Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Afruglum samfélagið

Þið sem lásuð gabbgrein mína á Andkristni.net og þekkið málflutning minn hafið eflaust tekið eftir því að hún var í mótsögn við það sem ég hef ætíð haldið á lofti, nefnilega því að allar skoðanir verði að fá að heyrast, burtséð frá gæðum þeirra.

Forsaga þeirrar greinar er reyndar grein sem ég hef gengið með í maganum nokkra undanfarna daga. Þetta hér er hún, en þar sem ég ákvað að nota hana sem hráefni í öfgagreinina getum við jafnvel hugleitt innihaldið enn betur, t.d. út frá hugmyndum um tjáningarfrelsi.

Greinin á Andkristni var svona:

Það á að banna sem ekki má sanna

Þrjátíu mann[s] borguðu sig inn á rugludallinn með eðlurnar núna fyrir helgi. Þrjátíu saklausar sálir sem létu kjaftæðismiðlara hafa af sér peninga og ræna sig skynseminni. Lífsviðhorf þessa fólks hefur núna breyst og sú breyting mun hafa áhrif á nánasta umhverf þessa fólks og jafnvel víðar þegar fram líða stundir.

Það þyrfti að vera hægt að koma lögum yfir fólk sem hagar sér svona. Hvers vegna geta bjálfar eins og þessi Kani vaðið uppi og eitrað samfélagið með þessum hætti á sama tíma og flestir aðrir þurfa að sýna fram á löggildingu sína og velþóknun yfirvalda.

Ég má ekki stunda pípulagningar fyrir fé, enda ekki menntaður til þess. Og ekk[i] get ég gengið inn í menntastofnanir og hafið þar kennslu, prófvottorðafátækur maðurinn. Menntakerfi okkar leitast við að tryggja það að sú uppfræðsla sem þegnarnir fá sé í takti við ákveðna gæðastaðla, sé sönn og rétt.

Mér detta í hug Aparéttarhöldin og réttarhöldin yfir ID-fólkinu nýlega. Í seinna tilvikinu hljóðaði úrskurðurinn á þann veg að ekki væri heimilt að kenna ID í kennslustofum sökum skorts á sönnunum fyrir kenningunni.

Ég vil sjá það sama gerast með Þjóðkirkjuna og rugludalla eins og þennan eðlumann. Hver sá sem heldur fram fáheyrðri kenningu, hvort sem það er Karl Sigurbjörnsson eða Swerdlow ætti að þurfa að fara fyrir réttarhöld með fullyrðingar sínar og standist þær ekki rýni verði honum bannað að halda þeim á lofti að viðlagðri refsingu.

Hugarfarslegt heilbrigði samborgara okkar er í húfi. Bönnum bullið!

Í þessari grein get ég reyndar staðið við allar efnisgreinarnar nema þær tvær síðustu, auk fyrirsagnarinnar. En greinin sem ég hafði í huga var þó samhljóða þessu síðasta þegar kemur að skólakerfinu. 1. apríl varð þess hins vegar valdandi að ég stakk upp á þessu fyrir samfélagið allt.

Aparéttarhöldin snerust um það hvort kenna mætti þróunarkenninguna í ákveðnu bæjarfélagi vestanhafs. Þótt þróunarkenningin hafði þar ekki lögformlegan sigur var hún með öll rökin sín megin og hafði allnokkur áhrif:

Þegar málið var tekið fyrir á æðra dómstigi var úrskurðinum hrundið vegna tæknilegs galla, samkvæmt lögum Tennessee hefði kviðdómurinn átt að skera úr um sektina en ekki dómarinn. Rétturinn kom síðan í veg fyrir að þetta "undarlega" mál yrði tekið aftur fyrir. Lögunum var ekki hrundið í ríkinu fyrir en nokkrum áratugum seinna. Málið hafði hins vegar áhrif, aðeins tvo ríki af þeim fimmtán sem höfðu undirbúið svipaðar lagasetningar staðfestu lögin.

Rétturinn yfir Intelligent Design gegn þróunarkenningunni fjallaði líka um skólakerfið og þar sigraði loks hið margsannaða.

Mér duttu þessi réttarhöld í hug í tengslum við kennslu í kristinfræði, t.d. hér heima. Af hverju fær kirkjan að vaða uppi með kennsluefni sem augljóslega innifelur skýra boðun tiltekinna hindurvitna án þess að nokkur athugasemd sé við það gert? Er ekki kominn tími á réttarhöld yfir kristindómnum í heilu lagi ásamt öðrum hindurvitnum?

Ég get vel séð fyrir mér alþjóðleg réttarhöld yfir dogmum, gerning sem kostaður væri t.d. af stórum sjónvarpsstöðvum, enda úrvals dagskrárefni. Með þessu væri skorið úr um það í eitt skipti fyrir öll hvort um haldbærar kenningar væri að ræða eða kjaftæði sem ekkert erindi á inn í menntastofnanir. Ég sæi fyrir mér rétt yfir Páfanum í Róm, voldugum talsmönnum islam, forsvarsmönnum Vísindakirkjunnar og biskupum kristinna kirkjudeilda af ýmsum toga. Þetta fólk væri látið verja hugmyndakerfi sín og færa sönnur á sannleiksgildi þeirra og rétt til að mata ungviði heimsins á þeim. Um leið yrði leitt í alþjóðalög og mannréttindasáttmála að hverju barni skuli hlíft við innrætingu sem ekki stenst rýni, að viðlagðri refsingu.

Auðvitað sting ég upp á þessu vegna þess að ég veit sem er að þessi hugmyndakerfi munu öll sem eitt hljóta háðungleg málagjöld. í kjölfarið væri svo hægt að gera gangskör í því að tryggja að allir skólar, líka í trúarríkjum, séu lausir við boðunina, ellegar myndu þessi ríki þurfa að burðast með fordæmingu alþjóðasamfélagsins á herðunum.

Á fáum áratugum tryggði þetta afruglað samfélag vel upplýstra einstaklinga, hvar svo sem þeir eru í sveit settir. Hér heima myndi þetta tryggja að trúarbragðakennsla væri ekki lituð af kristilegri innrætingu og námsefnið ekki lengur samið af prestum og öðrum velunnurum kirkjunnar.

Við átján ára aldur fengju hins vegar boðendur trúar og annars rugls fullan aðgang að þegnunum, enda nú um fullveðja einstaklinga að ræða og fólk sem getur metið hugmyndir á fullþroska forsendum.

Fyrirmyndirnar eru komnar, það er búið að rétta tvisvar bandarísku skólakerfi til handa. Nú þurfum við aðeins að færa konseptið yfir á alheim.

Birgir Baldursson 04.04.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.