Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

11 klisjur um Vantrú

Vantrú hefur verið ásakað um ýmislegt þau ár sem félagið hefur verið starfandi. Það getur verið hvimleitt að leiðrétta þessar rangfærslur hvað eftir annað þannig að okkur langar hafa hér til taks ellefu klisjur sem hafa verið notuð gegn Vantrú (og bara á trúleysingja almennt). Þetta er alls ekki tæmandi listi og eflaust ýmislegt sem vantar. Einnig viljum við vara við að klisjurnar hafa verið einfaldaðar til muna, en það er nú bara af þeirri einföldu ástæðu að þessi rök rista grunnt.

1. "Þið eruð bara skólastrákar..."

Í Vantrú eru um 120 einstaklingar á aldrinum 18-65 ára og - haldið ykkur fast - af báðum kynjum. Vissulega eru fleiri karlmenn en kvenmenn. Fyrir þá sem hafa áhuga á tölfræði þá er kynjaskiptinginn rúmlega 20% konur og 80% karlar.

En það er ekki útaf einhverju kristnu feðraveldisdogma í félaginu Vantrú, ætli það sé ekki frekar útaf kristnu feðraveldisdogma í samfélaginu á Íslandi. Vantrú er ekki saumaklúbbur fyrir trúlausa karla sem hafa fengið nóg af hindurvitnum í samfélaginu:

Félagið er opið trúleysingjum og þeim sem hafna yfirnáttúru, samþykki þeir að vinna að markmiðum félagsins, hlíta lögum þess og séu orðnir fullra 18 ára. #

Svo við hvetjum ykkur trúlausu konurnar, sem hafa á annað borð áhuga á að ganga í félagið, að sækja um og jafna þennan gríðarlega kynjamun.

2. "...og reiðir kommúnistar"

Það virðist loða við suma, og að jafnaði eru það íhaldssamir einstaklingar, að klína kommagrýlunni á trúleysi. Þetta er keimlíkt ad hitlerum-rökvillunni. Um leið og umræðan um kommúnisma er dregin upp samhliða trúleysinu þá geta sumir afgreitt málið á einu bretti og sagt með fullvissu um eigið ágæti eitthvað afskaplega heimskulegt á þessa leið:

"Fyrst að kommúnisminn í Rússlandi var hræðilegur og trúleysi er ein helsta forsenda og orsök kommúnismans er rökrétt afleiðing að trúleysi er hræðilegt og Vantrú vilji bara fá afsökun til að drepa fólk. Og ekki sé minnst Hitler, hann var vísindalega sinnaður!"

En trúleysi, jafn ótrúlegt og það kann að virðast fyrir suma, er algjörlega ótengt stjórnmálaskoðunum. Hér eru einstaklingar á breiðum skala stjórnmálaskoðana. Það eru meira segja Framsóknarmenn í okkar röðum, og Sjálfstæðismenn og anarkistar og marxistar, sagnfræðingar og guðfræðingar, svo að fátt eitt sé nefnt. Hver veit, hér gæti leynst svo sem eins og einn prestur.

Svona stimplar eru því ekki aðeins rangir heldur bera þeir merki um vissa fordóma.

3. "Þið eruð orðljót"

Það kemur vissulega fyrir að sterk orð eru notuð, einkum þegar vitleysan og kjaftæðið er svo glórulaust að skrifaður er lítill greinarstúfur eða hugvekja í hita leiksins. Þá er pirringurinn stöku sinnum undirstrikaður með stuðandi orðalagi. En það virðist oft gleymast að við rökstyðjum þessi sterku orð.

Sem dæmi má nefna að við höfum kallað fólk sem að níðist á veiku fólki kraftaverkahyski og fólk sem lýgur köllum við lygara. Við reynum bara að kalla hlutina réttu nöfnum.

Varla er Vantrú eini hópurinn sem gerist sekur um stuðandi orðalag? Það er hægt að tiltaka mýmörg dæmi hjá pólítíkusum, prestum, kverúlöntum og fleirum sem tjá sig á netinu og annarsstaðar. Samkvæmt þeim erum við ýmislegt miður fallegt, t.d. siðblindir og kærleikslausir níðingar sem boða mannskemmandi guðleysi.

Auðvitað er það engin afsökun að benda á annað verra, en margir þeir sem gagnrýna okkur fyrir meiðandi orðalag mættu byrja á að taka til í eigin ranni. Flísin og bjálkinn eiga hér vel við.

