðist mörgum þykja viðeigandi þegar verið er að misþyrma fólki.

Nokkrum dögum síðar var eldur borinn að heimili Lars Vilks og heimasíða hans yfirtekin. Múslímar eru reiðir við hann, því hann teiknaði móðgandi hundamynd af spámanni þeirra og al-Qaeda tengd samtök hafa boðið 150.000 dollara verðlaun þeim sem myrðir Lars - nánar tiltekið með því að skera hann á háls.

Í byrjun líðandi mánaðar gerðu samtök trúlausra í háskóla í Wisconsin tilraun með að mótmæla yfirgangi múslíma. Samtökin sem heita AHA gáfu út yfirlýsingu um að ekki stæði til að móðga múslíma með því að teikna óviðeigandi myndir af Múhameð, aðeins yrðu teiknaðir brosandi spýtukarlar með krít á stéttar skólans. Fjöldi spýtukarla var síðan teiknaður og þeir merktir nafninu Múhameð. Samtök múslíma í skólanum kvörtuðu formlega til skólayfirvalda og breyttu síðan merkingunum við teikningarnar með því að bæta við þær "Ali", svo Múhameð spámaður varð Múhameð Ali boxari.

Umræðan um rétt fólks í vestrinu til að fjalla um íslam á annan hátt en múslímum líkar er sem sagt ekki dauð, heldur lifir góðu lífi þrátt fyrir að fimm ár séu liðin frá Jyllands-posten ævintýrinu í Danmörku.

Margt hefur verið sagt og skrifað um það hvort tilraunir sem þessar séu réttlætanlegar og að hvaða marki eigi að virða trúarlegar reglur annarra. Öfgamenn í pólitískri rétthugsun segja t.d. sumir að það að teikna Múhameð sé særandi fyrir múslíma á sama hátt og að flagga hakakrossi þar sem gyðingar eru eða ganga með Ku klux klan hatt fyrir framan svart fólk og því eigi ekki að gera slíkt.

Slíkar samlíkingar eru þó ansi vanhugsaðar. Hakakrossinn og Ku klux klan hatturinn standa fyrir ofboðslega andúð á umræddu fólki og eru minnisvarðar um fjöldamorð, þrælkun og heiftarlega mismunun. Merkin eru móðgandi vegna þess að þau standa fyrir ofsalega ljóta hluti sem allir þekkja til. Það sama verður á engan hátt sagt um það eitt að virða ekki hugmyndina um að Múhameð hafi verið spámaður guðs og ekki megi teikna hann, ekki frekar en það sama verður sagt um það þegar múslímar láta þa undir höfuð leggjast að virða þá hugmynd að Jesús hafi verið guð - en þeir virða þá hugmynd einmitt ekki, heldur er hún guðlast að þeirra mati.

Hér á Vantrú fór nýlega fram umræða um guðlast þar sem því var skotið inn að guðlast væri glæpur án fórnarlambs, því sá sem á að móðgast, guð, er ekki til. Þetta leist lesanda nokkrum ekkert á og skrifaði eftirfarandi:

Ef við hugsum okkur það að einhver einstaklingur taki sig til og þrammi á Lækjartorg þar sem hann breiðir út bandaríska fánann á gangstéttina, sviptir niður um sig buxunum og skítur á fánann, þá myndu flestir Íslendingar líta svo á að maðurinn væri dóni og þessi hegðun ákaflega subbuleg. Enn verra væri ef hann væri með íslenska fánann, því þá held ég að langflestum okkar væri gróflega misboðið og margir gætu tekið þessu býsna persónulega og verið sárir yfir svona hegðun. Og HVER ERT ÞÚ að segja öðrum hvernig mér á að líða gagnvart slíku og að ég þurfi að venja mig af því? Þetta er svo hrokafull afstaða að ég á ekki orð!

Það getur vel verið að menn geti skitið á sinn eigin þjóðfána eða þjóðfána annarra í nafni einhvers frelsis. En það breytir því ekki að slík hegðun er algjörlega óþörf, sóðaleg, særandi og þeim sem slíkt gera til minnkunar og skammar. Þessi hegðun sem ég er að lýsa er fullkomlega sambærileg við guðlastið og ég verð að segja að ég hreinlega skil ekki hvað mönnum gengur til sem hafa þörf fyrir slíkt. Sem betur fer er það þannig að þótt margir séu engir aðdáendur Bandaríkjanna þá er ekkert sem knýr þá til að skíta á fánann þeirra og þess vegna skil ég ekki þessa þörf trúleysingja fyrir það að guðlasta.

