Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er nauðsynlegt að trúa?

Nú er það svo að við sem trúlaus erum komumst alveg ágætlega frá lífinu. Siðferði okkar er í engu ábótavant, jafnvel verður ekki annað séð en mörg okkar veltum þeim hlutum jafnvel meira fyrir okkur en flestir trúmenn.

Það verður ekki heldur séð að skortur á guðlegu hjálpræði ræni okkur nokkurri lífshamingju. Miklu fremur má halda því fram að það að vera laus við að ástunda slíka hegðun geri okkur frjálsari og sjálfstæðari einstaklinga.

Því er nauðsynlegt að spyrja: Er einhver nauðsyn á að menn trúi?

Prestar Þjóðkirkjunnar og margir guðfræðingar virðast halda það. Það verður að minnsta kosti ekki annað séð en að innrás kirkjunnar inn á leikskóla, auk hreins og klárs trúboðs í grunnskólum landsins komi til af því að kirkjunnar mönnum finnist börnin ekki vera nógu trúuð. Við vitum öll að börn fæðast trúlaus og það virðist ekkert há þeim fyrstu æviárin. Og mörg börn taka aldrei trú þrátt fyrir alla innrætinguna og það háir þeim greinilega ekkert heldur.

Samt fara milljarðar á hverju ári í að halda úti stofnun sem hefur það eitt að markmiði sínu að gera alla kristna, án þess þó að nein rök liggi því til grundvallar að einhver nauðsyn sé á því.

En það er reyndar ekki, þegar málin eru skoðuð betur, að sjá að Þjóðkirkjumenn standi á því fastar en fótum að trú sú sem þeir boða sé mönnum nokkur nauðsyn. Það sýnir sig best á því hve umburðarlyndir þeir eru gagnvart öðrum trúarbrögðum og lífsskoðunum. "Vertu sæll í þinni vantrú" hefur meira að segja fengið að fljóta með þegar þessir menn skrifast á við okkur trúlausa. Ég hef líka séð guðfræðing halda því fram að honum sé hjartanlega sama hvort ég trúi eður ei.

Eru ekki einhver misvísandi skilaboð þarna á ferðinni? Ef þetta skiptir einstaklinginn engu máli, af hverju eru þessir menn þá að troða þessum skoðunum sínum upp á unga krakka með fulltyngi grunn- og leikskólanna? Væri ekki heiðarlegra af þessum mönnum að leyfa bara hverjum og einum að ákveða þetta á eigin spýtur þegar hann hefur vit og þroska til?

Þjóðkirkjan á að hætta trúboði inni á leikskólum og hætta að hanna námsefni kristinfræðinnar til lestrar í grunnskólum, nema því aðeins að henni takist að sýna fram á nauðsyn þessarar innrætingar.

Birgir Baldursson 26.06.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Snær - 26/06/04 18:52 #

Hvernig sýnir þessi innrás í leikskólanna sig? Ég tók eftir því að einhver hafði verið að kenna ungri systur minni um þessa hluti þegar ég var að tala við hana (hún er á fimmta ári), og hún virðist einmitt hafa fengið þetta úr leikskólanum. Ég gerði nú samt ráð fyrir því að þetta væru einfaldlega fóstrurnar sem væru að koma með þennan boðskap inn á leikskólana.

Annars hljómar þetta ekki vel í mínum eyrum, þessi endurnýjaða innrás þessarar hirðingjatrúar í leikskóla og grunnskóla, ef þetta er raunin.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/06/04 19:04 #

Snær, það er sérstakur leikskólaprestur sem ferðast á milli og fyllir hugi barnanna af gamalli þvælu um Jesú og Guð. Ég bendi á magnaðar greinar Matta Á. um þessi mál: [1], [2], [3], [4], [5]


Snær - 26/06/04 21:03 #

Fussum svei, argasta rugl, verður að segjast. Ég verð að athuga þetta betur, til þess að vera viss um að systir mín þurfi alveg örugglega ekki að líða þesskonar rugl og þvælu.

Annars er ég búinn að kenna systkinum mínum grunnatriði efahyggju, þannig að þau fari fram á sannanir, ef ég segi þeim frá tröllum, álfum, fljúgandi svínum, gvuði og annarskonar upplognum sögupersónum.

