Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ósk um heimsendi

Í því gerningaveðri sem dunið hefur á Íslendinga undanfarnar vikur hafa vindhviðurnar feykt í burtu allskonar samfélagsstrúktúrum sem áður voru taldir traustir, líkt og þegar þakplötur flettast af byggingum svo sést inn í háaloftið. Spilling er nú orðin auðsjáanleg því spillingarliðið stendur skyndilega á berangri án skjóls frá þægilega bárujárninu.

Það blæs hressilega á flokkskírteina og vinavæðinguna. Aðgerðir lykilfólks í samfélaginu er undir smásjá. Meir að segja verkalýðshreyfingin liggur undir ámæli um inngróna spillingu. En það er fleira sem kemur í ljós.

Svo virðist sem ósk margra presta um heimsslitum þeim sem spáð er fyrir í biblíunni sé loksins komin upp á yfirborðið. Reyndar er það svo að heimsendakenningar Jesúsar hafa verið hálfgert tabú í guðfræði ríkiskirjunnar, sem er undarlegt því heimslitaósk Jesúsar er grunnatriði í kennisetningum hans.

Nú hafa tveir prestar stigið fram og mært í óttablandinni auðmýkt meintan heimsendi sem mun vera fyrir handan hornið. Baldur Kristjánsson reit á dögunum litla bloggfærslu sem heitir Verður jörðin óbyggileg?. Ekki er um að villast að heimsslitakenningar Jesúsar eru rótin af þessum skrifum. Séra María Ágústsdóttir gengur enn lengra í predikun sem flutt var þann 12. nóvember sem ber nafnið Þegar heimurinn hrynur, þar segir m.a:

Mannssonurinn kemur. Mannssonurinn kemur. Það er eftirvænting í þessum orðum, von hins góða, gleðileg sýn til framtíðar. Hann kemur – með mætti og mikilli dýrð.

Að vísu er talað um þrengingar og að þeim loknum að sólin sortni og tunglið hætti að skína. Með öðrum orðum munu þrengingar heimsins leiða til loka hans, því ekki getur jörðin þrifist án sólarinnar með þeim lífverum sem við þekkjum í dag.

Hrap stjarnanna undirstrikar enn myndina af heimsendi sem spámenn Gamla testamentisins höfðu þegar séð fyrir og eru bakgrunnur orða Jesú (sjá t.d. Jes 13.9, Jóel 3.4, Amos 5.18). Dagur Drottins, endalok heimsins eins og við þekkjum hann, verður þegar Mannssonurinn, Jesús Kristur, kemur aftur – með mætti og mikilli dýrð.

og

En höfum hugfast að föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists (Fil 3.20) og þegar veröldin líður undir lok munum við safnast saman í dýrð Guðs. Þangað miðar líf okkar, þangað stefnir tilveran öll. Í mætti og mikilli dýrð.

Nú er ástæða til að staldra við. María þessi hefur reyndar áður komið með sérkennilegar staðhæfingar. Hún ritaði ekki alls fyrir löngu aðra predikun þar sem hún hélt því fram að það væri "erfitt" að elska án þess að trúa á guð. Þessi orð vöktu töluverða reiði meðal vantrúaðra enda elska þeir fólk, fjölskyldu sína, börnin sín og maka rétt eins og aðrir. María hefur ekki enn tekið þessi orð sín til baka. En lengi má manninn reyna. Eftirvæntingarfull orð hennar um heimsenda setja allt í uppnám. Auðvitað er það sök sér að sérvitringar mæri heimsslit en þessi tiltekni heimsendaboðari er á kaupi frá skattgreiðendum. Ofurlaunum eiginlega, því byrjunarlaun hennar eru á bilinu 500 - 600 þúsund á mánuði.

Nú þegar erfiðleikar steðja að eru tveir möguleikar í stöðunni. Það er hægt að takast á við erfiðleikana eða það er hægt að bíða titrandi eftir heimsenda. Predikarinn María Ágústsdóttir hvetur fólk til þess að titra.

Teitur Atlason 21.11.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kristján Hrannar Pálsson - 21/11/08 09:56 #

Það er snarklikkað að heyra þetta - sérstaklega frá háskólamenntuðum einstaklingum.


