Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Páfinn og Terri Schiavo in memoriam

Jæja, þau kvöddu þennan heim með stuttu millibili, bandaríska konan sem í fimmtán ár fékk ekki að deyja og höfuðpaur þeirra annarlegu viðhorfa að ekki megi draga úr eymdinni í veröldinni með sjálfsögðum og mannúðlegum aðgerðum.

Það voru ófáar kirkjudeildirnar sem fylktu sér um hina sterktrúuðu foreldra Terri. Og eins og nærri má geta var skynsemin þessu fólki víðsfjarri í baráttu sinni gegn rétti dásofenda til að fá að deyja burt frá ömurlegum aðstæðum.

Mögulega er sú ráðstöfun, sem þetta fólk allt barðist fyrir, líkleg til að valda áralangri pínu og volæði. Öfugsnúið siðferði það.

En forstöðumaður eymdarheimspekinnar fékk sem betur fer að drepast á heiðarlegan hátt. Ekki er ég viss um að hann hefði kært sig um að vera haldið á lífi næstu áratugina, tengdur nútímagræjum sem gerðu honum fært að finna til þrauta líkamans allan sólarhringinn, en ekkert umfram það.

Síðustu vikurnar höfum við þurft að hlusta á stöðugan fréttaflutning af heilsufari páfans í Róm og vangetu hans til að sinna embættisstörfum. Og á öllum tímum er stöðugt vitnað í hvað þessi maður hefur til málanna að leggja í óskyldustu málefnum. Það er einfaldlega hefð fyrir því að líta á páfann sem talsmann Guðs á jörðinni númer eitt. Slík er a.m.k. athygli fjölmiðla hérlendis að halda mætti að þarna væri um að ræða foringja flestra kristinna Íslendinga, höfuð þeirra trúarbragða sem Karl Sigurbjörnsson og tæp 90% þjóðarinnar tilheyra. Svo er þó ekki.

Þetta er dálítið merkilegt fréttamat íslenskra fjölmiðla. Hvað kemur okkur, þræl-lúterskri þjóðinni, við hvað þetta fordómafulla skar hafði að segja um málefni líðandi stundar? Er ekki nóg að þessi maður hafi í krafti embættis síns getað haft áhrif á viðhorf heilu þjóðanna í Evrópu og Ameríku til getnaðarvarna, samkynhneigðar, fóstureyðinga og þar fram eftir götum? Á öllum þessum málum hafa hinir kristnustu tekið með öfugsnúnu siðgæði, eins og hinn þrælkristni lýður kringum foreldra Terri er til vitnis um.

Hin kaþólska kirkja hefur alltaf haldið á lofti þeirri firru að þjáningin og eymdin séu bjargræði í vondum heimi, að það sé á einhvern hátt þóknanlegt Guði og eftirsóknarvert að pínast. Mamma Theresa var dugleg í þessum bransa, tók að sér fátæka og snauða og lét kveljast í umsjá sinni. Sjálf sótti hún svo rándýr sjúkrahús á Vesturlöndum þegar eitthvað amaði að henni sjálfri.

Það er gott fyrir heimsbyggðina að vera laus við þennan mann úr stöðu helsta talsmanns Guðs almáttugs. Hún hefur margt betra að hlusta á en forpokuð afturhaldsviðhorf á borð við hina skaðlegu stefnu kaþólsku kirkjunnar.

Já, hún er sannarlega skaðleg, stefna þessa ömurlega hindurvitnafélagsskapar, sem mokað hefur inn gulli og gimsteinum af puði almúgans gegnum aldirnar, reist sér íburðarmiklar hallir fyrir blóð, svita og tár stritandi fólks. Með því að úthýsa smokknum er stuðlað að frekari útbreiðslu alnæmis. Með því að leggjast gegn kynfræðslu er ýtt undir ótímabærar barneignir unglingsstúlkna. Með því að hafna möguleikanum á fóstureyðingu er eymdinni stýrt þangað sem hennar er ekki þörf.

Trúarbrögð eru svo sannarlega velferð mannkynsins til trafala. Að byggja samfélögin á tilskipunum í krafti hjátrúar og lyga getur ekki verið farsælt. Það megum við þó eiga hérna uppi á þessu skeri að búið er að mestu að tengja fram hjá slíkum bábiljum, en heilbrigð skynsemi að mestu fengið að móta gjörðir okkar og viðhorf í mikilvægum málum.

Það fást smokkar í búðunum og læknastéttin tekur mannúðlegar ákvarðanir á mikilvægum stundum, enn að minnsta kosti. Vonandi fáum við búið við slíkt ástand til frambúðar í stað þess að sogast aftur til miðalda fyrir hróp firrtra trúmanna, eins og virðist vera að eiga sér stað í Bandaríkjunum.

