Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lexía úr frumkristni

Grétar H. Gunnarsson guðfræðinemi og starfsmaður ríkiskirkjunnar skrifaði frekar undarlega grein á vefritið Vefritið þann 14. mars síðastliðinn sem hann kallar "Idiotar - heima og á bæjartorginu og orðið pólitík í kristnum skilningi". Hann reynir að vísa til ofsókna Rómverja á hendur kristnum mönnum til að færa rök gegn hlutleysi hins opinbera.

Í fyrsta lagi er rétta að benda á að Grétar einfaldar óhóflega ástæður ofsókna Rómverja á hendur kristnum mönnum. Hann segir hana fyrst og fremst tilkomna vegna þess að kristnir menn neituðu að tilbiðja keisarann á opinberum vettvangi. Það er ekki ósatt en það voru fleiri ástæður. Dýrkun keisarans var ekki bara trúarleg eðlis heldur var hún líka til marks um hollustu við hann og Róm.

Það var líka annað sem ergði fólk í Rómarveldi við kristna menn. Á þessum tíma höfðu menn bara sína eða sinn guð og datt almennt ekki í hug að halda því fram að þeirra guða væri sá eini sanni. Kristnir menn og gyðingar voru höfuðundantekningin á þessu. Þeirra afstaða taldist mjög hrokafull á þessum tíma. Gyðingar töldust að einhverju leyti hafa sögulegan rétt til þessa en kristni var ný trú sem enga afsökun hafði.

Grétar telur að lexían af sögunni sé mikilvæg "nú á tímum þegar sussað er þá sem trúa með þeim orðum að trú sé einkamál." En það sem fólk á við þegar það vill að trúarbrögð séu einkamál þá er það almennt í þeim skilningi að ríkisvaldið eigi ekki að hafa afskipti af þeim málum.

Trúleysingjar eru á margan hátt í sömu stöðu og meðlimir frumkristnu safnaðana. Við þurfum að borga á ýmsan hátt til kirkjunnar sem Grétar vinnur hjá þó við viljum ekkert með hana hafa. Þegar við tjáum okkur erum við talin hrokafull og eigum bara að þola yfirgang ríkiskirkjunnar í þögn. Börn trúleysingja eru neydd til að taka þátt í hinum opinbera átrúnaði og meðal þeirra sem hafa reynt að þagga niður í gagnrýni á því er Grétar sjálfur. Þar að auki láta sumir eins og gagnrýni okkar sé svik við sjálft þjóðernið.

Krafa okkar um hlutleysi ríkisvaldsins endurómar kröfur hinna frumkristnu safnaða. En það er löngu ljóst að kristnir menn telja ekki að sömu reglur eigi að gilda um sig og aðra. Þetta er væntanlega kristni skilningurinn sem Grétar vísar til í titli greinar sinnar. Þeir vísa mikið til ýktra ofsókna gegn frumkirkjunni en gleyma að síðan þá hefur verið til staðar nær linnulaus kúgun kristinnar kirkju. Vissulega hefur ástandið skánað en Grétar er sjálfur sönnun þess að kúgunin er enn til staðar.

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.04.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 02/04/08 08:38 #

Ég las greinina hans Grétars. Hún er alveg ágætis hugleiðing. Ég er sammála Óla Gneista um að málið var flóknara en grein Grétars segir frá. Það var litið á kristni og einarða neitun þeirra frumkristnu að dýrka keisarann sem tilræði við einingu rómverska ríkisins. Ríkis sem var risastórt og haldið saman með ofbeldi, tæknilegum yfirburðum og klókri pólitík. Rómverjar litu ekki á afneitun þeirra kristnu sem guðfræðilegt vantamál heldur pólitískt vandamál. Þótt grein Grétars sé allra athygli verð þá er égn algerlega ósammála honum. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum

Hugsaðu um þitt hjartans mál. Hvernig þætti þér ef allir væru sammála um að öll þín lífsviðhorf væru í lagi, svo framarlega sem þú héldir þeim fyrir sjálfan/n þig?

Ég verð nú bara að segja að þetta er nákvæmlega það ástandið sem ég tek æskilegast. Í þessi setning kristallar ágreining þeirra sem aðhyllast aðskilnað ríkis og kirkju og þeirra sem telja að að trú skuli þröngvað upp á samfélagið.

