Ég hef lítið gert annað á þessum málefnavöllum undanfarið en benda á skaðsemi ýmissa trúarhugmynda. En þar sem þetta er út um víðan völl hérna í vefritinu þykir mér nokkur nauðsyn á að taka þær helstu saman og halda þeim til haga í einni grein. Þannig má þetta ef til vill gagnast sem alhliða svar við þeirri spurningu hvers vegna í ósköpunum við séum að skipta okkur af því hverju fólk trúir. Þessi listi er langt í frá tæmandi og búast má við að fleiri atriði tínist inn í athugasemdakerfið. Ykkur er velkomið að bæta við þetta og auðvitað væri líka gaman að fá rök fyrir því að það sem hér er nefnt gagnist ekki sem dæmi um skaðsemi.
Trúarhugmyndir (t.d. kristnar) setja menn í andstöðu við líknardráp og fóstureyðingar. Dæmi eru um að fóstureyðingarlæknar hafi verið myrtir í Vesturheimi sökum þessara hugmynda. Á Íslandi eru það hvítasunnusöfnuðir og kaþólikkar sem boða þennan ófögnuð. #1, #2
Trúarhugmyndir setja sumt fólk í andstöðu við stofnfrumu- og genabreytingarannsóknir. Þetta fólk telur að fitl við sköpunarverkið sé andstætt vilja guðsins þeirra. Íslenska Þjóðkirkjan hefur velt fyrir sér málinu og aðrir kristnir söfnuðir haft stór orð um málefnið.
Trúarhugmyndir valda því að kaþólikkum er illa við getnaðarvarnir. Þeir ganga jafnvel svo langt að banna notkun smokka í kaþólskum Afríkulöndum og stuðla þar með að útbreiðslu alnæmis. #1
Kaþólikkar hafa líka boðað forgarð helvítis og ungbarnalimbó og með því þjakað syrgjandi foreldra og ættingja þeirra sem ekki hafa tekið heilagt sakramenti þessarar stofnunar. #1
Samkynhneigðir hafa löngum átt erfitt uppdráttar í samfélaginu vegna trúarhugmynda. Nærtækast er að benda á baráttu þeirra við Þjóðkirkjuna. Enn er alið á fordómum í garð þessa þjóðfélagshóps og það af ríkisstofnun, en hún er og hefur alltaf verið úr takti við almenna siðferðisþróun. Ástæðan: Trúarhugmyndir.
Sökum trúarhugmynda sem birtast í Biblíunni gengur margt fólk með þær ranghugmyndir að illir andar geti tekið sér bólfestu í mönnum. Einnig að hægt sé að reka þá út með alls kyns afkáralegri trúarhegðun. Margir hafa þurft að þjást gegnum aldirnar fyrir þessar ranghugmyndir, ekki síst geðsjúkir. #1, #2
Vegna annarlegra ranghugmynda boða ýmsir söfnuðir dómsdag þar sem Jesús Kristur mun koma og sortera menn í hólpna og útskúfaða. Þetta hefur valdið mörgum sakleysingjanum hugarangri gegnum aldirnar, því menn hafa óttast að verða ekki hólpnir t.d. vegna hegðunar sinnar og hugsunar.
Kristindómurinn boðar synd. Þetta hugtak er afar ógeðfellt og hefur valdið miklum skaða. Menn burðast með sektarkennd ævina á enda fyrir saklausa hluti eins og að girnast aðra einstaklinga en maka sinn (hór), fyrir samkynhneigð sína eða efasemdir um guðdóm. Þessu sama fólki finnst eins og að því verði útskúfað á dómsdegi, samanber lið 7.
Trúarhugmyndir kveða á um að eigi skuli láta galdrakonu lífi halda. Þarna er alið á þeirri firru að galdrar séu raunveruleg staðreynd og að til sé fólk sem hafi kynngikraft. Á ljótu tímabili í mannkynssögunni var saklausu fólki í þúsunda-, ef ekki milljónatali varpað á bálköst og látið brenna fyrir þennan ímyndaða glæp. Og enn í dag eru dæmi um að fólk verði fyrir ofsóknum af þessum sökum.
Trúarhugmyndir hömluðu lengi framgangi læknavísindanna. Frægt er að trúarstofnanir beittu sér gegn krufningum, bólusetningum og mörgum öðrum framfaramálum mannkyns. Á okkar dögum eykst andstaðan við markvissa þekkingarleit vísindanna þegar hún fer í bága við trúarritin, sbr. deiluna vestanhafs um þróunarkenninguna og sköpunarhugmyndir (sjá nr. 20).
