Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Samtal við suðurríkjamann

Trúleysingjar lenda oft í merkilegum samræðum. Ég lenti nýlega í áhugaverðum samræðum á facebook þar sem heittrúaður suðurríkjamaður frá Bandaríkjunum setti fram athugasemdir við skoðanir mínar.

Eftirfarandi samtal er heimfæring og þýðing á því samtali. Við komum inní samtalið þar sem ég gorta mig af því í gríni að vera alveg rosalega skilvirkur trúleysingi.

Hjörtur: ....við trúleysingjarnir erum bara svo askoti pródöktívir að það þarf voðalega lítið að bíða eftir okkur. Annað má nú segja um Jesús gamla, fólk er búið að vera að bíða eftir honum í 2000 ár.

Suðurríkjamaður: Jájá, það getur nú svosem verið, en þolinmæði er dyggð.

Hjörtur: Stundum er hún það, það er satt. Annað en t.d. trú, sem er oftar en ekki er stimpluð sem dyggð en er það aldrei.

Suðurríkjamaður: Nú, jæja já. Mér finnst nú borðleggjandi að þú lifir lífi þínu í jafnmikilli trú á að guð sé ekki til og flestir trúaðir menn lifa í að guð sé til.

Hjörtur: Nú, ef það er satt þá hlýtur það að fylgja að þú lifir í jafnmikilli trú á að jólasveinninn, tannálfurinn og einhyrningar séu ekki til og þú lifir í þeirri trú að guð sé til. Ég hlýt þá líka að lifa í jafnmikilli trú á að álfar, huldufólk og Poseidon séu ekki til og ég lifi í þeirri trú að guð sé ekki til.

Þetta þýðir jafnframt að orðið "trú" fylgir þá hvaða afstöðu sem, hvort sem sú afstaða er samþykki eða neitun á hvaða hugmynd sem er, hvort sem sú hugmynd er að öllu leyti yfirnáttúruleg eða sé af þeirri gerð að hægt sé að komast að sannleikanum með vísindalegri könnun. Það er því búið að draga úr (nú eða stækka) orðinu "trú" þannig að það á við um allt mögulegt og um leið og eitthvað orð á við um allt þá þýðir það ekki neitt.

Það er engin trú falin í neitun minni á tilvist einhyrninga – Ég trúi ekki á tilvist þeirra einfaldlega vegna þess að það eru ekki til nein góð sönnunargögn sem benda þess til að þeir séu til.

Það er engin trú falin í neitun minni á tilvist jólasveinsins – Ég trúi ekki á tilvist hans einfaldlega vegna þess að það eru ekki til nein góð sönnunargögn sem benda til þess að hann sé til.

Þú getur sett hvaða hulduheimaveru inní þessa setningu í stað einhyrninga og jólasveinsins og rökin halda. Við skulum því prófa þetta einu sinni enn:

Það er engin trú falin í neitun minni á tilvist guðs – Ég trúi ekki á tilvist guðs einfaldlega vegna þess að það eru ekki til nein góð sönnunargögn sem benda til þess að guð séu til.

Það að ég trúi ekki á guð er því á engan hátt tengt trú, mitt trúleysi er niðurstaða mín eftir að hafa hugsað málið, skoðað gögnin í málinu og metið þau hlutlaust.

Suðurríkjamaður: Já, sæll! Það er nú bara þannig að sum okkar eru ekki svo hrokafull að halda að það sé ekkert til umfram það sem við getum skoðað með þinni ’’vísindalegu aðferð’’

Hjörtur: Ja hérna hér, þú verður nú að hlusta á það sem ég segi ef þú ætlar að fara að segja mér hvernig ég lít á hlutina. Ég sagði aldrei að ég héldi að það væri ekkert til umfram það sem vísindalega aðferðin getur numið. Ef það er það sem þú last úr orðum mínum þá verðuru bara að fara að lesa betur, nú eða fá þér gleraugu.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að ég sé ekki tilgangin í að giska útí loftið á hvort það sé eitthvað til í hinum ’’óskoðanlega’’ hluta alheimsins. Samkvæmt skilgreiningu getum við ekki vitað hvað þar finnst. Að giska á tilvist Pegasus er tilgangslaust fyrir mér en á meðan engin góð sönnunargögn finnast sem styðja tilvist hans þá mun ég taka þá afstöðu að trúa ekki blint á það að hann sé til, fljúgandi fallegur og hvítur um háloftin þar sem enginn sér hann. Það sama má segja um einhyrninga, jólasveininn, Poseidon og tannálfinn... jú og guð!

En ég er ekki svo hrokafullur að segja að ég haldi að það sé ekkert til umfram það sem við getum skoðað. Ég sagði það aldrei því ég lít svo á að það væri afar heimskuleg og vanhugsuð yfirlýsing, sér í lagi í ljósi þess að að til eru mýmörg náttúruleg fyrirbæri sem við getum ekki skoðað. Þannig að þú ert að leggja mér orð í minn sem ég aldrei lét af vörum falla, orð sem mér dytti aldrei í hug að segja, í einhverri veikri tilraun til að þykjast vita hvaða augum ég sé heiminn. Segðu mér, mætti ekki segja að það sért því þú sem er hrokafullur hérna?

