Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjur eru tímaskekkja

Kirkjan í Papey er minnsta kirkja landsinsSamkvæmt wikipedia eru 359 kirkjur undir merkjum ríkiskirkjunnar á Íslandi, tíu kirkjur tilheyra söfnuðum utan ríkiskirkjunnar. Í desember á síðasta ári voru 252.461 meðlimir skráðir í Ríkiskirkjuna. Það eru því 703 einstaklingar um hverja kirkju ríkiskirkjunnar. Taka þarf tillit til þess að sumar af þessum kirkjum eru afskaplega litlar eins og Bænhúsið í Papey en aðrar eru stórar og gríðarlega íburðarmiklar.

Sumum þykir þetta óhóflegt og benda á að fáir sæki kirkjur en erindrekar kirkjunnar eru fljótir að svara slíku tali og benda á fjölda gesta sem sækja kirkjur heim. Þar er allt talið með, AA fundir, mömmumorgnar, sunnudagskólar, tónleikar, félagsstarf aldraðra og heimsóknir ferðamanna.

Hallgrímskirkja Á höfuðborgarsvæðinu má ekki byggja nýtt hverfi án þess að kirkju sé holað niður á svæðið jafnvel þó stutt sé að fara í næstu sókn. Sumir ganga svo langt að lýsa eftir sókn í Vatnsmýrina þegar rætt er um framtíðarskipulag þess svæðis.

Margar kirkjur eru áhugaverð hús og skipta máli í byggingarsögu þjóðarinnar. Aðrar eru ekki merkilegri en hver annar hundakofi. Samt virðist einhver helgislepja kringum þessar byggingar og nær óhugsandi fyrir flesta að nýta húsin í annað eða rífa þau. Víða erlendis koma fréttir af því að gamlar kirkjur fái nýtt hlutverk. Í Danmörku hefur sumum verið breytt í moskur og dæmi eru um að nú séu skemmtistaðir þar sem áður var beðið til Gvuðs. Eins og áður kom fram réttlæta prestanir tilveru kirknanna með vísun í ýmsa starfsemi sem þar fer fram. Sumt af því er ekki trúarlegt og því er undarlegt að það fari fram í guðshúsi.

HáteigskirkjaÉg legg til að í stað þess að byggja kirkjur verði byggð félagsheimili fyrir alla óháð trú. Menningarmiðstöðvar þar sem allir íbúar geta komið saman, fundið félagsskap og tengst öðrum. Mömmumorgnar eru að mínu mati góð hugmynd en það er hrikalegt að það starf fari fram á trúarlegum forsendum á Íslandi í dag. Ég vil sjá foreldra hittast með börnum sínum óháð því hvort foreldarnir eru kristnir, múslimar eða trúleysingjar. Mömmumorgnar eiga heima í félagsheimili en ekki kirkju. Það sama gildir um félagsstarf eldri borgara, það er ekkert annað en mannvonska í gervi manngæsku að sundra fólki út frá trúarskoðunum og reyna að þrýsta á þá sem ekki aðhyllast kristni að mæta í kristilegt félagsstarf.

Eðlilegt væri að bókasafn væri í slíku húsi, veitingaaðstaða og salur þar sem hægt væri að halda tónleika eða athafnir eins og nafngift, giftingu eða minningarstundir. Þegar áfall dynur á ættu kyrrðarstundir að fara fram í slíku húsi, svo allir íbúar geti komið saman og átt sameiginlega sorgarstund – ekki bara þeir kristnu. Sorgin er ekki einkamál kristinna eða trúaðra, hún er sammannleg.

Guðþjónustur eiga heima í kirkjum en í félagsheimilum hefðum við siðþjónustur, fyrirlestra og umræður. Fróðleik og skemmtun, ekki gagnrýnislausa prédikun eins og tíðkast hjá kristnum söfnuðum.

Ég sæi svo ekkert því til fyrirstöðu að trúfélög fengju að koma í þessi húsnæði til að iðka sína starfsemi, svo lengi sem ljóst væri að allir hefðu sama aðgang. Já, meira að segja prestar yrðu velkomnir ef þeir geta sýnt umburðarlyndi og átt í samskiptum við fólk sem hefur aðrar lífsskoðanir.

Það blasir við þegar þessi valkostur er skoðaður fordómalaust að kirkjur eru tímaskekkja. Það er glórulaust á tuttugustu og fyrstu öldinni að byggja þurfi sérstakar trúarbyggingar í öllum hverfum.

Matthías Ásgeirsson 14.04.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/04/08 08:32 #

Á Íslandi er þjóðkirkja. Þjófkirkjan sölsaði undir sig jarðir og fé í krafti valds og blekkinga. Kirkjan var einskonar ríkisvald í gamla daga, á hennar könnu var t.d. félagsþjónustan. Gjöld til kirkjunnar voru gjöld til þjóðarbúsins. Þjóðin á þjóðkirkjuna og allar kirkjurnar, ekki sértrúarsöfnuður sá sem kallar sig hina lútersku evangelísku kirkju. Þess vegna ættu kirkjurnar að standa öllum opnar til hvers sem er, hvenær sem er.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 14/04/08 13:02 #

Þetta er góð hugleiðing.

Ég minnst heiftarlegra viðbragða norðlensks prest-bloggara sem skammaðist út í það að í Fríkirkjunni í Reykjavík var kirkjan lánuð til giftingarathafnar. Það mátti náttúrulega ekki, enda kirkjubyggingarnar "guðs-hús" sem enginn má notast við nema þeir sem trúa á mannguðinn Jesús og pabba hans.

Ég verð að bæta við að auðvitað ættu giftingar að vera allar borgarlegar og síðan ættu hjón að geta fengið einhverskonar blessunarathöfn frá sínu trúfélagi. Með því móti væri hægt að sneiða hjá landlægri hómófóbíu innan ríkiskirkjunnar. Ef eitthvað trúfélag vill ekki gifta 2 lespíur, þá þeir um það og ekkert við það að athuga. Ríkið væri hvort sem er búið að gifta viðkomandi.

Þær þyrftu þá aðeins að finna trúfélag sem vildi gifta þær í staðinn fyrir að í það hrikalega niðurlægjandi ferli að hafa einhvern andskotans svartstakk (lesist: Timbraðan miðaldra karl) segja þeim að lífði sem þær hafa kosið sér sé á einhvern hátt ósæmandi eða guðinum ekki þóknanlegt.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 14/04/08 20:22 #

Heyr, heyr.

Mér fyndist það frábært ef það væri skilyrði að í öllum nýjum hverfum sé byggð félagsaðstaða, þar sem íbúar geta farið á mömmumorgna eða trúfélög gætu sinnt meðlimum sínum.

Mér fyndist það fáránlegt ef skilyrði væri að í hverju nýju hverfi væri byggt búddamusteri.

Mér fyndist það fáránlegt ef skilyrði væri að í hverju nýju hverfi væri byggð moska fyrir múslima.

Mér finnst það fáránlegt að skilyrði sé að í hverju nýju hverfi sé byggð lútersk kirkja.


Finnur - 15/04/08 10:01 #

[ athugsemdir færðar á spjallið - Matti ]


Svali - 19/04/08 11:55 #

Snilld!!! Ég stið þessa hugmynd þína. Geggjuð grein btw.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.