Kristnir menn fóru á tímabili í krossferðir gegn islamskri alþýðu í krafti þeirra ranghugmynda sem trú þeirra boðaði.
Ísraelsríki nútímans er reist á þeirri ranghugmynd að gyðingar séu hin útvalda þjóð guðdómsins og að þeim beri þar með skilyrðislaus réttur til að ríkja yfir landi því sem forverar þeirra réðu í fyrndinni.
Trúarhugmyndir múslima gerir marga þeirra umburðarlausa í garð þeirra sem aðhyllast önnur sjónarmið en islam.
Í krafti trúarhugmynda undiroka hindúar á Indlandi eina stétt manna, hafa af henni öll lágmarks mannréttindi.
Trúarhópur í Keflavík trúir á látna móður og hlýtir leiðsögn hennar. Börn þessa fólks eru ekki send í skóla og ýmsir árekstrar hafa orðið við barnaverndaryfirvöld. #1
Í krafti trúarhugmynda stíga ýmsir loddarar á stokk og þykjast geta læknað fólk með kraftaverkum. Fjölmargir hrekklausir sakleysingjar skaðast af því að trúa á þessa lækningu og kasta frá sér meðulum og hjálpartækjum. Þegar svo sefjunarmókið svífur af þeim eru þeir oft verr settir en áður. #1
Gífurlegir fjármunir fara í að reka kirkjur, synagógur og moskur um víða veröld, til að viðhalda annarlegum ranghugmyndum. Þessum fjármunum gæti verið mun betur varið, t.d. til að styrkja varnir gegn vá. #1
Algengt er að fólk leggist á bæn til hjálpar öðru fólki, enda sú skaðlega ranghugmynd boðuð að hjálpræði felist í slíkri hegðun. Í raun er engin hjálp í slíku og mun viturlegra að nota þennan tíma og orku í að rétta fram raunverulega hjálparhönd. #1, #2
Þjóðkirkjan hér á landi eyðir ógrynni fjár skattborgaranna í að halda ranghugmyndum um guðdóm að skóla- og leikskólabörnum, í krafti þess að öllum sé gott að trúa á Hvíta-Krist. Þetta fólk áttar sig ekki á því, vegna þess hve kyrfilega þessar fáránlegu hugmyndir eru fastar í kollinum á þeim, að með þessu er verið að ræna börnin möguleikanum á að temja sér lífsskoðanir á sjálfstæðan og gagnrýnin hátt þegar þau vaxa úr grasi. Auk þess væri þessum fjármunum mun betur varið í að efla raunverulegt nám barnanna, nú eða heilbrigðiskerfið.
Vestanhafs á skólakerfið líka undir högg að sækja vegna trúarhugmynda. Málið þar þó sýnu alvarlegra en hér, því áhrifamiklir trúflokkar hafa það að markmiði að takmarka kennslu í þróunarfræðum og tefla fram afkáralegum Biblíuhugmyndum um sköpun heimsins. Kalla það sköpunarvísindi. #1, #2
Heyrst hefur frá guðfræðingum að vísindastarf byggi aðeins á mýtu sem fella megi úr gildi. Við erum að tala um fólk sem gengur um göturnar hér mitt á meðal vor í þessu vestræna nútímasamfélagi! #1
Trúarhugmyndir hljóða gjarna upp á að trúleysi sé hættulegt viðhorf og að mannlegu samfélagi geti jafnvel stafað af því hætta. Bæði Biblía og Kóran boða slíkan ófögnuð og fjölmargir sakleysingjar taka allt það kjaftæði upp á arma sína. #1
Margir kristnir menn skoða krossfestingu skurðgoðsins síns sem verk gyðinga og fordæma þá þar með. Lúter var einn þeirra, en líka Hallgrímur Pétursson sálmaskáld. Gyðingar hafa mikið liðið fyrir þetta tilhæfulausa hatur gegnum aldirnar. #1, #2, #3, #4
Trúarsöfnuðir eru sífellt með klærnar í vösum trúgjarnra fórnarlamba sinna. Alþekkt er stöðugt betl predikunarsjónvarpsstöðva, en um aldir hefur líka viðgengist að dós sé látin ganga meðal þeirra sem sækja kirkjur. Með þessu er styrkt sú ranghugmynd að peningagjafir geri menn hólpnari en ella. Fátækur lýðurinn blæðir en feitir prelátar fitna meir. Mjög rammt kveður að þessu í hinum frjálsu söfuðum og má jafnvel halda því fram með réttu að þar séu einfaldir sakleysingjar misnotaðir fjárhagslega á grófan máta í krafti þeirra trúarhugmynda sem verið er að selja þeim.
