Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jól án Jesú

Eflaust finnst mörgum fyrirsögn þessarar greinar vera þversögn en á okkar tímum verða flestir að viðurkenna að svo er ekki. Jólin eru heiðin hátíð er menn fögnuðu því að sól hækkar á lofti, ólíkt Kristsmessu kirkjunnar. Sennilega hefur hátíðin verið það mikilvægur hlutur í lífi fólks að ekki tókst að breyta nafni hennar í hugtak tengt Kristi á meðal norrænna manna.

Það er reyndar merkilegt þegar haft er í huga að kirkjunnar mönnum tókst að skipta um nöfn á vikudögunum hér á landi því þeir voru áður kenndir við goðin okkar. –En jólin héldu nafni sínu.

Þótt einhverjir kunni að gráta þá staðreynd, held ég að ljóst sé að orðið jól á nú betur við um hátíðina en Kristsmessa.

Hugsanavilla á ferð

Það er aftur á móti annað mál að sagnfræðingar geta bent á að Jesús var líklega aldrei til og því undarlegt að fagna fæðingu hans. Trúaðir menn efast ekki um hérvist Jesú en hafa bent á að líklegt sé að hann hafi ekki fæðst í desember. Hvenær það var man ég ekki, en þeir reikna það út frá frásögn Biblíunnar og þjóðháttum Ísraelsmanna á sínum tíma.

Aðrir en bókstafstrúarmenn leggja lítinn trúnað á frásögn Lúkasar sem er ólík Matteusar. Því það má undarlegt heita að Markús og Jóhannes hafi ekki getið svo merkilegrar fæðingar. Reyndar ætti það að vera öllum mönnum ljóst að frásögnin af fæðingu „frelsarans“ er aðeins ævintýri ætlað börnum og trúgjörnu fólki til upphafningar á goðsögninni um Jesú. – Ekki síst þegar við þekkjum dæmi þess að frásögnin um vitrun, meyfæðingu og vitringana þrjá eru allt vel þekktar sögur í öðrum ogeldri trúarbrögðum í Austurlöndum.

Sætti menn sig við ofantaldar athugasemdir vilja þeir vafalaust malda í móinn og segja að jólin séu ekki það jarðbundin hátíð að trúarleg tilvist hennar þurfi að ráðast af sögulegum staðreyndum.. Á jólunum fagni menn aðeins því að kenningar Krists komu fram og Jesúbarnið sé tákn nýrra og betri tíma.

Við því er það að segja að kærleikur manna á meðal og bróðurþel er alls óháð kristnum trúarsetningum. Gallinn við trúarafstöðu Íslendinga er að þeir virðast ekki átta sig á því hvað Guðstrú er, heldur álíta þeir að sá maður sé trúaður sem aðhyllist þá siðfræði sem kirkjan heldur á lofti þessa dagana.

Með því móti afsaka þeir blóðuga sögu kirkjunnar og trúarbragðanna undanfarnar aldir og enn þann dag í dag („Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.“ (Mt. 7:16)), þeir segja að það hafi berlega ekki verið sannkristnir menn sem stóðu að þeim voðaverkum. En hér er hugsanavilla á ferðinni.

Þar sem þekkingu þrýtur tekur trúin við

Kristin trú grundvallast á því að eitt sé mikilvægt og öllu æðra, Guð. Það sést gleggst á boðorðunum. Siðfræðin er berlega skör neðar en átrúnaðurinn á Guð sjálfan. Jesús sagði: „Elska skalt þú Drottinn Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“ (Mt. 22:37-38 ).

En hvernig stendur á því að enginn vitnar í eftirfarandi orð Jesú á „hátíð barnanna“?: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, kou og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“ (Lk. 14:26)

Guð Biblíunnar er hræðilegt fyrirbæri, reyndar með öllu óskiljanlegur. Trú er að vissu marki andstæða skynseminnar því það er óskynsamlegt að kyngja því sem þú skilur ekki og láta ráðast af skrifum og ákvörðunum misviturra manna sem telja sig hafa umboð einhvers guðs. – Þar sem þekkingu þrýtur tekur trúin við.

Reyndar er óskynsemi og trúgirni lofsungin í Biblíunni sem æðst dyggða. Sælir eru þeir, sem ekki hafa séð en trúðu þó (Jh. 20:29) og enginn er hólpinn sem ekki tekur á móti Guði af barnslegri einlægni (Mt. 18:3, Mk. 10:15). Og Jesú vegsamaði föður sinn fyrir að hafa hulið boðskapinn „spekingum og hyggindamönnum“ (Mt. 11:25). Það er athyglisvert að bera þessar kenningar saman við lífsskoðanir heiðinna forfeðra okkar sem álitu vináttu og mannvit bestu byrðar hvers manns, en það er önnur saga.

En venjulegur Íslendingur er ekki að hengja sig í smáatriðum sem mælt er um í Biblíunni. Hann tekur það sem honum líst vel á og hentar hverju sinni en skeytir litlu um afganginn. Trúarbrögð í hans augum eru frekar neikvætt fyrirbæri.

Hann sér fyrir sér trúarbragðadeilur víða um heim fyrr og síðar, heilagt stríð islam o.s.frv. Hann er kristinn og trúir á náungakærleik en áttar sig ekki á að sú kenning, sem hann heldur sig játa, er sami grautur í sömu skál og öll önnur trúarbrögð.

