Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sunnudagsbréf

I

Fjármálaóveðrinu hefur ekkert slotað síðan síðasta Sunnudagsbréfið birtist, þvert á móti. Fjöldauppsagnir, niðurskurður, aukið atvinnuleysi og gífurleg gjaldþrot er það sem einkennir þjóðfélagið í dag. En þó er það ein stofnun sem virðist una sig vel í þessari krísu, vílar ekki fyrir að troða sér í fréttirnar og reynir að maka krókinn í vonleysinu, en það er náttúrulega okkar eigin elskulega Þjóðkirkja og svartstakkarnir úr þeim ranni. Gvuð blessi móður þeirra sem ól þá upp.

Hæstaréttarlögmaðurinn Lorentz Stavrum hélt opin fund um dóm Mannréttindadómstóls í Strassborg frá 29. júní 2007, en forsaga þess máls var á þessa leið:

Foreldrar nokkurra barna í Noregi ákváðu að lögsækja Norsk menntafyrirvöld vegna kristinfræðikennslu í almennum skólum. Foreldrarnir, sem eru húmanistar, töldu stjórnvöld brjóta á mannréttindum sínum og þó sérstaklega á rétti þeirra að ala börn sín í þeirri lífsskoðun sem þau aðhylltust.

Höfum þetta í huga.

II

Hvernig stendur á því að við hlæjum að Aðalríki, Kjúlla litla og nötturum en tökum heimsendaspámanninn frá Palestínu fyrir 2000 árum alvarlega? Er ekki deginum ljósara að hann hafði rangt fyrir sér? Og hver er tilgangurinn með hrakspánum? Getur verið að það sé að skapa ótta?

Himininn er að hrynja! var fyrsta grein október-mánaðar en þar tekur Reynir Harðarson saman heimsendaspádóma sem nokkrir rugludallar hafi haft frammi á landinu undanfarin ár. En viti menn?! Hér erum við enn.

Kári Svan Rafnsson sagði frá skráningastarfinu, en félagar á vegum Vantrúar hafa um skamms tíma hjálpað fólki við að leiðrétta trúfélagsskráningu sína til að hún "endurspegli ögn meir lífskoðun landans. "

Bók Alister McGraths, Ranghugmyndir Richards Dawkins, kom út fyrir stuttu og einn af þeim sem hafa viðurkennt að hafa lesið hana er okkar eigin Hjalti Rúnar Ómarsson. Greinarhöfundur fer nokkuð ítarlega í gegnum þetta sorprit og skrifaði bókadóminn Ranghugmyndir Alisters McGraths, réttlætanlegur titill í ljósi þess að Hjalti er einnig einn af þeim sem hefur lesið The God Delusion eftir téðan Richard Dawkins.

Brynjólfur Þorvarðarson spyr hvort að Þjóðkirkjan sé ógn við lýðræðið? Inngangspunktar Brynjólfs eru kenningar menntafrömuðsins Johns Dewey um lýðræði, lýðræðisvitund og menntun sem hann ritaði við upphaf síðari heimstyrjaldar. Dewey taldi að helsta ógn við lýðræðið eru ytri öfl, "hvers konar yfirvalds sem stendur utan almennrar reynslu og er því ekki þátttakandi í ferlinu":

Í dag er það ekki kommúnismi eða fasismi sem ógnar lýðræðinu heldur trú sumra að það sé eitthver ytra afl, “yfirvald utan almennrar reynslu” eins og Dewey hefði sagt, sem sé hið æðsta yfirvald – og þó einkum sú árátta þessara sömu manna að neyða aðra einstaklinga og jafnvel samfélagið sjálft undir þennan misskilning þeirra um lífið og tilveruna.

Spurningu Brynjólfs er svo svarað af Frelsaranum í pistlinum Þjóðkirkjan ógnar lýðræðinu en hann rekur á hundavaði upphaf, tilurð og hrun kristindómsins á tímum Upplýsingar og 20. aldar. En bendir á hið andlýðræðislega ríkiskirkjufyrirkomulag og vísar sérstaklega í 62. grein stjórnarskrá lýðveldisins.

