Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opin og lokuð heimsmynd Arnfríðar Guðmundsdóttur

Í þættinum Lárétt eða lóðrétt í gærmorgun ræddi Ævar Kjartansson við Dr. Arnfríði Guðmundsdóttur um hugmyndir hins póst-kristna femínista Daphne Hampson1. Í orðræðu sinni hefur Daphne komið inn á skynsemishyggju upplýsingarinnar og hvernig kristin trú er á skjön við heilbrigða skynsemi.

Það sem sló mig helst við að hlusta á orð Arnfríðar var notkun hennar á hugtökunum opin og lokuð heimsmynd. Þessi hugtök hef ég ekki áður heyrt guðfræðinga nota og síst af öllu í því samhengi sem þarna kom fram.

Ég fjallaði um þessi hugtök í ritgerð minni Fagurhyggja, árið 2001. Ekki veit ég hvaðan ég hef þau og grunar reyndar að ég hafi sjálfur kokkað þau upp til að benda á ákveðinn grundvallarmun tveggja hugmyndaheima. Lokuð heimsmynd er að mínu viti hugarfar hins trúaða sem telur sig búa að endanlegum sannleik upp úr trúarriti. Heimsmynd þess sem telur kenningar upp úr eldgömlu trúarriti lýsa endanlegri heimsmynd og gagnrýnir hana ekki í takt við nýrri og traustari upplýsingar er að sönnu lokuð, ef ekki harðlæst, auk þess sem með í þeim pakka fylgir óneitanlega tilgangsþrunginn heimur og sátt við eymd og volæði. Slíkt hlýtur einfaldlega að vera partur af vilja þess guðdóms sem setti veröldina af stað og stjórnar samkvæmt plani.

Opin heimsmynd hafnar kennisetningum trúarbragða og sá sem hana aðhyllist er tilbúinn til að breyta áliti sínu á heiminum í takt við nýrri og áreiðanlegri upplýsingar en áður voru í boði. Þannig lítur t.d. sá sem opna heimsmynd aðhyllist á geðsjúkdóma sem starfrænar truflanir í heilastarfi, en ekki starf illra anda, eins og ákveðin trúarrit boða.

Daphne Hampson hefur greinilega haft hugrekki til að taka tillit til alls þess sem traustara telst en kenningar trúarrita og á þeim forsendum hafnar hún því að meintir mannkynsfrelsarar á borð við Jesú Krist hafi höndlað innsta kjarna vitneskju og sannleika um veröldina. Þetta kemur t.d. skýrt fram, þótt ekki sé mér kunnugt um að Daphne haf vísað til þess, í því áliti sem Jesús þessi hafði á flogaveiki og geðsjúkdómum, því hann viðhélt þeim ranghugmyndum sem samtími hans var gegnumsýrður af, í stað þess að færa samfélagið inn í ljós vitneskjunnar um þau mál. Daphne kemst þar með að þeirri upplýstu niðurstöðu að viðkomandi heimsendaspámaður og upphafsmaður nýrra trúarbragða hafi ómögulega getað búið að nokkurri guðlegri vitneskju umfram næsta mann, þrátt fyrir að hún segi hann reyndar hafa verið í einhvers konar sambandi við guðdóminn. Þessi mótsögn rímar við þversagnarkennda tiltrú hennar á guðdóm, þrátt fyrir niðurstöðuna.

Ekki veit ég hvert Arnfríður sækir hugtökin opin og lokuð heimsmynd og varla þori ég að halda því fram að hún sé á nokkurn hátt undir mínum áhrifum við þessa hugtakanotkun, en meðhöndlun hennar á þeim er alveg út úr kú.

Hún snýr einfaldlega öllu á hvolf, eins og svo algengt er í málflutningi guðfræðinga. Í hugmyndaheimi Arnfríðar táknar lokuð heimsmynd það eitt að aðhyllast skynsemi og hafna þar með möguleikanum á atburðum sem ganga gegn náttúrulögmálunum. Og þar með hljóti hinn trúaði að búa að opinni heimsmynd, því hann er tilbúinn til að gera ráð fyrir hinu ómögulega, kraftaverkum, himnastigningu, ofurverum og meyfæðingum.

Arnfríður heldur semsagt að óskynsamleg trú á það sem maður vonar að sé satt sé til merkis um opna heimsmynd, en áttar sig ekki á því að með því að vafra um í slíkum þankagangi hefur hún einmitt lokað á þann möguleika að óskhyggja hennar byggi á kjaftæði. Hún hafnar rökum og sönnunargögnum sem styðja hið gagnstæða við það sem hún vill að sé satt, til að geta dillað í huga sér úreltri og harðlæstri heimsmynd.