4. "Ykkur skortir umburðarlyndi"

Það að gagnrýna trúarbrögð og önnur hindurvitni er ekki það sama og að skorta umburðarlyndi. Við umberum alveg hindurvitni og félög tengd þeim. En þegar þessi félög eru byrjuð að seilast inná svæði til að boða trú sína, sem þeim er í raun lagalega óheimilt, þá reynir fullmikið á umburðarlyndið okkar og okkur getur orðið það heitt í hamsi að við tjáum okkur um málið.

Hvað þetta meinta "óumburðarlyndi" snertir þá vísar þessi gagnrýni einna helst í það að við tjáum okkur og birtum greinar um einhver tiltekin hindurvitni hér á þessari vefsíðu, og það hlýtur nú varla að teljast vöntun á umburðarlyndi að leyfa hverjum sem er að tjá sig hér á þessum vetvangi; Allt frá forvitnum áhugamönnum um trúmál til ofstækisfullra trúarnöttara sem ausa skít yfir allt og alla.

Vantrú er án efa virkasti umræðuvefur um trúmál og hindurvitni á Íslandi (ef ekki, þá erum við minnsta kosti í topp fimm listanum). Hver sem er getur sent inn lesendabréf, greinar og pistla á ritstjorn@vantru.is og að athuguðu máli er aldrei að vita nema við birtum það efni hér, eins og allir aðrir alvörufjölmiðlar gera.

Við greinarnar er hægt að birta athugasemdir og rökræða innihald þeirra, en að auki bjóðum við upp á spjall á spjallsíðunni. Félagar í Vantrú gera síðan sitt besta til að svara þeim athugasemdum og vangaveltum sem koma fram. Það gæti jafnvel leitt til þess að einhver aðilinn skipti um skoðun.

5. "Þið eruð ofstækis- og fordómafull"

Ofstækið á víst að stafa af því, einsog áður er getið, að hér er skrifað mikið um hindurvitni. Hér séu froðufellandi nöttarar sem gera fátt annað en að reita af sér hárið af bræði yfir trú, trúarbrögðum og hindurvitni. En það er erfitt að átta sig á því hvað nákvæmlega í málflutningum okkar á að vera ofstækisfullt.

Ef við lítum á helstu baráttumál okkar, þá er hæpið að halda því fram að þau séu ofstækisfull. Við viljum meðal annars aðskilnað ríkis og kirkju, ekkert trúboð í opinberum skólum og ekki fá skottulækna til starfa í sjúkrahúsum. Hvað er eiginlega ofstækisfullt við þetta? Við getum alveg ímyndað okkur hvað raunverulegir ofstækisfullir trúleysingjar myndu vilja.

Orðið fordómar er mikið misnotað í trúmálaumræðinni. Eins og orðið gefur til kynna, þá eru fordómar það að hafa skoðun á einhverju án þess að hafa í raun og veru kynnt sér það. Það eitt að telja eitthvað vera slæmt eða ósatt eru ekki fordómar.

Við í Vantrú höfum kynnt okkur það sem við gagnrýnum. Maður þarf að hafa vissan áhuga á trúmálum, gervivísindum eða skottulækningum til þess að skrifa um það hérna. Vissulega teljum við þessa hluti vera slæma, en það eitt og sér þýðir ekki að um fordóma sé að ræða, hvað þá ofstæki.

6. "Þið eruð þröngsýn"

Það að teljast vera með "opin huga" á víst að vera vísir að því að vera "gott", það telst sýna fram á að viðkomandi sé víðsýnn og gefi öllu jafnan möguleika. En að vera með "opinn huga" gerir mann einnig betur mótækilegan fyrir nálastungum, DNA-heilun, spá í bolla og þessháttar húmbúkki og kjaftæði. Sumir eru með svo opinn huga að þeir trúa þessu öllu án þess að efast eitt andartak og verða þá betur móttækilegir fyrir peningaplokki. Opinn hugur er ágætur svo fremi sem hann er ekki svo opinn að heilinn detti út.

Maður mundi telja að það væri andstæðan við opinn huga sem veldur því að fólk trúir öllum andskotanum er varðar töfraþulum, nýaldarkukli og nornaseiðum, að þetta er frekar lokaður hugur hjá þessum einstaklingum að hugsunarhátturinn "allt sem er ótrúlegt hlýtur að vera satt" sé það eina sem blífur og vilja ekki einu sinni hugsa útí það að hafa rangt fyrir sér.

