Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Munur á réttu og röngu

Því er haldið fram af trúuðum að siðgæði geti ekki staðist nema fyrir tilstilli guðs. Án hans verður siðferðiskennd í besta falli afstæð, guð einn geti gefið algilda mælikvarða. Þessi röksemdafærsla er reyndar til í fleiri útgáfum en við látum nægja að fjalla um þessa, enda hún vinsælust meðal t.d. presta ríkiskirkjunnar og annarra talsmanna trúarbragða.

Það er ekki alveg skýrt hvernig siðferðiskennd kemur frá guði. Annað hvort hefur hann mælt svo fyrir að það skuli vera munur á réttu og röngu eða þessi skilningur streymir einhvern veginn ósjálfrátt frá honum. Það skiptir þó ekki máli hvernig hann opinberast eða hvernig gott og illt varð til fyrir tilstilli guðs.

Bertrand Russell benti á í erindi sínu „Why I Am Not A Christian“ (Af hverju ég er ekki kristinn) að guð getur ekki bæði verið góður og hafa jafnframt komið því til leiðar að það skuli vera munur á góðu og illu. Ef guð er góður þá er allt sem hann gerir gott hvort sem hann hafi mælt fyrir um mun á réttu og röngu eða ekki. Þannig gat ekki bæði rétt og rangt komið í heiminn fyrir tilstilli guðs, heldur verður það að hafa verið til staðar áður en guð kom til. Af þessu leiðir að hafi guð mælt fyrir um mun á réttu og röngu þá er hann sjálfur undanþeginn góðu og illu. Rétt og rangt á ekki við guð.

Þessi ábending Russells gerir þó ekki annað en að segja til um eðli þess guðs sem mælti fyrir um mun á réttu og röngu. Rétt og rangt er merkingarlaust fyrir þann guð. Frá okkar sjónarhóli væri því hinn mikli löggjafi siðferðiskenndarinnar jafnfær um góðverk sem illvirki. Það hins vegar afsannar ekki í sjálfu sér staðhæfinguna að munur á góðu og illu, réttu og röngu, eigi rætur sínar að rekja til guðs. Það er í sjálfu sér ekkert órökrétt við það að siðlaus vera setji öðrum siðalögmál.

Gott og illt

Setjum sem svo að guð hafi mælt fyrir um rétt og rangt, gott siðferði í andstöðu við vont. Nú vitum við eins og Russell benti á að guð hlýtur að vera sjálfur siðlaus. Einhvern veginn slumpast hann þó á að gera þarna greinarmun og setja hugsandi verum reglurnar. Hvaðan kemur þetta skynbragð guðs á góðu og illu? Valdi hann bara eitthvað sem gott og eitthvað annað sem vont af einskonar handahófi, svona rétt eins og hann gerði mun á degi og nóttu án þess að útskýra það frekar af hverju dagurinn var ekki nótt og nóttin ekki dagur?

Sé svo þá er gott og illt, rétt og rangt, bara einhver geðþóttaákvörðun sem menn þurfa í sjálfu sér ekkert við að gera. Þetta er bara venja rétt eins og sums staðar á jörðinni er myrkur um nótt en bjart á daginn en ekki öfugt (samkvæmt sköpunarsögu biblíunnar mun þetta vera óháð hvort öðru). Hafi guð hins vegar raunverulega skilið milli rétts og rangs þá er það hins vegar annað hvort fyrir algera slysni, eða þá að hann hafi vitað um muninn á milli rétts og rangs áður en hann mælti svo fyrir. Hafi það verið fyrir slysni þá erum við engu betur sett en í guðlausum heimi, en hafi guð passað að láta fyrirmæli sín um gott og illt passa við það sem er gott og illt, þá var sá munur til áður en hann mælti fyrir um hann. Munurinn á réttu og röngu getur því ekki stafað frá guði. Hann getur ekki verið upphaf góðs siðferðis.

Rétt og rangt

Önnur rök gegn guðlegu upphafi eru fremur söguleg en rökleg. Gerum aftur ráð fyrir að guð hafi staðið fyrir muninum á góðu og illu. Þessi munur er algildur og óbreytanlegur. Það sem guð skilgreindi sem gott er gott og rétt á hvaða tíma sem er og það sem er illt er rangt hvar og hvenær sem er. Afstætt siðferði er ekki til. Það sem er gott siðferði í dag var það líka fyrir 3000 árum og öfugt, það var og það sama fyrir 100.000 árum.

