Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vitsmunalegur óheiðarleiki

Hreiðarvatn

Hvernig er heiðarlegast að skoða veröldina? Að mínu viti þarf sá sem ætlar að vera algerlega heiðarlegur að byrja á núllpunkti, varpa burt öllum kreddum og sjálfgefnum viðhorfum. Þegar núllpunkturinn er fenginn er rétt að spyrja: Hvað vitum við raunverulega um heiminn? Hver er raunveruleg vitneskja mannkynsins um öll þau fyrirbæri sem áður hafa verið hjúpuð goðsögnum og geðþóttaniðurstöðum?

Vísindaleg aðferð hefur ein reynst gera eitthvert gagn hér. Við vitum til dæmis heilmikið um stjörnurnar á himnum, hvaða fyrirbæri þetta eru. Þetta eru ekki birtingarmyndir guða og þær snúast ekki kringum það sem við upplifum sem flatan pall til að ganga á. Við þekkjum hvernig stjörnur hópast í vetrarbrautir sem þeysa á miklum hraða í burt hver frá annarri, hver og ein með mikið svarthol i miðju sem heldur sólstjörnunum á braut um sig.

Við vitum margt um lífríkið, hvernig lífverur flokkast í ættbálka sem eiga sér sameiginlega forvera langt aftur í fortíð. Við vitum að á undan hinum upprétta manni fóru forverar á fjórum fótum og þeir áttu sér undanfara sem eiga sér afkomendur í öðrum dýrategundum en spendýrum. Við erum öll skyld.

Þetta er engin hugdetta, heldur bjargföst vitneskja byggð á alls kyns rannsóknum sem allar styðja hver aðra og benda á sömu niðurstöðu. Steingervingar jafnt sem DNA-rannsóknir staðfesta það sem í upphafi var rökstuddur grunur. Sönnunargögnin eru komin.

Þegar svona haldbær niðurstaða er komin í mál á borð við veröldina og lífið er ekki hægt að tala um trú í því samhengi. Trú er eitthvað allt annað en það að taka trúanlegar vel sannaðar kenningar og rökstuddar niðurstöður. Trú felst í því að ákveða að eitthvað sé rétt án þess að fyrir liggi nokkur gögn fengin með heiðarlegum hætti, eða jafnvel þrátt fyrir að þau séu fyrir hendi en benda í aðra átt. Trú er einfaldlega annað orð yfir vitsmunalegan óheiðarleika.

Það hefur lengi verið vinsælt meðal trúmanna að afgreiða trúleysi sem trú. Röksemdir sem heyrast eru jafnvel á þá lund að skynfæri okkar séu einfaldlega með þeim hætti að veröldina fyrir utan hauskúpuna sé ekki hægt að sannreyna öðru vísi en með túlkun taugaboða. Þessi túlkun sé ekkert annað en trú.

Þetta er að sjálfsögðu barnaleg rökleysa, því þótt heili okkar þurfi að sönnu að túlka áreiti og mynda sér heimssýn á þeim gögnum þá höfum við þó þessa traustu aðferð til að meta hvort rannsókn okkar á heiminum sé áreiðanleg. Upplifun eins eða tveggja getur ekki staðið sem undirstaða nokkurs sannleiks, en vandlega endurteknar tilraunir undir ströngum skilyrðum geta það.

Í raun er hugarheimur trúmannsins sem segir trúleysi vera trú næstum heillandi í fávíslegri heimsskoðun sinni. Það er eins og það skorti allan skilning á áreiðanleika upplýsinga og að til sé tæki til að meta hann. Hann treystir eigin upplifun og heimtar svo að öll vísindaleg niðurstaða sé á sama plani.

Í hugarheimi trúmannsins er allt með endanlegri skikkan skaparans. Heimsmyndin hefur endanlega niðurstöðu og henni hefur verið lokað. Vitsmunalegi óheiðarleikinn felst ekki síst í geta illa eða ekki tekið nýjar upplýsingar og látið þær leysa af hólmi hinar gömlu kreddur.

Heimsmynd trúleysingjans, þess sem fór á núllpunktinn og spurði hvað raunverulega sé vitað, hún er breytingum undirorpin í takt við nýjar upplýsingar. Og margt þykist hinn trúlausi hreinlega ekki vita, einmitt sökum þess að enginn veit neitt um það. í þessu mengi hins óþekkta eru t.d. orsakir og upphaf heimsins og sú spurning hvernig lífið myndaðist.

