Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

SoS: Af hverju eruð þið að þessu?

Öfugt við það sem flestir telja, þá eru trúmál eitt mikilvægasta málefni samtímans. Við þurfum ekki annað en horfa til Bandaríkjanna til að sjá að guðstrúin litar alla stjórnsýslu og hefur bein áhrif á réttindi og velferð manna.

Trúarvírusinn gegnumsýrir samfélagið og er því hættulegur. Við sjáum þetta best á því hvernig réttindi eru brotin á samkynhneigðum og hvernig styr stendur um það vestra hvort kenna eigi þróunarkenninguna eða goðsöguna um Adam og Evu í skólum til að skýra út tilurð okkar mannanna. En ekki síst sjáum við þetta birtast með óhugnanlegum hætti í utanríkisstefnu Bandaríkjanna, þessa síðasta heimsveldis, nú þegar stjórnarherrarnir stýra herjum sínum í krafti guðlegs innblásturs til ógurlegra verka.

Nýjustu fréttir frá Danmörku greina frá því að heittrúaður geðlæknir trúi því að geðsjúkir séu andsetnir djöflum. Við erum að tala um menntaðan geðlækni í nútímanum, ekki einhvern sem uppi var á sextándu öld og hafði numið heilög vísindi þeirra daga. Á miðöldum sættu geðsjúkir grimmilegri meðferð, því einu lækningaaðferðirnar sem hinir kristilegu læknar fundu upp á voru að reka andana út af sjúklingunum með pyntingum.

Gallup-kannanir í Bandaríkjunum hafa lengi gefið þá niðurstöðu að um það bil helmingur borgaranna trúir því að Guð hafi skapað mannkynið fyrir 10.000 árum. Góður félagi okkar Vantrúarmanna hefur brugðist við þessum tíðindum með eftirfarandi orðum:

Ég óttast heim þar sem svo margir trúa gömlum goðsögum bókstaflega. Ég óttast ekki trúna sem slíka, heldur þann hugsunarhátt sem fær fólk til þess að komast að niðurstöðum sem þessum...

Hér heima sjáum við ríkisrekið dómsdagskölt sjúga milljarða og aftur milljarða úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Við sjáum önnur svipuð költ kalla til töframenn utan úr heimi til að féfletta sjúka og þjáða, en bjóða í staðinn ekki upp á neitt annað en múgsefjun og plasíbó. Og enginn endir er á allra handa miðla-, heilara- og hvers kyns kuklaraliði sem ólatt er við að hafa fé af trúgjörnu fólki.

Síðast en ekki síst er augljóst að trúleysi nýtur ekki sömu verndar og virðingar og hugmyndakerfi trúarinnar. Þetta sést best á því að bæði lærðir og leikir trúmenn víla ekki fyrir sér að ata trúleysingja og trúleysi aur og skít, þótt aldrei dytti þeim í hug að setja neitt svipað fram um trúarbrögð sem þeir aðhyllast ekki. Biskup Íslands sagði berum orðum í árámótaræðu fyrir nokkrum misserum að trúleysi ógnaði mannlegu samfélagi og á síðum dagblaðanna stíga fram trúmenn sem þekktir eru af góðu einu og drulla yfir okkur trúleysingjana án þess að færa nokkur rök fyrir fullyrðingum sínum.

Yfirnáttúrutrúin er andskynsamleg og á skjön við raunveruleikann. Það er stórhættulegt heimsbyggðinni að valdamiklir menn, sem telja sig í beinlínusambandi við andaverur, stýri gjörðum sínum í samræmi við það sem þeir telja þessar verur ráðleggja sér. Þótt ekki væri nema bara í krafti þessarar hættulegu veilu er réttlætanlegt að vekja athygli á skaðsemi trúarinnar og hvetja til þess að menn láti læknast af þessum hugarvírus.

Og það er einmitt þetta sem við erum að gera. Við hristum fólk í þeirri von að það vakni loksins upp af þeim furðulegu álögum sem trúarleiðtogar, sama hvaða nafni þeir nefnast, hafa bundið það í með skefjalausum sefjunaráróðri og siðlausum lygum.


Sjá ennfremur þessar greinar undir flokknum Siðferði og trú:

Upphafning sinnuleysis
Leikskólar hunsa siðareglur
Kristniboð er ekki hjálparstarf
Trú er einkamál
Kaþólska kirkjan berst á móti útbreiðslu alnæmis
Ríkisrekið ofbeldi og siðleysi
Kraftaverkahyskið

Og auk þess Um vefinn

Birgir Baldursson 23.11.2004
Flokkað undir: ( Spurt og svarað )

Viðbrögð


thorvaldurJo - 23/11/04 14:45 #

Dýrð sé Guði að það séu nokkuð margir í Bandaríkjunum sem trúa sannleikanum, þ.e.a.s. að Guð hafi skapað alheiminn fyrir um 10.000 árum. Ég heyrði einnig af könnun í Ameríku sem greindi að um 80% vildu að kennt yrði sköpunarsöguna jafnhliða þróunarkenningunni. Það tel ég gleðiefni að krakkar fái að meta báðar hliðar á jöfnum grunvelli, þar sem rök verða færð með og á móti báðum kenningum. Það er sanngjarnt.


Sigurður Ólafsson - 23/11/04 15:06 #

Í Biblíunni eru tvær ólíkar útgáfur af sköpun Evu. Annars vegar þessi með rifbeinið og hins vegar mun jafnréttissinnaðri útgáfa þar sem Eva er sköpuð úr leir á sama hátt og Adam.

Hvora útgáfuna vilt þú, Þorvaldur, kenna í skólum? Hvor útgáfan er orð Guðs og hvor lygi?

Að kenna mótsagnarkennda vitleysu í skólum er hvorki eðlilegt né sanngjarnt.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/11/04 15:20 #

Það tel ég gleðiefni að krakkar fái að meta báðar hliðar á jöfnum grunvelli, þar sem rök verða færð með og á móti báðum kenningum. Það er sanngjarnt.

Ég hefði gaman að því að mæta í kennslustund þar sem rök yrðu færð fyrir sköpunarsögunni. Aldrei hef ég rekist á nokkur rök hjá sköpunarsinnum sem snúast ekki um að rakka niður þróunarkenninguna.

Nei Þorvaldur, gervivísindi og hjátrú eiga ekki heima í kennslustofum skólanna. Börnin eiga betra skilið en að gamlar tröllasögur séu lagðar til jafns við kenningar vísindanna.

Að kenna mótsagnarkennda vitleysu í skólum er hvorki eðlilegt né sanngjarnt.
Bingó.


urta (meðlimur í Vantrú) - 23/11/04 15:32 #

Það getur aldrei orðið rétt að kenna börnum að trúa á og treysta á eitthvað sem ekki er til. Það á að kenna þeim að bera siðferðilega ábyrgð á sjálfum sér og læra að leita hjálpar þegar á bjátar hjá þeim einum sem geta veitt hjálp - þ.e.a.s. öðrum góðum manneskjum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.