Sé hins vegar litið til sögunnar og sögu siðfræðinnar þá virðist sem svo að algildar siðferðisreglur hafi einfaldlega ekki verið til eða að mönnum hafi einhverra hluta vegna ekki verið kunnugt um nánari smáatriði hins góða siðferðis fyrr á öldum. Hið fyrra er að sjálfsögðu í mótsögn við kenninguna um guðlegt upphaf siðferðis svo við þurfum ekki að staldra frekar við það.

Sé það síðarnefnda rétt þá er engin ástæða til að ætla að núlifandi menn standi betur að vígi en forfeður þeirra og hafi höndlað endanlega vitneskju um muninn á góðu og illu. Í dag þykir til dæmis gott siðferði að ástunda hvorki þjóðarmorð né stríðsglæpi.

Ef trúa má biblíunni þá mun guð sjálfur hafa staðið fyrir útrýmingarherferðum og mannhreinsunum þegar Ísraelsmenn brutust til valda í Palestínu á sínum tíma eftir langar eyðimerkurvillur í Sinaí. Ekki getur verið að Ísraelsmönnum hafi verið þetta leyfilegt af því þeir voru guðs útvaldir en nasistum ekki, því þá erum við komin beint út í afstæðishyggju. Síðan Móses og hans eftirmenn liðu hafa að vísu aðrir spámenn risið, en bæði fylgismenn Jesúsar og Múhammeðs trúa því statt og stöðugt að þeir sem ekki trúa sinni útgáfu boðskaparins muni vera miskunnarlaust útrýmt í fyllingu tímans og það sé bara allt í lagi.

Afstætt siðferði

Við þurfum svo sem ekki að trúa því að guð beinlínis hafi lagt þetta fyrir, heldur séu þessi voðaverk eða boðuðu fjöldamorð á dómsdegi unnin af eigin frumkvæði illmenna og mannhatara. Eftir stendur samt sem áður að það er ekki fyrr en á síðustu öld að það verður mönnum ljóst, einkum þeirra sem hafa smokrað sér undan myrkri trúarbragðanna, að það er góð siðferðisregla að murka ekki lífið úr heilum þjóðum eða þjóðarhópum eða refsa heilum samfélögum fyrir glæpi fárra. Fram á 20. öldina hefur þó hvorutveggja verið stundað í árþúsunda hernaði um allar heimsbyggðir og ekki þótt sérstakt tiltölumál og gjarnan réttlætt með tilvitnun í einn eða annan ritningarstað.

Guðssinnar standa þannig frammi fyrir ákveðnum vanda. Annað hvort birti guð siðareglur sínar fyrr á öldum og þær reyndust ekki algildar, heldur afstæðar fyrir viðkomandi tíma eða þjóð eða þá að reglurnar voru algildar en mannkyninu eftirlátið að uppgötva þær upp á eigin spýtur með því að reyna þær á eigin skinni.

Nú getur það fyrra ekki átt sér stað ef maður er þeirrar trúar að guð hafi mælt fyrir um rétt og rangt. Hið síðara veldur því hins vegar í reynd að siðareglur, gott og illt, rétt og rangt, eru praktíseraðar afstætt í tíma og milli samfélaga sem eru á misjöfnu „þróunarstigi“ hvort sem þær eru algildar eða ekki.

Stærstu trúarbrögð heimsins eru opinberunartrúarbrögð í þeim skilningi að miklir spámenn, gúrúar eða jafnvel sjálfur frumburður guðs eingetinn gengu meðal manna ekki svo margt fyrir löngu og predikuðu / opinberuðu vilja guðs, og ekki síst hin algildu siðalögmál. Vitaskuld er margt spaklegt sem þessir menn hafa sagt, sé rétt eftir þeim haft. Hitt er þó að enginn þeirra sagði til um öll þau siðfræðilegu álitamál, algildu mannréttindi og þess háttar sem venjulegir siðfræðingar með B.A.-próf upp á vasann geta núna romsað upp úr sér. Hafi þeir þekkt út í æsar öll hin dýpstu leyndarmál algildra siðalögmála virðast hinir merku upphafsmenn trúarbragðanna, Móses, Búdda, Jesús og Múhammeð fremur hafa sniðið opinberun sína að aðstæðum hvers tíma og samfélags, en látið hjá líða að segja fylgissveinum sínum í eitt skipti fyrir öll hver hinn endanlegi algildi siðaboðskapur er.