En þau eru nú enn ung, og ófær um að vera forhert efasasemdarfólk, og taka því að sjálfsögðu trúanlegu sem passar inn í þeirra heimsmynd. En þar á gvuð þó engan veginn heima.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 02/08/04 23:03 #

Það mætti kalla þessa presta andlega barnaníðinga að mínu mati. Því þessi börn virðast gjörsamlega varnarlaus.


Lárus Páll Birgisson - 09/08/04 13:32 #

Ég vil nú bara benda viðkomandi pistlahöfundi á það að það eru ekki prestar eða guðfræðingar sem klína Guði inn á leikskólana. Í leikskólastefnu er kveðið á að kenna beri börnum kristilegt siðferði. Það er því ekki við kirkjuna að sakast.

Annars væri gaman að heyra Birgi útskýra það hvernig "börnin" eiga að geta valið sjálf þegar þau hafa vit og þroska til ef enginn hefur kennt þeim grunnatriðin. Er hægt að velja eitthvað sem maður þekkir ekki??


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/08/04 14:19 #

Ég bendi aftur á að leikskólaprestur ferðast á milli þessara stofnana og boðar Krist.

Það talaði enginn um að ekki mætti kenna börnum grunnatriði trúarbragðasögu. Það er hins vegar ekki það sama og að boða trú.


Lárus Páll Birgisson - 10/08/04 13:08 #

Nú hef ég unnið á leikskóla í rúmt ár og ekki hef ég orðið var við þennan leikskólaprest. Gaman væri að fá að vita hvaða maður þetta er...hefur hann nafn eða?

Eins má spyrja hvort að hætta eigi að sýna börnum leikrit, eða jólasveininn, þar sem mörg þeirra geta engann greinarmun gert á ævintýri og raunveruleika.

Eina skiptið sem prestur hefur komið og talað við börnin á leikskólanum mínum var þegar eitt barnið í hópnum dó. Það er kannski ekki við hæfi gefa von um himnaríki í svona aðstæðum eða??? Hefði eflaust verið betra segja þeim að nú væri hún X litla bara í holu ofaní jörðinni þar sem ormarnir éta hana???? Ég meina, maður verður jú að segja börnunum sannleikann....er það ekki?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 10/08/04 14:23 #

Af hverju í ósköpunum lestu ekki það ítarefni sem vísað er á í athugasemdum hér að ofan? Þar er fjallað um leikskólaprestinn og hann ítrekað nafngreindur.


Snær - 10/08/04 19:39 #

Eina skiptið sem prestur hefur komið og talað við börnin á leikskólanum mínum var þegar eitt barnið í hópnum dó. Það er kannski ekki við hæfi gefa von um himnaríki í svona aðstæðum eða??? Hefði eflaust verið betra segja þeim að nú væri hún X litla bara í holu ofaní jörðinni þar sem ormarnir éta hana????

Þó sannleikurinn sé sagður til hins fyllsta, er engin ástæða til þess að segja svona ljótt frá hlutunum. Mér þykir það betri hugmynd að kenna barni sínu að glíma við dauða, raunverulegan dauða, í stað þess að kenna því óskhyggju sem getur heft það í lífinu.

Víst er það mögulegt að barni getur liðið verr með slíkan missi til styttri tíma, ef því er ekki kennt hentug yfirnáttúrutrú, en aðrar leiðir eru til þess að hughreista það.

Hér þykir mér þú gefa í skyn að vit sé í yfirnáttúrutrú, einfaldlega vegna þess slíkt er hentugra þegar kemur að tilfinningum. Notkun slíkrar hugmyndafræði fellur greinilega undir óskhyggju.


Lárus Páll Birgisson - 11/08/04 13:30 #

Jæja, nú fór ég á stúfana í gær að leita að þessum leikskólapresti. Það var sama hvernig ég reyndi, enginn vissi nokkuð um þennan hulduprest.

Getur það verið að efahyggjumennirnir hafi ekki beitt vísindalegum vinnubrögðum í rannsóknum sínum???

Staðreyndin er hins vegar sú að það er stjórn hvers leikskóla fyrir sig sem ákveður hvort að sóknarprestur viðkomandi sóknar fái að kíkja í heimsókn eða ekki.

A.m.k. 90% barna á leikskólum landsins tiheyra einhverri sókn. Fram kom í einu pistli hérna að 90% foreldra á tilteknum leikskóla væru ánægð með samstarfið við prestinn sinn. Ég verð að segja að mér þykir það gott að vita að einhverjir prestar eru að vinna vinnuna sína.