Innihald hátíðarinnar

Lítum nú á jólahald Frónbúans. Allur desember einkennist af komu jólanna. Auglýsingar í sjónvarpi, skreytingar á götum úti og jólalögin í útvarpinu. það sem snýr að einstaklingnum er kökubakstur, tiltekt, kortasendingar, gjafakaup og er nær dregur jólum, skreytingar og loks hátíðin sjálf.

Innihald hátíðarinnar er svo góður matur, skipst er á gjöfum og tekið á móti vinarkveðjum. Líkt og skrattinn úr sauðarleggnum kemur svo messa í ríkisfjölmiðlunum og myndir af heittrúuðum í ríki gyðinga. Ríkisstjórn Íslands hefur skuldbundið sig til að viðhalda og kosta þessi trúarbrögð (upphaflega til að ná eignarhaldi sínu á þeim jörðum sem kirkjunni tókst að sölsa undir sig frá landsmönnum) og einhverra hluta vegna er enn haldið í þá forneskju.

Að þessum orðum töluðum er ljóst að jólin eru allt annað en trúarleg hátíð. Það er engin ástæða til að gráta það, heldur ber að fagna því. Það eina sem á vantar er að fólk átti sig á því að trúin er svo gjörsamlega ónauðsynleg til að gera þessi tímamót að þeirri hátíð sem þau eru.

Við þurfum ekki Biblíubókstaf eða drottnunargjarnan Guð til að fagna því að sól hækkar á lofti eða til að gleðja náungann og eiga samverustundir með fjölskyldunni. Allt það besta er tengist jólunum er óháð trúarbrögðum. Það væri því vel til fundið að kasta hræsninni frá sér. Farsælast væri að halda hátíð tileinkaða vináttu og betri tíð og að láta tilætlunarsemi og bábiljur trúarbragðanna lönd og leið. Það væri mikið fengið ef Íslendingar áttuðu sig á því í eitt skipti fyrir öll að í raun og veru halda þeir jól en ekki Kristsmessu.

Þeir sem enn vilja eigna jólin guði gyðinga og óskilgetnu afkvæmi hans verða að gleypa alla súpuna en ekki einungis þann rjóma sem lesa má í Biblíusögum barnanna. Ef trúa má Matteusi var fæðing frelsarans lítið fagnaðarefni í Palestínu því vegna hennar „...lét [Heródes] myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri...“ (Mt. 2:16). „Algóður“, „alsjáandi“ og „almáttugur“ guð hefur ekki lagt það í vana sinn að forða sakleysingjum þessa heims frá miskunnarleysi sköpunarverks síns. Varla hefur ást foreldra þessara barna verið mikil á Jehóva en guðsóttin kannski þeim mun meiri. Ef menn vilja telja sér trú um að þeir séu trúaðir ættu þeir að lesa eitthvað fleira á aðfangadag en Lúkas 2:1 til 2:115. Þeir telja kannski að þeir geti gleymt sora Gamla testamentisins því Jesús hafi afnumið þann refsigjarna og hrottafengna guð sem þar er lýst en þá má minna á að Jesú sagði: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. ÉG kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.“ (Mt. 5:17)

Almenningur mætti hafa eftirfarandi orð í huga í komandi fjölmiðlavertíð presta og biskupa: „Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá.“ (Mt.6:5) „Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.“ (Mk. 12:38-39)

Gerist menn ekki sauðir Guðs þessa bíða þeirra hræðileg örlög, fái hann ráðið, því frá „dýrðarhásæti“ sínu segir hann við þá: „Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans“ (Mt. 25:41). Og hvað segir í Nýja testamentinu um gagnrýni sem þessa? Jú svo mælir guðs lambið: „En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.“ (Mt. 18:6) Það er engin þörf á þessum guði, hvorki á jólum né öðrum árstíðum.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Greinin birtist í DV, 14. des. 1989

Reynir Harðarson 23.12.2007
Flokkað undir: ( Jólin )

Viðbrögð


Arnold Björnsson - 23/12/07 10:11 #

Alveg hreint frábær samantekt og svo sönn.

Gleðileg jól :)


Jón Frímann - 23/12/07 20:02 #

Ég held uppá jólin án jesú, guðs og hinna skáldsagnapersónanna. Enda er ég að fagna hækkandi sól.


Birta - 24/12/07 09:49 #

Fín grein, eins og reyndar allt sem ég hef lesið eftir Reyni.

Mér finnst Reynir kannski vera full djarfur þegar hann segir eftirfarandi: "Það er aftur á móti annað mál að sagnfræðingar geta bent á að Jesús var líklega aldrei til"

Ég held að "mainstream" sagnfræði sé þeirra skoðunar að Jesús hafi líklega verið til, og verið að einhverju leyti upphafsmaður kristindómsins.

Jólin eru æðisleg, enda eru nútíma jól hátíð kapítalismans.

Geleðileg jól


Olaf - 25/12/07 19:34 #

Góð lesning..


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/12/07 11:37 #

Ég þakka hlý orð. Þessi grein var skrifuð fyrir 18 árum og þá var landslagið í umræðum um trúmál allt annað en það er nú. Mig langaði bara að ýta aðeins við fólki. Víst var ég djarfur, en þó ekki djarfari en svo að segja að sagnfræðingar GETI bent á að Jesús var LÍKLEGA aldrei til.

Á þessum tíma var ég tiltölulega nýbúinn að eignast bókina "Did Jesus exist?" eftir G.A. Wells (sem reyndar er prófessor í ensku, ekki sögu). Svar Wells er að LÍKLEGRA sé að Jesús hafi ekki verið til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.