Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sjö á dag

Ágætt dæmi um það í hvers konar öfgar menn geta ratað þegar kristni er annars vegar má finna í nýlegri ræðu Biskups Íslands sem hann flutti í Hvalneskirkju 9. desember s.l. Enn sem fyrr eru það trúleysingjarnir vondu og hatrömmu, hinir “tómhyggnu” sem eiga hug Biskups. Þar er vont fólk á ferð því “þegar Guði er úthýst úr lífi manns” þá tekur við “helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.” Eflaust vitnar hann þar í reynslu þeirra tugþúsunda Íslendinga sem hafa kosið að lifa án afskipta hins skeggjaða himna-Fídels.

Biskup er fylginn þeirri kristnu siðferðiskenningu að manneskjan sé lélegur pappír, að við, lesandi góður, séum í eðli okkar vond og vitlaus og verðum “seint grundvöllur hins góða samfélags. Reynslan sannar það.” Að mati Biskups er grundvöllur “farsældar, menningar og hagsældar” ekki mannauðurinn heldur virðingin við “helgistaði” og “helgar hefðir”.

Allt gott kemur frá kristninni, segir Biskup, “frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa.” Það er nefnilega þannig að “mannhyggja, húmanismi” er “sprottin af rótum hins kristna fagnaðarerindis.” En þessi kristna trú, “mannúðarstefna” að mati Biskups, hefur valkosti, “faðmur Drottins” eða “vonbrigðin, sorgin, þjáningin, dauðinn, ... vonleysið ... uppgjöfin”. Tilboð sem þú getur ekki hafnað!

Það eina sem gæti toppað það að lesa þessa vitleysu væri að heyra Biskup sjálfan flytja hana.

Hitnar undir embættismanni

Átta af hverjum tíu Íslendingum teljast til Þjóðkirkjunnar sem hinn mannelski Biskup veitir forstöðu. Undanfarin tíu ár hafa rúmlega 11 þúsund manns séð ástæðu til að skrá sig úr kirkjunni og fer þeim hratt fjölgandi sem fara þá leið, fjögur þúsund síðustu þrjú árin og 1685 á síðasta ári. Það gerir rúmlega sjö á hverjum virkum degi. Innskráningar voru 201. Fjölgun var engu að síður í kirkjunni um heila 227 einstaklinga sem skrifast á um 1700 kornabörn sem voru nýskráð á árinu.

Látum vera þá furðulegu framkvæmd að skrá nýfædd börn í félagsskap án þess svo mikið sem spyrja foreldrana. Án þessarar lagastoðar væri meðlimafjöldi Þjóðkirkjunnar auðvitað í frjálsu falli. En jafnvel með þessari lagalegu nauðungarskráningu er vá fyrir dyrum. Í aldurshópnum 25-30 ára er aðeins um 70% skráð í Þjóðkirkjuna og fer fækkandi. Þetta er sá hópur sem er að eignast börnin.

Hagstofan spáir minnkandi fæðingartíðni og hækkandi dánartíðni næstu áratugina. Haldi úrskráningar áfram með hlutfallslega sama hraða og undanfarin tíu ár verður rétt um helmingur Íslendinga skráðir í Þjóðkirkjuna árið 2050.

Biskup veit að lagaleg forréttindi þessarar stofnunar verða ekki varin með þannig hlutfalli.

Allar heimildir með þessari grein eru á blogg.visir.is/binntho. Jeppaprestum er bent á að skoða það sjálfir áður en þeir munda klofinn svarpennann.

Skólatrúboð: sóknarleikur í vörn

Það er mikið í húfi og þessi aldna stofnun hefur af háum stalli að falla. Ekki á minni vakt, hugsar karl og blæs til gagnsóknar.

Skólatrúboðið er helsta sóknarfæri kirkjunnar að mati Biskups. Hér er nýjung á ferð, foreldrar kannast ekki við þetta úr eigin skólagöngu og vita því ekki almennilega hvað er á seyði. Enda lítið um að þeir séu látnir vita af endalausum kirkjuferðum eða bænahaldi. Prestar sitja um börnin, einn lýsti því þannig að hann héngi á skólagöngum og leiksvæðum barnanna og tæki þau tali.

Séra Guðbjörg Arnardóttir í Odda lýsti starfi sínu sem skólatrúboði nýlega í viðtali í auglýsingakálfi um Suðurland sem dreift var 21. febrúar og gefinn er út af Athygli. Hún telur það “forréttindi að mega heimsækja leikskólann” þar sem hún er með “kristnifræðslu”, kennir börnum bænir og trúarlega söngva. “Þarna fæ ég tækifæri til að kynnast nánast öllum þeim sóknarbörnum mínum sem eru á leikskólaaldri og skapa traust þeirra til kirkjunnar” segir séra Guðbjörg.

Þetta er auðvitað í fullu samræmi við kristilegt siðgæði, að setja Guð og hans hagsmuni í forgang, en satt að segja hélt ég að forsvarsmenn skóla á Íslandi hefðu betri siðferðiskennd en þetta. Skólatrúboðið á sér nefnilega stað í skjóli opinberra starfsmanna sem hafa það helst hlutverka að annast börnin okkar. Þessir starfsmenn taka hagsmuni Þjóðkirkjunnar fram yfir siðareglur eigin starfsétta svo ekki sé minnst á almennt siðgæði, mannréttindi, lagagreinar og alþjóðasáttmála.

Eftir höfðinu dansa limirnir

Biskupinn valsar um sannleikann og kærleikann með sínum hætti en vonandi er boðskapurinn sem prestar landsins lesa yfir fermingarbörnum ekki sunginn eftir sama lagi. Grunnskólabörn eru reyndar dregin í kirkjur af minnsta tilefni, sjaldnast án þess að foreldrar viti af. Ekki er þar farið eftir námskrá og enginn veit hvað prestum dettur í hug að láta út úr sér.

En tilgangurinn með skólatrúboðinu er ljós: Að kirkjan sé kostur fyrir þá sem vilja trúa, hefð fyrir hina sem eru volgir. Nauðvörn deyjandi stofnunar þar sem spunameistararnir lesa þroskasálfræði barna og spinna vef sinn fyrir eyru 6 ára barna.

Brynjólfur Þorvarðarson 27.04.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 27/04/08 23:57 #

Takk fyrir góðan pistil.

Mér finnst alveg með ólíkindum hvað biskupinn er neikvæður og neikvætt þenkjandi yfirhöfuð.

Hrikalegt að koma fram á þennan hátt og endalaust vera að gagnrýna fólk og hvernig það hugsar og talar.

Að segja að húmanismi og allt gott sé sprottið af kristni á einhvern hátt er ótrúlega hrokafullt og með því að segja það gefur hann skít í öll önnur trúarbrögð og allt fólk sem hugsar ekki eins og hann. Hann er hreint ótrúlegur!!

Dulbúið trúboð fer fram í skólum það er ábyggilegt.


aribjorn (meðlimur í Vantrú) - 28/04/08 10:28 #

Brynjólfur, Verð að leiðrétta þig smá, mig grunar að þegar þú skrifar neðarlega í greininni: "sjaldnast án þess að foreldrar viti af"

þá sért þú að meina: "oftast án þess að foreldrar viti af"

Fín grein annars, sammála hverju orði.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/08 19:21 #

Aribjörn, þetta er hárrétt hjá þér og það var meira að segja búið að benda mér á þetta áður. En þetta skilst vonandi!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.