Það er stór munur á því að hópur fólks sem er sömu trúar ástundi einverskonar félagsstarf og því að þetta félagsstarf sé hluti af starfsemi samfélagsins alls. -Hluti af starfsemi ríkisins.


Haukur Ísleifsson - 02/04/08 13:55 #

Er það ekki algengt að hinir kúguðu kúgi þegar þeir hafa frelsast undan kúguninni.


Kári Svan (meðlimur í Vantrú) - 02/04/08 22:37 #

Og hvað? Þú ert á móti kúgun svo styður þá núverandi kúgun til öryggis? Við hvað áttu eiginlega, hverju ertu að koma á framfæri?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/04/08 00:16 #

Ég held að það sé alveg satt hjá Hauk að kristnir séu alls ekki einir um að hafa verið fljótir að gleyma því hvernig var að vera kúgaður um leið og völdin eru komin.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 03/04/08 07:13 #

Það gleymist eiginlega alltaf í þessari umræðu (þótt það komi henni ekki beint við) að um leið og kristni varð ríkistrú í Róm, þá hófust miklar ofsóknir á hendur þeim sem ekki voru kristnir og álitnir andstæðingar ríkiskristninnar. Gnóstum var útrýmt, Aríusarsinnum og fleiri hópum.

Kristninn hoppaði bara inn í hefð sem fyrir var. Hina rómversku stjórnarskiptahefð.

Það er athyglivert í þessu samhengi að benda á að sú mynd sem dregin er upp af Jésúsi í Nt samræmist nánast algerlega hugmyndum Rómverja um guðinn Bakkus og Mítras hinn egypska. Báðir voru "guð-menn", fæddir af hreinni mey þann 25. desember, var fórnað af óréttlátum yfirvöldum, risu aftur upp frá dauðanum eftir 3 daga hvíld. Paganískar rætur hugmyndarinnar um Jesús eru óteljandi og innilega sannfærandi. Í guðfræðilegum deiluritum frá þessum tíma eru að finna setningar sem kristalla þessi tengsl milli Jesúsar og guðanna sem fyrir voru í Róm. Þar kemur m.a fram að í ritdeilu milli frumkristins fræðimanns að Jesús er í engu frábrugðin hugmyndum rómverja um Júpíter. -Ekkert nýtt þar á ferðinni.

Sé kristni skoðuð í sögulegu samhengi, þá eru þessi trúarbrögð án efa þau sem eiga sér hvað blóðugasta sögu. Nú og ef ég styð orð mín ritingarstöðum úr biblíunni þá bið ég fólk um að hugsa um að maður ætti að þekkja ávextina. Ávextir kristindómsins eru ofsóknir, kúgun, pyntingar, heilaþvottur og síðast en ekki síst, heimska!. Þeim ætti það að vera ljóst sem sáu Jesus Camp.

Enn og aftur kem ég að punktinum um félagafrelsið. Það er auðvitað mér að meinalausu að eitthvað trúfélag ástundi forheimskun á meðlimum sínum, það er voða lítið hægt að gera í því. Fólk velur sér jú ekki foreldra. það er hinsvega asnalegt að spyrða þessu trúarkerfi á samfélagið allt.

Góður ásetningur er bara ekki nóg.


Ólafur Haukur Árnason - 03/04/08 15:22 #

Sælt veri fólkið.

Mig langar til að byrja á því að þakka ykkur fyrir virkilega fyndið aprílgabb.

Annars er ég sammála því að grein Grétars sé "frekar undarleg" og ljóst er að hann einfaldar um of ástæðurnar fyrir ofsóknum Rómverja. Langaði bara til að þakka fyrir málefnalegan pistil. Mér þætti ekki verra að sjá fleiri í þessum dúr hjá ykkur þótt ég geti auðvitað ekki tekið undir að ályktanir þínar um líkindi milli íslenskra trúlausra manna nú til dags og ofsóttra kristinna manna í Rómarveldi.