Ég hefði haldið að við ættum að geta komið okkur saman um að bera virðingu fyrir öllum mönnum óháð hvort eða hvaða trú þeir hafa en það lítur út fyrir að hatursfullur hugur margra komi því miður í veg fyrir það.

Þetta er að vísu ekki skrifað um teikningar af spámanni múslíma, heldur um vísu sem Helgi Hóseasson hnoðaði saman eitt sinn.

Krosslafs hræ við láð varð laust,
ljótt með kauna aman.
Til himna líkt og skrugga skaust,
með skít og öllu saman.

-Helgi Hóseasson

Skoðum aðeins hvort það er um verulegan mun á þessu tvennu að ræða og hvort það megi líkja teikningum og vísum við að skíta á fána þjóða; hvort trúleysingjar séu einfaldlega með svo "hatursfullan" huga að þeir séu bara að spilla friðnum að óþörfu þegar þeir fara út í einhverja svona sálma.

Um daginn var pólsk poppstjarna kærð fyrir guðlast. Hún hafði sagt biblíuna skrifaða af mönnum sem hefðu reykt og drukkið eitthvað einkennilegt dót. Svo mikið rugl þykir henni kristnin vera. En það að hún skyldi segja það varðar við lög í Póllandi.

Í júní í fyrra voru sett guðslastlög í Írlandi sem gera guðlast gegn öllum trúarbrögðum að glæp sem getur kostað menn allt að 25.000 Evru sekt (4.094.750 kr).

Á Íslandi eru engin eiginleg guðlastslög, en í takmörkunum tjáningarfrelsisins á Íslandi, og samkvæmt 125. grein almennra hegningarlaga, er guðlast bannað með lögum á Íslandi, og liggja við sektir eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Frá bæjardyrum trúleysingja séð eru lög um guðlast í mótsögn við hugmyndir um mál- og trúfrelsi. Þar sem "smánun" og "að draga dár" eru hugtök sem erfitt er að setja mælistiku á mætti t.d. hæglega komast að þeirri niðurstöðu að flest allt sem skrifað er í þetta vefrit varði við lög og að við eigum að sitja af okkur fjöldann allan af 3 mánaða fangelsisdómum.

Margt fólk hefur einfaldlega ríka ástæðu til að vilja hrófla við úreldum viðhorfum til heilagleika lífsskoðana og til að vilja hrófla við lögum í nafni þeirra viðhorfa. Þar bætist auk þess við reiði yfir því að það skuli ekki mega gagnrýna langsóttar trúarhugmyndir sumra manna án þess að sendiráð séu brennd til grunna og fólk drepið í götum úti.

Þegar menn vilja mótmæla kreddum reyna þeir gjarnan að finna ofbeldis og sársaukalitla leið til að vekja athygli á málstað sínum og fá fólk til að hugsa. Þá gera þeir gjarnan eitthvað tiltölulega saklaust, sem þó jaðrar við að brjóta þau lög sem þykja undarleg. Sem dæmi um það má nefna gay-pride þar sem samkynhneigðir flagga kynhneigð sinni, oft í löndum þar sem kynlíf þeirra, hjónabönd og jafnvel sjálf kynhneigðin eru ólögleglegir hlutir.

Klæmnar eða hranalegar ferskeytlur finnast um allt og alla. Þegar guðlastið er fólgið í því að teikna Múhameð sem hund, eða með sprengju á hausnum, eða skrifa vísu um "Krosslaf" eða kríta spýtukarl á skólalóð er einfaldlega ekki verið að hóta fólki eða vitna í ofbeldi og lítillækkun. Á meðan þjóðfélagið er gegnsýrt af trúarbrögðum sem segja að trúleysi og villitrú sé andstyggð í augum algóðs og almáttugs guðs og biskup þjóðkirkju um þá trú talar þannig um hlutina, þá er óformlegt skotleyfi á þá trú klárlega í gildi og það því ekki tilefnislaus aðgerð að semja vísu um Krosslaf eða henda gaman að biblíunni, heldur eru það borgaraleg mótmæli.

