Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Útúrsnúningatrú: samtal af barnum

Ísland - Spánn

Þegar rætt er um trúmál eru trúleysingjar jafnan sakaðir um að skilja ekki forsendur trúar og um leið kinka trúmenn ákaft kolli, hver til annars. En hvað er það sem trúleysinginn ekki skilur við "eðli guðs" og "samspil guðs og manna"? Það fer eftir hver er spurður, í hvaða samhengi og á hvaða tíma dags, því alltaf virðast mörkin færast þegar trúmaðurinn er inntur eftir frekari upplýsingum um samhengi hlutanna í heimsmynd hans.

Þetta virðist trúfólki þykja mjög eðlilegt og virðist jafnvel oft ekki átta sig á því að það sé að hegða sér á veg sem túlka mætti sem undanslátt og flóttaleik. Til að útlista hvað slík hegðun kemur okkur trúleysingjum undarlega fyrir sjónir skulum við snúa umræðuefninu upp á fótbolta og sjá hvernig slíkt samtal liti út ef rökrætt væri um möguleika Íslands á að verða heimsmeistari í þeirri íþrótt.

Siggi er efasemdarmaður, hann telur að Íslendingar verði seint eða aldrei heimsmeistarar í fótbolta. Jói er trúmaður, hann trúir því að Íslendingar verði orðnir heimsmeistarar í fótbolta innan 10 ára. Þeir félagar sitja saman á sportbar á fimmtudagskvöldi og sötra stóran af krana á meðan þeir ræða þessar ólíkur hugmyndir sínar um boltann.

Siggi: Mér finnst nú dálítið undarlegt að fullyrða að Íslendingar verði heimsmeistarar í fótbolta í bráð. Það bendir bara ekkert til þess að það sé að fara að gerast og við erum í 91. sæti á styrkleikalista FIFA, það er nú ekki traustvekjandi.

Jói: Mér finnst nú alveg jafn undarlegt að fullyrða að við getum ekki orðið heimsmeistarar, hvernig dettur þér í hug að halda því fram?

Siggi: Ja, ég er ekki að fullyrða að það geti ekki gerst, en ég skil ekki að þú skulir beinlínis trúa því að það sé að fara að gerast á næsta áratug þegar ekkert bendir til þess að svo sé.

Jói: Þú trúir því sem sagt að Íslendingar verði ekki heimsmeistarar á næstu tíu árum, er það eitthvað minni trúarafstaða en mín?

Siggi: Ha? Ég trúi því ekki í neinum skilningi sem líkja má við þína afstöðu, mér þykir það bara ólíklegt miðað við stöðu okkar á styrkleikalistanum og sögu okkar í þessum efnum, því við höfum aldrei komist nærri því að ógna stórveldunum í fótbolta.

Jói: En það er ekki útilokað fyrir því!

Siggi: Nei, vitaskuld gæti það fræðilega séð gerst að Íslendingar ynnu, en það er allt að því ómögulegt að ætla drengjunum okkar, sem sjaldnast eiga séns í danska landsliðið, að sigra Frakka, Ítalí, Brasílíu eða Þjóðverja, nema í besta falli einu sinni á öld fyrir einhverja lukku.

Jói: Þetta er bara svartsýni, hvernig heldurðu að hefði farið fyrir Íslendingum í handbolta með þessu viðhorfi?

Siggi: Nei, heyrðu, láttu ekki svona. Ég viðurkenni fúslega að möguleikinn er fyrir hendi og ég viðurkenni að það skiptir máli að hafa trú á þeim möguleika, en þú hefur ekki aðeins trú á því að það sé hægt, þú fullyrðir að það muni gerast á mjög skömmum tíma.

Jói: Já, ég veit það í hjarta mínu að það mun fara þannig. Það er mín trú og hún er ekkert vitlausari en þín.

Siggi: Jæja, ég tel nú samt að ég geti fært rök fyrir því að trú þín sé ekki aðeins vitlausari afstaða en mín, heldur svo gott sem ómöguleg á þessum tímaskala.

Jói: Já, lát heyra. Ég get svarað öllum spurningum þínum, því ég er búinn að spá í þetta lengi og þekki allar hliðar á málinu.

Siggi: Hér er ég með útprentaðar tölur um kostnað við leikmannakaup, þjálfunarkostnað og tímann sem tekur að koma upp liði í heimsklassa miðað við sögu síðustu 80 ára. Samkvæmt þessum tölum eru líkurnar einn á móti 500 á að við getum komið okkur upp slíku liði á 30 árum, hvað þá á 10 árum - miðað við mjög bjartsýna áætlun um aukið fjárstreymi til íþróttarinnar og stuðning fleiri áhorfenda en búa á landinu.