Sindri Guðjónsson - 21/11/08 20:05 #

þar sem María Ágústsdóttir er menntaður Guðfræðingur, þá ætti hún að vita að höfundar Guðspjallanna héldu að stjörnurnar myndu bókstaflega hrapa af himnafestingunni (sem var eins og skál á hvolfi ofan á flatri jörðinni) niður á jörðina.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/11/08 22:55 #

Ekki verður annað séð en biskupinn sé líka í heimsendaspánum:

Framundan er vorið handan allra vetrarveðra.


gimbi - 23/11/08 22:15 #

Þetta er ágætt innlegg hjá þér, Teitur.

En er ekki heimsendaspáin hjá kristnum grundvöllur þeirra reiknisskila sem þeir binda trúss sitt við?

Eru Omegamenn ekki að bíða endurkomu krissa?

Þessir tímar gefa hvað best tilefni til að sú sé raunin.

Eða hvað?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 25/11/08 06:24 #

Nei Gimbi, þessir tímar eru einhverjir þeir bestu sem mannskepnan hefur lifað undanfarin 2000 ár. Bankakreppa og svoleiðis húmbúkk er barnaleikur miðað við farsóttir, illan aðbúnað og fáfræði liðinna alda.

Annars finnst mér alltaf jafn skelfilegt að sjá krysslinga vonast eftir dómsdegi. Í þeirra helgu skruddu segir um þann dag að helmingur mannkyns eigi eftir að farast sem í dag telur um 3,2 milljarða manna, sjá t.d. hér.


gimbi - 26/11/08 23:38 #

Lárus Viðar. Það má furðu gegna ef þú telur mig vera einhvern "krissling"?

Ekki síður er undarlegt að þú þykist þess fær að leggja mat á þjáningar manna um aldirnar.

Ertu kannski með vísindalegan kvarða á kvalir manna?

Hafa örvæntingar manna minna vægi núna, af því þeir geta fengið mótefni við lömunarveiki?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 28/11/08 08:21 #

Ég var nú ekki að meina þig Gimbi minn þegar ég minnist á krysslingana. Bíður þú spenntur eftir dómsdegi?

Bólusetningar gegn lömunarveiki hafa minnkað kvalir manna umtalsvert, ég held að það sé nokkuð augljóst.


Eðvarð - 09/12/08 22:23 #

Jú vissulega er þetta gríðarlega athyglisvert, en langar mig mest til að hrósa ykkur vantrúar mönnum. Jeg verð að hrósa ykkur fyrir góða þekkingu á orði Guðs, en það virðist sem prestar séu hálf heiladauðir. Þetta sem verið er að tala um, að endurkoma krists sé aðalstefið í hans umfjöllun, er bara nákvæmlega rétt. Núna er jeg ekki með Biblíu við hendina og man jeg ekki alla ritningastaði, og biðst jeg því afsökunar á slökum pistli. Það sem rekja má augum hvað mest í, er orðið „Guðsríki“ og „himnaríki“, en þau koma svo oft fyrir í orðum Jesús að ekki hef jeg tölu á því. Með því að lesa Guðspjöllin, sést þetta greinilega, og stef Postulana er einnig þessi koma krists. Varðandi Gr. Vil jeg nefna Post 1:4 að mig minnir. Það skrítna við allt saman, er að þegar maður talar við presta, er að þeir vilja ekki tala um þessa komu Jesús og mál tengd henni. Sjálfur er jeg Vottur Jehóva, og má margt um það deila, en bið jeg að það verði gert annarsstaðar, vegna virðingar við þessa stöku umræðu. Jeg hef gaman af skrifum ykkar og þykir sjálfsagt að menn hafi sínar skoðanir og fái að leggja sitt álit fram. Já, eitt skal samt hafa í huga, og er það Pré. 1:4 að mig minnir, en þar kemur fram að Jörðin muni standa að eilífu. Þetta kemur líka fram í einhverjum af sálmunum, sem jeg man bara ekki. Já takk fyrir mig og takk fyrir að þið séuð til.


Eðvarð - 09/12/08 22:38 #

Já og fyrirgefið, langaði líka til að minnast á ástandið í samfélaginu, en er jeg hjartanlega sammála því að penningahrun er ekkert í samanburði við farsóttir og hungur. þegar fólk getur étið og haldið á sér hita, þá er ástandið gott. Svo það er ekki þrening, menn geta bara ekki hagað sér eins og fífl lengur.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 10/12/08 08:04 #

Prestarnir minnast ekki á heimsendinn því að það er ekki vænleg söluvara í þeim markhópi sem þeir seilast eftir. (Sem virðist vera börn)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.