En Teitur: Hvaða egypska Mítras ert þú að tala um? Ertu að tala um persnesk-rómverska guðinn Míþra/Míþras? Ég hef einmitt verið mjög áhugasamur um Míþra, einkum vegna þess sem ýmsir eru að fullyrða um líkindi hans og Krists, m.a. þið. Ég ákvað því að skrifa ritgerð um Míþradýrkun í kúrsi um Rómarsögu í H.Í. og las allar bækur sem ég náði í um efnið. Hvergi man ég eftir að hafa lesið að hann hafi átt að vera fæddur af hreinni mey. Hins vegar var hann talinn hafa verið fæddur af eða komið út úr bjargi eða steini og fjöldinn allur af myndum, sem og ritheimildum, staðfestir það. Ekki sá ég heldur staf né heldur nokkra vísbendingu um að Míþra hefði verið "fórnað af óréttlátum yfirvöldum" og "risið aftur upp frá dauðanum eftir 3 daga hvíld." Hvaðan fékkstu þessar upplýsingar? Bara svona fyrir forvitni sakir.

Tuttugasti og fimmti desember var sólarhátíð og Míþra var sólguð, Sol Invictus Mithra: Hinn ósigraði röðull Míþra. Það, að kirkjan hafi tekið upp þá dagsetningu til að fagna jólunum, þykir mér bara sýna aðlögunarhæfni kirkjunnar, enda er hentugt að leyfa fólkinu að halda sínum hátíðisdögum og í raun var annað óþarfi þar sem enginn virðist hafa vitað hvenær Jesús fæddist í raun.

Sannleikurinn er sá að það er afskaplega lítið vitað um Míþratrú og í fræðiritum er mestmegnis að finna getgátur manna, sem reyna að lesa út úr helgimyndum, sem hafa varðveist. Lítið er um áreiðanlegar ritheimildir. Það er því í rauninni mjög vafasamt að vera að fullyrða hluti um Míþra þegar engar eða í besta falli mjög óljósar heimildir eru fyrir hendi.

Læt til gamans fylgja með háðvísu eftir skeptíkusinn Commodianus, sem gagnrýndi Míþratrú (afsakið stirðbusalega þýðingu, en fyrir vikið er hún nákvæm):

Ef guðinn ósigraði er álitinn fæddur af bjargi,
nú þegi ég, segið mér hvor þeirra kom á undan.
Bjargið sigraði guðinn, skapara þess þarf að finna.
Þar að auki sýnið þið hann sem þjóf,
en ef hann væri guð myndi hann vissulega ekki lifa á ránum.
Jarðneskur var hann sannlega og undarlegur að eðli,
ávallt tortímandi nautgripum annarra manna í hellum
eins og Cacus, sonur Vulcans. (Instructiones 1.13)






(Commodianus vísar til þess að algengt var að Míþra væri sýndur í bardaga við naut, sem hann dregur svo inn í helli og slátrar. Kristur gerði það a.m.k. ekki :) )

Síðan finnst mér furðulegt að segja að Aríusarsinnum hafi verið "útrýmt". Aríanismi var lengi trú yfirstéttanna í arftakaríkjum Rómarveldis, t.d. á Spáni og í N-Afríku. Ég veit ekki betur en að aríanista-kóngarnir þar hafi einfaldlega ákveðið að taka kaþólska trú án blóðsúthellinga, enda var meirihluti þegna þeirra þeirrar trúar.

Bestu kveðjur,
Ólafur Haukur Árnason


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/08 17:42 #

Já, ég er sammála þér Ólafur. Ég held að þessar fullyrðingar um Míþra séu byggðar á vafasömum heimildum.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 03/04/08 18:44 #

Sæll Ólafur. Ég tiltók Mítras og Díónísos sem dæmi um guði sem eru greinilega sifjar Jesúsar. í raun ætti ég að bæta við Attis og Osíris.

Ég hef löngum haft gaman að hugmyndinni um Jésú guðspjallanna. Sú bók sem hreyfði hvað mest við mér í því samhengi var bókin "The Jesus Mysteries: Was the "Original Jesus" a Pagan God?"

Ferlega áhugaverð bók og bestseller árið 1999.

