Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sunnudagsbréf

I

Mánuðurinn hófst auðvitað 1. apríl, og hvað er gert 1. apríl? Aprílgabb Vantrúar tókst ansi vel. Notast var við aðalástæðu fyrir aðskilnaði kirkjudeilda: ágreining útaf tittlingaskít. Þó það sé ekki beint hægt að hlaupa apríl yfir netgabbi, þá féllu þónokkrir fyrir þessu og má segja að fólk hafi bloggað apríl. Rimman hófst með uppdiktuðum fleygum orðum sem stíluð voru á Richard Dawkins. Sett var upp hroðvirknisleg heimasíða er fékk heitið Andkristni.net, og öfgafyllra og hatrammara félag var í pípunum. Á heimasíðunni birtist manífestó nýja félagsins frá Birgi Baldurssyni og tvær frekar æstar greinar fylgdu í kjölfarið (ein greinin var meira segja tekin út því hún þótti svo öfgafull!). Svo var látið gamminn geysa á vefnum; harðorðar yfirlýsingar, bloggfærslur og ýmsar athugasemdir í bland við svik og pretti.

Þemavika aprílmánaðar var nýöld og heppnaðist bærilega. Þemavikur Vantrúar munu vissulega halda áfram og í lok maí beinum við spjótum að vísindakirkjunni. Sá sértrúarsöfnuður hefur ekki enn náð að skjóta rótum hér svo það er ágætt að hafa smá efni til að drepa illgresið ef sú skítlega stofnun reynir á það. Held að flest allir trúaðir og trúlausir geta verið sammála sín á milli um að til eru takmörk fyrir yfirgengilegu trúarrugli einsog því sem vísindakirkjan boðar, ég meina, dísús kræst!

II

Óli Gneisti Sóleyjarsson gerir grein guðfræðinemans Grétars að umtalsefni og kennir honum og öðrum örlitla lexíu úr frumkristni ásamt því að sýna ögn fram á það að sá hópur sem stendur mest að ofsóknum gagnvart öðrum hópum í dag er sá kristni. Þetta fórnarlamba- og píslarvættisvæl kristinna er orðið alveg gífurlega þreytandi og krosslafarnir verða fara horfast í augu við þá augljósu staðreynd að vera stærsta og fyrirferðmesta fokking költ í heiminum!

Hin frekar öfgafulla aprílgabbgrein er efniviður Birgis Baldurssonar í grein þar sem hann vill afrugla samfélagið með því að rétta opinberlega yfir ruglinu til að stuðla að betur upplýstu og menntuðu samfélagi í framtíðinni.

Það er varla hægt að finna verri blöndu en trúarbrögð og pólítík. Og þegar leiðtogar vilja fá fjöldann til að styðja sig við landvinninga og stríðsrekstur þá er um að gera að hafa frábæra lygi sem pöpullinn gleypir hráa. Sviðsett trúarbragðastríð eftir Véstein Valgarðsson ræðir einmitt um það hvernig trúarbrögð, t.a.m. kristni, hafa verið notuð sem léleg afsökun til að fá meiri völd, meiri lönd og meira fé. Lárus kemur með eina vangaveltu varðandi þessa pælingu:

En það er reyndar eitt stríð eða átök sem ég sé ekki alveg hvar hagsmunirnir liggja, þ.e. stofnun Ísraelsríkis eftir seinni heimstyrjöld. #

Vésteinn segir:

Stofnun Ísraelsríkis var fullkomnun og hápunktur zíonismans, þjóðernishyggju evrópskra gyðinga. Þeir fóru ekki varhluta af evrópskri þjóðernishyggju, frekar en aðrir, voru óvíða velkomnir sem hluti þjóðarinnar og þurftu því að stofna sína eigin þjóð. Gyðingar eru eitt af þessum (fáu) sérstöku keisum, þar sem trúin var órjúfandi þáttur í sjálfsmynd þeirra sem þjóðar.#

Andlegt og líkamlegt ofbeldi er með öllu ólíðandi og það að tilbiðja hverskyns ofbeldi - þjáningu, pyntingu og dauða - er efniviður Brynjólfs Þorvarðarsonar í grein sinni Móðgandi myndbirtingar.