Trúin getur virkað eins og öflugt dóp á fólk og fengið það til að draga sig út úr samfélaginu, vinna öðrum mein og skaða sjálft sig. Þetta er reyndar skýringin á mörgu því sem talið er upp hér að ofan.. #1
Flest trúað fólk gengur um með þá ranghugmynd að þeirra guð sé góður. Oftast eru guðinum gerðar upp sömu skoðanir og menn hafa sjálfir, þótt þær séu algerlega í bága við það sem í trúarritunum stendur. Þetta kallar á undarlegt siðferðismat, því hvernig getur guð sem úskúfar öllum sem ekki á hann trúa verið góður? Þetta fólk lætur sér jafnvel eymdin í veröldinni í léttu rúmi liggja, því guðinn er átómatískt góður og því hlýtur ástandið í veröldinni bara að vera sallafínt, fyrst hann vill hafa þetta svona. #1, #2
Trúarskoðanir eru órökstuddar, en fólki finnst mörgu hverju ólíðandi að þær séu gagnrýndar. Skilyrðislaus krafa um að þessum skoðunum sé sýnd virðing kallar á að þeir sem gagnrýna eru oft úthrópaðir og hataðir. En um leið áttar þetta fólk sig ekki á því að með því að ráðast svo harkalega að gagnrýnendunum gerir það sig sjálft sekt um nákvæmlega það sama og það úthúðar hinum fyrir. Og afleiðingarnar eru beiskja, mannfyrirlitning og vanlíðan. Ef ekki væri búið að sannfæra allt þetta fólk um heilagleika hugmynda sinna gæti það hugsanlega rætt málin í bróðerni.
Vottar Jehóva eru, vegna trúarhugmynda sinna, á móti blóðgjöfum og láta frekar börnin sín deyja en þiggja blóð.
Sjá líka Skaðsemi kristindómsins
Flott yfirlit Birgir. Það er gott að hafa svona lista þegar maður ætlar að skrifa eitthvað. Það má bæta við listann og efnisflokka. kv. Svanur
Hvað heitir söfnuðurinn í Keflavík, finnst trúarsöfnuðir afar áhugaverðir og væri til í að fá meiri upplýsingar um hann.
Finnst reyndar vefurinn vantrú einnig áhugaverður og skoðanir mann þar, sjálfur er ég kristinnar trúar.
Varðandi nr. 4. Það eru ekki bara kaþólikkar sem halda þessu fram, heldur allir kristnir söfnuðir sem stunda barnaskírnir. Fullorðinsskírendur telja að sál sé hólpin þangað til fullveðja einstaklingur tekur meðvitaða ákvörðun um að skírast eða hafna kristi, en sjálf hugmyndin um barnaskírn gengur út á að taka barnið í samfélag trúaðra enda sé það forsenda þess að sál barnsins komist til himnaríkis (sbr. "enginn kemst til himna nema vegna mín" eða hvernig sem setningin nú er).
Þjóðkirkjan íslenska og aðrir barnaskírendur eru því líka með þá trú að börn komist bara skírð til himna, þótt vissulega sé ekki mikil áhersla á það atriði í íslensku trúarstarfi og fæstir Íslendingar séu meðvitaðir um þetta. Að segja skilið við þessa trú felur í sér að hafna barnaskírnum, eða í það minnsta að hafna því að barnaskírn hafi nokkurt gildi varðandi tengsl barns við guð.
Skírnin er af öllum kristnum söfnuðum talin ein mikilvægasta stund einstaklings, vegna sambandsins við guð sem þar verður til, og lang flestir söfnuðir láta börn gangast undir þetta. Fullorðinsskírendur eru mjög lítill hluti kristinna.
Rétt er að minna á það í þessu sambandi að börn sem fæðast veik voru (eru?) jafnan skírð svokallaðri skemmri skírn hér á landi ef menn óttuðust að þau myndu látast áður en þau myndu ná að skírast í venjulegri athöfn. Þetta er ekki kaþólskur siður heldur einfaldlega kristinn siður.
