Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vantrúarupplifun

Nú hef ég verið meðlimur í Vantrú í rúmt ár og finnst mér alltaf jafnskrítið þegar utanaðkomandi aðilar saka félagsmenn um að vera orðljótir, ónærgætnir og fleira í þeim dúr þegar þeir gagnrýna trúarbrögð, trúboð eða gervivísindi. Einnig yfirlýsingar eins og: "Í Vantrú eru bara nokkrir ungir strákvitleysingjar."

Fyrstu kynni af Vantrú eftir að ég fór að vera virkur meðlimur komu mér verulega á óvart. Fyrst á innra spjallinu en svo í kjötheimum. Það má segja að árshátíð félagsins nú síðasta haust hafi verið það sem breytti mestu afstöðu minni gagnvart félaginu. Þarna vorum við mættir þrír vinir að norðan og vissum ekki við hverju við áttum að búast.

Þetta var haldið í litlum sal og var mjög heimilislegt viðmót, humarinn sem var í matinn var yndislegur og svo þegar kom að því að blanda geði við mannskapinn fóru hlutirnir að gerast. Þarna sat ég ungur vísinda- og rökhyggjunörd í draumafélagsskap. Þarna var spjallað um:

kennilega eðlisfræði, stærðfræði, meðaltalsrannsóknir, þróun, nýjustu tæknina, kjarnorkumál heimsins, heimsmálin, bækur, heimildarmyndir, tónleikaferðir, heimasíðugerð, biblíulestur, heilsu, fúskara, og margt fleira.

Eins og sjá má eru þetta mismunandi umræðuefni og var hægt að setjst á annan stað ef eitt vakti meiri áhuga en annað. Snilldin var að þarna var öllu óþarfa "hvernig er veðrið" eða "hver er að deita hvern" tali sleppt. Þetta var svona kvöld þar sem maður kom heim miklu fróðari en maður hafði verið áður en samt með miklu fleiri spurningar um hina ýmsu hluti. Því með hverju svari vakna tvær nýjar spurningar.

Ég hafði áður tekið eftir þessu á innra spjalli Vantrúar en áttaði mig ekki almennilega á þessu fyrr en þetta kvöld. Nú hlakka ég alltaf til næsta hittings, en það eru haldnir hittingar reglulega þar sem við sitjum, spjöllum og borðum og er mjög gaman.

Ég fór svo að skoða af hverju umræðurnar voru eins gefandi og raun bar vitni og komst fljótt að því að innan raða Vantrúar eru margir mjög vel menntaðir menn á öllum aldri og hinir sem eftir eru styðjast við sömu rökhugsun og menntuðum mönnum er æskilegt að hafa.

Ekki má gleyma að frá því ég gekk til liðs við þetta félag þá skánaði ég mjög í að færa rök fyrir máli mínu og varð mun umburðalyndari og varkárari í orðavali í rökræðum. Ekki get ég séð að þetta séu slæmir hlutir að læra. Annað sem mér finnst frábært er hvað meðlimir á innra spjalli Vantrúar eru duglegir að benda hver öðrum á þegar einhver hefur farið yfir strikið eða er að íhuga það.

Einnig er fínt að benda á að Vantrú er ekki að standa í þessu öllu til þess að rakka niður annað fólk, heldur erum við sannleikselskandi, þessi rökhyggja og óvægna gagnrýni kemur til vegna þess.

Með þessari grein langaði mig að deila minni upplifun af félaginu Vantrú og vona ég að með þessu sé eitt lítið skref stigið í því að leiðrétta leiðinlegar rangfærslur og sögusagnir um annars frábært félag.

Ketill Jóelsson 07.04.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja , Vantrú )

Viðbrögð


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 08/04/10 04:23 #

Hvernig er annars veðrið?


Carlos - 08/04/10 08:58 #

Þessi upplifun af Vantrú minnir mig dálítið á minningu mína af kirkjunni minni, þegar ég tók að sækja hana.

Einnig er fínt að benda á að Vantrú er ekki að standa í þessu öllu til þess að rakka niður annað fólk, heldur erum við sannleikselskandi, þessi rökhyggja og óvægna gagnrýni kemur til vegna þess.

Svona leið mér líka, þegar ég og félagar mínir ræddum trú okkar og sögðum öðrum frá henni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/04/10 09:11 #

Svo fóruð þið og sögðuð fólki að Jesús hefði dáið á krossinum og lifnað við tveim dögum síðar! :-) #


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/04/10 09:30 #

Gömul saga og ný.

Ungur var eg forðum, fór eg einn saman: þá varð eg villur vega. Auðigur þóttumst er eg annan fann: Maður er manns gaman.

Líkt og Matti á ég bágt með að tengja trúnað á goðsögur við rökhyggju og óvægna gagnrýni.


Carlos - 08/04/10 09:47 #

Ekki ruglast á formi/tilfinningu og innihaldi, drengir. Ég tjáði mig um form og tilfinningu.


Ásta Elínardóttir - 08/04/10 10:44 #

Svona strákar ekki taka Carlos illa ég fattaði í það minnsta alveg hvaða samanburð sem hann var að gera.

Mér fannst þessi grein annars allsvakalega krúttaraleg og get ég alveg sagt að ég fæ þessa sömu tilfinningu út úr leikfélaginu er ég er meðlimur í. Þó það sé nú ekki mesti rökhyggjufélagsskapur í heimi. Þetta er tilfinningin að eiga heima einhverstaðar með fólki sem hefur sömu og/eða svipaða heimsmynd og maður sjálfur.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 08/04/10 12:02 #

Þetta er tilfinningin að eiga heima einhverstaðar með fólki sem hefur sömu og/eða svipaða heimsmynd og maður sjálfur.

Já, það er einmitt það. Eins og Reynir sagði, maður er manns gaman.


skækill - 09/04/10 11:54 #

Og hvernig getur maður gengið í félagið ykkar eða hitt einstaklinga úr félaginu til þess að ræða um allt á milli himins og jarðar. Mér finnst skemtilegra að hitta fólk og tala við það en rökræða á spjallvefum.


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 11/04/10 17:37 #

@skækill

Getur sótt um með því að senda okkur email.

Og þó svo það sé ekki á vegum vantrúar þá eru svipaðar umræður í gangi á "Efast á Kránni" það er opið öllum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.