Jói: Svona gögn eru afskaplega ónákvæmar nálganir við raunveruleikann og ég gef nú ekki mikið fyrir líkindareikinginn. Hvað ætli líkurnar hafi í raun verið miklar, miðað við svona forsendur, á því að íslendingar myndu sigra Þjóðverja í handboltanum? Það er stór og vel fjármögnuð íþrótt þar í landi. Miðað við svona stærðfræði ættu líkurnar á því að vera einhver svakalega lítil tala.

Siggi: Jú jú, en peningaausturinn og atvinnumennskustígið í handbolta er ekkert í líkingu við fótboltann og það má alveg margfalda með þúsund þegar kemur að fótboltanum, það hlýtur þú að sjá?

Jói: Ókey, ég get fallist á að í þessum þrönga skilningi sé ólíklegt að Ísland verði heimsmeistari, en ég var nú aldrei að hugsa þetta á þessum þurru tölfræðilegu nótum, eða að verða heimsmeistari í svona þröngsýnum skilningi.

Siggi: Ha? Í hvaða skilningi áttir þú við að Ísland yrði heimsmeistari í fótbolta?

Jói: Nú, við gætum t.d. verið heimsmeistarar í fótbolta hvað stoðsendingar snertir, eða lengd innkasta, eða varin mörk í hægri hluta marksins. Það er fáránlega þröngsýnt að ætla að skilgreina titilinn einungis sem sigur í markatölu og fjölda sigraðra leikja.

Siggi: Bíddu hægur! Varstu allan tíman að tala um að meistaratitil í þessum fáránlega skilningi?

Jói: Þetta er ekkert fáránlegra en aðrar skilgreinignar á sigri og já, menn sem skilgreina heimsmeistaratitilinn þröngt, eins og þú gerir, munu náttúrulega aldrei skilja þá sem trúa á möguleika landsliðsins.

Siggi: Jesús og María, þetta er tóm della. Það er enginn að tala um einhverja afmarkaða þætti leiksins sem heimsmeistaratitil, nema það sé sérstaklega tekið fram!

Jói: Það er nú bara til marks um einfeldni þína og takmarkaðan skilning á trú að þú skulir samstundis álykta að ég sé að tala um hlutina í almennum bókstaflegum skilningi.

Siggi: Ég er gáttaður. En ókey, hvað sem því líður, þá eigum við Íslendingar ekki möguleika á meti í lengd innkasta heldur, sem dæmi, þar sem leikmenn úti eru flestir mun betri þeim efnum. Svo þetta breytir forsendum ekki svo mikið.

Jói: Þarna sérðu, Siggi, hvað þú ert geldur í hugsun. Ég er ekki að tala um met í því að kasta lengst, heldur met í því að kasta ákveðið langt, t.d. nákvæmlega 11,5 metra.

Siggi: Já, ókey, þú trúir því sem sagt að íslenska landsliðið í fótbolta muni verða heimsmeistari í að kasta akkúrat 11,5 metra löng innköst á næstu 10 árum?

Jói: Vertu ekki að leggja mér orð í munn. Þetta er nú hlægilegur strámaður. Ég nefndi þetta bara sem dæmi um eðli mets, en ég bind ekki trú mína við það ákveðna dæmi, heldur verður titillinn og sigurinn fólginn í því, að hafa sem þjóð upplifað met af einhverju tagi í ýmsum skilningi á fótboltavellinum innan tíu ára.

Siggi: Ha!? Með svona orðaleikjum og útúrsnúningum er ljóst að það verður alltaf hægt að kalla liðið heimsmeistara! Þetta er bara rugl!

Jói: Nei, þarna viðurkenndir þú einfaldlega að ég hef rétt fyrir mér. Viltu ekki bara ganga í stuðningsmannafélagið?

Siggi: Þú ert nú eitthvað ruglaður. Finnst þér þú hafa verið að tjá þig af viti um fótbolta síðasta klukkutímann?

Jói: Siggi minn, þú ert bara gjörsamlega lokaður innan veggja tungumálsins og hins hefðbundna kapítalista-skilnings á íþróttum. Íþróttir eru ekki bara markatölur og sjónvarpsáhorf. Íþróttir eru heill heimur merkingar og leyfi maður sér að skynja íþróttir þannig að maður fái allt út úr þeim sem þær hafa upp á að bjóða, þá skilur maður svo miklu meira en að einhverjir strákar með eyrnalokka séu með árstekjur meðalmanns í dagslaun fyrir að sparka í bolta.

Siggi: Ég er farinn, í almennum og þröngt skilgreindum skilningi þess orðs. Bless!

Kristinn Theódórsson 14.04.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.