Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

XII. Guðfræði í HÍ : Hin æpandi þögn

Sumum þykir við hafa dregið þessa umfjöllun um glærurnar heldur á langinn. Það má vel vera en hætt er við því að greinar hefðu orðið of langar ef við hefðum ekki skipt þessu upp. Öðrum finnst þetta vera óttalegur tittlingaskítur auk þess að telja málflutning okkar um glærurnar skýrt dæmi um meinta ókurteisi og viðkvæmni þessa félagsskapar. Kannski hafið þið öll rétt fyrir ykkur, en samt eru líkur á því að hafið verulega rangt fyrir ykkur.

Vandamálið

Vandamálið er ekki að það fjallað sé um Vantrú í Háskólanum í námskeiði um nýtrúarhreyfingar, við erum bara mjög ánægð með það, vandamálið er hvernig. Við gerumst svo djörf að telja að flestir sem hafa fylgst með þessu séu sammála okkur - þó að fólk sé ekki endilega sammála um framsetninguna - að meðhöndlunin sem við fáum er verulega ósanngjörn.

Glærurnar sjálfar

Það eru auðvitað einstök dæmi sem sýna vel hversu ósanngjarnt og óvandað þetta var, til dæmis hlandspekisdæmið og hálfvitadæmið. Við teljum að ljóst sé þegar farið er í gegnum alla glærusýninguna að þar er ekki um hlutlausa kynningu á Vantrú að ræða, heldur tilraun til að sverta félagið, t.d. þegar sagt er að við séum að kynda undir fordæmingu á gyðingum! Þess vegna bjóðum við fólki upp á að skoða glærurnar sjálfar. Auk þess getið þið skoðað athugasemdir okkar við einstaka glærur í greinaflokknum Háskólinn.

Áróður

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands er auðvitað samtvinnuð ríkiskirkjunni. Vantrú hefur gagnrýnt þessar tvær stofnanir harkalega, og þeim stendur vissulega stuggur af Vantrú. Því kemur ekki á óvart að kennsluefni í þessari deild sem fjallar um Vantrú sé frekar hlutdrægt, það gengur samt ekki í háskóla sem vill láta taka sig alvarlega.

Um hin þvertrúarlegu samskipti

Það hefur ekki verið haft samband við Vantrú þrátt fyrir það greiða aðgengi sem við veitum til skoðanaskipta og tjáningar hér á þessu vefriti og á spjallinu. En auðvitað er ekki nauðsynlegt fyrir fræðimanninn að hafa samband við þetta félag þegar allar upplýsingar um okkur liggja þegar fyrir á vefnum. Á vefritinu er urmull af upplýsingum um afstöðu Vantrúar í ýmsum málum. Það er undarlegt að fólkið sem talar hvað mest um þvertrúarleg samskipti vilji ekkert ræða við okkur, sem erum þó líklega trúfélag samkvæmt því fólki.

Við brutum meira segja ísinn og sendum Bjarna Randveri bréf. Við höfum líka haft samband við rektor Háskóla Íslands, siðanefnd Háskóla Íslands og meira að segja dr. Pétur Pétursson, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, fékk bréf frá formanni Vantrúar þann 5. febrúar:

Ágæti Pétur.

Félagsmenn í Vantrú hafa undir höndum glærur úr kúrsinum „Nýtrúarhreyfingar“ sem Bjarni Randver Sigurvinsson guðfræðingur kennir við HÍ í guðfræði- og trúarbragðadeild. Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands til minnkunar í umfjöllun sinni um trúlausa og félagið Vantrú þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn, uppsetning o.fl. er hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu okkar.

Við teljum að efnisval Bjarna Randvers sé að mörgu leyti vafasamt og aðaláherslan er lögð á persónuleg skrif félagsmanna Vantrúar þó enginn skortur sé á efni sem hefur verið skrifað í nafni félagsins sjálfs. Á vef Vantrúar, www.vantru.is, eru hundruð greina sem vitna má í.