Og vonandi gerir næsti páfi hallarbyltingu í Vatíkaninu og hefur innreið skynseminnar í hin kaþólsku lönd. Heimsbyggðin á ekki skilið að þjást áfram fyrir einskæra forheimskunarpólitík hindurvitnaklúbba.

Birgir Baldursson 02.04.2005
Flokkað undir: ( Kaþólskan , Siðferði og trú )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 02/04/05 21:23 #

Farið hefur fé betra.


Jón - 02/04/05 23:40 #

Æi, skammist ykkar fyrir þetta komment. Það hefðu getað valist mun verri menn en maðurinn sem nú er genginn til að gegna þessu embætti. Ég er sammála ykkur í mörgu og finnst þetta góð síða en leyfið fólki að njóta sannmælis. Hann gerði margt gott með áhrifamætti sínum, t.d. í A-Evrópu, Afríku og S-Ameríku.


Svanur Sigurbjörnsson - 03/04/05 00:40 #

Það er margt með ólíkindum hjá Kaþólsku kirkjunni og hún hefur valdið mörgum miklum þjáningum. Í um 40 ár frá lokum seinni heimsstyrjaldar voru t.d. unglingsstúlkur sem voguðu sér að njóta ásta eða verða óléttar utan hjónabands í kaþólska hluta Írlands sendar í klaustur og börnin tekin af þeim. Þangað voru þær sendar án dóms og laga og voru skikkaðar til að vinna fyrir nunnurnar svo árum skipti. Sumar komust aldrei úr þeirri ánauð og talið er að um 30 þúsund konur hafi orðið fyrir þessari harkalegu frelsissviptingu og þrælkun áður en síðasta klaustrinu af þessarri reglu var lokað árið 1996. Kemur þetta páfanum við? Jú, vissulega því að hann er yfirmaður allra þessara klaustra og leggur línurnar fyrir þá stefnu sem kaþólskar kirkjur og klaustur taka.

Á maður að líta á páfann sem góðan mann en leiksopp afturhaldssamrar og úreltar kirkjudeildar? Hann vakti vissulega athygli á hungruðum heim og fátækum en hver myndi ekki gera það í hans stöðu? Er það ekki bara lágmarks krafa til yfirmanns svo stórrar trúarstefnu í þágu mannúðar? Þetta gera allir ambassadorar mannúðar um allan heim og þykir ekki tiltökumál. Þessi páfi gerði afskaplega lítið til að betrumbæta kaþólsku kirkjuna. Hann tók hann ekki inní nútímann en njörfaði hana enn frekar í fordómum og óskynsemi fortíðar. Birgir nefndi réttilega málefni eins og getnaðarvarnir, afstaða til kynfræðslu og samkynhneigaðar og rétt fólks til að deyja. Fátt er verra en stöðnuð trúarbrögð. Jóhannes Páll páfi fór í gegnum sitt embætti á þann máta sem búast mætti við af páfa en lítið umfram það. Ég mun því minnast hans sem manns sem vildi gera vel en hafði ekki hugrekki til að leiða sitt eigið fólk til betra lífs með bættu siðferði.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 00:52 #

Í sambandi við kaþólksuna á Írlandi þá mæli ég með þessari mynd: The Magdalene Sisters


Svanur Sigurbjörnsson - 03/04/05 02:29 #

Takk fyrir Hjalti. Það er einmitt myndin sem fjallar um þessa stúlknaþrælkun á Írlandi. Þetta var regla Magdalene Systra sem fór svona með þær.


Guðmundur Garðar - 03/04/05 03:03 #

Eftir lestur ofanverðs pistils styrkist sú skoðun mín, að Fasistar ríða ekki við einteyming.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 08:13 #

Fasismi? Útskýrðu.


Gunnar - 03/04/05 11:51 #

Það voru ófáar kirkjudeildirnar sem fylktu sér um hina sterktrúuðu foreldra Terri. Og eins og nærri má geta var skynsemin þessu fólki víðsfjarri í baráttu sinni gegn rétti dásofenda til að fá að deyja burt frá ömurlegum aðstæðum.-Birgir B

Ég efast um að þið hafið lifað börnin ykkar, haldið þið að fólk geri alltaf allt það sem skynsemin segir því. Þannig er það bara ekki, við erum líka tilfinningarfólk og svona harmleikur er hvað það erfiðasta sem foreldrar þurfa að upplifa. Megi Guð vera með ykkur.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 12:46 #

Það sem Guðm. Garðar á við með fasisma athugasemd sinni, Birgir, er náttúrulega framkoma kaþólsku kirkjunnar og páfakvikindisins. Skilgreining á fasisma smellpassar við þetta apparat: "political philosophy or movement that places the nation or the race above the individual and that stands for highly centralized government led by a dictator".