Uppáhaldskaþólikki allra landsmanna, Jón Valur Jensson, skrifar pistil um þessa grein Brynjólfs og auðvitað er sitthvað stingandi og særandi fyrir mann sem er kaþólskari en páfinn.

Ónefndur biskup ríkiskirkjunnar reyndi einu sinni að vera sniðugur með því að reyna snara vitleysunni “no atheists in foxholes” yfir í íslenskan veruleika og segja að enginn sé trúlaus í sjávarháska - sem sjómaðurinn Sigurður Ólafsson er hjartanlega ósammála. Rétt viðbrögð og nútímatækni virka rúmlega 100% betur en að leggjast á kné og biðja til gvuðs. Og ef nútímatækni, s.s talstöðvar og þessháttar, er ekki til staðar, þá ætti fólk frekar að reyna bjarga sér sjálft heldur en að biðja og vona.

Hvað er að hafa sína barnatrú? Teitur Atlason reynir að svara þeirri spurningu með því rifja upp sína barnatrú:

Barnatrúin mín var ferlega einföld satt best að segja. “Góðu” fóru til himna og þeir “vondu” til helvítis.

Svenni kímir:

Er ekki átt við trú á börn? Sjálfur er ég trúlaus. Ég tel mig að vísu hafa séð börnum bregða fyrir hér og þar en það eru eflaust einhverjar rökréttar skýringar á því.#

Frelsarinn bendir meðal annars á þann mun sem skilur að Sókrates og Jesú í grein sinni Lærisveinar einn og tólf. Inngangspunkturinn er grein eftir Sören Wibeck sem birtist í Sögunni allri í febrúar, en þar vill greinarhöfundur reyna koma með sagnfræðilega skírskotun varðandi tilvist lærisveinana tólf, og auðvitað Jesús, en það eru, þegar öllu er á botninn hvolft, afar fátæklegar heimildir til um að þetta fólk hafi verið uppi.

Það eru 359 kirkjur á landinu og miðað við skráða meðlimi ríkiskirkjunnar gerir það 703 einstaklinga per kirkju. Þetta er umræðuefni Matthíasar Ásgeirssonar í Kirkjur eru tímaskekkjur og kemur hann með þá uppástungu að í stað þess að hola niður kirkju í hvert hverfi ætti að byggja félagsmiðstöðvar fyrir alla, óháð trú.

Það er ótölulegur fjöldi múslímskra karla sem fetar í fótspor falsspámannsins. Nýleg frétt þess efnis að 8 ára gömul stúlka hafi fengið að skilja við 28 ára gamlan “eiginmann” sinn í Jemen er eitt dæmi þess, en Múhaðmeð giftist sex ára gamalli telpu og svaf hjá henni þegar hún var níu ára. Pistlahöfundurinn Hjalti Rúnar Ómarsson bendir á að samkvæmt múslímum þá lifði spámaðurinn “lýtalausu lífi” og er “fullkomin fyrirmynd allra manna”.

Rökfræði er viðfangsefni sem starfsmenn ríkiskirkjunnar eiga töluvert bágt með, sérstaklega þegar kemur að trúboði, skóla og Vinaleið. Reynir Harðarson í sinni einskæru góðmennsku hannaði Rökfræðipróf 201 sérstaklega fyrir þann hóp. Vissulega er öllum frjálst að renna í gegnum það og skoða forsendur og niðurstöður. Svo er ein prófspurning, en engin sérstök einkunn verður gefin. Valtýr Kári kemur með eina viðbót við þetta próf:

Forsenda 1: Ef að lygi er endurtekin nógu oft þá verður hún samþykkt sem staðreynd.

Forsenda 2: Ef að eitthvað er samþykkt sem staðreynd þá verður því tekið sem sannleika.

