Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heimsókn James Randi

James Randi

Vonandi fór það ekki fram hjá neinum að sjónhverfinga- og efasemdamaðurinn James Randi sótti okkur Íslendinga heim og hélt fyrirlestur á vegum Vantrúar og Siðmenntar í Háskóla Íslands 24. júní sl.

Tilefni komu hans var að í þætti sem hægt er að finna á Youtube sagðist hann gjarnan vilja fara til Íslands áður en ævin væri öll. Við í Vantrú tókum hann á orðinu og buðum honum hingað sem hann og þáði ef okkur tækist að greiða kostnaðinn. Á móti bauðst hann til að halda hér fyrirlestur endurgjaldslaust. Þar sem Vantrú fær enga milljarða úr ríkissjóði, líkt og ríkiskirkjan, ákváðum við að leita eftir samstarfi við Siðmennt til að minnka áhættuna á stórtapi af þessu fyrirtæki.

Randi hafði skipulagt fyrirlestrarferð til Finnlands, Hollands, Eistlands, Svíþjóðar og Danmerkur og ákvað að bæta Íslandi við í lokin. Það verður að teljast vel af sér vikið að ráðast í slíkt fyrirtæki eftir erfið veikindi og á 82. aldursári. Með Randi í för var aðstoðarmaður hans, Brandon K. Thorpe, sem auðveldaði honum lífið en tvöfaldaði kostnað okkar.

Skoðunarferð, matur og viðtöl

Þegar Randi og Brandon mættu út á flugvöll í Kaupmannahöfn aðfararnótt 23. júní runnu tvær grímur á þá og okkur þegar í ljós kom að bókun þeirra til Íslands var horfin úr tölvukerfinu. Ekki vitum við hvað olli en eftir nokkra bið var þeim sagt að þeir mættu fara um borð í vélina. Okkur skilst að SAS sjái um bókanir Icelandair þarna úti og eigi til að hrella menn með þessum hætti. Það voru því þreyttir ferðalangar sem lentu á Íslandi um níuleytið á miðvikudagsmorgni. En þeir þáðu þó stutta skoðunarferð um Reykjanes þar sem fyrir augu bar gliðnun Atlantshafshryggsins, hraun, hverasvæði og Reykjanesviti. Þessi náttúruundur vöktu óskipta athygli þeirra og undrun. Það vakti hins vegar athygli mína að Randi tók ekki síst eftir flóru landsins og beygði sig ósjaldan niður til að grandskoða smávaxinn gróðurinn.

Eftir þessa skoðunarferð fengu þeir félagarnir sér hádegisverð og hvíld á Hótel Centrum í miðbæ Reykjavíkur, sem vakti mikla lukku. Randi var svo ánægður með dvölina þar að hann hældi hótelinu sérstaklega á fyrirlestrinum daginn eftir. En hvíldin var stutt því síðar um daginn fór Randi í viðtal í þættinum Harmageddon.

Þá var haldið upp í Perlu til að skoða útsýnið og síðan í stutta gönguferð um miðbæinn áður en þeim var boðið til kvöldverðar á Einari Ben með nokkrum félögum úr Vantrú og Siðmennt. Brandon vinnur í hjáverkum sem veitingahúsagagnrýnandi og því var ánægjulegt að heyra að betri mat sögðust þeir ekki hafa fengið í allri ferðinni.

Klukkan átta á fimmtudagsmorgni tók blaðamaður Morgunblaðsins viðtal við Randi, sem birtist í sunnudagsmogganum 27. júní. Að því loknu var brunað á Þingvelli, yfir Lyngdalsheiði og að Geysi en þegar komið var aftur til Reykjavíkur mætti Randi í viðtal í síðdegisútvarpinu á RÚV og síðan í viðtal í sjónvarpinu:

Fyrirlesturinn

jamesrandi_fyrirlestur_andmenning.jpg Um kvöldið var síðan komið að fyrirlestrinum. Við höfðum pantað stofu 105 á Háskólatorgi sem tekur 180 manns í sæti en þótt við hleyptum tæplega 300 manns inn þurfti samt að vísa fjölda manns frá vegna plássleysis. Raunar var það sama sagan í öllum löndunum, alls staðar þurfti fólk frá að hverfa, um 400 manns í Svíþjóð að okkur skilst. Miðað við höfðatölu komust þó flestir að hérna, svo mikið er víst. Í fyrirlestrinum fjallaði Randi um gervivísindi, ekki síst smáskammtalækningar, fjölmiðla og trúarbrögð og minnti okkur á hversu auðvelt er að láta glepjast.

Fyrirlesturinn hófst á réttum tíma og átti að standa í klukkustund. En Randi lék á alls oddi, þrátt fyrir stranga dagskrá, og talaði í tæpa tvo tíma. Það vakti sérstaka ánægju okkar að Baldur Brjánsson kom á fyrirlesturinn ásamt öðrum sjónhverfingamönnum, ekki síst vegna þess að Randi sýndi myndband þar sem hann fletti ofan af „andaskurðlæknum“ á Filippseyjum, líkt og Baldur hafði gert hérna nokkrum árum áður. Á fyrirlestrinum var líka dr. Erlendur Haraldsson prófessor í dulsálarfræði, en hann bauðst í kjölfarið til að halda fyrirlestur á vegum okkar.