Þetta getur varla verið fræðileg notkun hugtakanna, guðfræðin getur varla verið á svona lágu plani. Og þar með er mig farið að gruna að hún sé að finna upp á þessum skilgreiningum sjálf, grípi hugsunarlaust til hugtaka úr umræðunni og snúi þeim sér í hag.

Arnfríður er semsagt búin að hædjakka opinni og lokaðri heimsmynd og snúa upp í skrípamyndir. Ég geri þá kröfu á hana að skila þeim aftur og láta þau fjalla um það sem þau raunverulega tákna, nema hún geti sýnt fram á annan uppruna þeirra sem fræðileg hugtök í guðfræðiritum og um leið eldri en frá árinu 2001.

1Samtal Ævars Kjartanssonar og Arnfríðar Guðmundsdóttur

Birgir Baldursson 10.11.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 12:31 #

Fann þetta á veraldarvefnum:

I believe current individual worldviews that are dogmatic and closed-minded and those that are exclusive and divisive are determining the direction we are heading. More open and more inclusive beliefs behind our collective way of seeing will help us change directions

An open worldview is receptive to new ideas and likely to see possibilities. It will help reduce absolute certainty (dogmatism) and stimulate the creation of new ideas (creativity). Nothing is more dangerous that an idea, when it is the only one you have.

Emile Chartier

Emile þessi var franskur heimspekingur og vel getur verið að ég hafi þessi hugtök frá honum. Og þetta styrkir enn frekar mál mitt, að Arnfríður sé úti í móa með hugtakanotkun sína.


Sveinn - 10/11/08 13:16 #

Frábær grein Birgir, virkilega góðar pælingar.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 14:00 #

Birgir, þessi tilvitnun er í samræmi við það sem þú ert að segja. Enda er bara heimska að halda að "opin" heimsmynd feli í sér draugatrú en hafni vísindaþekkingu!


Valtýr Kári Finnsson - 10/11/08 16:10 #

Er hægt að hlusta á þennan þátt einhvern veginn? Annars er þessi grein í litlu samhengi.

P.S. En þakka þér fyrir að vísa á þessa ritgerð þína Birgir, hún var mjög athyglisverð lesning!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 16:21 #

Valtýr: Upptökur á Lóðrétt eða lárétt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 17:30 #

Ég setti samtal Ævars og Arnfríðar neðst í greinina.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 18:36 #

Enda er bara heimska að halda að "opin" heimsmynd feli í sér draugatrú en hafni vísindaþekkingu!

Reyndar held ég ekki að Arnfríður sé ekkert að hafna vísindaþekkingu þarna. Í hennar opnu heimsmynd rúmast hún alveg, en yfirnáttúran ekki í þeirri sem hún kallar lokaða.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 20:20 #

Þetta er grátlegt. Ég á ekki til aukatekið orð. Á dauða mínum átti ég von á en ekki newspeak frá kennara í Háskólanum.


Carlos - 10/11/08 20:55 #

Orðfæri Arnfríðar er ekki hugsað sem pólemík eða niðrandi heldur á það að vera lýsandi. Orðin opin og lokuð heimsmynd eru tilheyra klassísku heimspeki og guðfræðimáli. Opin heimsmynd hafnar alls ekki heimsmynd vísindanna. Hún bætir þeirri hugsun við hana, að Guð eða goðmögn hafi erindi við heiminn. Komist inn, utan frá.

Hvort orðin opin eða lokuð eru síðan heppileg er önnur saga. Á mínum námsárum böggluðumst við með trans- og immanens, skildum og misskildum á víxl. Athugasemd Birgis í dag kl. 18.36 er algerlega nákvæm.

Athugasemd Birgis í dag kl. 12.31 er hinsvegar á þeim misskilningi byggð, að það að aðhyllast opna/lokaða heimsmynd hljóti að hafa með skynsemi/óskynsemi að gera.

Í immanent (innbúandi) heimsmynd ríkja einfaldlega aðeins lögmál sem búa innan heimsins. Geri maður ráð fyrir (eða trúi maður) transcendent (goðmagnaðri) heimsmynd, er maður a.m.k. opinn fyrir þeim möguleika að öfl utan heimsins séu til og geta hugsanlega komið inn í heiminn og haft þar áhrif.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 21:04 #

Jamm, þetta eru í raun aðeins önnur orð yfir vítalisma og mekanisma, þetta transcendent og immanent.

