Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jóla hvað?

Í tilefni þess að jólin, Andkristnihátíð og sólstöður eru enn og aftur að ganga í garð er vert að minnast á uppruna jólanna í stuttu máli. Hér á eftir kemur meðal annars endursögn úr völdum köflum bókar Árna Björnssonar þjóðháttafræðings, Saga daganna. Öðrum heimildum er lýst hér að neðan.

Haldin hefur verið hátíð hjá flestum þjóðum á norðurhveli jarðar í skammdeginu frá því langt fyrir Krists burð, frumorsök þeirra hátíða voru sólhvörfin, eða sólstöður. Sú orsök hefur þó gleymst að mestu með árunum og með breytingum sem fylgja samfélaginu. Hjá norrænum heiðingjum nefndist þessi hátíð jól.

Hin heiðna hátíð er þá meðal annars talin hafa verið til að fagna endurkomu sólar og hjálpa henni upp erfiðasta hjallann. Fólk á þessum tímum vissi ekki mikið um himnana svo allskonar skýringar voru fundnar upp fyrir því að sólin skyldi lækka á lofti og því vildu menn vera vissir um að sjá hana aftur.

Veislur í kringum jólin hafa verið haldnar hér á landi frá því fyrir kristnitöku og voru þá oft stórar hátíðir hjá höfðingjum. Þess má geta að öleign var þá lögboðin og skyldu menn gjalda fé ef öl var ekki til.

Afmælisdagar hafa verið haldnir jafn lengi og tímatal, en hin sannkristna kirkja taldi fyrr á öldum hina mestu heiðni að halda hátíðlegt upphaf hins jarðneska lífs, enda er ekki orð um það í ritningum hvenær Jesú gæti hafa fæðst. Á móti kemur að það er vel skráð hvenær Jesú fæddist inn í hið himneska líf, en þá höldum við upp á páska, svo uppstigningardag.

Hinum kristna meðalmanni líkaði þetta þó ekki og héldu upp á fæðingu frelsarans, eru heimildir um að það hafi tíðkast á dögum allt frá 17. nóvember til 20. maí, þó það hefði þess vegna getað verið um mitt sumar. Ljóst er að hann fæddist þó ekki 25. desember. Í fyrstu náði mestri útbreiðslu 6. janúar og er ástæðan talinn sú að Egyptar héldu mikla hátíð þann dag og vildi kirkjan hafa betur í samkeppni við önnur trúarbrögð. Enn í dag heldur gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan upp á þann dag sem fæðingardag frelsarans.

Árið 440 samþykkti vest-rómverska kirkjan að halda upp á afmæli frelsara þeirra 25. desember. Var ástæðan að sá dagur varð fyrir valinu sú að 25. desember var sólhvarfadagurinn og hann var orðin að "fæðingardegi hinnar ósigrandi sólar" í Róm, sem var bland af nokkrum eldri siðum, þar á meðal fæðingardegi Míþrasar, guðs ljóssins og óvinar ills, hann fæddist af hreinni mey og fylgjendur hans voru skírðir uppúr vatni. Einnig munu fylgjendur hans hafa borðað heilaga máltíð brauðs og víns og skyldu lifa eftir hans fordæmi, líf siðferðis og dyggðar. Hann var einnig helsti keppinautur Jesú þangað til Rómverjar tóku upp kristni sem ríkistrú.

Kirkjan tók sig svo til af alkunnri frekju og færði hátíðarhöldin í kristinn búning og gerði fæðingardag sólarinnar og allt sem honum fylgdi að fæðingarhátíð Krists. Þetta gerði kirkjan vegna þess að hátíðarhöldin sem fyrir voru drógu að sér marga kristna menn. Þessi málamiðlun (ef þannig má að orði komast) var ekki vinsæl meðal allra kristinna manna sem margir hverjir vissu að hann hefði ekki fæðst þá og eru þó nokkrir kristnir söfnuðir í gegnum tíðina sem hafa ekki haldið upp á jólin vegna þessa og annarra ástæðna. Kirkjan réttlætti þessa yfirtöku meðal annars með því að segja að Kristur væri hin eina sanna sól, sól réttlætisins.

Þannig tók kirkjan yfir eina vinsælustu gleðihátíð almennings og fleiri. Fornu siðirnir héldust þó margir hverjir og áleit kirkjan það sem verkefni fyrir sig að kristna þá.

