Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sunnudagsbréf

I

Nú er desember genginn í garð og hin heiðna hátíð ljóss og friðar nálgast og vel flestir landsmenn hlakka til að njóta samverustunda með sínum nánustu, borða góðan mat og skiptast á gjöfum. Ég er auðvitað að tala um jólin.

Í síðasta Sunnudagsbréfi endaði ég með því að úthúða örlítið ríkiskirkjunni og gullkálfunum sem reyndu að kom ár sinni vel fyrir með því að reyna að nýta sér þetta óvissuástand sem fjármálakreppan er. En það eru fleiri dæmi þar sem þessir kónar kunna einfaldlega ekki að skammast sín.

Til dæmis skólapestin séra Jón Ómar Gunnarsson sem hvetur ungt kristið fólk að hefja trúboð þegar það fer í framhaldsskóla og háskóla. Séra Jóna Hrönn Bolladóttir og hennar óheilindi. Svo nýlega gerðist prestur sekur um siðferðis- og lögbrot við skírn sem Vantrú greindi vandlega frá. í stuttu máli þá skírði prestur barn í leyfisleysi. Faðirinn óskaði eftir fundi með biskupi ríkiskirkjunnar og hafði þetta að segja:

Ég átti fund með biskupi í gær og bjóst eðlilega við auðmjúkum og iðrandi biskupi í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar.

Mér mætti hins vegar algjört skilningsleysi og afneitun. Biskup viðurkennir ekki að siðferðisbrot hafi átt sér stað! #

Jafnvel biskup kann sig ekki.

Blaðamaður á vegum DV falaðist eftir skoðun Matthíasar Ásgeirssonar, formanni Vantrúar, á því að þula ríkisjónvarpsins var með kross um hálsinn eitt kvöldið fyrir framan landsmenn. Þar sagði Matthías meðal annars að "þetta trufli hann ekkert sérstaklega" og að honum "finnist allt í lagi að fólk velti þessum hlutum fyrir sér." Auðvitað fór grátkórinn að skæla um þessa frekju Matta að skipta sér af þessu án þess þó að lesa þessa frétt, auðvitað.

Svo má maður til með að minnast á alveg tilvalda jólagjöf:

Vantrú býður lesendum sínum að kaupa bókina Andlegt sjálfstæði sem kom út núna fyrir skemmstu. Bókin kostar einungis 2400 með sendingarkostnaði innanlands. Tekið er við pöntunum hjá rbv@raunbervitni.net. Við bendum á að bókina má einnig nálgast í Bóksölu stúdenta, Pennanum Austurstræti, Eymundsson Kringlunni, Eymundsson Smáralind, Mál og menningu Laugarvegi og Pennanum Hafnarstræti á Akureyri.

II

Skattgreiðendur greiða rétt rúmlega 150 milljónir til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þetta árið - og eflaust það næsta - eins og Sævar Helgi Bragason bendir á greininni Prestur bjargar hundi frá glötun. En heildarkostnaður nemur um 770 milljónum króna og félagið þarf sjálft að afla mismunarins ár hvert. Þetta er fólk sem er "á vakt allan daginn, tilbúið að koma fólki í vanda til hjálpar, á hvaða tíma sólarhringsins sem er" og virðist svo ekki vera metið meir en þetta. En svo höfum við stofnun með 5 milljarða í rekstrarkostnað sem þarf ekki að hafa mikið fyrir fjáröflun líkt og Landsbjörg.

Hvort það hafi verið ósannindi, fáfræði eða spuni séra Skúla S. Ólafssonar á Rás 1 sem knúði prestinn í viðtal um átroðning ríkiskirkjunnar í leik- og grunnskóla í Lárétt eða lóðrétt þann 12. október er ekki gott að segja, en líklegast er það allt þetta þrennt eins og Reynir Harðarson bendir á.