Suðurríkjamaður: Að ætla að bera saman trú okkar kristinna manna saman við jólasveininn og tannálfinn er rosaleg fáfræði og það eina sem þú ert að reyna að gera er að rakka okkur niður og gengisfella okkur og trú okkar. Trú okkar er mun dýpri en trú einhverja á jólasveina og álfa. Ég bjóst nú við meiru af þér!

Hjörtur: Nei, það er bara engin fáfræði í þessu, þvert á móti. Þau haldbæru rök og gögn sem styðja tilvist allra þeirra yfirnáttúrulegu fyrirbæra sem ég hef nefnt eru sama merki brennd - þau eru ekki til!

Og auðvitað er trú þín dýpri en trú á jólasveina og tannálfa, ég skil það mætavel. Fyrir þér er þetta mikið tilfinningamál. Þú ert búinn að tileinka guði þínum alla ævi þína innan veggja þessa hugmyndakerfis, þú hefur beðið til guðs, reitt þig á hann og umkringt þig fólki sem hefur sömu sýn á heiminn. Ég er algjörlega meðvitaður um að þú hefur hamingjusamlega lifað kristnu lífi alla þína ævi og fyrir þér er þetta ekki bara ’’trú’’ á eitthvað yfirnáttúrulegt, þetta er lífstíll fyrir þér; EINI lífstíllinn! Ég skil það. Í alvöru!

Hins vegar eru gögnin sem styðja tilvist guðs og Jesú engu meiri eða betri en gögnin sem styðja tilvist jólasveinsins og tannálfsins. Ég nota gögn og rökfestu sem áttavita í mínu lífi, ekki trú, sama hversu hjartfólgin og tilfinningarík sú trú er því fólki sem tilheyrir þeirri tilteknu trú.

Ég var einungis að bera saman trú þína á guð saman við jólasveininn, tannálfinn og Poseidon á grundvelli fyrirliggjandi sönnunargagna. Og kannski ætti ég svo að bæta því við að Poseidon er guð í öðrum trúarbrögðum; setur það hann ekki á sama stall og þinn guð í þínum trúarbrögðum? Ég var vonandi ekki að ’’gengisfella’’ trú þína með því að nefna hann á nafn. Þetta djúpa og tilfinningaheita stig, sem trú þín á guð er á, samanborið við dýpt og tilfinningahita trúar á tannálfinn og jólasveinsins hefur nákvæmlega engin áhrif á hugsanir mínar í þessu máli. Ég hef bara engan áhuga á tilfinningum fólks þegar ég met sannleiksgildi hugmyndakerfa. Þegar ég met sannleiksgildi tiltekinnar yfirlýsingar þá skoða ég sönnunargögnin á hlutlausan hátt. Tilfinningadýpt trúar fólks varðandi þau hugmyndakerfi sem ég skoða er ekki hluti af skoðuninni, hefur ekkert með málið að gera og ég hef því hreinlega engan áhuga á því.

Á þessum tímapunkti ákvað viðmælandi minn að slíta samræðunum. Mögulega hef ég móðgað hann á einhvern hátt eða kannski hefur hann ekki áhuga á að tala við menn sem leggja meira uppúr sönnunargögnum og rökum heldur en tilfinningahjali þess sem trúir.

Nú eða kannski varð hann rökþrota - hver veit?

Hjörtur Brynjarsson 26.04.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Einar Einars (meðlimur í Vantrú) - 26/04/10 10:35 #

Mjög góð rök sem þú setur þarna fram Hjörtur.

Kv. Einar


Eva Hauksdóttir - 26/04/10 11:19 #

Þetta er ekki samtal, heldur langir mónólógar með stuttum, frekar heimskulegum innskotum viðmælandans og frekar ótrúverðugt að suðurríkjamaðurinn myndi sætta sig við að láta efahyggjumanninn kaffæra sig svona. Samtöl þar sem annar viðmælandinn er rökheldur en kemst auk þess varla að, eru ekki rökræður, heldur hundleiðinlegt þras.


BjornG - 26/04/10 15:53 #

Góð rök, trúarbrögð eru oftast ''appeal to emotion rather than logic'' einn ameríkani sem ég var með á facebook flame'aði mig fyrir að gera lítið úr trúinni sinni, ég skrifaði á facebook að ég væri nú opinberlega viðurkenndur trúleysingi og hver þyrfti ýmyndaðan uppvakning sem ''big daddy''


Innkaup - 26/04/10 20:08 #

[ athugasemd færð á spjall ]


jakob - 27/04/10 15:06 #

Þetta er nú meiri sjálfsfróunin hjá þér.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/04/10 19:57 #

Hvað segiru? Sjálfsfróun?

Hjá mér þá eða um hvað ertu eiginlega að tala?


Anna - 28/04/10 11:24 #

http://www.youtube.com/watch?v=T69TOuqaqXI - þetta er frekar gott myndband um að hafa opin hug eða open mindedness. - mæli eindregið með þessu fyrir alla :)

Mér skilst að þeir sem þurfa mest á því að halda að horfa á þetta séu einmitt þeir sem slökkva áður en myndbandið er búið eða einu sinni hálfnað og finnst þetta algjört rugl. En þarna eru mjög góð rök fyrir því afhverju maður á ekki að trúa blint.

Verði ykkur að góðu :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.