Jólagjafir tíðkuðust ekki mikið meðal almennings fyrr en á seinustu öld, á Íslandi voru sumargjafir algengari. Jólagjafirnar voru helst skór eða önnur föt. Uppúr 19. öld var það þó orðið nokkuð almennt að gefa börnum kerti á jólunum. Þegar verslunum tók að fjölga í lok 19. aldar færðist það einnig í aukana að gefa jólagjafir, og með auknu auðvaldi stækkaði jólagjafamarkaðurinn einnig. Kirkjan hefur einnig reynt að taka heiðurinn á jólagjöfum, þá helst að líkja þeim við gjafir vitringanna til Jesúbarnsins, en virðist það ekki vera vinsælt meðal almennings að álíta sem svo.

Jólatré, tákn jólanna í hinum vestræna heimi, komu hingað á svipuðum tíma og jólagjafir. Fyrstu heimildir um það eru þó frá 16. öld í Þýskalandi og virðast þau hafa verið vinsæl þar alla tíð síðan. Jólatréð hefur heldur ekkert með trú manna að gera þó kirkjan vilji minna á að Jesú líkti sér eitt sinn við sígrænt tré. Heldur er líklegra að tréið sígræna, á flestum stöðum eina græna tréð á þessari árstíð, hafi þótt fallegt í skammdeginu og lífgað aðeins upp á tilveruna.

Að lokum er vert að minnast á uppruna jólasveinanna. Heilagur Nikulás var hálf þjóðsagnakenndur biskup frá Tyrklandi og var einn dáðasti dýrlingur síðmiðalda, einkum sem verndari fátækra, góðra gjafa og barnavinur mikill. Víða í Evrópu á hann að hafa birst á messudegi sínum, 6. desember, að umbuna góðum börnum, en veita hinum ráðningu. Talið er að búningur hins erlenda jólasveins sé kominn af skrúðklæðum Nikulásar og einnig er af honum dregið nafnið Saint Nicholas, eða Santa Claus.

Hinir íslensku jólasveinar eru upprunalega af allt öðrum toga en heilagur Nikulás. Þeir eru synir Grýlu og Leppalúða og hinir mestu barnafælur, eins og foreldrarnir. Ekki voru þeir fagrir menn, heldur byggðir sem jötnar og voru illskuþjóð og ungbörnum "skæð". Þeir voru notaðir til þess að hræða börn, á sama hátt og sögur af draugum. Á síðari hluta 19. aldar fara þeir þó að mildast aðeins, kannski fyrir tilstilli þess að Dönum bauð við þessum hræðsluaðferðum og bannaði með lögum að börn yrðu hrædd með sögum af þessu pakki. Síðar fóru menn að efast um að þeir væru mannætur, en þó bæði hrekkjóttir og þjófóttir. Um aldamótin 1900 taka þeir að líkjast fremur hinum alþjóðlega jólasveini Nikulás hvað snertir útlit, klæðaburð og innræti. Þeir verða barnavinir, færa þeim gjafir, syngja fyrir þau og segja þeim sögur. Munu kaupmenn hafa stuðlað mikið að þessu með auglýsingum af erlendri fyrirmynd. Þar má helst nefna auglýsingar Coca Cola fyrirtækisins frá 4. áratug síðustu aldar sem hjálpuðu mjög að viðhalda þeirri mynd sem Bandaríkjamenn höfðu af jólasveininum, þó svo að þessi ímynd hafi ekki verið sköpuð af fyrirtækinu. Íslensku jólasveinarnir hafa þó náð að haldast furðulega vel í sessi og leggja sumir til að það sé að þakka jólaþætti ríkisútvarpsins á fyrri hluta síðustu aldar um jólasveinana.

Með ósk um gleðilega hátíð, hvernig sem þið kjósið að halda upp á hana,

Karl Jóhann

Tenglar:
Grein frá Kristskirkjunni um uppruna jólanna
Vísindavefurinn
Religious Tolerance

Karl Jóhann 20.12.2003
Flokkað undir: ( Jólin , Kristindómurinn )

Viðbrögð


leyndur aðdáandi - 20/12/03 20:14 #

frábær grein hjá þér,nú líður mér miklu betur að halda upp á ókristileg jól :)


Guðjón Öfjörð - 30/12/03 19:04 #

Flott grein!

Hef vitað það í svoldinn tíma að jólin séu í raun heiðin hátíð.

Gleðileg heiðin jól!


Úlfurinn - 01/03/04 14:31 #

Ruglum ekki saman Jólum og Kristsmessu


Kalli - 13/03/04 12:57 #

Er einhver að því?


Úlfurinn - 13/03/04 14:51 #

Of margir rugla þessu saman.Jól eru heiðin sólrisuhátíð.Kristsmessa er allt annað


kristín - 30/11/04 18:54 #

mér finnst eðlilegt að minna á þessa góðu grein nú þegar líða fer að jólum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.