Eins má spyrja hvort að banna eigi dýrin í Hálsaskógi fyrir börn þar sem sterkur félagslegur einstefnuáróður er ríkjandi í því verki. Af hverju á annars að neyða refi til að borða gulrætur og baunir?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 11/08/04 13:51 #

Jæja, nú fór ég á stúfana í gær að leita að þessum leikskólapresti. Það var sama hvernig ég reyndi, enginn vissi nokkuð um þennan hulduprest.
Ef þú hefur lesið síðurnar sem Birgir vísar á í athugasemd hér fyrir ofan (athugasemd nr. 2) sérðu að leikskólapresturinn heitir Bolli Pétur Bollason.
Getur það verið að efahyggjumennirnir hafi ekki beitt vísindalegum vinnubrögðum í rannsóknum sínum???
Nei, á bak við þessar fullyrðingar eru engar rannsóknir heldur einungis frásagnir frá fyrstu hendi. Þú virðist aftur á móti eiga sérlega erfitt með að lesa það efni sem vísað er til og leggur þig auk þess fram við að snúa út úr og koma með dæmi sem tengjast umræðunni ekki á nokkurn hátt, sbr. barnalegar vísanir í ævintýri.
Fram kom í einu pistli hérna að 90% foreldra á tilteknum leikskóla væru ánægð með samstarfið við prestinn sinn.
Hvar kom þetta fram? Getur þú vinsamlegast vísað á heimildir fyrir þessari fullyrðingu þinni sem ég hef reyndar grun um að sé mistúlkun.
Eins má spyrja hvort að banna eigi dýrin í Hálsaskógi fyrir börn þar sem sterkur félagslegur einstefnuáróður er ríkjandi í því verki. Af hverju á annars að neyða refi til að borða gulrætur og baunir?
Áttu erfitt með að ræða þetta mál án þess að snúa út úr? Miðað við þátttöku þína í þessari umræðu stórefast ég um að þú hafir forsendur fyrir því að starfa með börnum á leikskóla, a.m.k. vildi ég ekki vita af því að þú kæmir nálægt mínum börnum.


Lárus Páll Birgisson - 12/08/04 13:44 #

Jæja, Þar sem ég er mikill efahyggjumaður læt ég ekki bjóða mér hvað sem er. Ef einhver kastar fram fullyrðingum um eitthvað sem kemur mér spánskt fyrir sjónir tel ég réttast að rannsaka málið til hlýtar.

Ein fullyrðingin sem fram kom hérna var á þá leið að "leikskólapresturinn heitir Bolli Pétur Bollason"

Þar sem ég efaðist stórlega um að téður Bolli væri í raun sérskipaður leikskólaprestur þá ákvað ég að slá á þráðinn til hans og bera upp á hann þessar ásakanir.

Bolli þessi neitaði staðfastlega að hann væri einhver sérstakur leikskólaprestur en viðurkenndi þó að vinna fyrir kirkjuna.

Gat það verið að einhver hérna hafði rangt fyrir sér?

Sökum mikillar efahyggju minnar tók ég þá ákvörðun að efast um orð Bolla og hringdi þess í stað á skrifstofur leikskóla Reykjavíkurborgar s:5635800. Og viti menn! það vissi enginn neitt um neinn leikskólaprest. Reyndar var fullyrt við mig að þessi staða væri ekki til.

Er einhver að ljúga hérna á vantrú.net?

Og fyrir Matta Á sem krafðist þess að ég sýndi heimildir vil ég benda á pistil Birgis Baldurssonar þann 26.06.2004 kl:19:04 en þar segir: " Ég bendi á magnaðar greinar Matta Á, um þessi mál: "...svo koma 5 viðhengi.... og ef ýtt er á takka númer 2 er fyrsta málsgrein þín minn kæri Matti á svohljóðandi:

"Á foreldrafundi í leikskólanum í gærkvöldi kom fram að 90% foreldra eru ánægð eða mjög ánægð með leikskólaprestinn"

...eða er ég bara eitthvað að mis...?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/08/04 13:53 #

Þú hlýtur að vera að fara mis, ég veit alveg hvað stendur á minni síðu. Ég veit nefnilega líka að neðst á sömu síðu er téður Bolli Pétur nefndur á nafn og því frekar furðulegt að þú skulir í sömu athugasemd hér að ofan vitna í síðuna og lýsa því um leið yfir að þú vitir ekkert um hvaða mann er verið að ræða. Er þetta tilraun til útúrsnúninga lalli?