Í stuttu máli: það sem þú segir í lið 4 um kaþólikka á við nánast alla kristna söfnuði.
Hvítasunnukirkjan er fullorðinsskýrendur og eru önnur stærsta kirkjudeild í heminum síðan 1997 svo er hæpið að segja að þeir séu lítill hluti kristinna. 2 af þremur stærstu eru þó barnaskýrendur. En getur einhver frætt mig um þennan Keflíska söfnuð :)
Khomeni veit meira um þennan söfnuð.
Mér er ekki kunnugt um þetta limbó hjá lúterskum. Ég stóð í þeirri trú að barnaskírn lúterskra fælist í að hreinsa börnin af erfðasyndinni, ekki til að þau kæmust til himna, heldur til að þau gætu byrjað með hreint borð.
Hvar get ég spurt hann, sá hann hvorki undir pennum né lausapennum hjá ykkur. Væri áhugavert að kynna sér þetta frekar.
nr 29 Nokkrir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum telja að jesu muni endurfæðast innan 50 ár. Þar af leiðandi þarf ekki að takast á við mengunarvandamálin og USA getur haldið áfram að standa fyrir stórum hluta mengunar í heiminum, því Jesu reddar þessu þegar hann kemur innan 50 ára.
Rétt hjá Ástu en ég verð að bæta við að þessir kristnu öfragrúarmennn (ekki nokkrir, heldur um 20% bandarískuþjóðarinnar!) líta svo á að hnignun jarðar, stríð og hækkun hitastigs af völdum menguna, útrýming dýrategunda og sjúkdómar...Séu einmitt "sign of God". Sönnun þess að Jesú kemur. Því samkvæmt útreikningum þeirra og (hæpnum) biblíutúlkunum mun heimurinn upplifa hörmungar áður en endurkoma Jesú verður að veruleika.
Í þessum anda þ.e.a.s tilbeiðslu eyðileggingarinar má sjá mörg áþreyfanleg dæmi. Sjáið t.d bifreiðarnar sem koma frá USA. Stóru Jeppanan sem eyða á við 3 - 4 fólksbíla.
K.
Tillitssamt af þér, Birgir, að draga alla þína fáfræði og fordóma saman á einum stað.
Punktar 1 – 10: Strámenn. Það að sumir aðhyllist þessa vitleysu og réttlæti hana með trú sinni gerir hana ekki að trúarhugmynd. Ekki frekar en að hleranir séu stjórnmálaskoðun. Langflestir trúmenn eru andvígir þessu öllu.
Punktur 11: a) Síðasta krossferðin var farin á þrettándu öld. Er Kambsránið ekki nærtækara dæmi um skaðsemi kapítalískra hugmynda en krossferðir um trúarhugmyndir – fyrir nú utan: b) Krossferðir höfðu ekkert með trúmál að gera heldur pólitík. Sá þjóðhöfðingi sem ráðið hefði Jerúsalem hefði verið með öll tromp á hendi í pólitískri refskák þeirra tíma. Krossferðirnar eru miklu betra dæmi um skaðsemi stjórnmála en trúar.
Punktar 12 – 16: Sjá punkta 1 -10.
Punktur 17: Í kirkjum landsins er unnið gríðarlega mikið og gott sálgæslu-, æskulýðs- og forvarnarstarf. Aðeins rakið skítmenni getur verið andvígt þeirri starfsemi.
Punktur 18: Hrein lygi. Fjöldi manns gæti sagt sögur af því hvernig það gerbreytti allri líðan þeirra að öðlast bænalíf, auk þess sem það að biðja fyrir einhverjum er í fyrsta lagi ekki skaðlegt í sjálfu sér og í öðru lagi kemur það ekki í veg fyrir að honum sé rétt "raunveruleg" hjálparhönd.
Punktur 19: Hrein heimska. Innbyrðis mótsögn hjá þér: Með því að kynna börnum sem flestar hugmyndir er verið að ræna þau möguleikanum á því að koma sér upp sjálfstæðri líffskoðun. M. ö. o. : Eftir því sem þú veist meira, þeim mun líklegra er að þú komist að rangri niðurstöðu. – Taktu nú aðeins til í hausnum á þér. Eru einhver dæmi þess að Þjóðkirkjan haldi þekkingu frá fólki?
Punktar 20 – 24: Sjá 1 – 10 og 12 – 16.