Raunar kippir maður sér ekki upp við ósannindi kirkjunnar manna lengur, þetta er venjan, ekki undantekningin í málflutningi þeirra. Og þegar við bendum á lygarnar erum við sögð "grýta fulltrúa sannleikans og gæskunnar í þessum heimi".

Í nóvember gerðist sá merki atburður að á Vantrú birtist grein eftir ríkiskirkjuprest, sem var engin annar en séra Þórhallur Heimison sem heitir Óli Gneisti og skjaldarmerki Íslands. En hún er hluti af áframhaldandi ritdeilu um uppruna hina rammheiðnu landvætta sem Þórhallur telur vera af kristnum toga. Óli Gneisti Sóleyjarson skrifaði Af landvættum og heimildaskráningu prests og það er auðséð að þrefað verður um þetta mál um ókomna tíð.

Matthías Ásgeirsson áminnti lesendur um trúfélagsskráningu, en sóknargjöld næsta árs miðast við trúfélagsskráningu 1. desember. En þó er aldrei of seint að breyta rétt, dropinn holar steininn eins og sagt er. Það er þó merkilegt hvað ríkiskirkjuprestar eru duglegir að halda því fram að 90% þjóðarinnar séu skráð í Þjóðkirkjuna, þegar sannleikurinn er sá að það er nær 80% og vonandi mun sú tala bara falla líkt og hún hefur gert undanfarin ár. Þó að dagurinn sé liðinn er alls ekki of seint að breyta rétt.

Að trúarbrögð séu ráðandi afl í samfélaginu, líkt og þekkist í mörgum múslímskum ríkjum ætti að vera víti til varnaðar eins og Brynjólfur Þorvarðarson bendir á. Þetta er algjört helsi og dragbítur í mörgum þjóðfélögum, en almennt eru mannréttindi og jafnrétti virt að vettugi þar sem trúarbrögðin ráða ríkjum, lífi og limum.

Það var heldur einkennileg hugtakanotkun hjá Arnfríði Guðmundsdóttur þegar hún talaði um opna og lokaða heimsmynd í Lárétt og lóðrétt þann 9. nóvember. Birgir Baldursson hafði þetta að segja:

Hún snýr einfaldlega öllu á hvolf, eins og svo algengt er í málflutningi guðfræðinga. Í hugmyndaheimi Arnfríðar táknar lokuð heimsmynd það eitt að aðhyllast skynsemi og hafna þar með möguleikanum á atburðum sem ganga gegn náttúrulögmálunum. Og þar með hljóti hinn trúaði að búa að opinni heimsmynd, því hann er tilbúinn til að gera ráð fyrir hinu ómögulega, kraftaverkum, himnastigningu, ofurverum og meyfæðingum.

Ómar Harðarson sendi inn grein til Vantrúar sem heitir Munurinn á réttu og röngu sem í essens fjallar um siðferði og trú, rétt og rangt, gott og illt og hvort að alvitur, alsjáandi og almáttugur andi geti lagt einhverjar línur í siðferðisefnum. Ég hvet lesendur eindregið til að senda inn greinar sem þið teljið að eigi erindi á Vantru til ritstjorn.vantruar@gmail.com enda er það kærkomið að sjá ný nöfn undir fyrirsögnum.

Hversu langt er hægt að teygja lopann þegar kemur að því að skilgreina hvað felst í því að vera kristinn? Sumir segja að nóg sé að umgangast kristni á einhvern hátt til að teljast kristinn! Þvílík firra. Kristnir eru í minnihluta segir Hjalti Rúnar Ómarsson og vísar í trúarlífskannanir frá 1986-7 og 2004 þar sem rétt undir 45% Íslendinga játa trú á Jesú Krist sem son Guðs og frelsara manna.

Reynir Harðarson lýsir yfir aðdáun sinni á Jesú í pistlinum Áfram Jesús!

Hver er það sem bendir á kalkaðar grafir nútímans og súrdeig faríseanna? Ekki eru það kirkjunnar menn. Sennilega er vantrú öflugasti arftaki Jesú, hér og nú, að því leyti. Merkilegt nokk. En kirkjan býður okkur ekki hina kinnina heldur úthrópar okkur hættulega siðleysingja.