Enginn hefur skipað Bolla Pétur sem leikskólaprest en hann fer á milli leikskóla í starfi sínu sem prestur. Það er sorglegt að fylgjast með undanskotum þínum í þessu máli, prestur sem fer á milli leikskóla og messar yfir smábörnum er réttnefndur leikskólaprestur. Enginn hefur haldið því fram að þetta sé opinbert embætti og því er hér um strámann að ræða af þinni hendi.

Ég efast enn um að þú hafir forsendur til að starfa á leikskóla miðað við málflutning þinn hér.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/08/04 13:53 #

Jæja, Þar sem ég er mikill efahyggjumaður læt ég ekki bjóða mér hvað sem er.
lol, nei vinur minn, þú ert ekki efahyggjumaður, þú ert trúarnöttari.


Lárus Páll Birgisson - 12/08/04 14:32 #

Ha? Hvar hefur komið fram að ég trúi? hvað kallaðiru það aftur...strá....maður..er það ekki?


Lárus Páll Birgisson - 12/08/04 14:34 #

Væri líka gaman að fá að heyra röksemdarfærslu þína á því hvernig mig skorti forsendur til ákveðinnar atvinnu fyrir það að vera ósammála þér.....þetta er bara að verða nokkuð fyndið :)


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/08/04 14:45 #

Nei, ég kalla það ekki strámann, ég kalla það ad hominem.

Sú staðreynd að þú sérð engan mun á því að segja börnum ævintýri annars vegar og boða þeim kristna trú hinsvegar segir mér að þú sért vanhæfur til að starfa með börnum á leikskóla.

Það bendir einnig sterklega til þess að þú sért trúarnöttari.

Þetta hefur ekkert með það að gera að við séum ósammála, sú fullyrðing er strámaður.


Lárus Páll Birgisson - 13/08/04 01:51 #

Nú? Ég hélt einhvernveginn að það værir þú sem teldir biblíusögur bara ævintýri. Sorrý ef að það er vitleysa hjá mér.

Væri líka fróðlegt hvernig þú skilgreinir "að boða trú" og hvaða hugmyndir þú hefur um hvernig það er gert.

Endilega fræddu nú trúarnöttarann.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/08/04 09:46 #

Ég hélt einhvernveginn að það værir þú sem teldir biblíusögur bara ævintýri.
Biblíusögurnar eru ævintýri.
Væri líka fróðlegt hvernig þú skilgreinir "að boða trú" og hvaða hugmyndir þú hefur um hvernig það er gert.
Með því t.d. að ota að börnum Biblíusögum eins og ekki sé um að ræða ævintýri. Heldur þú virkilega að presturinn sem fer í leikskólana setji fyrirvara við sögurnar? Heldur þú að henn segi "til er fólk sem trúir að...". Auðvitað gerir hann það ekki, hann segir "Jesús læknaði veika.... Jesús gekk á vatni.... Jesús dó á krossinum fyrir syndir okkar". Þetta kalla ég að boða trú. Þegar börnin mín spyrja hvort drekar séu til segi ég, "nei, bara í ævintýrum", þegar börnin spyrja Séra Bolla Pétur Bollason hvort Jesús sé til segir hann "já barnið mitt, Jesús er til og hann vakir yfir þér". Á þessu er eðlismunur sem ég geri kröfu til að starfsfólk á leikskólum sé meðvitað um. Ef einhver starfsmaður á leikskóla heldur því fram við börnin að drekar, draugar og galdranornir séu raunverulega til er sá hinn sami augljóslega óhæfur til að starfa með börnum.
Endilega fræddu nú trúarnöttarann.
Sýnist það vera tilgangslítil iðja, þú hefur hunsað flest það sem hér hefur komið fram og snúið út úr öðru.


Lárus Páll Birgisson - 13/08/04 11:40 #

Þannig að þú , Matti, hefur séð Bolla vinna í leikskólum?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/08/04 11:46 #

Ég ætla að vitna í sjálfan mig:

Sýnist það vera tilgangslítil iðja, þú hefur hunsað flest það sem hér hefur komið fram og snúið út úr öðru.
Áður en lengra er haldið þætti mér vænt um að þú gæfir upp rétt nafn, ég nenni ekki þessu stagli við einstakling sem ekki kemur fram undir fullu nafni.