Við erum alveg opin fyrir þessum hugmyndum, við erum bara svo "þröngsýn" að við krefjumst einfaldlega sönnunargagna fyrir fullyrðingum um að eitthvað sé til eða um að einhver ótrúleg meðferð virki. Þetta er mjög einfalt: Sönnunargögn, takk - ekki dæmisögur.

7. "Þið eruð í raun trúuð á trúleysið"

Án nokkurs vafa er þetta ein leiðinlegasta, lélegasta og fáránlegasta klisja sem til er þegar kemur að trú og trúleysi. Ef við trúum ekki á hindurvitni, kyngi- og kraftaverk þá erum við samt trúuð á það að við trúum því ekki. En hvað felst þá í því að trúa? Ekki neitt?!

Afskræmingin sem hefur átt sér stað á orðinu "trú" er jafnfurðuleg og að segja að "allt sé Gvuð.” Það væru vægast sagt einkennileg samtöl á að hlusta ef þetta væri meinið:

Gvuð er trú á allt sem gvuð er trú á, ef gvuð og trú væri ekki þá mundi trúin samt leiða af sér gvuð og trú. Þannig er nú gvuð og trú skrýtin. Brandari gvuðs.

Kannski ýkt stílform, en við gætum allt eins farið að tala í búkhljóðum ef haldið er áfram að gengisfella tungumálið á þennan hátt.

Þessi tilraun að gera þessi afskaplega einföldu og góðu orð að einum aumkunarverðasta pómóvaðli sem um getur í rökræðum og er í sama sæti og froðan að Gvuð sé allt (eða í öllu eða er).

Að vera trúuð í trúleysinu hefur einnig stöku sinnum verið notað í samhenginu að tala og ræða um trú, trúarbrögð, hindurvitni og trúleysi. Og helst til of mikið. Allavega virðist vera að pirraðir prestar og prelátar ergi sig töluvert á því að trúleysingjar, af öllum þjóðfélagshópum, vilja hafa einhverjar alvöru “samræður” um trú og trúarbrögð, gildi þess í nútíma samfélagi.

Það er enn furðulegra í ljósi þess að þeir aðilar sem segjast vilja auknar samræður og umræður um trú og trúmál fussa og sveia og úthúða einum af þeim fáu hópum sem til eru í opnar umræður um þetta málefni. Þetta er alveg afskaplega undarleg afstaða, svo ekki sé meira sagt.

Svo er náttúrulega hin afskaplega sorglegu rök um "trú á trúleysi" er þegar við t.d. vitnum í aðra þekkta trúleysingja. Svona einsog það sé eitthvað sambærilegt því þegar fólk vitnar í biblíuna máli sínu til stuðnings.

8. "Þið étið bara allt upp frá..."

Við heyrum reglulega ásakanir um að við séum bara fylgismenn Dawkins, lærisveinar töframannsins Randi, ungliðasveit Harry Houdinis eða eitthvað enn fáránlegra í svipuðum dúr. Þetta hefur verið ansi algengt og færst í aukana síðan Richard Dawkins, Dan Barker og aðrir málsmetandi trúleysingjar komu hingað til landsins fyrir örfáum árum.

Já, við eigum bækur eftir Dawkins, Barker, Harris, Hitchens og Randi. Já, við höfum sum hver lesið þessar bækur og já, við erum sammála langflestu í málflutningi þeirra, en þessir menn móta ekki stefnu Vantrúar og eru ekki hugmyndasmiðir hins "nýja trúleysis".

Trúleysi er ekki hugmyndafræði einsog kristni, kapítalismi og kommúnismi. Trúleysi er ekki hreyfing í líkingu við skipulögð trúarbrögð eða stjórnmálaflokk sem verður að hafa einn leiðtoga eða formann. Félagið Vantrú hefur vissulega formann, gjaldkera, ritstjórn og meðstjórnendur, og meira segja lög, en hvaða félag hefur það ekki?

9. "Vantrú er költ!"

Til að vera költ, þarf að standast vissa trúarbragða- og félagsfræðilega gæðastimpla. Dýrkun og átrúnaður á eitthvað eða einhvern er stór og veigamikill þáttur í þeirri upptalningu. Við trúum ekki á neitt og stjórnendur Vantrúar eru ekki veigamikill þáttur í lífi félagsmanna.

Að auki erum við dugleg við að gagnrýna költ og allt sem þeim viðkemur, enda höfum við kynnt okkur til nokkurrar hlítar eðli og einkenni slíkrar starfsemi. Það væri dálaglegt ef við, sem þolum költ svona illa, værum sjálf á bólakafi í fyrirbærinu án þess að fatta það!