Punktur 25: Sumt er aðeins hægt að lækna með dópi. Þú ert væntanlega á móti parkódíni fyrst hægt er að misnota það.
Punktur 26: "Ranghugmynd að þeirra guð sé góður". Þú, trúleysinginn, ert náttúrulega dómbærari á guð þess en það sjálft? Auk þess er það bláköld lygi að guðinum séu "gerðar upp sömu skoðanir og menn hafa sjálfir". Flestir sem vaknað hafa til trúar geta borið vitni um að það erfiðasta við það hafi einmitt verið að gefa skoðanir sínar upp á bátinn og beygja sig undir vilja guðs eins og þeir skildu hann. Seinni hlutinn, frá "... undarlegt siðferðismat ..." er strámaður. Langflestir trúmenn eru andvígir þessu öllu.
Punktur 27: Trú er vissulega órökstudd, hver sem hún er. Sú trú að guð sé ekki til er dæmi um slíkt. Krafan um að trúarskoðunum sé sýnd virðing gengur ekki út á að ekki megi gagnrýna þær, heldur að menn geri það á annan hátt en með því að kalla það sem er öðrum heilagt kukl og kjaftæði. Ofsi ykkar sýnir aðeins félagslegan vanþroska ykkar. Það er hægt að spjalla við þá sem maður er ósammála án þess að sýna þeim dónaskap. Hvað beiskju, mannfyrirlitningu og vanlíðan varðar held ég nefnilega að hvergi á netinu sé jafnmikið af því öllu og hér á Vantrú.is.
Punktur 28: Sjá 1 – 10, 12 – 16 og 20 – 24.
Ofsi ykkar sýnir aðeins félagslegan vanþroska ykkar. Það er hægt að spjalla við þá sem maður er ósammála án þess að sýna þeim dónaskap.
Hvernig væri að lifa eftir sínum eigin orðum? Í þinni athugasemd er Birgir kallaður rakið skítmenni, lygari, heimskingi sem þurfi að taka til í hausnum á sér. Svo lýkur þú þessu með því að tala um að hvergi sé jafnmikið af "beiskju, mannfyrirlitningu og vanlíðan" eins og á Vantrú.is. Finnst þér þetta til fyrirmyndar?
Bætir gráu ofan á svart með því að fela þig bakvið dulnefni til að geta kastað aurnum óáreittur.
Ef einhver er að sýna af sér "beiskju, mannfyrirlitningu og vanlíðan" þá er það Hr. Ebenezer.
Birgir mun nú sjá um að svara þessum athugasemdum en til að segja mína skoðun á þeim þá eru koma þær út sem afar veikar tilraunir "beisks" manns til að slá þær út af borðinu.
Takk fyrir innleggið, Hr. Ebenezer. Svara þessu síðar í dag.
Sjáið t.d bifreiðarnar sem koma frá USA. Stóru Jeppanan sem eyða á við 3 - 4 fólksbíla.
Þetta er reyndar ekki alls kostar rétt.
þakkið nú bara fyrir að svona verðugur andstæðingur er kominn til að rökræða við ykkur og bróðir ebenezer er greinilega... allavega ef beiskjan rennur af báðum bógunum, birgi og br.eb, þá ættu þeir báðir að geta þroskast með samskiptum, haldiði það ekki?
khomeini, ég er líka að farast úr forvitni hérna. Er einhver möguleiki að þú segir opinberlegar frá þessum spúkí söfnuði?
Mér finnst merkilegt að "Bróðir Ebenezer" afgreiðir 75% atriðanna svona:
Strámenn. Það að sumir aðhyllist þessa vitleysu og réttlæti hana með trú sinni gerir hana ekki að trúarhugmynd. Ekki frekar en að hleranir séu stjórnmálaskoðun. Langflestir trúmenn eru andvígir þessu öllu.
Ég held að "Bróðir Ebenezer" þurfi að skilgreina hvað hann á við með orðinu "trúarhugmynd", því synd, limbó og endurkoma Jesú eru það ekki í hans huga. Ætli "trúarhugmynd" sé ekki bara það sem hann vill að það sé hverju sinni.
En þá að Ebenezer:
Punktar 1 – 10: Strámenn. Það að sumir aðhyllist þessa vitleysu og réttlæti hana með trú sinni gerir hana ekki að trúarhugmynd.