Lárus Páll Birgisson - 13/08/04 12:23 #

Nú? Ég hef grun (óstaðfestan þó) að svarið við spurningu minni sé nei. Ef það er rétt ályktað hjá mér þá eru hugmyndir þínar um "trúboð leikskólaprestsins" einungis hugmyndir sem þú hefur.

Matti, ekki falla í þá gryfju, eins og svo margir trúarnöttarar, að halda að hugsanir og hugmyndir þínar endurspegli alltaf einhvern raunveruleika.

Vissulega hefur þú rétt á þessum skoðunum og engin lög eru til um frjótt ímyndunarafl, en ef þú ferð að trúa því að allar hugmyndirnar sem þú færð séu einhver alheims sannleikur....jah, þá er nú stutt í geðveikina.

Og meðan ég man þá hef ég alltaf heitið Lalli.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/08/04 12:46 #

Ég gæti vitnað aftur í sjálfan mig en það tekur því varla. Prestar eiga ekkert erindi í Leikskóla í því fjölmenningarsamfélagi sem við búum í. Ef foreldrar vilja kynna börnin sín fyrir kristnum boðskap geta þau drullast með þau í Sunnudagsmorgna.

Og meðan ég man þá hef ég alltaf heitið Lalli.
Því nafni deilir þú með 489 íslendingum. Ég bað um fullt nafn, því eini Lárus Páll sem ég veit um er óumdeilanlega trúarnöttari.


Lárus Páll Birgisson - 13/08/04 13:54 #

Prestar eiga fullt erindi inn á leikskóla í því samfélagi sem við búum í. Ef foreldrar vilja ekki kynna börnin sín fyrir kristnum boðskap þá geta þau bara drullast með þau á samkomur hjá Siðmennt.

Annars skil ég ekki alveg hvað þú hefur á móti kristnu siðferði. Ég hef alltaf trúað því að það sé æskilegt að sýna öðru fólki kærleika og umburðarlyndi, stunda frið í stað stríðs, fyrirgefningu í stað hefnigirni.

En ég veit það ekki, kannski er þetta bara rugl hjá mér þar sem ég er svo mikill trúarnöttari.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/08/04 14:55 #

Það er nákvæmlega ekkert athugavert við það að innræta börnum kærleika, umburðarlyndi, friðarvilja og jafnvel fyrirgefningu. En að halda að menn geti ekki ástundað slíkt án þess að vera trúaðir á einhverjar andaverur er það sem gerir menn að nötturum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/08/04 14:58 #

Meira um það hér.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 13/08/04 14:59 #

Ef foreldrar vilja ekki kynna börnin sín fyrir kristnum boðskap þá geta þau bara drullast með þau á samkomur hjá Siðmennt.
Þú ert ekkert sérlega rökvís, er það? Í fyrsta lagi eru engar samkomur hjá Siðmennt fyrir utan borgaralegar fermingar sem eru einu sinni á ári. Í öðru lagi fara fulltrúar Siðmenntar ekki í leikskólana til að kynna siðrænan húmanisma fyrir börnunum og í þriðja lagi kemur eitt ekki í veg fyrir annað. Þó ég kynni börnin mín fyrir mínum hugmyndum losna þau ekki við trúboð prestsins í leikskólanum. Eina lausnin er að draga börnin úr hefðbundnu leikskólastarfi.

Hvað segirðu, má ég koma heim til þín og ræða við krakkana þína um trúmál? Þér hlýtur að finnast það allt í lagi, í rauninni hlýtur þér að finnast það hið besta mál.

Annars skil ég ekki alveg hvað þú hefur á móti kristnu siðferði. Ég hef alltaf trúað því að það sé æskilegt að sýna öðru fólki kærleika og umburðarlyndi, stunda frið í stað stríðs, fyrirgefningu í stað hefnigirni.
Strámaður. Ég hef ekkert á móti kristnu siðferði vegna þess að kristið siðferði er ekki til, það er hugarburður. Það er t.d. ekkert sameiginlegt með hugmyndum flestra Þjóðkirkjumanna og flestra Hvítasunnumanna í siðferðismálum, t.d. varðandi kynlíf fyrir hjónaband, fóstureyðingar, dauðarefsingar, samkynhneigð og svo framvegis, samt eru þetta hvoru tveggja kristnir hópar. Þar af leiðir, kristið siðferði er mýta. En það er allt önnur umræða.