En þegar viðeigandi fræðigreinar hafa komist að haldbærri niðurstöðu í þessum efnum tekur hinn vitsmunalega heiðarlegi maður upplýsingarnar glaður inn í heimsmynd sína. Heimsmyndin er opin.

"Ég veit það ekki" er í ótalmörgum tilfellum eina heiðarlega svarið. Að gefa sér svarið eins og það birtist í gömlum ritum bronsaldarmanna og hanga svo á því eins og hundur á roði er aftur á móti hástig vitsmunalegs óheiðarleika.

Reyndar má telja "hófsemdarmönnum" til tekna að þeir eru síður fastir í þeirri heimsmynd sem Biblían dregur upp. Þeir sjá sannleiksgildi þróunar og annarra vísinda. En þar sem vísindin þrýtur brestur þó á með vitsmunalegum óheiðarleika í þeirra ranni. þeir troða guði í götin þegar við hin segjum "ég veit það ekki."

Bókstafstrú "hófsemdarmanna" felst fyrst og fremst í því að geta ekki lagt guðshugmyndina til hliðar og farið á núllpunktinn sem minnst var á hér að ofan. Guð í götunum er kredda sem "hófsemdarmenn" geta ekki sleppt af hendinni frekar en bókstafstrúarmennirnir gera í öllu því sem hinir hóflegu hafa ýtt út af borðinu. Þótt vitsmunalegur heiðarleiki þeirra sé meiri en hinna bókstafstrúuðu nær hann þó ekki alla leið. Því um leið og hann gerði það yrði þetta fólk trúlaust um leið.

Birgir Baldursson 22.04.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 22/04/10 12:02 #

Mjög fín grein, ein spurning, ég ætlaði að vísa í hana á Facebook en "post to profile" glugginn birtist en "hangir", hef lent í þessu áður. Auðvitað einfalt að gera þetta handvirkt en er með einhverja áráttu að svona hlutir eigi að virka..


BjornG - 22/04/10 12:21 #

Biblían er fyrir mér bók þarsem frumstætt fólk vissi ekki hvernig heimurinn virkaði svo það reyndi að giska sér til, það er hægt að sanna það með því að lesa hana, t.d

deuteronomy 14 passage 11 to 20 þar stendur að leðurblökur eru skítugir fuglar sem má ekki éta,

Isaiah 11:11-12 segir að jörðin sé flöt, og ferhyrnd, augljóslega þegar fólk vildi ekki segja ''ég veit það ekki'' sagði það frekar ''guð gerði það'' hvað er að því að segja hreint út ég veit það ekki, förum og leitum að svörum ef við getum,

ég sé marga sem trúa þessu sem ''vitsmunalega lata'' eftir allt, fáir raunverulegir kristinar trúar hafa raunverulega lesið biblíuna.


Einar Einars (meðlimur í Vantrú) - 22/04/10 12:51 #

Virkilega góð grein.

Kv.


Óttar G. B. - 22/04/10 17:34 #

Þessi hugvekja minnir mig svolítið á boðskapinn í þessari bók sem var skrifuð til barna. http://www.youtube.com/watch?v=CUhyd9vG2cE


Bárður - 22/04/10 21:55 #

Mjög flott grein.


Kristján - 23/04/10 23:33 #

Þú mátt ekki heldur gleyma því að taka það fram að heimsmynd vísindanna er aldeilis ekki laus við mótsagnir.

Ekki er ég að gera lítið úr visindunum síður en svo enda mjög hlynntur þeim en þau er engan veginn hnökralaus.

T.d. er ein af aðalforsendum afstæðiskenningarinnar röng. þ.e. að ekkert fari hraðar en ljósið.

Svo hefur skammtafræðin sýnt okkur hluti sem eru ósamrýmanlegir reynslu okkar. Einfaldasta dæmið er það hvernig rafeind hoppar á milli hvela í atóminu án þess að vera nokkurn tíma á milli þeirra. Hvernig útskýrir "vitsmunalega heiðarlegur" maður það?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/04/10 02:24 #

Tja... ég veit það ekki.