Ekki það nei? Hvaðan fá þeir þessar hugmyndir ef ekki frá þeim kirkjum og söfnuðum sem boða þær? Mikið af þessu er hrein og klár guðfræði, t.d. andstaðan við stofnfrumurannsóknir og ungbarnalimbóið.
Þetta eru túlkanir manna á vilja guðsins, eins og hann birtist í trúarritunum. Skaðsemin liggur klárlega í því að leita svara í þessum ritum, í stað þess að byggja afstöðu sína á skynsemi. Þú getur því ekki sýknað trúarbrögðin af þessum hugmyndum, þau bókstaflega valda þeim. Þess vegna eru trúarhugmyndir skaðlegar, þær byggja ekki á skynsamlegum niðurstöðum heldur einhverjum allt öðrum og undarlegri þankagangi.
Svo má finna eitthvað af þessum skaðlegu hugmyndum í trúarritunum sjálfum, sbr. þætti 5 - 9 í upptalningunni.
Langflestir trúmenn eru andvígir þessu öllu.
Ertu nú viss um það? Kannski flestir Þjóðkirkjumeðlimir á litla Íslandi já. En sumir meðlimir og stjórnendur þessarar kirkju eru enn að burðast með t.d. samkynhneigðina. Þar eru trúarhugmyndir valdamikilla manna að valda samfélaginu skaða. Opnaðu augun, gæskurinn. Meðlimir annarra safnaða er síðan uppfullir af þeim hugmyndum sem ég tiltek, enda boða þessir söfnuðir þær og fordæma um leið efasemdir við þeim.
Punktur 11: a) Síðasta krossferðin var farin á þrettándu öld. Er Kambsránið ekki nærtækara dæmi um skaðsemi kapítalískra hugmynda en krossferðir um trúarhugmyndir – fyrir nú utan: b) Krossferðir höfðu ekkert með trúmál að gera heldur pólitík. Sá þjóðhöfðingi sem ráðið hefði Jerúsalem hefði verið með öll tromp á hendi í pólitískri refskák þeirra tíma. Krossferðirnar eru miklu betra dæmi um skaðsemi stjórnmála en trúar.
Megin-mótívasjónin á bak við krossferðirnar var að mínu viti sú að frelsa hina helgu borg undan villutrúarpakki. Þar réðu því trúarhugmyndir manna um heilagleika tiltekinnar borgar og skaðsemi athafnanna því reist á nákvæmlega sömu trúarforsendum og innhlaup Gyðinga á sama svæði um miðja 20. öld.
En mér gæti svo sem verið að skjátlast. Þú mátt sýna mér fram á rangindi þessara hugmynda minna með rökum og hrekja þær þar með.
Punktar 12 – 16: Sjá punkta 1 -10.
Sjá svar mitt við þessum atriðum hér að ofan.
Punktur 17: Í kirkjum landsins er unnið gríðarlega mikið og gott sálgæslu-, æskulýðs- og forvarnarstarf. Aðeins rakið skítmenni getur verið andvígt þeirri starfsemi.
Hárrétt! Skítmennið Hope Knútsson og skítseiðin vinir hennar í Siðmennt voru t.d. nýlega að mótmæla Vinaleiðinni í skólum, enda sjá skítmenni lítið annað en trúboð í slíku starfi. Og skítmennið ég vil fremur sjá öllum þessum milljörðum opinbers fé varið í eitthvað viturlegra en að ýta undir hindurvitnatrú og annað andlegt volæði hjá annars heilbrigðu fólki. Það er ekki nauðsynlegt að trúa og þar með má afgreiða allt þetta vafstur mörg hundruð manna (á launum frá ríkinu) sem skaðlegan óþarfa. Notum peningana í eitthvað viturlegra.
Punktur 18: Hrein lygi. Fjöldi manns gæti sagt sögur af því hvernig það gerbreytti allri líðan þeirra að öðlast bænalíf, auk þess sem það að biðja fyrir einhverjum er í fyrsta lagi ekki skaðlegt í sjálfu sér og í öðru lagi kemur það ekki í veg fyrir að honum sé rétt "raunveruleg" hjálparhönd.
Þú misskilur. Ég er einmitt ekki að tala um það hvort það að biðja fyrir öðrum valdi biðjandanum sjálfum vellíðan, heldur það að það veldur þeim sem beðið er fyrir engum bata. Til slíkra hluta er bænin gagnslaust tól. Það er ábyrgðarlaust að þykjast veita öðrum hjálp með bæn í stað þess að ganga í málið sjálfur. Allt þetta tilgangslausa bænalíf tekur tíma og orku frá þessu fólki í stað þess að virkja það gegn vandanum.