Í bókinni kemur fram að sifjar hugmyndarinnar um Jesú koma nokkuð víða að. Frá guðum sem fyrir foru í Róm, frá meintum hálfguðum, frá grískri heimsspeki osfr. Þeir notast við hugtakið Osiris/Díonýsos sem samnefnara yfir þessar sifjar.

Osiris/Díónísos á þetta sameiginlegt með Jesúsi guðspjallanna:

  • Osiris-Dionysus is God made flesh, the savior and "Son of God."
  • His father is God and his mother is a mortal virgin.
  • He is born in a cave or humble cowshed on December 25 before three shepherds.
  • He offers his followers the chance to be born again through the rites of baptism.
  • He miraculously turns water into wine at a marriage ceremony.
  • He rides triumphantly into town on a donkey while people wave palm leaves to honor him.
  • He dies at Eastertime as a sacrifice for the sins of the world.
  • After his death he descends to hell, then on the third day he rises from the dead and ascends to heaven in glory.
  • His followers await his return as the judge during the Last Days.
  • His death and resurrection are celebrated by a ritual meal of bread and wine, which symbolize his body and blood.[1]

Tekið héðan: http://en.wikipedia.org/wiki/The_Jesus_Mysteries#cite_note-0


Ólafur Haukur Árnason - 03/04/08 21:28 #

Sæll Teitur.

Ég hef ekki heyrt um þessa bók áður og ekki er hún til á bókasöfnum hérlendis. Ég get því ekki myndað mér skoðun á þessum Osíris/Díonysíusi í bráð. En miðað við það sem stendur á Criticism and Support hluta síðunnar, sem þú vísar í, myndi ég a.m.k. ekki trúa gagnrýnislaust öllu því sem ég læsi þarna.

Stendur virkilega í þessari bók að Míþra hafi átt að vera fæddur af hreinni mey, honum verið "fórnað af óréttlátum yfirvöldum" og hann risið "aftur upp frá dauðanum eftir 3 daga hvíld"? Ef svo er þætti mér fróðlegt að heyra röksemdafærslu höfundanna og í hvaða heimildir þeir vitna...


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/08 22:19 #

efni í spjall þráð?


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 07/04/08 23:28 #

Sæll Ólafur Haukur

Bókin sem Teitur er að vísa til er mjög svo áhugasöm en getur seint talist til alvarlegri fræðirita.

Míþra hefur aldrei heillað mig sérstaklega í þessu samhengi, miklu skemmtilegra finnst mér að skoða Ósíris/Hórus/Ísis dýrkun sem fyrirrennara Jesú-sagnanna.

Því miður stend ég í miðjum flutningum og allar bækur oní kassa, annars gæti ég komið með einhverja tilvitnun í alvöru fræðimenn um þetta mál. Ef þú hefur áhuga þá er ég líka með slatta af efni á vefsíðunni minni, m.a. um Ósíris en þú hefðir eflaust einnig gaman af að lesa það sem ég hef sett saman um Jósefus. Hægra megin á síðunni er linkur á glærur sem ég notaði í fyrirlestri fyrr í vetur, þú hefðir kannski gaman að þeim líka.


Ólafur Haukur Árnason - 08/04/08 00:37 #

Sæll Brynjólfur og takk fyrir ábendingarnar.

Þessi meintu líkindi Jesú við aðra guði hafa vakið áhuga minn og ég hefði gaman að því að kanna málið til einhverrar hlítar. Ég hef þó ekki tíma til að sökkva mér ofan í slíkar pælingar (um aðra guði en Míþra) í augnablikinu en það mætti kannski taka einhverjar umræður í sumar.

Ég ætla að bíða með að skoða greinarnar þínar, því að ég á það til að festast í svona hlutum og það er ekki sérlega hentugt nú þegar próf nálgast. En ég skoða þær síðar. Ég er að hugsa um að bæta þessari bók, sem Teitur nefndi, við næstu Amazon sendingu. Ef þú manst eftir áreiðanlegri/betri titlum um þetta efni væri fínt að fá að vita um þá... Það væri vel þegið, annað hvort hér eða í tölvupósti á háskólanetfangið oha1

Bestu kveðjur,

Ólafur Haukur Árnason


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 08/04/08 22:41 #

Það er alltaf sama tímaleysið, ég kannast við það. Besta bókin um Ósíris sem ég hef séð (og á) fjallar ekki sérstaklega um þessa hlið, þ.e. Ósíris/Hórus, sem fyrirmynd að Jesú, en kemur samt inn á það. Bókin er eftir Bojana Mojsov ("Osiris: Death and Afterlife of a God, USA" 2005.) og fékkst í Bóksölunni.