Haddi - 25/04/10 12:22 #

Til höfundar: Hvað fær þig til þess að halda að þú getir hafið þig yfir samhengi þitt, yfir "kreddur" og fyrirframgefnar skoðanir? Hvenær veistu hvenær þú ert kominn á "núllpunkt" - er vísindaleg aðferð ekki hluti af þessum kreddum t.d.? Svo lengi sem þessi grundvallarforsenda er ekki skýrð frekar hallast ég að því að "núllpunkturinn," skv. greininni, forsenda hins vitsmunalega heiðarleika, sé einfaldlega vitsmunaleg útópía.


Kári - 25/04/10 15:58 #

virkilega flott grein Birgir. Þetta er eitthvað sem ég hef lengi hugsað um en þú kemur því afar vel frá þér.

(smávægileg leiðrétting: risasvarthol eru ekki forsenda þess að stjörnur hringsóli umhverfis vetrarbrautir. Þær myndu einnig gera það án svartholsins.)

Kristján:

Þú vísar í mótsagnir afstæðiskenningarinnar og skammtafræðinnar varðandi ljóshraðann.
Myndi vitmunalega heiðarlegur maður ekki einfaldlega segja: "við höfum ekki kenningu sem nær yfir bæði Af. og Sk., þess vegna veit ég ekki hvort er rétt" ?
Síðara dæmið með rafeindahvelin hefur engar mótsagnir. Jöfnurnar eru til staðar fyrir þann sem vill reikna og hafa aldrei klikkað til þessa. Það er hins vegar erfitt að útskýra það útfrá almennri skynsemi.


Kristján - 25/04/10 21:27 #

Það mætti alveg segja það en líka alveg eins: Við getum ekki útskýrt af hverju heimurinn er eins og hann er nema að litlu leiti.

Já menn hafa fundið jöfnur sem geta líst hreyfingu rafeinda. En slíkar lausnir eru raun bara fengnar með því að viðurkenna það sem staðreynd að rafeind og aðrar agnir fyrirfinnast ekki á ákveðnum stað heldur séu eftir ákveðun líkum á tilteknu svæði. Ekki útskýrt af hverju í raun. Eða þannig hef ég skilið málið.


Ottó - 26/04/10 14:13 #

Mig langar að benda á að skammtafræði bengur ekki í berhögg við afstæðiskenningu, a.m.k. ekki að því leyti sem þú vilt láta í veðri vaka, Kristján. Afstæðiskenningin kveður á um að ekkert sem geti borið upplýsingar, þ.e. fyrirbæri með orku/skriðþunga, komist ekki hraðar en ljósið. Hún setur fyrirbærum sem engar upplýsingar geta borið engin mörk.

En vissulega eru til hlutir eins og fjarlægar vetrarbrautir sem fjarlægast okkur með meiri hraða en ljósið. Afstæðiskenningin bannar það ekki því þær ferðast ekki gegnum rúmið, heldur stafar fráhvarfshraðinn af útþenslu rúmsins sjálfs. Við getum með engu móti notað þetta fyrirbrigði til að flytja upplýsingar (orku) milli tveggja staða í tímarúminu. Að sama skapi held ég að því sé eins farið með skammtastökkin.

Hvað varðar þann veruleika sem skammtafræðin lýsir, þá verður að hafa í huga að mælingar í skammtafræði (sem eru sú leið sem við höfum til að öðlast skynreynslu af eiginleikum smásærra agna/fyrirbæra) eru af allt öðrum toga en mælingar í segjum klassískri aflfræði. Við getum ekki litið á það sem svo að mælingin skili einungis niðurstöðu um viðfang mælingarinnar heldur um víxlverkun mælitækisins við viðfang sitt. Það er tvennt ólíkt.

Þegar við mælum t.d. eiginleika rafeindar köllum við fram „klassíska“ eiginleika hennar, eins og skýrt ákvarðaða staðsetningu eða skriðþunga. Við getum þannig voða lítið fullyrt um „eiginlegan veruleika“ rafeindar því á smásæjum kvarða virðast þessir eiginleikar, staðsetning og skriðþungi ekki hafa skýra merkingu, eins og þau hafa á stærri kvarða.

Á endanum hlýtur „vitsmunalega heiðarlegur“ maður að viðurkenna vanþekkingu sína á heiminum, enda þótt kenningar eins og afstæðiskenning og skammtafræði séu öflug tæki við að koma skikki á náttúruna lýsa þau ekki öllu því sem við æskjum. Þá er ekki þar með sagt að flýja beri til annarskonar (jafnvel annarlegra) skýringa á náttúrunni.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 27/04/10 10:52 #

Gott komment, Ottó. Ég er alveg sammála.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.