Punktur 19: Hrein heimska. Innbyrðis mótsögn hjá þér: Með því að kynna börnum sem flestar hugmyndir er verið að ræna þau möguleikanum á því að koma sér upp sjálfstæðri líffskoðun. M. ö. o. : Eftir því sem þú veist meira, þeim mun líklegra er að þú komist að rangri niðurstöðu. – Taktu nú aðeins til í hausnum á þér. Eru einhver dæmi þess að Þjóðkirkjan haldi þekkingu frá fólki?
Ef þetta væri hrein og klár kynning væri þetta ekkert mál. En þarna er um beina innrætingu að ræða, innrætingu sem gerir það að verkum að einstaklingnum reynist ómögulegt að meta sanngildi trúarhugmynda nema út frá því sem búið er að innræta honum. Þú ert gott dæmi um þetta.
Punktar 20 – 24: Sjá 1 – 10 og 12 – 16.
Sjá tilsvör mín hér að ofan.
Punktur 25: Sumt er aðeins hægt að lækna með dópi. Þú ert væntanlega á móti parkódíni fyrst hægt er að misnota það.
Já, ég ætla að reyna að útrýma parkódíni úr samfélaginu. :)
Þú viðurkennir semsagt að átrúnaður sé dóp. Ef við metum þessi tvö dóp, trú og parkódín, út frá skaðseminni hallar fljótt á trúarhugmyndirnar. Auk þess: Það sem menn lækna með trúardópi er iðulega sú angist sem ranghugmyndir trúarinnar kalla fram í fólki til að byrja með. Bendi aftur á greinina Er nauðsynlegt að trúa, sem ég tengdi í hér að ofan.
Punktur 26: "Ranghugmynd að þeirra guð sé góður". Þú, trúleysinginn, ert náttúrulega dómbærari á guð þess en það sjálft? Auk þess er það bláköld lygi að guðinum séu "gerðar upp sömu skoðanir og menn hafa sjálfir". Flestir sem vaknað hafa til trúar geta borið vitni um að það erfiðasta við það hafi einmitt verið að gefa skoðanir sínar upp á bátinn og beygja sig undir vilja guðs eins og þeir skildu hann. Seinni hlutinn, frá "... undarlegt siðferðismat ..." er strámaður. Langflestir trúmenn eru andvígir þessu öllu.
Trúir þú því ekki að guðinn þinn sé góður, þrátt fyrir að geta lesið um orð hans og gjörðir í trúarritinu þínu? En ég sagði:
Flest trúað fólk gengur um með þá ranghugmynd að þeirra guð sé góður. Oftast eru guðinum gerðar upp sömu skoðanir og menn hafa sjálfir, þótt þær séu algerlega í bága við það sem í trúarritunum stendur. (leturbreyting mín hér og nú - BB)
Sjáðu guðfræðingana sem halda því fram að guðinum sé ekki illa við samkynhneigð. Samt þurfa þeir ekki annað en lesa skoðanir hans í trúarritinu. Þeir eru sjálfir, siðferðisþroskans vegna, andvígir guði trúarritsins þegar kemur að þessu máli, en samt halda þeir því fram að guðinn sé á þeirra eigin skoðun. Guðfræðin upp í háskóla gengur meira og minna út á það að laga skoðanir stríðsguðsins Jehóva að nútímalegu siðferði.
En svo eru auðvitað til þeir sem sveigja skoðanir sínar að trúarritinu. Sem betur fer eru þeir í minnihluta, enda felst í því mun meiri skaðsemi en hinu.
Punktur 27: Trú er vissulega órökstudd, hver sem hún er. Sú trú að guð sé ekki til er dæmi um slíkt.
Rangt. Sú skoðun er afskaplega vel rökstudd.
Krafan um að trúarskoðunum sé sýnd virðing gengur ekki út á að ekki megi gagnrýna þær, heldur að menn geri það á annan hátt en með því að kalla það sem er öðrum heilagt kukl og kjaftæði.
En þetta er kukl og kjaftæði. Þú sjálfur afgreiðir fullt af órökstuddu þvaðri og bulli á þann hátt, en unir okkur ekki hins sama, hræsnarinn þinn. Við reynum þó að færa sterk rök fyrir því af hverju við höldum þessu fram. Við gagnrýnum á heiðarlegan hátt, öfugt við þig.