10. "Líf ykkar er tilgangslaust"

Fyrst við trúum ekki á guð, þá hlýtur lífið okkar að vera tilgangslaust. Vissulega er það rétt að maður getur ekki gert fyrir einhverjum tilgangi með lífinu sem er algjörlega óháður mönnunum, en það er rangt að líf trúleysingja sé tilgangslaust.

Raunin er auðvitað sú að menn geta sjálfir gefið lífinu sínu tilgang, það þarf engan guð til þess.

Með þessu er beinlínis verið að reyna segja að það sé enginn tilgangur með lífinu nema maður trúi á eitthvað, að það sé nær ómennskt að trúa ekki. Þetta er mannfjandsamlegt viðhorf og ekki sæmandi þeim sem vilja kenna sig við kærleik og umhyggju fyrir náunganum.

11. "Þið eruð óhamingjusöm"

Þið - sem eruð hamingjusöm í ykkar trú - verðið bara að fara gera ykkur grein fyrir því að jafnvel þó að það geti gert ykkur hamingjusöm þá þýðir það ekkert að allir þeir sem eru á öndverðum meiði séu óhamingjusamir og vanti eitthvað í lífið. Það sem virkar fyrir einn þarf ekki að virka fyrir alla.

Það getur beinlínis verið stórhættulegt að hugsa á þennan máta, og vonandi gera það sem fæstir því hvernig er hægt að treysta fólki almennt ef maður trúir því að allir aðrir séu bara - ja, meira og minna - óhamingjusöm illmenni sem er ekki treystandi ef það trúir ekki öllu sem þú segir? Okkur finnst bara óþarfi að flækja hamingjuna með hindurvitnum; himnadraugum og kukli.

Það er nefnilega ýmislegt annað sem getur glatt og gert mann hamingjusaman. Ættingjar gleðja, góðir vinir gleðja, að fara út að ganga getur glatt mann, ferðast um heiminn og víkka sjóndeildarhringinn getur glatt mann.

Lokaorð

Það er viss rauður þráður í þessum tilteknu klisjum, ef lesendur hafa ekki tekið eftir því. Aðalmarkmiðið er að vekja upp einhverskonar sektarkennd. Okkur á að líða illa með að vera trúlaus. Það er nefnilega ekki nóg að við séum trúlaus, heldur erum við hitt og þetta líka; við erum ungir, stefnulausir, vinstrisinnaðir, umburðarlausir, fordómafullir, þröngsýnir, reiðir, ofstækis- og hatursfullir níðingar, dónar og költistar sem trúum stíft á trúleysi og vísindahyggju og höfum engan tilgang í lífinu því við trúum ekki og erum afskaplega óhamingjusöm með lífið, gott ef ekki að við sitjum fyrir börnunum á leið úr Sunnudagsskólanum hjá kirkjunni í þínu nágrenni.

Svo þýðir víst ekkert að tala við okkur í þokkabót, því við erum svo orðljót líka og gerum ekkert annað en að kalla fólk "fávita" og "vanvita" og "hálfvita" án þess að hafa neitt fyrir því. Og svo rökstyðjum við ekki neitt, að sjálfsögðu.

Þetta er alveg makalaust og rakalaust kjaftæði!

Sumir vilja einhvern veginn neyða okkur til að biðjast afsökunar á því að vera trúlaus og til þess reyna þeir einatt að spyrða þessari lífsskoðun við ýmsa mannlega misbresti sem við höfum ekki. Varla erum við ein um það að finnast málflutningur sumra gagnvart trúlausum vera litaður af dálítilli heift og fordómum? Við þurfum enga auma afsökun til að vera trúlaus, hver er þín auma afsökun fyrir að trúa?

Ritstjórn 13.12.2009
Flokkað undir: ( Klassík , Listi , Rökvillur , Vantrú )

Viðbrögð


Sveinn Þórhallsson - 13/12/09 12:18 #

Varðandi lið 6, sáu örugglega ekki allir myndbandið 'Open-mindedness' frá QualiaSoup á youtube?

Hér er slóðin: http://www.youtube.com/watch?v=T69TOuqaqXI


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/09 15:44 #

Góð grein og myndbandið ætti að vera skylduáhorf! Væri kannski ráð að taka lykilatriði saman í grein [nei, ég er ekki að bjóða mig fram], margir sem nenna ekki að bera sig eftir myndböndum (eiginlega tilviljun að ég nennti að opna tengilinn).