Að skíta á fána þjóðar er því ekki það sama og að gera gys að boðskap og leiðtogum trúarbragða, nema menn þykist eiga eitthvað upp á viðkomandi þjóð að klaga eða að sú þjóð sé með sjálfa sig á stalli og telur sig yfir gagnrýni hafna, þá eru það ekki svo ólíkir hlutir. Hommar mega t.d. búast við því að vera aflífaðir í S-Arabíu og Íran og ég sé ekkert að því að þeir skíti á fána þeirra þjóða á meðan því er þannig háttað. Að skíta á fána er auk þess "guðlast" sem er meira í anda þess að skíta á biblíuna, en ekki að semja skoplega visu eða teikna lítilsháttar niðrandi myndir. Það er verulegur blæbrigðamunur þarna á. Þess má að lokum geta að þjóðarleiðtogar og þjóðareinkenni eru daglega dregin sundur og saman í háði af skopmyndateiknurum dagblaða um allan heim, oft af litlu tilefni og þjóðernisrembingur er einmitt prýðilega til þess fallinn að gagnrýna með því að henda gaman að honum, svo þessi fánalíking er kannski í raun frekar máttlaus.

Pólitísk rétthugsun og linkind við ofsatrúaða eigi hvergi heima í máli sem þessu þar sem um ofbeldis- og fórnarlambslausa barráttu fyrir mál og trúfrelsi er að ræða. Við eigum að gantast góðlátlega með alla guði og allar kreddur þangað til veraldarsamfélaginu er orðið ljóst að fólk á ekki að sitja í fangelsi, borga sektir eða þola ofbeldi og eignarspjöll fyrir það eitt að virða ekki þennan eða hinn guðinn, þessi eða hin trúarbrögðin eða þessa eða hina siðavenjuna - nema um almenn réttlætismál sé að ræða.

Múhameð var samkvæmt kóraninum og hadithunum maður sem meðal ýmissa harkalegra verka fyrirskipaði aftöku hundruð gyðinga, fanga sinna og boðaði trúarbrögð sem á köflum eru ofsalega fjandsamleg öðru fólki. Við þurfum vitaskuld að leyfa múslímum að túlka það burt og hanga í sínum siðavenjum, rétt eins og kristnir gera með sinn blóðþyrsta níðing og skaphund, guðinn Jahveh. En að það megi ekki gera grín að Múhameð eða Allah, eða Jesú, eða hverjum sem er vegna þess að menn móðgast og vilja þá fangelsa og limlesta fólk er óásættanlegt miðaldaástand. Þess má auk þess geta að það hefur lengi tíðkast að teikna og mála myndir af Múhameð spámanni, það virðist bara alveg hafa gleymst að tryllast yfir því þegar það var gert í gamla daga. Hér er myndasafn: Mohammed Image Archive.

Komum okkur upp opinberum "gerum-grín-að-kreddum-degi". Þann dag mætti gefa frí í skólum og öllum þess í stað boðið að kríta myndir af guðum og spámönnum á skólalóðirnar Síðan mætti kannski teikna Dawkins og Darwin líka, svona til að pirra okkur trúleysingjana. Það myndi sameina fólk í hæfilegu kæruleysi um hinar ýmsu líffskoðanir, því það hlýtur að vera hægt að trúa án þess að tapa sér í viðkvæmni fyrir hönd guða sinna, spámanna eða annarra fyrirmynda og engar hugmyndir eiga að vera yfir gagnrýni og umræðu hafnar, engar.

Kristinn Theódórsson 17.05.2010
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Siðferði og trú , Íslam )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/05/10 09:23 #

Múslimar halda að þeir séu að framfylgja fyrsta boðorðinu:

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

Þetta er númer eitt, það allra mikilvægasta í lífi hvers manns og þjóðar (samkvæmt talibönum ríkiskirkjunnar).

Ef myndir, sem engum er ætlað að tilbiðja, eru bannaðar á það sama við um allar myndir af nokkru sem finnst á himni, jörðu eða í vötnum.

Það er guð ríkiskirkjunnar sem lýsir því svo smekklega yfir að hann sé vandlátur og hefni sín ekki bara á geranda heldur börnum hans í þriðja og fjórða lið. Þessi brjálæðingur er því miklu ógeðfelldari heldur en nokkur ofstækismaður.

Hvernig dettur mönnum í hug að trúa á þennan óskapnað, hvað þá að kalla þennan hroða "grundvöll siðgæðis" eða grundvöll "laga og réttar"?


Ásta Elínardóttir - 17/05/10 09:24 #

Skemmtileg grein svona í mörgunsárið. Takk fyrir það.

En eitthvað held ég að þú verðir misskilinn af loka kommentinu um Dawkins og Darwin.


Arnar - 17/05/10 09:33 #

Er ekki 'teiknaðu Múhameð' dagurinn núna 20. maí? Þyrfti kannski að fletta því upp en ég er búinn að ákveða að teikna hring og kalla hann Muhamed.

Svo er líka alþjóðlegur guðlast dagur einhvern tímann. Minnir að það tengist guðlast lögunum í Írlandi.