Saga og siðfræði

Fyrir þá sem vilja leggja stund á siðfræði er því hvernig sem allt veltur jafn erfitt að sanna tilvist algildra siðferðisviðmiðana eins og að sanna tilvist guðs. Það er rétt að á hverjum tíma finnst manni sem siðareglurnar séu hlutlægar og því algildar. Sé litið til sögunnar og jafnvel samtímans, þá er þó svo ekki um margt sem okkur finnst sjálfsagt í dag. Þar sem sjálf tilvist algildra siðferðisviðmiðana er ekki einu sinnu sönnuð sjálf er þannig útilokað að þær geti talist sönnun fyrir tilvist guðs.

Loks má nefna þá leið að skoða helstu meginreglur siðfræðinnar, líka þau boðorð sem spámennirnir hafa boðað og skoða hvort það sé nauðsynlegt að þessar reglur komi frá guði. Hér verður ekki farið í saumana á því, en það má draga sterklega í efa að til sé algild siðaregla sem útilokað er að hafi orðið til nema fyrir tilstilli guðs.

Skoðum til dæmis gullnu regluna. Hún kemst býsna nálægt því að teljast algild. Hún, eða afbrigði hennar er til í flestum trúarbrögðum og heimspekikerfum manna. Í samræðum Konfúsíusar segir t.d „Tsekung spurði , „Er til eitt orð sem getur staðið sem meginregla lífsins?“ Konfúsíus svaraði, „Það er orðið shu – gagnkvæmni: Gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér.““ (Samræður 15:23). Gullna reglan var því ekki fundin upp af Jesú en hann orðaði hana reyndar skemmtilega en öfugt við Konfúsíus: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matt 7.12). Í anda Konfúsíusar er gullna reglnan gjarnan kölluð gagnkvæmnisreglan.

Þessa reglu þarf þó engan guð til að skapa. Í leikjafræði er þekkt hin svokallaða valkreppa fangans. Dæmið var upphaflega sett upp til að sýna fram á að sjálfselsk hegðun væri alltaf betri fyrir einstaklinginn (fangann) en samvinna (samstaða með hinum fanganum). Í frekari rannsóknum hefur hins vegar komið í ljós að við endurtekna framkvæmd fangavalkreppunnar þá er besta leikáætlunin sú að gera alltaf það sama og fanginn sem þú hittir síðast, (sjá hér góða grein í Science News eftir Ericu Klarreich þann 24. júlí 2004: „Generous players: game theory explores the Golden Rule's place in biology“. Mbl.is gat þann 19. mars 2008 niðurstöðu einnar slíkrar rannsóknar undir fyrirsögninni „Þeir vinsamlegu verða ofan á“).

Gullnu regluna er þar með óþarft að skýra með boðorði guðs eða erindreka hans. Þróunarkenningin, hinir hæfastu lifa af og gera það ef þeir fylgja gullnu reglunni, kemur fullkomlega í stað guðlegrar forsjár!

Skynsemi og réttlæti

Í blálokin er svo rétt að benda á að rannsóknir á valkreppu fangans leysa einnig úr þraut Immanuel Kants. Hann kom með útgáfu af hinni siðrænu sönnun fyrir tilvist guðs sem var byggð á skynsemisrökum: Að stunda gott siðferði er skynsamlegt. Það getur þó ekki verið skynsamlegt nema til sé réttlæti, þ.e. gott siðferði sé verðlaunað en illu refsað. Þar sem það er augljóst að illmenni lifa ekki síður góðu lífi en aðrir og gott fólk verður fyrir allskyns óláni þá getur réttlætið ekki verið til nema í lífi eftir þetta líf. Þar af leiðandi er guð til sem útdeilir réttlæti á himnum, því án þess getur gott siðferði ekki verið skynsamlegt.

Nú sjá menn það í hendi sér að ofangreindar rannsóknir á fangavalkreppunni benda einmitt til þess að það sé einmitt skynsamlegt að fylgja gullnu reglunni vegna þess að verðlaunin eru í þessum heimi. Þar með er a.m.k. hvað þá reglu varðar grundvellinum kippt undan röksemdafærslu Kants.

Þannig væri hægt að taka fyrir siðalögmálin sem eignuð hafa verið guði hvert af öðru. Ég læt það þó ekki eftir mér en leyfi öðrum að spreyta sig. Það er þó reyndar ekki efasemdarmanna að skýra forsendur allra mögulegar og ómögulegra siðareglna. Sönnunarbyrðin liggur hjá hinum trúuðu. Það ætti að vera verðugt verkefni fyrir þá að benda á eina siðareglu sem sé þannig úr garði gerð að útilokað sé annað en að hún sé komin fyrir tilstilli guðs. Verði þeim að góðu.

Ómar Harðarson 12.11.2008
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Siðferði og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.