Niðurstaða: Lygi getur orðið sannleikur, heilagur sannleikur. #

Sjö á dag skrá sig úr ríkiskirkjunni, þetta er einföld tölfræði einsog Brynjólfur Þorvarðarsson bendir á. En þetta bákn vill alls ekki missa spón úr aski sínum, auðvitað ekki, enda er þessi stofnun með mannhatandi, fégráðugan og valdsjúkan einstakling við stjórn sem telur það góða taktík að herja á leik- og grunnskólabörn, helst án þess að foreldrar viti af því, til að reyna bæta upp minnkandi mætingu í kirkjum og þessa fækkun í ríkiskirkjunni. Ótrúlegt að öldungurinn noti þessi vopn úr vopnabúrinu til að berjast á móti vindmyllum. Margrét Hafsteinsdóttir er ekki ein um það að finnast:

[...] alveg með ólíkindum hvað biskupinn er neikvæður og neikvætt þenkjandi yfirhöfuð.#

Það eru fáir fæðingargallar jafn hræðilegir og harlequin ichthyosis. Þessi sjúkdómur veldur því að húð barna verður að stórum, tígullaga og hörðum hreisturflögum. Ef algóður, alvitur og almáttugur guð er virkilega til, af hverju leyfir hann þessu að gerast – fyrst hann á að vera ógó góður og getur hindrað þetta með því að veifa galdravendinum sínum. Nema náttúrulega að þessi tiltekni guð sé gallaður einsog Hjalti Rúnar Ómarsson bendir réttilega á. Sæmilega líflegar umræður fylgja greininni þar sem gimbi spyr meðal annars:

Þér nægir Hjalti, að benda á eitt tilvik þar sem barni sárnar til að halda þessari rökfærslu við. Því hvaða Guð gæti verið svo vondur?

En hvernig Guð væri það sem stuðlaði að því að allir væru alltaf happí? Jú, hann hlyti að vera mekanískur, ekki satt?

Nýaldarþemavika Vantrúar byrjaði með vasa fulla af grjóti, þar sem ég velti því lítillega fyrir mér af hverju fólk getur verið svo trúgjarnt og vitlaust þegar kemur að alveg hreint stórfenglegu kjaftæði.

Tvær erlendar greinar birtust. Björn Darri bætti við efahyggjuorðabókina með pistlinum Töfrahugsunarháttur og Karl Gunnarsson þýddi grein eftir Brian Dunning sem fékk heitið Höfuð, herðar, hné og tær.

Vísað var á myndbrot með töframanninum og skeptíkernum James Randi, þar sem hann ræðir um smáskammtalækningar. Benda má að þetta er bara kortersbrot af tveggja tíma fyrirlestri sem hann hélt í Princeton-háskólanum 2001.

Ekki vitum fyrir víst hvort að völvan hafi séð eftirfarandi fyrir, eflaust ekki, en spáið í þetta: Núna í maí mun ganga í gildi lög innan ESB um að kuklarar, spámenn og miðlar verði sjálf að koma með sönnun varðandi hæfileika sína en ekki þeir sem efast um þá. Vonandi að þessi lög taki gildi hér útaf EES.

Þegar heilbrigðisráðuneytið, undir forystu Sivjar Friðleifsdóttur, byrjaði að veita leyfisbréf fyrir kukli heyrðist ekki múkk frá læknastéttinni. Birgir Baldursson spyr einfaldrar spurningar: hvar eru læknarnir? Hvernig geta hámenntaðir einstaklingar með meira en 6 ára nám að baki í vísindalegum vinnubrögðum, meðal annars, horft framhjá því að hómópatar og nálastungufólk vinni innan Landspítalans? Af hverju lætur þetta fólk ekki í sér heyra þegar kraftaverkahyski einsog Benny Hinn og Charles Ndifon koma til landsins og segjast geta læknað ýmsa sjúkdóma, t.a.m. krabbamein? Það getur ekki verið að aðeins einum lækni hér á landi sé bæði annt um heilsu og hug Íslendinga? Í alvöru, hvernig geta allir þessir læknar með góðri samvisku hundsað allt þetta kjaftæði sem oft flæðir um landið?

En allt þetta kjaftæði gerði það að verkum að það var ekki laust við að vera viðeigandi að enda mánuðinn á einu góðu og klassísku kjaftæði þegar Birgir sá í sjónvarpinu einyrkja með spákvist.

