Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Reiður ungur maður

Fyrir rúmum tuttugu árum (12. júlí 1989) birtist eftirfarandi grein eftir mig í DV vegna heimsóknar páfa til Íslands. Það var undarleg tilfinning að rekast á hana aftur um daginn og skyggnast aðeins inn í hugsunarhátt sinn þá. En í stað þess að hrista hausinn yfir rausinu í þessum "reiða unga manni" var ég bara nokkuð stoltur af því að hafa komið þessu frá mér í því umhverfi sem ríkti á níunda áratug síðustu aldar.

Eins og fram kemur í greininni heyrði það til algjörrar undantekningar ef trúleysingi tjáði sig opinberlega og sérstaklega um afstöðu sína til trúarbragða. Við lesturinn áttaði ég mig á að afstaða mín hefur ekkert breyst, rökin eru m.a.s. enn nokkurn veginn þau sömu. En það sem hefur breyst er umhverfið, tíðarandinn. Ég hugsa að netið eigi hvað stærstan þátt í því.

Í gamla daga þekkti ég enga jábræður í trúmálum. Það var ekki fyrr en ég gekk til liðs við Ásatrúarmenn sem ég kynntist mönnum sem voru gagnrýnir á ríkiskirkjuna og kristni líkt og ég. Vegna þessarar greinar og annarra hafði Hope Knútsson samband við mig þegar kom að því að stofna Siðmennt ári síðar, og þar kynntist ég siðrænum húmanistum. Eiginlega skoðanabræður fann ég hins vegar ekki fyrr en ég gekk til liðs við Vantrú og samgleðst innilega ungu fólki sem hefur aðgang að henni. En hér er greinin gamla:

Hverju skal trúa.

Þá er páfinn kominn og farinn en eftir situr íslensk þjóð með ríkisrekna kirkju, presta og preláta sem halda áfram að boða orð Biblíunnar. Á tímum upplýsingar, menntunar og velmegunar hafa áhrif kirkjunnar á daglegt líf dvínað til muna. Þeir eru varla orðnir annað en skrautbrúður sem segja nokkur vel valin orð á hátíðarstundum. Í raun má segja að Íslendingar séu orðnir afhuga kirkjunni því kirkjusókn er dræm og aðeins örfáir líta á Biblíuna sem heilagan sannleika.

Þeir eru þó of fáir sem hafa stigið skrefið til fulls og sagt sig úr þjóðkirkjunni eða viðurkennt að þeir séu trúlausir. Líklega vilja það fæstir því það er svo hentugt að eiga guð í rassvasanum ef í nauðirnar rekur og svo er hann svo ljómandi huggulegur á tyllidögum. Hvort þessi guð er Guð Biblíunnar eða ekki er aukaatriði í hugum fólks. Auk þess er afstaða trúleysingjans ekki betur skilin en svo að hann er annaðhvort álitinn eitthvað skrítinn eða hreinlega vondur maður og siðlaus.

Alvarleg hugsun sjaldgæf

Alvarleg hugsun um eilífðarmálin er nefnilega sjaldgæf hér á landi og í því felast bæði kostir og gallar. Kostirnir eru þeir að kirkja og trúarofstæki á erfitt uppdráttar en gallinn er sá að án ígrundunar getum við ekki losað okkur endanlega við þessa óþörfu og skaðlegu hugmynd um æðri veru. Það má segja fólki til afsökunar að forsendur til alvarlegrar íhugunar um trúmál eru ekki fyrir hendi á Íslandi því allur málflutningur um trúmál er einhliða, hér heyrist aðeins málstaður kirkjunnar sem í margar aldir var einráður kúgari.

Að ráðast gegn slíkri stofnun er ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og því láta flestir kyrrt liggja. En í eilífðarmálunum gildir ekkert hálfkák, hvorki hjá einstaklingum né þjóð. Annaðhvort er alvara á bak við trúarjátningu eða ekki.

Þegar páfi var á Þingvöllum þuldu kirkjunnar menn upp nýjustu útgáfu af Níkeujátningunni. En það verður að teljast líklegt að ekki hafi allir hlustendur getað sagt með hreinni samvisku að þeir trúi þeim ósköpum sem í henni felast. En kannski var enginn að hugsa um innihald textans sem fluttur var. Athöfnin á Þingvöllum og öll heimsókn páfa var jú fyrst og fremst umbúðirnar, bæði í fjölmiðlum og hugum fólks.

Ég þykist vita að til eru þeir menn sem trúi að til hafi verið maður að nafni Jesú fyrir 2000 árum, þó líklegra sé að svo hafi ekki verið. Og að sumir trúi því jafnvæl að hann hafi verið getinn af anda en ekki orðið til líkt og náttúran býður. Af blindri trúgirni halda þeir hörðustu að píndur og grafinn hafi þessi sami maður þremur dögum síðar stigið upp til himna. En ég á bágt með að halda að slíkt sé algengt hér á landi, a.m.k. meðal yngra fólksins. Menn líta á Jesú fyrst og fremst sem ágætis náunga, sem boðaði viðkunnanlega siðfræði, en ekki guðlega veru.

