Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fordómar gagnvart trúlausum

Ein af ástæðunum fyrir tilvist Vantrúar er sú að fordómar gegn trúlausum eru algengir í samfélaginu. Einn þessara fordóma er sá að sökum trúleysisins eigi trúleysingjar erfitt með að finna til sammannlegra tilfinninga og sýna þær í verki. Prestar eru gjarnir á að boða þessa fordóma og síðustu helgi bættist einn héraðsprestur Þjóðkirkjunnar, María Ágústsdóttir, í þann stóra hóp presta sem lengja þá hefð kristinna manna að rægja trúleysingja.

Rétt á undan kaflanum „Vantraust á Guði – vöntun lífsfyllingar“ segir María í predikun sinni:

Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika.

Þetta segir María þegar hún er að ræða um boðorðin tíu og hún virðist bara rökstyðja þessa aðför að hæfni trúleysingja til þess að koma fram við fólk af kærleika með tilvísun til biblíunnar:

Að elskan til Guðs er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27.

Ef biblían boðar það að trúleysingjar geti ekki elskað náungann, þá er það frekar áfellisdómur yfir biblíunni heldur en rökstuðningur fyrir þessum fordómum. Það er nú ekkert nýtt að prestar noti „góðu bókina“ til þess að ráðast á trúleysingja. Í fermingarfræðslubókinni minni var bent á fyrsta versið í fjórtánda Davíðssálmi: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: ,,Guð er ekki til.“ Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.[1]. Æðsti biskup Þjóðkirkjunnar talaði nýlega um „sálardeyðandi og mannskemmandi [áhrif] guðleysis og vantrúar“.[2]

Að vissu leyti er ekki beint við Maríu sjálfa að sakast. Hún hefur líklega lært þessa kristnu fordóma allt frá barnæsku. En hún ætti samt að átta sig á því að sá fjórðungur þjóðarinnar sem segir að guð sé ekki til [3] á ekki erfitt með að koma fram við fólk að kærleika og elska náungann.

Ef sömu ummælum væri beint til annars hóps, svo sem samkynhneigðra, er ég viss um að flestir myndu ekki sætta sig við þá fordóma:

Án kynferðislegrar löngunar til fólks af gagnstæðu kyni er erfitt að koma fram við fólk af kærleika.

Að kynferðisleg löngun til fólks af gagnstæðu kyni er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27.

Því er oft haldið fram að við á Vantrú séum dónaleg. Ég held samt að engum okkar myndi detta það í hug að halda því fram að kristið fólk gæti ekki elskað náungann eða að það ætti erfitt með að koma fram við fólk af kærleika.

Ég vona að þessi ummæli Maríu eigi eftir að reka á eftir fólki til þess að hætta að borga launin hennar og skrái sig úr Þjóðkirkjunni.


1.Líf með Jesú, Jan Carlquist og Henrik Ivarsson, Æskulýðsstarf Þjóðkirkjunnar, Reykjavík 1979, bls. 5
2. Hvernig manneskja viltu verða?
3. Trúarlíf Íslendinga 2004 (*.pdf), bls. 30: "Það er ekki til neinn annar guð en sá sem manneskjan sjálf hefur búið til: 26,2%"

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.10.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Magnús - 16/10/07 08:44 #

Það er löngu kominn tími til að þeir sem telja sig umburðarlynda kristna menn sláist í hóp með trúlausum og fordæmi rugl af því tagi sem enn einn presturinn gerir sig þarna sekan um. Ef einhver vill síðan spjalla um það við mig undir fjögur augu að ég elski fjölskyldu mína og vini minna en næsti maður og komi almennt illa fram við fólk vegna þess að ég trúi ekki á yfirnáttúrulegar verur, þá er um að gera að hafa samband og útskýra það allt saman fyrir mér.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/10/07 09:23 #

Auðvitað ætti fólk að skrá sig úr þjóðkirkjunni en áfram heldur það þó að borga sinn skerf að bruðli hennar með óbeinum sköttum. Og prestar fá ákveðnar greiðslur útfrá hausafjölda í sinni sókn, óháð trúfélagaskráningu þeirra.

Svo má vera að María hafi alls ekki verið að skjóta á trúleysingja heldur að lýsa eigin reynslu og annarra trúmanna. Sé svo megum við líklega þakka fyrir trú þeirra.

Allt um það er þó ljóst að elska kristinna á guði sínum er greinilega ekki nægjanleg í öllum tilvikum, til að þeir komi fram við aðra af kærleika.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 16/10/07 13:25 #

Frábær punktur að yfirfæra fordóma Maríu Ágústsdóttur á þá sem trúa ekki á guðinn hennar, yfir á samkynhneygða.

Ég hef oft fárast á öfga-bríksli þeirra trúuðu um Vantrú og þá sem leggja ekki trú á yfirnáttúru. Gjarnan er talað um okkur sem "öfgafulla trúleysingja" eða þvíumlíkt.

Fólki til upplýsingar þá er bæði ljúft og skylt að benda á að hvorki Vantrú né trúleysingjar fara ekki í skólana með boðskap sinn og áróður (fyrir utan fyrirlestra á opnum dögum í nokkrum framhaldsskólum) Ríkiskirkan sækir stíft með skipulögðu trúboði í skóla á öllum skólastigum. Þar eru LEIKSKÓLAR ekki undanskildir!