Annars held ég að tilgangurinn með "rauða þræðinum" sé ekki alltaf að vekja upp sektarkennd, heldur sé þarna frekar um (jafnvel ómeðvitaða) minnimáttarkennd að ræða..


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 13/12/09 20:05 #

Góð grein og of sönn. :)

Horfði á myndband QualiaSoup fyrir nokkrum vikum og fannst það mjög fróðlegt. Hef einnig horft á hin Youtube myndböndin hans.


Magnús Pétursson - 14/12/09 02:20 #

Mig langar að taka mér það bessaleyfi að svara hverri þessari athugasemd eins og ég mundi gera/hef gert í samræðum um trú og trúleysi.

  1. Er verið að halda því fram að eftir því sem menntun manna aukist minnki líkur til þess að þeir séu trúaðir? Það getur svo sem vel verið. (þetta hefur að því ég best veit ekki verið rannsakað hér á landi) En hvernig er það þínum málstað til framdráttar? Væru það ekki rök gegn trú á hið yfirnáttúrulega ef flestir þeirra sem hafa helgað lífi sínu skoðunar á alheiminum hafna þeirri kenningu að hann hafi verið hannaður og honum sé handstýrt ofanfrá?

  2. Reiður róttæklingur, höfum það á hreinu. (Ég er ekki meðlimur í neinum stjórnmálaflokki og lít á það sem algera pínu að finna illskársta kostinn á kjörseðlinum.) (Ég nota eintöluna viljandi, þar eð ég þekki ekki alla þá sem skrifa á vefinn og vil ekki ljúga upp á þá stjórnmálaskoðunum) Fyrst minnst er á kumpánana Adolf Hitler og Jósef Djúgasvíli, betur þekktur sem Stalín, ætla ég aðeins að fjalla um þá aftast í svarinu.

  3. Ég var kallaður siðleysingi úr ræðustól Alþingis af fyrrverandi ráðherra og þurft að sitja undir verri fúkyrðaflaumi en það frá mönnum sem mér skilst að samfélagið hlusti á (þ.e. prestum og biskupi). Ég tel mig aldrei hafa farið meiri offari í orðanotkun en þeir. Hinsvegar áskil ég mér rétt til að kalla þá sem tjá sig um vísindi án þess að hafa hundsvit á þeim fúskara og þá sem veita læknisráð án þess að hafa þartilhannaða menntun skottulækna(sem mér finnst skemmtilegt orð og væri til í að sjá oftar notað hér) og jafnvel glæpamenn, en þar hef ég landslög á bak við mig.

  4. Ég tel mig umburðalyndan mann og dytti ekki í hug að svipta nokkurn mann vísvitandi einhverri huggun eða uppljómun sem einhver trú veitir þeim, þó sá brunnur sé skraufþurr hvað mig varðar. Ég er hinsvegar á móti því að börn, og aðrir þeir sem hafa ekki fengið þjálfun í gagnrýninni hugsun, séu innrætt í trúnni, sérstaklega vegna þess hve það grefur undan gagnrýninni og sjálfstæðri hugsun og gerir barnið þannig móttækilegra fyrir svindlurum. Ennfremur er ég forvitinn að eðlisfari og mig langar að vita af hverju fólk trúir, svo ég spyr það spurninga um trú sína. Ef einföld spurning, borin upp kurteislega og af fróðleiksfýsn, grefur undan trú manna eins og ég hef komist að geti gerst, þá er það ekki mér að kenna. Því eins og gamla barnalagið bendir á, þá getur átta ára trítill borið upp spurningu um Guð sem helstu guðfræðivitringar hafa velt fyrir sér og aldrei gefið neitt annað svar en útúrsnúninga.

  5. Mér dettur ekkert í hug til að bæta við það sem kemur fram í greininni. Nema að ég hef komist að því að ég veit ekki endilega minna um t.d. lúterska guðfræði en hinn trúaði leikmaður. "Fordómar" er þar af leiðandi gríðarlegt rangnefni yfir trúarskoðanir mínar. Ennfremur, Hvað er ofstækisfull rökhyggja? Getur einhver sagt mér það?

  6. Þröngsýnn á hvað? Ég vil athuga hvað heimurinn hefur upp á að bjóða áður en ég heimta meira. Getur þú ekki horft á garð og séð að hann sé fallegur, án þess að trúa því að í honum búi álfar? (svo ég leyfi mér að vitna í Douglas Adams.) Sá sannleikur sem við sjáum í stjörnusjónaukum, öreindahröðulum og lífríkinu er fallegur, en jafnvel þó hann væri það ekki, þá væri það leti og mannvonska að loka augunum fyrir honum og skálda upp eitthvað í staðinn.