Arnar - 17/05/10 10:00 #

Og í framhaldi:

http://www.youtube.com/watch?v=0Bql0cpVHbA (myndband frá Thunderf00t um viðkvæmni múslima og flag-brennslu)

Sé ekki betur en þarna sé verið að brenna íslenska fánann á 'splash' myndinni, vinstra megin í miðju.


Valtýr Kári - 17/05/10 10:23 #

@Arnar, já ég held að þetta sé síðan að hópur múslima var að mótmæla innrásinni í Írak. Mér skillst að þeir hafi tekið íslenska fánann í misgripum fyrir þann breska. Ég veit ekki hvort þetta er satt en það kæmi mér ekki á óvart ... þetta voru kanski ekki beittustu hnífarnir í skúffunni sem stóðu að þessum gjörningi.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 17/05/10 10:41 #

Takk fyrir athugasemdirnar, gott fólk.

Ég hefði viljað bæta því við þessa grein mína að ég tel að stefnan eigi að vera sett á veraldarsamfélag sem þolir umræðu og gagnrýni.

Hvort græðir samfélagið meira á þöggun eða umræðu? Er ekki ljóst að hið síðara er betri leið?

Kennum gagnrýna hugsun, gagnrýna umræðu og getuna til að fjalla um alla hluti af yfirvegun.

Hitt, að kenna fólki að "virða" ákveðin trúarbrögð með því að gagnrýna þau ekki er augljós firra sem getur aðeins gengið upp ef viðkomandi truarbrögð ná heimsyfirráðum - annars verður þau alltaf þrætuepli eða tifandi sprengja.

Eða hvað?


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/05/10 11:21 #

Myndbandið talar sínu máli líka: http://www.youtube.com/watch?v=4oLvwMxwHFs


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 17/05/10 11:26 #

Teikna Múhameð dagurinn

Tuttugasta maí eiga allir að teikna Múhameð, en teiknum endilega líka Búddha, Krist og fleiri í leiðinni.

Þöggun er engin lausn.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 17/05/10 11:29 #

Og 30. sept. er guðlastdagurinn.

Það er nóg að gera.


Arnar - 17/05/10 11:49 #

Everybody draw Mohammed day á facebook.


Arnar M - 17/05/10 14:20 #

Hvor múslimana leyfa teikningu á Mohammed eru það sjíta eða súnnítum?


Kristján Hrannar Pálsson - 18/05/10 09:29 #

Íronían er alger í málflutningi þeirra múslima sem vilja forðast "skurðgoðadýrkun" sem teikningar af Múhammed hefðu í för með sér. Skurðgoðadýrkunin er nú þegar það svæsin hjá mörgum þeirra að persónuupphafningin á Múhammed gæti varla verið öfgakenndari.


Bjarki - 17/07/10 15:28 #

Hakakrossinn og Ku klux klan hatturinn standa fyrir ofboðslega andúð á umræddu fólki og eru minnisvarðar um fjöldamorð, þrælkun og heiftarlega mismunun. Merkin eru móðgandi vegna þess að þau standa fyrir ofsalega ljóta hluti sem allir þekkja til.

vill benda á að hakakrossinn er friðarmerki og flest öll trúabrögð eiga sína útgáfu af hakakrossinum. útrétt hægri hönd er rómversk merki um hylli ekki Nasista-hefð.

Ku Klux Klan voru aðstoðarmenn þrælahaldara en ekki einungis gerundur í handahófskenndum árásum gegn svörtum. þeir höfðu eftirlit með negrum sem fóru út án leyfis um nætur.

Merkin þykja móðgandi og ljót því að ákveðnir hópar hafa tileinkað sér þau og mikið af slæmum hluti undir þvi flaggi. En auðvitað voru rómverjar ekki nasistar eftir minni bestu vitund.

Það er líka undarlegt hvað menn tileinka sér eins og gyðingar tileinkuðu sér "Helförina" eða "The Holocaust" en margar helfarir hafa verið farnar en ekki allar gegn gyðingum.

hér er kristin vefsíða sem heldur fram að gyðingar beri ábyrgð á helförinni og gerðu sjálfa sig að fórnarlömbum. mer þykir þetta nokkuð sjúkar samsæriskenningar... http://incogman.wordpress.com/2010/01/22/milking-old-adolf-for-all-hes-worth/#more-27036

og ef það er eitthvað til í þessu : http://incogman.files.wordpress.com/2010/01/holocaustmyth-cartoon.gif þá finnst mér þessi heför helvíti vafasöm!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.