Ég er á móti því að börnunum mínum og börnum allmennt séu kenndar mýtur um galdra, kraftaverk og almáttuga Gvuði eins og um staðreyndir sé að ræða. Ég tel að þeir sem stunda trúboð gagnvart annarra manna börnum á leikskólaaldri séu siðblindir, fávitar eða jafnvel bæði.

kannski er þetta bara rugl hjá mér þar sem ég er svo mikill trúarnöttari.
Ertu semsagt að segja að þú sért Lárus Páll Birgisson, sá hinn sami og vitnað er til í pistlinum sem ég vísaði á?

Þú fullyrðir að þú hafir ekki hugmynd um hvaða prest er verið að ræða, á sama tíma vitnar þú í síðu þar sem nafn prestsins kemur fram. Hvað liggur að baki slíkum málflutningi? Hvað veldur því að þú fullyrðir að enginn opinber leikskólaprestur sé starfandi þegar öllum má vera ljóst að því hefur aldrei verið haldið fram, aftur á móti er starfandi prestur sem flakkar á milli leikskóla og lýgur að börnum, prestur sem við kjósum að kalla leikskólaprest.

Hverju nákvæmlega ertu að reyna að koma á framfæri Lárus Páll? Hvert er þitt innlegg í umræðuna?


Lárus Páll Birgisson - 13/08/04 22:27 #

Þarna erum við algerlega sammála Birgir enda hef ég ekki haldið öðru fram. Það sem ég tel vera gott siðferði er eflaust hægt að finna í öllum trúarbrögðum og trúleysisstefnum. Á sama hátt er hægt að finna algera siðblindingja bæði í kristni, öðrum trúarbrögðum og meðal trúleysingja.

Á meðan fólk sýnir hvort öðru virðingu, kærleika og umburðarlyndi þá er mér nokk sama á hvað það trúir eða trúir ekki.

Minn skilningur á boðskap Jesúsar er sá að hann hafi verið að boða friðarhyggju og kærleika. Mér dettur ekki til hugar að segja að Jesú hafi haft rangt fyrir sér bara af því eitthvert illmennið kallaði sig kristinn.

Á sama hátt dettur mér ekki í hug að kalla alla trúleysingja "siðblinda nöttara" bara af því sumir þeirra voru það. Það er til fullt af trúleysingjum sem ég ber mikla virðingu fyrir, ekki vegna trúleysis þeirra, heldur vegna þess að þeir tileinka sér húmanísk gildi....gott dæmi um það er vinur minn hann Sigurður Hólm, fínn náungi með sterka réttlætiskennd.

Nú verð ég að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað þú ert að fara Matti. En mér sýnist sem svo að við séum sammála um að það sé enginn opinber leikskólaprestur. Ég hef áður bent á að það er stjórn hvers leikskóla fyrir sig sem ákveður hvort prestur viðkomandi sóknar fái að spjalla við sóknarbörnin sín sem eru jú um 90% af leikskólabörnum.

Eflaust hefur einhver misskilningur átt sér stað þar sem skilgreinigu vantaði á þennan meinta leikskólaprest.

Eins og ég skil ykkur þá er hinn svokallaði leikskólaprestur: 1. Ekki opinber staða. 2. Heitir Bolli. 3. Fer eingöngu á leikskóla í seljahverfi mínus 1 (alls eru 5 leikskólar í seljahverfi) 4. Fer eingöngu á leikskóla í samráði við stjórn hvers leikskóla.

Og ef við getum verið sammála um það þá er ég nú bara nokkuð sáttur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/08/04 11:02 #

Á meðan fólk sýnir hvort öðru virðingu, kærleika og umburðarlyndi þá er mér nokk sama á hvað það trúir eða trúir ekki.

Og:

Prestar eiga fullt erindi inn á leikskóla í því samfélagi sem við búum í.

Þessar tvær setningar eru í mótsögn hvor við aðra. Ef þú ætlar að standa við þá seinni, verðurðu að sýna fram á nauðsyn þess að trúa, sbr. greinina hér að ofan, eða jafnvel nauðsyn þess að boða kristna trú.

Fyrri setningin er fullkomlega í andstöðu við þessa meintu nauðsyn og gerir allt ríksisrekið kirkjustarf og leikskólatrúboð ankannalegt svo ekki sé meira sagt.

Hvernig ætlarðu að tækla þetta?


Lárus Páll Birgisson - 14/08/04 11:49 #

Pass!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.