Síra Þórhallur Heimisson kom með þá "fræðilegu" kenningu á dögunum um að skjaldamerki Íslands sé beinlínis kristið að uppruna. Þessu er Óli Gneisti Sóleyjarsson frekar ósammála og ritaði Rammheiðnar landvættir. Þórhallur, fræðimaðurinn sem hann er, benti honum Óla á að hafa uppá heimildunum sjálfur - en það hlýtur að teljast alveg fádæma heimskuleg hegðun af "fræðimanni" að láta aðra sjá um að finna heimildir til að styðja sína kenningu. Eða er ég að misskilja?

Þröngsýni og hroki eru víst einkenni trúlausra samkvæmt trúuðum sem sömuleiðis eru óupplýstir mikilmennskubrjálæðingar. Reynir Harðarson telur svona skítkast skila litlu en neitar því ekki að greinin hans - sem fjallar að mestu um lokaða og opna heimsmynd - gæti sosum verið af þeim meiði. Davíð hafði þetta að segja:

Vera má að þér finnist við [grátleg] og einföld að miða líf okkar við orð sem skrifað var fyrir um tæplega 2000 árum eða Andann og frelsarann sem við eigum í persónulegu samfélagi við.
En þegar öllu er á botninn hvolft þá ber þér að umbera og virða líf okkar eins og annara Íslendinga.
Það að umbera og virða er langt í frá það sama og að samþykkja eða telja gáfulegt.#

Rétt er það. En umburðarlyndið og virðinginn virðist ekki vera gagnkvæm, sem er miður. Gott dæmi um það er hið linnulausa trúboð í leikskólum sem ríkiskirkjan stendur fyrir. En Sigurður Ólafsson ítrekar þann sannleik að það er allskostar engin sátt um það að prestar heimsæki leikskóla.

Teitur Atlason las Alkasamfélagið eftir Orra Harðarson, en hann var "óður og uppvægur að fá að ritdæma hana fyrir Vantrú" en hann hefur staðið í sömu sporum og Orri og ótal fleiri sem ekki hafa fundið sig í AA-samtökunum. Einhverjar vangaveltur voru um hvort að önnur meðferðarúrræði væru á boðstólnum sem ekki blönduðu trú og guði inní ferlið. Halldór Carlsson benti góðfúslega á það:

SOS – fundir (Secular Organization for Sobriety / Sjálfshjálp og Samstaða):
Von, húsi SÁÁ Efstaleiti efri hæð miðvikudaga kl. 18.00
LSR-fundir (Lifering, Secular Recovery / Lífhringur, Samhjálp, Raunsæi):
Brautarholti 8 efri hæð laugard. Kl. 12.00 #

Efnafræðingurinn Ragnar Björnsson er heldur pirraður á hjali heilsufrömuða um gervisykur og heilsukukl en þeir telja verið sé að eitra landann með "kemískum efnum." Ragnar hefur m.a. þetta að segja:

Kemísk efni er ekki bara að finna í öllum mat, heldur í öllu. Allt sem þú sérð í kringum þig er kemískt. Við sjálf erum kemísk.

Hann vísar á ótal rannsóknir sem stangast verulega á það bull sem t.d. Benedikta Jónsdóttir hjá Manni lifandi viðhefur um MSG, aspartam, hvítan sykur og fleira. Þundur Freyr kímir:

Aspartam, MSG og sérstaklega dihydrogenmonoxide eru kemísk efni sem bætt er í flest allan mat og eru baneitruð.

Þú ert bara að dreifa áróðri fyrir stóru lyfjafyrirtækin og færð áreiðanlega fúlgu blóðpeninga fyrir.#

Að sjálfsögðu er Þundur að spauga, en þó er svona málflutningur ekki fjarri lagi heilsufarssamsærisnöttkeisa.

En kjaftæðið er ekki búið, Sverrir Guðmundsson bendir á að Jen Fe heilsuplásturinn er pýramídasvindl. Sama gamla kjaftæðið um einhvern handahófskenndan hlut sem inniheldur eitthvað náttúrulegt, en með nýju nafni og ögn breyttum umbúðum, er allra meina bót og, auðvitað, rándýrt. Helgi D. er dálítið ósáttur við þessa grein og kemur með þann vitnisburð að konan hans hafi prófað þetta vegna slæmra verkja og er allt önnur manneskja í dag og umræðan sem fylgir í kjölfarið er um margt áhugaverð.