Við bendum á að Bjarni Randver Sigurvinsson hefur slík tengsl við Þjóðkirkjuna að ætla má að þau hafi litað málflutning hans í garð Vantrúar, sem hefur haldið uppi harðri gagnrýni á þá stofnun. Bjarni Randver er guðfræðingur og formaður starfshóps Þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð.

Bjarni Randver hefur aldrei haft samband við Vantrú til að fá upplýsingar um félagið sem hefðu verið auðsóttar. Kynningu á félagsskapnum fögnum við en afskræmingu frábiðjum við okkur. Við förum fram á að þetta kennsluefni, sem og hæfni Bjarna Randvers sem kennara, verði metin í ljósi þeirra athugasemda sem við komum hér á framfæri. Niðurstaða þess mats endurspeglar vonandi faglegan og fræðilegan metnað guðfræði- og trúarbragðadeildar HÍ.

Á vef H.Í. segir: „Auk þess að leggja stund á hefðbundnar greinar guðfræðinnar kosta starfsmenn deildarinnar kapps um að mæta þörfum fjölmenningarlegs samfélags. Árið 2000 var í því skyni sett á laggirnar þverfaglegt nám í almennum trúarbragðafræðum.“ Þarfir fjölmenningarlegs samfélags eru tvímælalaust þær að afstaða ólíkra hópa sé kynnt af sanngirni og hlutleysi. Ef guðfræði- og trúarbragðafræðideild á að vera eitthvað annað en guðfræðideild eða prestaskóli ríkiskirkjunnar er þörf á gagngerri endurskoðun þessa áfanga Bjarna Randvers.

Við gerum athugasemdir við tvær glæruraðir:

A: Deistar o.fl. 37 glærur.

B: Vantrú. 37 glærur.

Glærur þessar auk nokkurra athugasemda eru í fylgiriti.

Þegar þú hefur kynnt þér þetta erindi óska ég eftir fundi með þér til að ræða efni þess og fá viðbrögð þín.

Eftir frekari eftirspurn svaraði Pétur síðan þann 10. febrúar á þá leið að þeir Bjarni væru að skoða athugasemdirnar og létu vita þegar umsögn um kvörtunina lægi fyrir. Tveimur dögum síðar lét Pétur vita að þeir hefðu "farið yfir glærurnar" um Vantrú en væru að skoða fleira. Það leið og beið, en Reynir fékk ekkert svar, svo hann sendi ítrekun:

Sæll Pétur.

Nú eru ellefu dagar síðan ég heyrði síðast frá þér og enn hefurðu í engu svarað síðasta pósti.

Okkur þótti leitt og jafnvel undarlegt að sjá hvorki þig né Bjarna á kynningu Vantrúar á fundi Þorra á mánudaginn. Þetta var kynning á Vantrú og við héldum í sakleysi okkar að þið fóstbræðurnir hlytuð að láta sjá ykkur, a.m.k. hefði það ekki sakað ykkur að fá örlitla innsýn í starf okkar í ljósi þeirra ranghugmynda sem ríða húsum í deildinni.

Sumir telja þekkingu á efni forsendu þess að fræða aðra um það. Á fundinum var fullt út úr dyrum, um sextíu manns, en af þeim voru aðeins um tveir eða þrír guðfræðinemar. Fróðleiksþorsta hinna virðist greinilega svalað í öðrum brunnum.

Þarftu virkilega mikið lengri tíma til að átta þig á hvort athugasemdir okkar krefjast ekki einhverra viðbragða eða vefjast viðbrögðin fyrir þér?

Með kærri kveðju

Reynir

Enn hefur ekkert svar borist.

Stóra myndin

Þessar glærur eru auðvitað hluti af stærri mynd. Hér á Vantrú höfum við alltaf staðið fyrir heiðarlegum umræðum fyrir opnum tjöldum. Ríkiskirkjan hefur ekki brugðist við með því að svara í sömu mynt, heldur hefur hún reynt að láta eins og við værum ekki til, en í versta falli dylgjað um okkur. Það kemur því ekki á óvart að í guðfræðideildinni, þar sem prestar framtíðarinnar eru í starfsþjálfun, skuli vera sagt að við séum orðljótir og hættulegir menn, svo þau geti réttlætt þögnina. Fórnarlömbin eru síðan Háskóli Íslands og nemendur þar.