Þótt að trúleysingjar séu gjarnan álitnir siðlausir af þeim trúuðu (að mati trúmanna er trú á yfirnáttulega veru forsenda siðferðis)dettur engum trúleysingja að fara með trúleysisboðskap í leikskóla landsins!

það er með ólíkindum hvað ríkiskirjan leggst lágt í trúarátroðslu sinni.

-Alveg með ólíkindum.


Árni Árnason - 16/10/07 15:16 #

Er ekki María að gera akkúrat það sem Farísearnir voru gagnrýndir fyrir. Hún er að berja sér á brjóst, biðja bænir sínar á torgum og segja sjáið hvað við eru miklu betri en hinir.

"Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika."

Þvílík dómadagsþvæla, að ást á ímynduðum himnadraug sé forsenda þess að geta komið fram við fólk af kærleika. Þetta er hreinn og klár dónaskapur við okkur trúlausa. Éttan sjálf María.


Kári - 17/10/07 08:51 #

Þeir sem trú á guð hafa komið fram við trúlausa í gegnum árin af miklum kærleika, brent þá á báli og hengt þá af kærleika. Það er skrítið hvað trúaðir verða alltaf reiðir þegar þeir heyra að maður trúir ekki á guð. Ætli þeir hafi verið að reyna að sanna það fyrir trúlausum að guð sé til með því að drepa þá? spurning.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 18/10/07 21:08 #

Meira bullið í þessari Maríu vildi ég bara segja.

Þetta kallar maður á góðri íslensku Helgislepju.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 19/10/07 11:13 #

Eftir því sem ég hugsa meira um orð séra Maríu þá verð ég gramari ef svo má að orði komast.

Með orðum sínum heggur hún að rótum manneskjunnar og dregur í efa þær tilfinningar sem trúleysingjar bera í garð sinna nánustu. Hús segir orðrétt; "Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika"

það er s.s "erfitt" fyrir mig að koma fram við foreldra mína, konuna mína og börnin mín þrjú af kærleika vegna þess að ég elska ekki guðinn hennar Maríu...

Ég átti hreinlega ekki von á þessu. -Með harðan skráp og allt það, en að það myndi svíða undan helgislepju kjaftæði í prest-garmi, átti ég ekki von á...


Sigurður Karl Lúðvíksson - 19/10/07 13:31 #

Einstaklega ómaklegt hjá Maríu Ágústsdóttur. Ætli hún meini þetta í alvöru? Þetta er bara svo fráleitur þvættingur og dónaskapur, eða er hún bara að spýja út hugsunarlausri og velgjulegri helgislepju, eins og prestar gera iðulega til að hljóma gáfulegir? Væri kannki ekki bara tilvalið að vantrúarmenn sendi henni póst og krefja hana svara? Helst í opnu bréfi í blöðin, til að minna fólk á að hlusta aðeins á ruglið sem kemur út úr þjóðkirkjunni. Er viss um að þetta vekji marga til umhugsunar, eða maður vonar það.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/10/07 15:28 #

Maríu var bent á þennan pistil en hún kýs að hundsa hann.

Það kalla prestar víst "heiðarlega umræðu"!


Haukur Ísleifsson - 19/10/07 18:20 #

Ég skil ekki fólk sem segir að maður geti ekki verið góður nema með því að trúa á ósýnilegan vin. Hvað gerist þá ef þetta fólk "missir" trúnna.


Dvergurinn (meðlimur í Vantrú) - 19/10/07 20:43 #

Hvað gerist þá ef þetta fólk "missir" trúnna.

Líf þeirra verður innantómt, kærleikslaust og siðlaust, ef við eigum að trúa orðum prestanna. Það eigum við auðvitað að gera, þar sem þeir tala jú máli sjálfs Jave.


Haukur Ísleifsson - 20/10/07 17:06 #

Myndu þeir þá drepa, ræna og nauðga því það væri ekkert sem stoppar það lengur.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 22:13 #

Maríu var bent á þennan pistil en hún kýs að hundsa hann. -Það kalla prestar víst "heiðarlega umræðu"!

Er þetta ekki kallað "samtal ólíkra skoðanna" í ríkiskirkjunni? Ég vildi gjarnan heyra frá Maríu sem heldur því fram að ég eigi "erfitt" með að elska mína nánustu vegna þess að ég trúi ekki á ósýnilega veru í himninum.

Ég held að María sé barsta slæma samvisku í þessu dæmi og vilji gleyma þessum orðum sínum sem fyrst. Ég er alvarlega að íhuga að skrifa litla grein í Moggan um þessi ógeðfeldu orð Maríu. En vissulega væri forvitnilegt að heyra skoðun Maríu á þessum orðum.


Jonni - 13/10/10 10:48 #

Fordómar gegn trúleysingjum? Þessi síða er ein stór síða með fordóma gagnvart trúuðum, svo ég tali nú ekki um að það er engann kærleika hér að finna heldur heldur sífellt dæmandi alla þá sem eru ykkur ekki sammála. Sorglegt að sjá fólk tínast í svona biturleika.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/10/10 10:59 #

Jonni, að gagnrýna trú er ekki það að vera með fordóma gegn trúuðum.

Svo skil ég ekki hvernig það ætti að vera vörn fyrir Maríu. Gefum okkur það að ég væri haldinn fordómum gegn trúuðum. Afsakar það fordómafull ummæli Maríu? Auðvitað ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.