III

Einsog ég minntist ögn á þá hefur ríkiskirkjan haft sig mikið frammi í fjölmiðlum. Meira en vanalegt er, enda kreppuástand. En hún hefur sömuleiðis uppskorið alveg óvenju mikla gagnrýni frá öðrum en okkur í Vantrú. Já, merkilegt nokk, við erum ekki þau einu sem spottum hræsnina og græðgina. Þó er ég aðallega að tala um moggabloggið. Og nei, það er ekki hinn ástsæli DoctorE.

Rennum aðeins ögn í gegnum þetta, og tekið skal fram að þetta er bara obbinn af því sem moggabloggarar hafa að segja:

Þann sextánda óktóber kom frétt varðandi þess að kirkjan sé að krefja milljónir af ríkinu útaf Kárahnjúkavirkjun. Haraldur Haraldsson hafði meðal annars þetta að segja:

Er þetta nú rétti tímin til þessa????,hvað er að þarna ,Aðskilnaður ríkis og kirkju á bara að vera algjör!!! #

María Richter spyr hvort þeir séu ekki með öllu viti og Jón Halldór Guðmundsson veltir því fyrir sér hvort þetta sé smekkleg tímasetning.

Karl Sigurbjörnsson reyndi að vera föðurlegur gagnvart þjóðinni með því að segja að "Íslendingar hafa aldrei verið auðugri" þann tuttugasta síðastliðin. Halldór Örn Egilsson segir þetta vera dæmalausa hræsni:

Að láta slík ummæli frá sér fara í einhverri hégómsræðu á Kirkjuþingi þegar fjöldi Íslendinga á sannarlega um sérlega sárt að binda og á vissulega vart til hnífs og skeiðar er til merkis um einhvern siðferðislegan misbrest.

Marta Gunnarsdóttir telur biskup taktlausan og HomerSimpson segir þetta vera nærgætið ávarp til "yfirstéttar"

Þegar Kirkjuþing ríkiskirkjunnar var sett þann 25. október var lítið um húllumhæ hjá notendum mbl.is. Fullur benti á "að það er hægt að spara 6 milljarða eða svo á ári ef við hættum að pumpa fé í þetta áhugamál" og Morten Lange spyr "Af hverju ætti ekki kirkjan að innheimta sóknargjöldin sjálf ?"

Kristjana Bjarnadóttir hafði eftirfarandi að segja þegar ungt fólk þingaði um málefni kirkjunnar:

Seinustu ár hefur þjóðkirkjan sótt stíft inn í leikskóla og grunnskóla. Bænahald þykir víða sjálfsagður partur í almennri kennslustund grunnskóla, kirkjuheimsóknir í desember hafa verið óvalkvæðar og sóknarprestar hafa fengið leyfi skólayfirvalda til að koma í kennslustund hjá fermingarárgangi í þeim tilgangi að útdeila viðtalstímum vegna fermingar.

Er það réttlætanlegt að skikka grunnskólabarn utan trúfélaga til að spenna greipar og fara með bænir án þess að hugur fylgi máli?

Er það réttlætanlegt að börnum af öðrum trúfélögum og utan trúfélaga sé ekki boðið upp á val þegar farið er til kirkju í jólamánuði?

Rúmlega 80% þjóðarinnar eru skráð í ríkiskirkjunna, en samt fjölgar prestum!. Hvítur á leik finnst margt grunsamlegt við þessa nýju séra,Torfi Kristján Stefánsson finnst það líka og Jenný Anna Baldursdóttir er ansi pirruð útí þessa presta.

Kjararáð mun eflaust taka mið af launaskerðingu presta og bæta aumingjunum upp þegar fermingarfræðsla og skírnir verða gjaldfrjálsar. Hvíti Riddarinn vissi ekki einu sinni að það þyrfti að borga fyrir fermingarfræðslu, Gunnar Kr. bendir á að allar athafnir séra Péturs Þorsteinssonar í Óháða söfnuðinum eru ókeypis.