Að ríkið skuli hygla einu trúfélagi umfram öll önnur er efniviður Sigurðar Ólafssonar þar sem hann leiðir hugann að ríkisstofnun og því óréttlæti að allir landsmenn þurfa á einn eða annan hátt borga í þetta apparat.

Sumir prestar og predikarar hafa einhverjar óskir um heimsendi og sumir af þeim fá borgað frá ríkinu fyrir að halda einhverju heimsendahjali að almenningi. Einn slíkur klikkhausinn er séra María Ágústsdóttir, en Teitur Atlason gerir ögn grein fyrir predikun sem hún flutti í nóvember.

Ég gerði smá skil á Andkristnihátíðinni þar sem ég vísaði í það fjáraustur er fór í Kristnihátíðinna árið 2000 sem lansdmönnum, þar á meðal nokkrum þungarokkurum, vægast sagt blöskraði yfir. Það sama ár kom Sigurbjörn Einarsson einnig með eitt ósmekklegasta mótsvar við gagnrýninni sem hátíðin fékk á sig og líkti gagnrýnisröddum við það "allra versta sem nasistar og kommúnistar höfðu fram að færa á sínum tíma" - ekki var það beinlínis til að afla kirkjunni einhverra vinsælda.

Kennslubækur í trúarbragðafræðslu í grunnskólum virðast vera heldur betur vafasamar og Óli Gneisti Sóleyjarsson gerir skil á einni slíkri í greininni Trúarbrögðin "okkar". Bókin heitir, nota bene, Trúarbrögðin okkar en þar kemur fram þessi litla og andstyggilega klausa:

Trúarbrögðin kenna okkur að þykja vænt um hvort annað og þau hjálpa okkur til að eignast vini. Ef allir færu eftir því sem trúarbrögðin boða gerðust færri slæmir hlutir í heiminum. Þá gætum við lifað saman eins og ein stór fjölskylda.

Að það sé verið að halda þessu að grunnskólabörnum er í raun skammarlegt og þetta tilvik, og fleiri, kallar á að gerð sé almennileg úttekt á þessu námsefni.

Fjárlög gera ráð fyrir 5,4 milljörðum í kirkjuna á fjárlagaárinu. Það er ekki öll upphæðin sem kirkjan kostar. Laun presta eru t.a.m. ekki inni í tölunni, en þau eru að meðaltali um 800.000 kr. á mánuði. Meðallaun venjulegs fólks eru vel innan við helmingur af því.

Það eru erfiðir tímar segir Vésteinn Valgarðsson, og vísar í fjármálakreppunna og sparnað innan ríkisins, þó sérstaklega ríkiskirkirkjunnar. En hann leggur til að sá ónauðsynlegi liður verði einfaldlega skorin burt og að kirkjan sjái um sig sjálf.

III

Orð Bertrand Russells um hinn smáa teketil í geimnum var fleygt fram hér, en þetta er ein af þeirri skemmtilegu hugarleikfimi sem þessi heimspekingur lagði fram til að sýna fram á fáránleika trúarbragða.

Svo vísuðum við á viðtal við Nate Phelps, son Fred Phelps stofnanda og leiðtoga Westboro Baptist Church, en öfgafyllri kristin söfnuð er varla hægt að finna á Vesturlöndum. Einnig má maður til með að vísa í bréfaskriftir Andrésar Björgvins Böðvarssonar (bakemono) sem hann hafði við þennan söfnuð þar sem hann spurði hvernig standi á þessu hatri hjá þessu liði og fékk alveg gríðarlega langt og andstyggilegt raus frá Margie Phelps, einni af talsmönnum költsins og dóttur fyrrgreinds Freds.

Svarthöfðinn sem fylgdi halaprestarófunni fyrr um árið lifir góður lífi. Það er ánægjulegt að þetta sé Diggað og að PZ Meyers finnist þetta fyndið.