  7. Ég trúi því sem hægt er að sanna fyrir mér og vantreysti öðru. Vandamálið við raunvísindin er að sjálfsögðu að ekki er hægt að sanna kenningar þar eins og í stærðfræði, heldur aðeins hægt að reyna mjög mikið að afsanna þær og mistakast. Ef steingerðar kanínuleifar finnast á morgun í hrauni sem rann á tímum risaeðlanna, þá verður búið að afsanna þróun og mannkynið verður að byrja frá byrjun að leita að skýringu á fjölbreytileika lífs á jörðu. Með Guð er þetta öfugt farið. Allt frá AD 380 hafa margir mestu hugsuðir hins vestræna heims reynt að sanna tilvist Guðs, en alltaf mistekist. Svo á 18. og 19. öld byrjuðu menn að setja fram kenningar um eðli lífs og alheimsins sem gerðu ekki ráð fyrir guði. Síðan hafa menn hamast við að finna veikleika á þeim kenningum, breytt þessu, bætt hitt og hent heilum hellingi (t.d. ljósvakanum, Æter). Nútímavísindin gera ekki ráð fyrir Guði vegna þess að þau þarfnast hans ekki.

  8. Margir átta sig ekki á einum mikilvægum punkti. Ég met Dawkins (Hitchens, Adams, Dennet, Russel,...) mikils vegna þess að ég tel hann (þá) hafa rétt fyrir sér, ekki öfugt. Þeir sem þekkja ekkert nema kennisetningavald sjá það alls staðar, jafnvel þar sem það heldur sig ekki.

  9. Mamma þín er költ! Svona last-ditch skítkasti er varla hægt að svara nema með háði. (þeas. ég get það ekki)

  10. og 11. Sjá 6.

Skoðum Hitler. Hann var skýrður kaþólikki og afneitaði pápískunni aldrei opinberlega. Þvert á móti voru samskipti Þýskalands nasismans við Páfagarð grunsamlega góð alveg þangað til yfir lauk, samanber þá samninga sem undirritaðir voru á milli ríkjanna (Reichskonkordat) og tilskipun Páfa um að foringjanum skyldi óskað til hamingju með afmælið úr prédikunarstólum og að fyrir honum skyldi beðið. Það er meir að segja til bréf frá Rudolf Hess til ríkisstjóra Bæjaralands þar sem sá fyrrnefndi biður hinn síðarnefnda að náða "hinn góða kaþólikka" Adolf Hitler eftir lélega valdaránstilraun árið 1923.

Stalín var ofurlítið flóknari. Vissulega hefur sú kirkja sem reyndi að þjálfa Stalín til prests afneitað honum, en hún er ekki ein um það, ekki einusinni ein um að hafa ekki verið sannfærandi í afneituninni. Rétt er það að Lenín aflagði ríkiskirkju í Rússlandi, en hún fékk ákveðið kombakk hjá Stalín. Sú saga er áhugaverð, en fulllöng til þess að hægt sé að gera henni góð skil hérna. Ekki má svo gleyma hlut Lýsenkós og annara kraftaverkaprangara í hve auðveldlega Stalín hreinsaði til sín völd.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 14/12/09 03:05 #

Þakka þér kærlega fyrir þetta Magnús.


Einar Jón - 14/12/09 11:55 #

Vinur minn á facebook skráir "líf fyrir dauðann" undir trúaskoðanir. Mér finnst það vera besta andsvarið við 10 og 11 sem ég hef heyrt.


Þórhildur - 28/12/09 11:50 #

Þegar þið talið um að trúleysingjar séu heimskir, þá trúiði væntanlega engu sem vísindamenn segja?

98% Vísindamanna í heiminum eru trúleysingjar.

Það er mjög auðvelt að sjá, að þeir sem eru ekki trúaðir eru almennt með betra logic en aðrir.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 28/12/09 16:05 #

Það er örlítið erfitt að sjá hverja þú ert að ávarpa Þórhildur. En svo það sé allveg á hreinu þá sýnist mér enginn hafa haldið því fram að trúleysingjar séu heimskir. Og þetta með vísindamennina. Þar sem þetta hefur verið kannað hafa tölurnar verið í þessum dúr... þó ég muni ekki eftir að hafa séð 98% sem töluna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.