Þetta sýnir bara hvað ríkiskirkjan er aftarlega á merinni.

Að lokum var lagt til á Kirkjuþingi eftirfarandi tillaga, að:

embættiskostnaður og annar kostnaður en laun presta þjóðkirkjunnar erlendis, verði miðaður við mynt viðkomandi lands en ekki íslensku krónuna.

HIP sér að það er aldeilis samhugur í verki hjá prestunum, Hallgrímur Þór Axelsson bendir á þá staðreynd að trú kostar peninga og vill aðskilnað, og Seifur spyr hvort að námsmenn fái ekki sama rétt. Leyfum DoctorE að eiga lokaorðið í þessari smá moggabloggssyrpu:

Hér með skora ég á alla landsmenn að ganga í málið og segja sig úr ruglinu... þó svo að ímyndaði vinur ríkiskirkjunnar væri til þá HATAR hann peninga... peningar eru rót alls ills að hans mati... kuflar sáu að eitthvað varð að gera og því ákváðu þeir að þeir sjálfir ættu að fá tíund af því sem guddi hatar

Gagnrýni gagnvart ríkiskirkjunni leynist víða og í stað þess að fara í fýlu og ásaka fólk um dónaskap og hatur ættu þessir himnafíklar að fara í alvarlega naflaskoðun.

Að öðrum og ögn léttari nótum - eitthvað sem birtist ekki hjá mbl.is - þá er okkar elskulegi, sannleiksleitandi siðapostuli Stefán Einar Stefánsson (hann hefur þó ekki ritað stakt orð á blogginu sínu síðan í febrúar, sem er miður) að sækjast eftir embætti prests í Mosfellsprestakalli. Við í Vantrú vonum innilega að hann fái djobbið og nái langt innan ríkiskirkjunnar - enda er sífelldur skortur á siðlausum lygamörðum þar í bæ. Fyrst maður er svona í góðu skapi þá er vitaskuld óskandi að síra Geir Waage verði kjörinn biskup í nákomnri framtíð.

Aldrei að vita. En áfram Stefán Einar! Við styðjum við bakið á þér.

Svo má ég til með að minnast á að í næsta mánuði, nánar tiltekið þann 20. desember, verður hinn árlega Andkristnihátíð, sem er hálfgerð uppskeruhátíð blakk- og deþþmetalsenunar á Íslandi. En sú hátíð hófst sama ár og Kristnihátíðarhúllumhæjið var og kostaði skattborgarann drjúgan skilding. Um hátíðna verður rætt frekar síðar í mánuðnum þegar dagskráin verður komin á hreint og staðsetning ákveðin. Má samt til með að minnast á að Andkristnihátíðin hefur ekki og mun ekki kosta þjóðina krónu. Svo er líka alveg tilvalið að rifja upp orð einfeldningsins Kalla litla þegar viðburðurinn var haldinn í fyrra:

Í Reykjavík auglýsir Tónlistaþróunarmiðstöðin tónlistarhátíð rétt fyrir jól undir heitinu „Andkristni 2007.“ Hátíðin er beinlínis til höfuðs kristinni trú. Tekið er fram í auglýsingunni á vefnum að samtökin Vantrú verði með bás og eyðublöð til að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Hátíðinni er ætlað að rífa niður, niðra og níða það sem kristnum mönnum er heilagt og hefja dauðann og djöfulinn á stall. Mér varð illt af því að lesa vefsíðuna með auglýsingunni og meðfylgjandi athugasemdum haturspostulanna. #

Ooooohhh... hann er svo mikið krúttísmútt! Vonandi að hann hreyti eitthverju álíka gáfulegu um þessa hátíð, og þau sem það sækja, þetta árið. Enda er hann svo gjarn að gubba útúr sér kjaftæði. En fyrir áhugasama er sæmilega lífleg umræða um þessa hátíð á umræðuvefnum Töflunni.

