Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

SoS: Eru þið ekki bara költ líka?

Mörgum sýnist starfsemi sú sem fram fer á þessum vef í engu frábrugðin hverju öðru költi. Vikulegar vísanir okkar í skrif James Randi gefa mönnum m.a.s. átyllu til að núa okkur því um nasir að hann sé fullkominn költleiðtogi og að við séum bara auðsveipir lærissveinar hans.

Það er auðvitað grundvallarmunur á starfi okkar og költsöfnuða. Hvaða költ hvetja t.d. bæði meðlimi sína og alla aðra að ástunda gagnrýna hugsun? Hvaða költ halda ekki á lofti nokkurri einustu kenningu á eigin spýtur, en gera þess í stað út á að gagnrýna alla flokka manna sem þykjast geta reitt fram sannleikann án haldbærra aðferða?

Nei, ástæðan fyrir þessu vafstri okkar er fyrst og fremst sú að við komum auga á fáránleikann í öllu költvafstri og viljum vara fólk við slíkum félagsskap. Og Randi karlinn er ekkert hafinn yfir gagnrýni heldur. Við vísum í greinar hans af því þær eru fróðlegar og hugvekjandi.

Birgir Baldursson 30.12.2004
Flokkað undir: ( Spurt og svarað )

Viðbrögð


urta (meðlimur í Vantrú) - 30/12/04 09:10 #

Það er ansi billegt að kalla allar skoðanir "költ" í merkingunni hóp sem lemur meðlimi sína til skilyrðislausrar hlýðni við þá einu skoðun sem "költið" viðurkennir. Svona svipað og að segja við einhvern trúlausan að hann "trúi nú víst" ef hann er hjálpsamur og greiðvikinn.


Arnþór Jónsson - 30/12/04 11:56 #

Költ eða trúfélög hveta áhangendur sína til gagnrýnnar hugsunnar. Gagnrýni sú beinist að öðrum trúfélögum og skoðunum sem ekki samrýmast pólitískri rétthugsun költsins. Að þessu leyti er költið Vantrú eins upp byggt og skortir eins og önnur költ, gagnrýna hugsun um eigið ágæti.

Í dag er Vantrú frábrugðið öðrum bibblíuköltum í “skorti” sínum á leiðtoga, nokkuð sem gæti breyst þegar nýjabrumið er horfið og þegar fjármunir félagsins hafa orðið bein áhrif á eigin fjárhagsstöðu einstakra félaga, á neikvæðan eða jákvæðan hátt.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 30/12/04 12:08 #

Að þessu leyti er költið Vantrú eins upp byggt og skortir eins og önnur költ, gagnrýna hugsun um eigið ágæti.
Hvað veist þú um það? Ekki neitt, þetta er ekkert annað en draumórar geðsjúklings.


Jón Valur Jensson - 30/12/04 16:37 #

Hver velur sinn talsmáta, það leynir sér ekki, en samt vil ég, í sambandi við þetta orð sem allt snýst um á þessari vefsíðu, mælast til þess að þið notið ekki svona ljóta og leiða slettu úr ensku. Þetta orð, 'költ', er, sem betur fer, ekki orðið almennt orðfæri, hins vegar nota háskólamenn gjarnan aðra slettu, öllu fræðilegri: latneska orðið cultus (frb. kúltús), um sama fyrirbæri, þ.e. guðsdýrkun af ýmsu tagi, jafnvel dýrkun fyrirbæra í náttúrunni, en orðið cultus hefur á sér hlutlausan hljóm, ólíkt því sem mér 'heyrist' þegar orðinu 'költ' er slett hér. – Fyrirbærafræði trúarbragðanna (phenomenology of religion) skoðar þann cultus, sem þar birtist í ýmsum myndum, ekki með fordæmingardóminn á lofti nánast áður en augu skoðandans eru opnuð, heldur með forvitni þess, sem vill fræðast og skilja hvað er á seyði (sbr. 'undrun' heimspekingsins, sem varð upphaf vizku hans), og af opnum huga sem útilokar ekki fyrir fram, að maður geti lært eitthvað af þessu (má ekki ýmislegt af öllu læra?). Allar 'límmiðamerkingar' (labeling) – sem oft eru í reynd brennimerkingar – stífla hins vegar og spilla fyrir yfirvegaðri umfjöllun, setja þar að auki óvirðulegan blæ á umræðuna, sem þar með fjarlægist það markmið a.m.k. sumra að fjalla vísindalega og af rökvísi um málin. Eruð þið ekki til í að taka vel í þessa ábendingu mína, jafnvel þótt frá trúuðum manni komi? Er ekki sama hvaðan gott kemur?


Snær - 30/12/04 18:21 #

Jón Valur Jensson skrifaði: "Eruð þið ekki til í að taka vel í þessa ábendingu mína, jafnvel þótt frá trúuðum manni komi? Er ekki sama hvaðan gott kemur?"

Að því er ég best sé, er greinin einmitt ætluð til þess að taka á þessari 'límmiðamerkingu', a.m.k. í þessu eina tilviki.

Ég þakka þér fyrir að benda mér (og öðrum) á þetta mjög svo viðeigandi latínska (er latneska ekki töluð í Lettlandi, og latína í Róm hinu forna?) orð, og mér er nefnilega sama hvaðan gott kemur. :)

Annars þætti mér það gott hjá þér að koma fínskrifaðri útgáfu af þessum skrifum inn á einhvern viðeigandi vettvang, þannig að það megi kannski draga úr 'límmiðamerkingunni' sem slettan 'költ' er.


Jón Valur Jensson - 30/12/04 21:00 #

Þakka þér þetta, Snær. Athugum þetta. En lettneska er töluð í Lettlandi, latína var (og er jafnvel enn í smá-mæli) töluð í Róm; hins vegar er líka til íslenzka lýsingarorðið latneskur (dregið af Latium, sem er héraðið kringum Róm, og af tungumálinu latínu), og það er t.d. komið til okkar í hugtakinu latnesk tungumál (ítalska, franska, spænska, rúmenska o.fl.), sem og í heitinu Latneska Ameríka (sem er einmitt latnesk af því að þar er töluð spænska og portúgalska).


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 30/12/04 21:55 #

Ég held að það sé nær alltaf talað um rómönsk tungumál.


Jón Valur Jensson - 31/12/04 16:55 #

Rétt, Birgir, eins og Rómönsku Ameríku, þ.e. í íslenzku máli, en Latin America og Latin languages á ensku. En Þetta er 'deila' um keisarans skegg, því að merkingin er nákvæmlega sú sama hvernig sem á botninn er hvolft. Við eigum hins vegar afskaplega auðvelt með að finna okkur önnur deiluefni þar sem meir sker í odda milli okkar, ekki satt? – alltjent meðan vantrúin eldist ekki af ykkur.


Snær - 01/01/05 16:49 #

Jón Valur Jensson skrifaði: "Við eigum hins vegar afskaplega auðvelt með að finna okkur önnur deiluefni þar sem meir sker í odda milli okkar, ekki satt?"

Nei, ég held að ég verði að vera ósammála þér. :)

Mér sýnist þetta bara hafa verið skemmtilegur og fróðlegur úturdúr, þessi umræða um heiti tungumála.

Það er ekki eins og ég eigi ekki reglulega í svipuðum umræðum við skoðana-meðbræður mína.

"- alltjent meðan vantrúin eldist ekki af ykkur."

Til þess að vantrúin eldist af okkur, held ég að við þyrftum fyrst að endurlæra trúgirni, þannig að vantrúin mun líklega seint eldast af okkur, ef nokkurn tíma.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.