Mojsov er fædd í Makedóníu, þekktur egyptólóg og hefur starfað við rannóknir fyrir Metrópólitan- og Brooklyn söfnin í New York, fyrir Egyptalandsstjórn og í Súdan.

Mojsov rekur helgihald í tengslum við Ósíris og segir meðal annars að neysla brauðs og bjórs sem sprettur frá Ósíris sé ekki ólíkt kvöldmáltíðinni með brauði og víni hjá kristnum:

“The giving of the bread and beer that issue from Osiris was not unlike the Christian bread and wine offered at the mass of the Eucharist.” (Mojsov, bls. 49)

Hluti helgileiksins að hausti, eftir flóðið - uppskeruhátiðin var að vori (páska), rétt fyrir flóðið - var að setja nýjan árframburð ofaní kistu, sá í hana fræ og grafa hana. Kistan táknaði jarðarlíkama Ósírisar. Eftir jarðaförina var hann syrgður í þrjá daga og nætur, en að því loknu rís hann aftur upp.

“The chest buried in the tomb contained the earth body of Osiris. Plutarch described how every year earth and silt from the inundation were placed in a wooden chest and planted with seeds to symbolise the body of Osiris. After the chest was buried the death of the god was mourned for three days and three nights.” (Mojsov, bls. 51)

Mojsov rekur trúarbyltingu Akhenatens (1352 f.o.t), með eingyðistrú sína á sólguðinn Ra. Að honum horfnum tekur við Sety I sem faraó og á tímum hans er egypska guðakerfið þróað enn frekar. Grafhýsi Setys hefur að geyma miklar upplýsingar um helgihald tengt Ósírisi. Þar kemur meðal annars fram hugmyndir um þríeinan Ósíris, Ísis og Hórus: hinn endurreisti lausnari, hin heilaga móðir og hið frelsandi barn. Hórus er hið frelsandi barn, getinn á vorjafndægri en fæddur á vetrarsólstöðum (jólum).

“The three “mystery” chapels reiterated the theme of the trinity of Osiris, Isis and Horus. … The resurrection of Osiris was represented as the sexual union of Osiris and Isis, the engendering of the savior-child.

From the very beginning, the myth of Osiris contained the measurement of time. Horus-the-child was conceived at the spring equinox, the time of harvest, and born at the winter solstice. In the temple of Sety, the ancient rustic cult was invested with new religious meaning. The unity of Osiris and Ra was underlined by the theme of the trinity. It is at this time that the worship of Osiris explicitly encompassed the doctrine of One in Three: the Resurrected Redeemer, the Holy Mother, and the Savior-Child.” (Mojsov, bls. 91)

Musteri Setys var klárað á tímum Ramsesar II (Mojsov, bls. 92), þess sem er talið að sé fyrirmyndin að faraónum sem sleppti Ísraelsmönnum úr Egyptalandi.

Í þessu sambandi finnst mér alltaf skírnin hjá Jóhannesi vera sérstök. Niðurdýfing í á (frekar en í hefðbundna hreinsunarlaug eins og Gyðingar notuðu) er voðalega egypsk, og svo stígur dúfa - tákn Ísisar - niður og þá veit Jóhannes að Jesús er endurlausnarinn!

Málverk Leonardos af þessum atburði gengur meira að segja lengra, hann bætir við fálka (tákni Hórusar) og fálkinn flýgur beint í áttina að krossi sem Jóhannes heldur á. Málverkið má sjá hér (það er oft eignað Verrochio, læriföður Leonardo, en mér skilst að sá síðarnefndi sé talinn hafa málað það að miklu leyti - en skiptir ekki máli, Leonardo og félagar voru greinilega ekki alveg kristnir eftir bókinni!):

http://en.wikipedia.org/wiki/Image:AndreadelVerrocchio_002.jpg

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.