IV

Fjármál ríkiskirkjunnar og -klerka hafa verið dálítið í deiglunni hér á Vantrú undanfarið og ekki af ástæðulausu. Þegar þessir vargar hefja upp sína raust um sparnað og hófsemi í peningamálum er ekki laust við að um mann fari dálítill hrollur vitandi að þessir kálfar sjúga grimmt á spena ríkisins og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af sínum fjármálum, að svo virðist enn sem komið er. Það þýðir ekki heldur að réttlæta þessi ofurlaun með vísun í að það er svo mikið að gera hjá þeim, því það eru fleiri sem standa vaktina en prestarnir einsog Sverrir Guðmundsson greindi ögn frá.

Í kjölfarið á grein minni um gullkálfana ræddi Fréttablaðið við formann Vantrúar, Matthías Ásgeirsson. Áður en lengra er haldið má ég til með að leiðrétta eina litla og saklausa rangfærslu sem þar kom fram. Það er ég sem er ritstjórinn, ekki formaðurinn. Gott að hafa svona hluti á hreinu, þó smávægilegt sé..

Auðvitað eru ekkert allir hrifnir af þessari umræðu. Sumir minni spámenn, einsog séra Vigfús Þór Árnason og séra Ólafur Jóhannsson, formaður Prestafélag Íslands, segja að þessi laun sé ekkert þeim að kenna og telja að við séum að "skapa einhver leiðindi" gagnvart kreppuklerkunum og að launin þeirra eru ekkert eins há og við höfum bent á. Sem er rakalaust kjaftæði. Með svona málflutningi - beinlínis lygum og þvættingi - þá eru þeir bjóða uppá svona "leiðindi" og, einsog ég benti á með moggabloggsumræðuna, þá erum við ekkert þeir einu sem erum að "skapa leiðindi."

Síðan virðist vera að þessir andskotar ætla að nýta þetta óvissuástand til að réttlæta hegðun sína með ógeðfelldri könnun sem á væntanlega að sýna hvað við erum alveg agalega trúuð á þessum tímum! Nýta sér vonleysið, volæðið og depurðina einsog óforskammaður krakkdíler í gettói! Hvað í ósköpunum amar að þessu fólki? Mikið agalega hljóta þeir að eiga bágt.

Já, við bendum á hræsnina sem felst í þessu "kreppuátaki" kirkjunnar. Því þessir kónar eru ekkert beinlínis góð fyrirmynd þegar kemur að því að herða sultarólina á þessum tímum - og þó það sé slælegt að persónugera þetta þá er eitt skýrasta dæmið um þessa hræsni kirkjunnar manna eitt stykki 10 milljón króna Benz-jeppi! Sorrí séra Pálmi Matthíasson, en taktu þetta til þín!

Kristín Kristjánsdóttir kom með gríðarlega góða og uppbyggilega grein sem beint var sérstaklega að starfsmönnum Þjóðkirkjunnar sem heitir Tækifærin í kreppunni þar sem hún góðfúslega bendir þessu fólki á að sýna á sér nýja og betri hlið; með því til dæmis að lækka útgjöld, lækka laun og fleira til. Vera rausnarlegir. Það hefði verið óskandi að gullkálfarnir mundu lesa hana. En miðað við hegðun starfsmanna þessara sturluðu stofnunar þá virðist þessir dólgar líta á þetta sem sóknarfæri í kreppunni.

Ríkiskirkjan er fyrirtæki - sumir mundu segja glæpasamtök - sem græðir á gvuðsorði og miðað við þetta heljarins fokking fjáraustur sem fer í þetta apparat þá er ekki skrýtið að æðstu ráðamenn kirkjunnar virðast hugsa um fátt annað en budduna sína og annarra í nafni Drottins, halelúja, amen.

Hvað er svona skrýtið við það að gagnrýna þessa Mammonsdýrkun manna sem klæða sig í kjóla í nafni Jesús? Hvað réttlætir þessa peningasóun? Einhver hundrað ára gamall samningur?! Skuldum við kirkjunni pening? Nei! Því er akkúrat öfugt farið.

Sýnið fordæmi, helvítin ykkar!

Guð blessi Ísland, mæ ess!

Þórður Ingvarsson 02.11.2008
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?