Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Viðskiptaguðfræði

Neskirkjupresturinn Örn Bárður er lygari. Honum er eflaust vorkunn að vera jafn raunveruleikafirrtur og raun ber vitni, en blygðunarlausar lygar prests á síðum Morgunblaðsins (23/11/04, bls. 28) eru með slíkum ódæmum að hverjum Íslendingi hlýtur að vera gróflega misboðið.

Prestur staðhæfir að þjóðkirkjan sé rekin eingöngu af sóknargjöldum - basta! Þetta er ekki rétt eins og presti er vel kunnugt og slík fullyrðing annað hvort helber lygi eða fákunnátta. Nú veit ég að prestur er auðtrúa eins og títt er með fólk í hans stöðu, en áður en hann kastaði almennri skynsemi fyrir róða og fór að klæða sig uppá guði til dýrðar sýslaði hann um önnur mál sem viðskiptafræðingur. Fákunnáttu í fjármálum er því ekki til að dreifa og því hlýt ég að álykta sem svo að prestur ljúgi af ásetningi.

Því fer víðfjarri að kirkjan Arnar Bárðar sé rekin fyrir sóknargjöldin eingöngu. Fyrsta desember árið 2003 voru 6603 sóknargjaldsskyldir einstaklingar í Nessókn. Einhver hluti greiðir ekki sóknargjöld vegna þess að gjöldin eru ekki tekin af þeim, sem greiða ekki tekjuskatt. Ríkissjóður sér um innheimtuna og greiðir mánaðarlega til kirkjunnar. Ef Örn Bárður ætti sjálfur að rukka sóknarbörnin mundi innheimtukostnaðurinn einn nema mörgum milljónum króna. Landsmenn allir, þ.e.a.s. ríkið, borga brúsann. Til eru fyrirbærin Jöfnunarsjóður sókna og Kirkjumálasjóður, en samtals greiða landsmenn allir 29.8% ofan á sóknargjöld í þessa tvo sjóði, sem kirkjan ráðstafar. Þetta er álitleg upphæð og er talin í hundruðum milljóna ár hvert. Nýrisið safnaðarheimili Neskirkju var styrkt um a.m.k. eina milljón úr Kirkjubyggingarsjóði Reykjavíkurborgar (!?!), sem fjármagnaður er af skattfé Reykvíkinga. Neskirkja stendur svo á gjafalandi og greiðir ekki fasteignagjöld, frekar en aðrar kirkjur. Þarf að telja upp fleira svo prestur skammist sín?

Það er deginum ljósara að Neskirkjuprestur tekur heilshugar undir með kollegum sínum hjá olíufélögunum um fíflshátt almennings.

Guðmundur Guðmundsson 30.11.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/04 11:26 #

Sóknargjöld til þjóðkirkjunnar eru 1.431.000.000,00 kr. árið 2004. Önnur gjöld eru sem hér segir:

Biskup Íslands: 1.155.700.000,00 kr. Sérþjónustuprestur: 5.500.000,00 kr. Kirkjumiðstöð Austurlands: 1.200.000,00 kr. Langamýri í Skagafirði: 1.700.000,00 kr. Skálholtsskóli: 8.100.000,00 kr. Skálholtsstaður: 5.400.000,00 kr. Hallgrímskirkja: 5.400.000,00 kr. Hóladómkirkja: 2.700.000,00 kr. Dómkirkjan í Reykjavík: 5.400.000,00 kr. Auðunarstofa: 10.800.000,00 kr. Þingeyraklausturskirkja: 6.000.000,00 kr. Sértekjur: 30.400.000,00 kr. Kirkjumálasjóður: 161.500.000,00 kr. Kristnisjóður: 65.100.000,00 kr. Jöfnunarsjóður sókna: 264.600.000,00 kr. Biblíuþýðingar: 3.600.000,00 kr. Ritun Biskupasögu: 10.000.000,00 kr.

Sá sem heldur því fram að kirkjan sé eingöngu rekin af sóknargjöldum, að ekkert annað af skatttekjum almennings fari til þessa dómsdagskölts, er augljóslega að ljúga.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 30/11/04 12:08 #

Trúið mér, guðfræðingarnir geta snúið út úr þessu og sannað að Örn Bárður laug ekki.

Til þess munu þeir reyndar túlka öll hugtök umræðunnar á frumlegan hátt, helst í ljósi krists.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/04 14:56 #

Sjá nánar á Kirkjan.biz.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.