Nýtt
Vísindi og trú
Siðferði og trú
Stjórnmál og trú
Rökin gegn guði
Kristindómurinn
Heilagur hryllingur
Nýöld
Kjaftæðisvaktin
Fleyg orð
Ófleyg orð
Hugvekjur
Skeptíkus
Efahyggjuorðabókin
Guðlast
Rökvillur
Vísanir
Lesendabréf
Vefbókasafn
FAQ
Aftur á Vefbókasafn

Robert Green Ingersoll

Pjetur G. Guðmundsson

 

Robert Green Ingersoll

er fæddur í bænum Dresden í New York-ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku, 11. ág. 1833. Faðir hans var prestur, en þótti heldur vekja sundrungu en samheldni í söfnuðinum, vegna frjálslyndis í trúarskoðunum.

Ingersoll las lögfræði og rak lengi málaflutningsstörf í fjelagi við bróður sinn. En 1866 var hann skipaður ríkislögmaður í fylkinu Illinois. Árið 1877 var honum boðin sendiherrastaða í Þýskalandi, en hann neitaði að taka því starfi.

Ingersoll varð snemma landskunnur fyrir afskifti sín af opinberum málum. Í stjórnmálum fylti hann flokk lýðveldissinna og var þingsmannsefni þeirra 1860, en náði ekki kosningu. Hann var spekingur að viti, frjálslyndur í skoðunum og frábær mælskumaður.

En það sem mesta athygli vakti á Ingersoll og gerði hann heimsfrægan, var barátta hans gegn íhaldi og þröngsýni kirkjunnar. Um þau efni ritaði hann fjölda bæklinga og blaðagreina. Hafa sum af ritum hans verið þýdd á öll mentamál heimsins.

Það gefur að skilja, að sumt í ritum Ingersolls muni vera orðið úrelt. Skoðanir manna á þeim efnum hafa mikið breyst á 50 árum. Margt af því, sem þá var tekið sem gildur og góður sannleikur alment, og Ingersoll ræðst harðast á, er nú skoðað í öðru ljósi, bæði af almenningi og kennimönnum kirkjunnar mörgum, t.d. kenningin um helvíti og eilífa hegningu. Ei að síður er margt í ritum hans, sem enn á erindi til almennings og er sígildur sannleikur. Siðbótarstarfi kirkjunnar miðar hægt áfram. Og það er ástæða til að ætla, að því miðaði ekkert, ef ekki væru þar að verki siðbótarmenn, sem standa fyrir utan og ofan kirkjuna, eins og Ingersoll. Hann var einn hinn mesti og göfugasti siðbótarmaður. Hann vildi setja skynsemi og manngöfgi í fyrirrúm fyrir bókstarfstrú og blindum venjukreddum. Hann vildi setja sælu þessa lífs, sem við þekkjum, í fyrirrúm fyrir sælu annars lífs, sem við vitum ekki hvort er annað en tilgáta. Hann vildi ekki, að mennirnir væru að verja tíma og fje í tilbeiðslu guða, sem eru ófullkomnari og ógöfugri en mennirnir sjálfir. Hann vildi ekki láta menningarþjóðir 19. aldarinnar hafa að fyrirmynd mörg þúsund ára gamlar siðareglur hálfviltra þjóða.

Þess þarf varla að geta, að ritum Ingersolls var illa tekið af mörgum kennimönnum kirkjunnar, en því meiri vinsældum hafa þau jafnan átt að fagna hjá fjölda ágætustu manna.

Ingersoll dó árið 1899.

---