En ég skal hundur heita ef þeir eru margir sem fallast á það ótrúlegasta og ógeðfelldasta í þessari játningu sem kirkjunnar menn smíðuðu, að menn bókstaflega trúi á heilaga almenna kirkju! Hafi menn nokkra nasasjón af gjörðum kirkjunnar gegnum aldirnar og snefil af sjálfsvirðingu geta menn ekki játað trú á þá stofnun.

Til að menn geti endurmetið hvað felst í Níkeujátningunni er rétt að lesa hana. Að vísu er þetta leiðinleg lesning nema menn gæti að því að frekar líkist hún galdraþulu frumstæðra manna en heimsmynd upplýstra nútímamanna. Skoði menn játninguna í því ljósi er nefnilega dálítið skoplegt að sjá fyrir sér fyrirmenn þjóðarinnar sitja undir þessari bábilju skrúðklæddra farísea.

Hingað og ekki lengra

Það er tími til kominn að menn rísi upp og segi hingað og ekki lengra. Við eigum ekki að láta draga okkur á asnaeyrunum öllu lengur. Kirkjan hefur aldrei þurft að standa fyrir máli sínu hér á landi, katólskunni var þröngvað upp á okkur af Noregskonungi og lúterskunni af Danakonungi. Nú þegar við erum loksins orðin sjálfstæð þjóð ber þjóðkirkjunni að sýna fram á tilverurétt sinn. Er guð til? Og hversu áreiðanleg er Biblían?

Það fer illa á því að hlaða fjármunum undir eina kirkju og trú en boða jafnframt trúfrelsi í landinu. Það er tvískinnungur af versta tagi og er illt afspurnar.

Í fyrsta lagi þarf að meta hvort nokkur trúarbrögð eigi rétt á almannafé. Er ástæða til þess að ríkisstjórnir þessa heims séu að skipta sér af því hvaða væntingar þegnar þeirra hafi um næsta heim eða íhlutun æðri máttarvalda í þessum? Getur ríkisstjórn gert upp á milli trúarbragða svo vit sé í? Á hvaða vogarskál ber að láta trúarbrögðin svo við fáum séð hver þeirra eru heppilegust eða hvort þau eru óþörf með öllu?

Í öðru lagi þurfum við að meta kristnina. Íslendingar hafa verið kristnir, að nafninu til, í 990 ár. Líf hvers manns er svo mengað af áhrifum kristninnar að hann á erfitt með að meta hana á raunsæjan hátt. Sem börn erum við skírð og fermd, við sjáum presta gefa saman hjón og jarða þá látnu og allar helstu hátíðir barnshugans eru tengdar þessari trú. Hvert sem litið er má sjá kirkjur gnæfa við himin. Auk þess virðist æðsta stjórn landsins ekki treysta sér til að hefja þingstörf fyrr en hún hefur setið undir áminningu prestastéttarinnar sem hún eltir síðan úr dómkirkjunni í þinghúsið.

Börn reka upp stór augu

Það er undantekning ef trúleysingi kveður sér hljóðs og gagnrýnir trú og kirkju. Svo hljótt er um þessa menn að börn reka upp stór augu ef þau heyra að slíkir menn séu til. Ef menn heyra sýknt og heilagt aðeins aðra hlið málsins er ekki von á að margir leiti að hinni hliðinni. Í slíkri stöðu er ofur eðlilegt að 92% þjóðarinnar séu enn í þjóðkirkjunni.

Þessu má líkja við trú fólks á stjörnuspeki, miðla, fljúgandi furðuhluti, skrímsl, andalækningar og þess háttar. Enda voru það kirkjunnar menn sem komu inn í landið trú á alls konar hindurvitni í dýrlingasögum sínum. Hafi fólk ekki aðgang að óbrjáluðum skrifum er sýna fram á blekkinguna sem meðmælendur þessarar vitleysu fá stöðugt að halda fram er ekki nema von að fáir verði til að sjá í gegnum hana. Fari menn í bókabúð eru hillurnar fullar af bókum sem segja frá hinum villtustu fjarstæðum líkt og þar væri heilagur sannleiki á ferðinni en þrátt fyrir dauðaleit finnst ekki ein einasta bók sem bendir á blekkinguna að baki. Slíkar bækur eru þó til en einhverra hluta vegna virðast þær ekki hljóta náð fyrir augum bókakaupmanna. Eins er um trúmálin. Hvert sem litið er eru bækur og sjónvarpsþættir sem lofa og hylla kristna trú en hinn málstaðurinn er furðulega fyrirferðarlítill.

En þrátt fyrir þetta verðum við að krefjast þess af okkur sjálfum og ríkisvaldinu að metið sé nú upp á nýtt hvort það beri að halda kristni sem ríkistrú (eða öllu heldur þjóðtrú). Er ekki kominn tími til að rífa af sér ok vanans og helgislepjunnar og líta gagnrýnum augum á trúna og hennar fylgifiska?

Ég enda þetta erindi mitt á vísu Þorsteins Erlingssonar sem lýsir mætavel minni reynslu af hindurvitnum samtímans:

Ég veit þó sitt besta hver vinur minn gaf og viljandi blekkti mig enginn; en til þess að skafa það allt saman af er ævin að helmingi gengin.

Reynir Harðarson 19.04.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Svavar Kjarrval - 19/04/10 12:29 #

Nokkuð góð grein.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.