Svo minni ég lesendur á Spjallið.

IV

Það er, vægt til orða tekið, með ólíkindum hvernig kristnir reyna stundum að eigna sér, tja, allt. Mannréttindi, jafnrétti, lýðræði, siðferði, samkennd, meðal annars og auðvitað flest allt sem tengist jólunum, einsog jólatréð, jólaskraut, jólagjafir. Það nægir greinilega ekki að reyna hnupla sjálfri hátíðinni. Þessi frekja er með eindæmum, kannski það sé ekki langt þar til krossmenn fari að eigna sér jólasveinana þrettán og vísa í lærisveinana tólf og svo Jesús Krist sem síðasta jólasveininn kominn til byggða að frelsa skóinn með gjöfum.

Höfum það bara á hreinu, uppruni jólana er rammheiðinn.

Hin heiðna hátíð er þá meðal annars talin hafa verið til að fagna endurkomu sólar og hjálpa henni upp erfiðasta hjallann. Fólk á þessum tímum vissi ekki mikið um himnana svo allskonar skýringar voru fundnar upp fyrir því að sólin skyldi lækka á lofti og því vildu menn vera vissir um að sjá hana aftur.

Hvernig væri nú bara að fara hætta þessari frekju? Þetta er orðið gott og flestir einfaldlega vita betur. Sumir fagna sólstöðu, að dagur byrjar að lengjast á ný. Aðrir fagna Kristsmessu og fagna fæðingu frelsarans. Svo gætu verið einhverjir sem halda uppá Brúmalíu og heiðra fæðingardag Díónýsus. Satúrnalía, Hanúkkah, Jalda og eflaust ótal fleiri vetrarhátíðir sem hægt er að telja upp er haldnar eru á þessum tíma. Trúleysingjar geta síðan auðveldlega haldið jólin án Jesú.

En öll ættum við að geta haldið jólin hátíðlega með fjölskyldu og vinum - etið, drukkið, sungið og skemmt okkur. Við getum auðveldlega deilt þessum dögum í bróðerni og kærleik án þess að reyna gera tilkall til hátíðarinnar með þeim hætti sumir hafa gert í gegnum tíðina. Það ætti ekki að vera erfitt.

Gleðilega hátíð.

Þórður Ingvarsson 14.12.2008
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


G - 14/12/08 15:56 #

Takk kærlega fyrir þessa frábæru samantekt. Ég viðurkenni fúslega að ég hafði ekki hugsað sérstaklega út í sumt af þessu sem þar kemur fram, ekki fyrr en núna síðustu mánuðina. Með því að fylgjast með á netinu, bæði skrifum Vantrúar, Teits, Matthíasar og fleiri annars vegar og svo trúarbloggin hins vegar er ekki spurning hvar ég lendi. Fann samhljóm hér við eigin skoðanir og er afar þakklát fyrir ykkur. Ég er ekki trúuð en hef hreinlega ekki nennt að segja mig úr þjóðkirkjunni, svo skítsama um þetta allt saman. Þar verður þó breyting á, nú veit ég að hver einasta manneskja sem lætur ekki bjóða sér þetta bull skiptir máli. Reiði mín hefur aukist jafnt og þétt vegna þessa siðlausa trúboðs í skólum og endalausa peningaausturs í kirkjuna, ekki bara frá ríkinu, heldur úr óvæntustu áttum. Þetta að eigna sér jólin, manngæsku, frið og slíkt er bara fyndið en pirrar mig samt af því að sumir halda að þetta sé satt. Líklega fer ég að koma fyrir alvöru úr úr skápnum sem trúleysingi og þá er aldrei að vita nema ég fari að viðra skoðanir mínar hér á Vantrú.


Ketill - 14/12/08 20:08 #

/signed


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 15/12/08 08:04 #

Vertu velkomin í Vantrú G-14. Hér er mikið fjör. :) Sendu okkur póst ( vantru@vantru.is )

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.