Þögnin rofin

Glærurnar

Ritstjórn 04.03.2010
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 22:55 #

Hér í athugasemdakerfinu er líka æpandi þögn.


Linda Rún - 04/03/10 23:52 #

Það er æpandi þögn hérna vegna þess að manni er orðavant.

Ég hef aldrei setið nám í guðfræðinni eða félagsvísindum en raungreinakennari við HÍ fengi ekki að klára sinn fyrirlestur ef hann notaði greinar úr dv eða sundurklipptar tilvitnanir sem heimildir.

Það væri gaman að fá svör frá Bjarna sjálfum, þ.e. hvernig hann hefur hugsað sér uppbyggingu prófsins og hvort hann geti virkilega leyft sér að skikka nemendur til þess að þurfa að muna og taka undir hans skoðun til þess að klára áfangann.


Finnur - 05/03/10 02:41 #

Það er nú talsverður tvískinnungur í þessari umfjöllun ykkar. Stutt leit hér á 'guðfræðideild' sýnir nokkuð vel hvaða álit þið hafið á því sem þarna er kennt. Þannig að maður hlýtur að velta fyrir sér hvað vakir fyrir ykkur með þessum eltingarleik við tittlingaskít á einhverjum glærum og ímynduðum túlkunum á þeim. Og varla getur nokkur tekið mark á því að:

Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands til minnkunar...
Hafið þið virkilega áhyggjur af orðspori guðfræðdeildarinnar? Og þar að auki virðist þið hundfúlir yfir því að fá öðruvísi umfjöllun en aðrir jaðar-trúflokkar -- hvernig á maður að skilja það. Ég hefði þvert á móti talið ykkur ánægða með þessa umfjöllun, sýnir að eftir ykkur er tekið og það er tekið á ykkur á beinskeittan hátt -- nákvæmlega eins og þið takið á trúarbrögðum.


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 02:53 #

Finnur.... plíss....

Þetta eru ekki vinnubrögð sem sæma HÍ - Og skyggir þetta á stofnunina í heild að þetta fái að viðgangast.

Þarna eru lygar og áróður, sem ætti að vera hlutlaus kennsla.

Síðast en ekki síst þá held ég að þú vitir þetta mjög vel sjálfur, það er bara verið að gagnrýna eitthvað sem þú elskar og þú ert því að reyna að verja það, skil það en fyrirgefðu ef þú ætlar að verja þetta gerðu það með rökum ekki tilfinningum.


Finnur - 05/03/10 05:08 #

Þarna eru lygar og áróður, sem ætti að vera hlutlaus kennsla.
Það má vera að ýmislegt sé gefið í skyn, og þá er hverjum og einum að meta það, en hverju er beinlínis logið?

Það er líka ýmislegt ögrandi og umdeilanlegt þarna sem getur auðveldlega skilist sem áróður ef það er tekið úr samhengi. En er ekki gott að fá þetta uppá yfirborðið þannig að það skapi umræður? Ekkert af þessu ætti að koma ykkur á óvart og þarna hafið þið mjög afgerandi snertifleti við guðfræðideildina.

Er t.d. herskár málflutningur Dawkins vatn á myllu haturshreyfinga? Í fljótu bragði hallast ég að því að svara þessu játandi, á sama hátt og herskár málflutningur amerískra sjónvarpspresta er vafalaust vatn á milli haturshreyfinga.


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 06:07 #

Þarna eru lygar og áróður, sem ætti að vera hlutlaus kennsla.

Það má vera að ýmislegt sé gefið í skyn, og þá er hverjum og einum að meta það, en hverju er beinlínis logið?

Þú ert samsagt ekki búinn að lesa gegnum greinarnar 7?