Eftir fyrirlesturinn ræddi Randi við gesti og gangandi fyrir utan háskólatorgið áður en gengið var til hvílu. Pressan birti líka umfjöllun um fyrirlesturinn og vakti athygli á milljón dala verðlaunum Randis.

auga

Horfinn heim

Að morgni föstudagsins héldu þeir Randi og Brandon síðan út á flugvöll og kvöddu með virktum. Þeir létu afar vel af dvölinni hér; hreina loftinu, náttúrunni, fólkinu, hótelinu, matnum og skipulaginu. Randi lét þess getið oftar en einu sinni að hann vildi koma aftur. En það er í nógu að snúast hjá þessum aldna höfðingja. Dagana 8.-11. júlí stendur stofnun hans fyrir ráðstefnu í Las Vegas

Þeir sem misstu af fyrirlestrinum geta séð megnið af því sem fram kom með því að leika sér um stund á youtube, en auðvitað kemur ekkert í staðinn fyrir þá upplifun að sjá og heyra manninn fyrir framan sig. En fyrirlesturinn var tekinn upp og líklegast verður hann gerður aðgengilegur á internetinu fyrr en síðar.

Það var sönn ánægja og heiður að fá þennan merka mann til landsins. Eftir fyrirlesturinn og umfjöllun fjölmiðla ættu flestir Íslendingar að vita af milljón dala verðlaununum. Það eitt hefur gríðarlegt gildi og er mikilvægt vopn í höndum þeirra sem standa andspænis hvers kyns yfirlýsingum um tilvist hins yfirskilvitlega, yfirnáttúrulega og fjarstæðukennda.

Ritstjórn 16.07.2010
Flokkað undir: ( Samherjar , Tilkynning )

Viðbrögð


Ragnar S. Ragnarsson - 16/07/10 17:32 #

Ég vil þakka ykkur fyrir að koma þessum fyrirlestri i kring. Ég hafði ánægju af að hlýða á þennan merkilega mann enda þótt fátt hafi komið á óvart þar sem ég hef lesið talsvert eftir hann. Þetta var svipað og þegar ég fór eitt sinn á Rolling Stones hljómleika; ég hafði heyrt öll lögin en skemmti mér samt vel. Það er Randi að nokkru leyti að þakka að ég afhjúpaði eitt sinn "miðil" sem var með útvarpsþátt þar sem hann greindi veikindi hlustenda sem hringdu til hans í þáttinn. Ég skrifaði um þetta í Morgunblaðið 19. febrúar 1998 (bls. 46). Titill greinarinnar er orðrétt spurning miðilsins til hlustanda: "Varstu eitthvað að fikta í nefinu á þér?" Útvarpsþáttur miðilsins hvarf fljótlega af dagskránni, þar sem innhringingum fækkaði stórlega, og mér skilst að hann hafi farið að selja líftryggingar :) Mér fannst ánægjulegt að sjá margt ungt fólk á fyrirlestri Randi; það gefur fyrirheit um að baráttan gegn allskyns bulli hérlendis verði enn kröftugri í framtíðinni. Ragnar S. Ragnarsson


Svavar Kjarrval - 16/07/10 19:20 #

Ég vil þakka öllum fyrir að standa í þessu og vil einnig þakka fyrir að vera þess heiðurs aðnjótandi að snæða með James Randi kvöldið fyrir fyrirlesturinn.

Ragnar, ég held að við í Vantrú værum þakklátir ef þú gætir útvegað okkur eintak af þessari grein ásamt öðrum upplýsingum um þennan miðil. Spjallborðið er einnig opið fyrir þá sem hafa áhuga á nánari umræðum um Vantrú og tengd málefni.


Ragnar S Ragnarsson - 16/07/10 19:55 #

Ég vil nú ekki stela þessum þræði en fyrst þú baðst um það þá er hér hlekkur á umrædda grein.


Ragnar S Ragnarsson - 16/07/10 20:00 #

Ég prófaði hlekkinn enn fæ svar um að umrædd síða finnist ekki. Fyrst svo er þá er varaleiðin að fara inn á tímarit.is og kalla fram Morgunblaðið 19. febrúar 1998 bls. 46.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/07/10 20:26 #

Ég lagaði hlekkinn.


Gunnar - 18/07/10 02:32 #

Þessi frétt birtist því miður mjög seint, en karlinn fór á kostum:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4498044/2010/07/05/12/


Gunnar - 18/07/10 02:33 #

Svona er að vera með bilað flash, þetta er víst sama myndband og var þarna í upphafi, sorrí :)


Innkaup - 20/07/10 21:01 #

[Athugasemd færð á spjallið ] - Ritstjórn


jens holm - 22/07/10 17:08 #

takk, vantrú, fyrir að koma þessu í kring! það var fúlt að komast ekki, en það er ánægjulegt að þið gátuð hjálpað öldungnum að láta einn draum rætast og vekja í leiðinni athygli mörbúans á hindurvitnum frá gagnrýnu sjónahorni.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?