III

Þórarinn Eldjárnn hélt ágætis tölu yfir börnum sem voru að fermast hjá Siðmennt nú í apríl, þar sagði hann meðal annars:

Til að geta verið sátt við sjálf ykkur þurfið þið fyrst og fremst að gæta þess að bera alltaf virðingu fyrir sjálfum ykkur. Það er algjör forsenda þess að aðrir beri virðingu fyrir ykkur og um leið alveg nauðsynlegt til að þið getið borið virðingu fyrir öðrum. Gagnkvæm virðing er nauðsynleg í öllum samskiptum manna. Ef hún væri alstaðar fyrir hendi væri margt öðruvísi í veröldinni en það er nú.

Orð að sönnu, og orð sem sumir ónefndir starfsmenn ríkiskirkjunnar mættu og í raun ættu að taka til fyrirmyndar og lifa eftir þeim. Það væri heillavænlegt fyrir okkur öll.

Hvernig nennir ríkiskirkjan að standa í öllum þessum illdeilum? Ef það er ekki ósætti sóknarbarna við tiltekna presta, þá er það eitthvað annað, s.s. Vinaleiðin, og ef ekki það, þá er það að standa í vegi fyrir almennum mannréttindum, einsog Stefán Pálsson benti á, og ef það er ekki það þá er það eitthvað annað, svo sem eitthvað sem gæti kostað 42 milljónir. En þessi stofnun hefur líklegast úr nógu að moða, en hverjir borga brúsann?

Á vantrúarspjallinu kennir ýmissa grasa og bendi ég lesendum endilega á að skrá sig og taka þátt í umræðunum sem þar myndast, ekki hræðast okkur eða tröllin. Maggadora spyr hvort að draugavinir fái inngöngu í Vantrú. Svarið er nei. Dandalast bendir á skemmtilega samantekt frá New Scientist; 24 mýtur og misskilningur varðandi þróunarkenninguna. Einn helsti biblíufræðingur Vantrúar, Hjalti Rúnar, heldur utanum villur í nýju biblíuþýðingunni sem vert er að líta á við og við. Einnig bendir hann á að biblíuhandrit hafa fundist í Albaníu. Hrii spyr okkur hvort við vitum hvaða ástæður “stjórnmálaflokkar hafa fyrir því að skilja ekki ríki og kirkju að á stundinni” og í sannleika sagt þá erum við ekki vissir, kannski vilja þeir ekki rugga bátnum - svona er þetta bara og hefur alltaf verið og voða fáir virðast gera sér grein fyrir alvarleika málsins.

IV

Það sem skilur að ríki og kirkju á Íslandi er spölurinn frá Dómkirkjunni yfir í Alþingishúsið – 20 metrar eða svo.

Mæl þú heilastur Hermann Stefánsson. En í krafti þess skálkaskjóls að vera sérstaklega stjórnarskrárvarin er það með ólíkindum og algjörlega ólíðandi að ríkiskirkjan skuli enn vera að væflast með vinaleiðindamálið, sérstaklega í ljósi þess að það kraumar töluverð óánægja og jafnvel reiði gagnvart þessu skítatilboði báknsins.

Veit ekki betur en að þessi ríkisstofnun hafi 359 kirkjur til að stunda í sína trúarlegu tilbeiðslu og boðun. En það þýðir víst ekkert að biðja þetta fólk vinsamlegast, í vinsemd og bróðerni, að hætta að brjóta lög og hætta þessari trúarlegu innrás inní fræðslumiðstöðvar. Nei, það þarf víst meira til, því miður fyrir ríkiskirkjuna og þá sem nenna að standa í stappi við þessa þöngulhausa.

Í alvöru, hvað er málið? Það sem þarf frekar, og hefur margoft verið bent á, eru námsráðgjafar, félags- og/eða sálfræðingar til að aðstoða börn í vanda – en ekki rándýrir prestar, djáknar, prelátar og guðfræðingar með fokking himnadrauga og uppvakninga á heilanum.

Maður bíður bara spenntur eftir rökrænum ragnarökum.

Þórður Ingvarsson 04.05.2008
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.