Því ef þú værir búinn að því þá værir þú ekki að kasta fram svona spurningum. Síðan svarar þú líka sjálfum þér í spurningunni þegar þú segir "beinlínis". Þetta gefur í skyn að þú áttir þig vel á því að í þessum kúrs er farið með rangt mál um ýmsa hluti.

Gamla góða klisjan: "En þið eruð að taka þetta úr samhengi!"

Ein spurning hvað hefur þú lesið eða horft á mikið af efni eftir Richard Dawkins?

Ef þú segir lítið eða ekkert, ekki tjá þig um þau mál.

Finnst þér að ögrandi og umdeilanlegt kennsluefni eigi að vera kennt í hlutlausu námi? Þú áttar þig á því að það þarf ekki að taka neitt úr samhengi til þess að komast að þeirri niðurstöðu að þetta er ekki námsefni sem er við hæfi. Skattarnir okkar fara í það að búa þetta til.

Ég held að þú myndir sjá það ef um væri að ræða aðila hlutlausan þér, segjum sem dæmi að mormóni væri að fjalla um búddista. En þar sem þú virðist vera blindur á þína eigin krirkju þá get ég ekki hjálpað þér.

Ertu nokkuð að glápa á flísar en áttar þig ekki á þínum eigin bjálka?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 08:02 #

Við skulum hafa það á hreinu að Finnur myndi réttlæta allar árásir á Vantrú algjörlega án tillits til þess hvort þær væru réttmætar eða ekki. Það hefur margoft komið fram að honum er afskaplega mikið í nöp við félagið.


Finnur - 05/03/10 08:10 #

Ég er búinn að lesa í gegnum greinarnar, og ég sá hvergi beinlínis lýgi. Það er varla of mikils mæls að biðja ykkur að benda mér á þessa lýgi, fyrst hún fór framhjá mér.


Örninn (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 08:45 #

Mig grunar Finnur að menn séu orðnir þreyttir á því að tönnlast á því sama endalaust!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 08:57 #

og ég sá hvergi beinlínis lýgi.

"beinlínis lygi"! Hvar höfum við haldið því fram að kennarinn "beinlínis ljúgi"? Ertu virkilega ekki búinn að lesa neitt af því sem við höfum skrifað um málið? Hvern andskotann á það að þýða að koma hér og rífast við okkur án þess að byrja á því að lesa það sem við segjum?

Við höfum sýnt óhrekjandi dæmi um að orð okkar eru skrumskæld og tekin úr samhengi til að mála af okkur ósanna mynd.

Hvað um það, hvað er það annað en lygi að birta svona tilvitnun í mig?

Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem ... móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.

Hvað kallar þú þetta Finnur?

Hvað er það annað en lygi að halda því fram að nafngreindir einstaklingar hafi verið kallaðir "hlandspekingar" af meðlimum Vantrúar?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 09:02 #

Mér finnst nú áróður og óhróður betri orð en lygi í þessu sambandi. Samkvæmt viðmiðum Bjarna sjálfs í þvertrúarlegum samskiptum eiga menn að sjá sjálfa sig í lýsingum hans á þeim. Við gerum það klárlega ekki og því hefur honum mistekist samkvæmt hans eigin markmiðum.

Það má kalla það lygi að starfsemi Vantrúar einkennist af trúboði. En kannski réttara að kalla það rangtúlkun, a.m.k. oftúlkun á sérvöldum textum.

Það má líka kalla það lygi að nafngreindir einstaklingar séu kallaðir hlandspekingar o.s.frv. A.m.k. er um rangfærslur að ræða.

Ég á líka bágt með að sjá að málflutningur okkar sé vatn á myllu haturshreyfinga en með sérhönnuðum gleraugum er Andrés Önd auðvitað mjög kvenfjandsamlegur og Latibær kynórar barnaníðinga.

Ég ætla rétt að vona að athugun á vef okkar eða samtal við Vantrúarmann gefi allt aðra mynd af félaginu en dregin er upp í guðfræðideild.