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 15:47 #

Gunnar, ef ég ætti heiladautt barn húkkað upp á vélar myndi ég horfast í augu við staðreyndirnar og leyfa því að deyja. Hvað er unnið með því að láta skrokkinn af því pumpa blóði árum saman? Er það mannúðlegt?


Ívar - 03/04/05 15:58 #

Gunnar! Það er ekkert nema sjálfselska að vilja ástvini sínum það hlutskipti að vera tengdur við vélar í ár eða áratugi svo að ættingjum geti liðið aðeins betur. Þessir kanar voru fyrst og fremst að hugsa um líðan sína, meðan að hjartað sló var hún lifandi í þeirra huga þrátt fyrir að heilastarfsemin væri engin. Hver var akkurinn í því fyrir þessa ágætu konu að lifa? Akkúrat enginn.


Svanur Sigurbjörnsson - 03/04/05 22:51 #

Þegar ég var úti í USA s.l. ári sá ég fréttamynd af Maria Schiavo þar sem hún virtist brosa og vera ánægð. Það fyldi myndinni engin skýring og ekki var sýnt hvort að þetta "bros" var svar við einhverju sem hægt var að brosa að eða tjáning hennar á gleði. Stundum getur fólk sem er heiladautt sýnt ákveðin taugaviðbrögð sem eru ósjálfráð en gætu litið út sem hugsanlega eða "vonandi" sjálfráð í augu ættingja sem eru ekki færir að meta ástandið á læknisfræðilegum forsendum. Til þess að meta ástand Schiavo verður maður að vita miklu meira um hana en greint var frá í fréttum. Vegna skorts á upplýsingum átti ég erfitt með að hafa skoðun á málinu. Hins vegar finnst mér sá vitnisburður að hún hafi tekið það skírt fram að hún vildi ekki lifa svona lífi vera mjög mikilvægur. Þá ósk ætti að virða nema að um raunhæfan möguleika væri að ræða að hún ætti afturkvæmt. Paternalismi páfa og íhaldsamra trúarhópa er framförum í líknarmálum mikil hindrun. Vonandi verður næsti páfi eitthvað framsýnni.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 04/04/05 00:02 #

Heili Terri Schiavo


Guðmundur Garðar - 05/04/05 04:15 #

Þar sem heimskan og fordómarnir ríða sömu bykkjunni, hangir fasismin á lendinni. þannig hugsa ég þegar ég les greinar á Vantrú. Heimskan hefur greinilega misskilið orð mín um Fasisma.(Heimska er dreginn af orðinu heimalinn, og á við skort á víðsýni)


G2 (meðlimur í Vantrú) - 05/04/05 09:24 #

Ert þú hestamaður Guðm. Garðar?

Ekki brigsla öðrum um heimsku, kallinn minn, þegar þitt helsta framlag til þessa spjalls er þinn eigin miskilningur og málefnaskortur. Mér er til efs að þú hugsir mikið þrátt fyrir yfirlýsingar þínar um annað.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/04/05 15:43 #

Ertu ekki til í að rökstyðja þá fullyrðingu þína, Guðmundur Garðar, að pennar hér séu uppfullir af heimsku, fordómum og fasisma? Þú gætir t.d. tekið nokkur dæmi.

Ég vil láta benda mér á svoleiðs, svo ég geti breyst til betri vegar og sé ekki að burðast með bjánagang í hausnum ævina á enda.


Guðmundur Garðar - 19/04/05 06:16 #

Ég hef verið að leita að upplýsingum meðal annars um mannvonsku móður Theresu, og fjallháa hauga af líkum sem kaþólska kirkjan ber ábyrgð á, en ekki fundið.Kannski einhver velviljaður og fróður maður vilji upplýsa mig. svo ég megi frelsast frá heimsku og fáfræði.Ég verð reyndar að játa, að ég varð fyrir vonbrigðum að orð mín "Þar sem heimskan og fordómarnir ríða sömu bykkjunni hangir fasismin á lendinni" skyldi ekki lenda í dálknum fleyg orð. En sennilega er ég svo heimskur að halda að eigin ágæti hugnist einnig öðrum


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 19/04/05 10:13 #

Af hverju leitaðir þú ekki á Vantrú?

Goðsögnin um Móður Teresu

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.