Ofsi ykkar sýnir aðeins félagslegan vanþroska ykkar. Það er hægt að spjalla við þá sem maður er ósammála án þess að sýna þeim dónaskap.
Það er enginn ofsi í skrifum okkar, en stundum pirrast réttlætiskennd okkar yfir yfirgangi hinna trúuðu. Við erum ekkert upptekin af því að sýna trúfólki dónaskap, en innum það eftir rökum fyrir því sem það heldur fram. Mun algengara er að sjá bræði og fúkyrði fjúka af vörum trúmannanna, sbr. innlegg þitt hér.
Hvað beiskju, mannfyrirlitningu og vanlíðan varðar held ég nefnilega að hvergi á netinu sé jafnmikið af því öllu og hér á Vantrú.is.
Rétt athugað. Ég held að á öllu hinu svokallaða interneti sé varla að finna meira af þessum fyrirbærum en á Vantrú.is, nánar tiltekið hér.
Kæri Birgir. EF til þín kæmi einhver sem gæti sagt þér frá eigin reynslu af lækningu vegna fyrirbænar, hvort sem væri á sál eða líkama, myndi það breyta afstöðu þinni til bænarinnar? En ef til þín kæmu tíu manns? Eða hundrað? Hversu marga þyrfti til? Ég hafði einu sinni sömu viðhorf til lífsins og þú hefur núna. Ég bið fyrir þér því ég veit að Jesús elskar þig, Birgir Baldursson, og ég trúi því að einn daginn muni það ljúkast upp fyrir þér rétt eins og mér að þú ert elskað Guðs barn.
Kæri Trú-ður! Vitnisburður manna einn og sér er einskis virði, þegar frásögnin inniheldur brot á náttúrulögmálunum. Stórbrotnar fullyrðingar kalla á stórbrotnar sannanir.
Ég hafði einu sinni sömu viðhorf til lífsins og þú hefur núna (reyndar var ég krakki þá). Vona að þú komist yfir þessar ranghugmyndir þínar um veröldina.
Kæri Birgir. Varla hefur þú einka aðgang að veruleikanum og þannig að þú getir fullyrt um hvað sé náttúrulögmál? Veruleikinn er miklu stærri en skynjun þín og vitsmunir ná að greina þó þú sért þokkalega vel gefinn og frábær trommari. Þú mátt alveg halda áfram að skynja heiminn á þinn hátt en gerðu ekki lítið úr skynjun og trú annarra. Þú segir í raun að það gildi þig einu þó bænin virki í raun, að vitnisburður manna um annað sé einskis virði. Þú ert sem sagt búinn að ákveða að bænin sé hindurvitni og bull. Þetta kallar maður víðsýni í lagi:) Þú segist hafa verið trúaður sem barn. Það var ég líka. Ég missti trúna en Guð fann mig aftur. Ég bið að þú finnir aftur barnið í þér. Guð verður ekki settur af með ályktunum og rökum. Guð er ekki ráðherra sem er hægt að kjósa burtu. Guð verður ekki neyddur til að segja af sér. Guð er! Hvort sem þér líkar það betur eða ver. Guð blessi þig, Birgir minn.
Trú-ður, það hafa nú ýmsir guðir verið lagðir af. Kannski ekki með formlegri kosningu, heldur öllu frekar vegna framgang annar trúar og almennri gleymsku manna. Og ekkert ósennilegt að þinn guð lendi líka í minnisleysi fólks.
Bróðir Ebenezer segir
Eru einhver dæmi þess að Þjóðkirkjan haldi þekkingu frá fólki?
Sem fékk mig til að muna, að Þjóðkirkjan hefur haldið þekkingu frá fólki, og það nýlega. Hún hefur haldið aftur af því að birta svör við tylft spurninga sem Gallup var látin gera og heitir Trúarlífskönnun íslendinga. Og það þó svo hún hafi verið þrábeðin um að birta svörin við spurningarnar, hefur hún ekki látið af því.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Guðmundur - 24/10/06 14:37 #
Snorri í Betel hefur sagt á síðu sinni að heimsendir sé í nánd og að Jesú muni koma að himnum ofan svífandi samanber lið 7. Enda þegar ég og Hjalti Rúnar andmæltum honum sagði hann við færum til Helvítis. Grein hans á síðunni sinni http://atgangur.net/snorri/ lesið hana