Munurinn á þeim sem aðhyllist opna heimsmynd í guðfræðilegri merkingu (transcendent) og þess sem gerir það í heimspekilegri merkingu (mekanismi) felst í því að mekanistinn er opinn fyrir guðlegri íhlutun ef í ljós kemur að hún sé staðreynd. Þangað til er hann ekkert að gæla við hana. Vítalistinn trúir því hins vegar að hún sé þarna til staðar og gefur þeim möguleika ekki séns að allar slíkar gælur geti verið bölvað kjaftæði. Hann er því lokaður inn í sinni heimsmynd á meðan allt er opið hjá mekanistanum.

Annars er ég ánægður með að tekist hafi að kveikja umræðu á ný um þessi hugtök, fannst aldrei þetta hafa verið útrætt í old days. Og nú hefur Carlos varpað transcendent og immanent inn í hugtakasúpuna og er það vel.

Höldum áfram að velta vöngum yfir þessu.


Carlos - 10/11/08 21:09 #

Talandi um orðfæri, kannski færi betur á að tala um goðmagnaða og goðvana heimsmynd heldur en opna og lokaða.


Carlos - 10/11/08 21:15 #

Mér finnst orðræðan um goðmögnun og goðvönun alveg nógu flókin, til þess að þola orðin vital og mekan eftir einn Kír. En já, þetta má alveg skoða í kjölinn, því við endurhlustun þá er það í raun annað innlit/útlit, sem Arnfríður talar um. Nefnilega hvort kristindómur er gagnrýndur utan eða innan frá.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 21:50 #

Nei Carlos, en hún talar um það líka, að gagnýna kristindóminn utan- eða innanfrá.

Hún talar um heimsmynd, hvort menn vilja dvelja í "lokaðri heimsmynd" þar sem skynsemin ein ríkir eða "opinni" þar sem gefið er færi á utanaðkomandi inngripi.

Það er þessi notkun hugtakanna opin og lokuð heimsmynd sem ég er ekki sáttur við, held að hún hafi ekkert fræðilegt á bak við þessa notkun. Það hefði farið betur á því hefði hún notað vítal- og mekan í stað þessara hugtaka.


Carlos - 10/11/08 22:05 #

Ég leyfi mér að efast um að Arnfríður hafi haft hugmynd um að orðin opin / lokuð heimsmynd gætu verið gildishlaðin, fullyrði af fyrri samskiptum við hana að hún notaði þau vegna skorts á betri hugtökum í íslensku ríkisútvarpi. Af hverju sendirðu henni ekki bara póst v.þ.?

Orðin vital / mekan eru mér ekki töm en orðin guðvana / goðmögnuð finnast mér lýsandi í þessari umræðu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/08 22:16 #

Já já, guðvana og goðmögnuð er fín orð.

Ég lít ekki svo á að mín eigin notkun á hugtökunum opin og lokuð heimsmynd séu gildihlaðin heldur, þeim er ætlað að vera lýsandi og tekst það ágætlega.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 11/11/08 20:50 #

Hún segir, "..Er það fyrst og síðast spurning um heimsmynd. Það er spurningin um að hvort við göngum útfrá algerlega lokaðri heimsmynd. þar sem að skynsemin ein ræður eða hvort að við erum tilbúin til að ganga út frá opinni heimynd sem leyfir, sem að opnar fyrir inngrip í söguna. Inngrip guðs inn í söguna

10:07 til 10:40

Í mínum huga er alveg klárt hvað Arnfríður á við. Hún á við það sem hún segir.

Opin heimsmynd = guðstrú
Lokuð heimsmynd = skynsemishyggja / upplýsing

Þetta er gengur þvert á alla hefð.


ThorK - 12/11/08 20:12 #

Trixið í þessari orðnotkun Arnfríðar er það sama og hjá Intelligent Design genginu. Hvort tveggja vil láta líta svo út að það sé opnari en efasemdarmennirnir, þar sem það haldi möguleikanum opnum fyrir utanaðkomandi áhrifum. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að þeir möguleikar sem haldið er opnum er ekki allir mögulegir möguleikar, heldur einskorðast við viðtekna trú viðkomandi. Arnfríður er þannig væntanlega galopinn fyrir möguleikanum að Jesús sé guðleg vera, en minna opin fyrir að Múhammeð hafi verið spámaður Jahve og svo framvegis.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/11/08 11:00 #

Já, þetta er góður punktur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.