Finnur - 05/03/10 11:07 #

"beinlínis lygi"! Hvar höfum við haldið því fram að kennarinn "beinlínis ljúgi"...
Ketill segir hér að ofan:
Þarna eru lygar og áróður, sem ætti að vera hlutlaus kennsla.
Ketill er ekki meðlimur í Vantrú, en sjáið þið enga þörf á að leiðrétt þessa athugasemd hans?


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 11:27 #

Ég biðst fyrirgefningar á orðavali mínu og mér finnst hræðilegt að það valdi þér hugarangri. Í nótt gerði ég ekki greinamun á lygi og ósannindum/rangfærslum, þetta þykir mér leitt.

Ég áttaði mig ekki á við hvern ég talaði þegar ég kommentaði fyrst. Nú þegar ég veit hvernig röklistir þú stundar þá segi ég mig formlega úr þessari rökræðu og þætti ánægjulegt að þurfa ekki að kljást við þig aftur á þessum grundvelli.

Knús og Kossar Ketill

Ein pæling í lokin sem þarf ekki að svara, væri ekki gaman að sjá Gimba og Finn rökræða eitthvað? :D Það er eitthvað sem ég myndi vilja sjá haha


Finnur - 05/03/10 11:33 #

Ég biðst fyrirgefningar á orðavali mínu og mér finnst hræðilegt að það valdi þér hugarangri.
Ekkert mál Ketill, hugur minn er sallarólegur svo hafðu engar áhyggjur af því, en göfuglegt af þér að biðjast fyrirgefningar.


Davíð - 05/03/10 17:24 #

Ég er trúlaus og er yfirleitt sammála ykkur í Vantrú en ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég las bæklinginn "Kertasníkir, Jésu og félagar þeirra" í þessum glærupakka guðfræðideildarinnar. Þessi bæklingur er asnalegur og illa gerður og lyktar eins og lélegt trúboð (trúleysisboð í þessu tilviki).

Svo eru það hreinar línur að þeir trúleysingjar sem segjast vera alveg 100% vissir að guð sé ekki til eru engu skárri en þeir trúuðu og þurfa virkilega að endurskoða hugmyndafræði sína.

ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ FULLYRÐA AÐ GUÐ SÉ EKKI TIL!

En líkurnar eru hinsvegar mjög mjög mjög mjög mjög litlar

Góðar stundir


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 17:33 #

Þessi bæklingur er asnalegur og illa gerður og lyktar eins og lélegt trúboð (trúleysisboð í þessu tilviki).

Finnst þér þessi bæklingur áberandi hér á heimasíðu Vantrúar? Hann er það ekki.

Það má alveg gagnrýna þennan ágæta bækling - en svo er spurning af hverju "trúleysisboð" fær iðulega svona harkalega gagnrýni. Er eitthvað athugavert við að boða trúleysi?

Svo eru það hreinar línur að þeir trúleysingjar sem segjast vera alveg 100% vissir að guð sé ekki til eru engu skárri en þeir trúuðu og þurfa virkilega að endurskoða hugmyndafræði sína.

ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ FULLYRÐA AÐ GUÐ SÉ EKKI TIL!

Er hægt að fullyrða að nokkuð sé ekki til ef við notum slíka fyrirvara?

Tölum við um að tannálfurinn sé afar sennilega ekki til eða segjum við að hann sé ekki til.

Þetta er í raun marklaus fyrirvari. Af hverju þurfum við að gera þennan greinarmun þegar við tölum um gvuði en ekki annað? Eru þessar setningar ekki nokkurn vegin eins í daglegu tali?

  • Það bendir ekkert til þess að nokkur gvuð sé til
  • það er afar afar ósennilegt að nokkur gvuð sé til.
  • Það er enginn gvuð til.

Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 17:35 #

Bara svo það sé á hreinu, Davíð, Þá var þessum bæklingi aldrei dreift.

Það eru afar fáir trúleysingjar sem segjast þess 100% vissir að guð sé ekki til. Ég hef engan hitt ennþá.

Í heimspekilegum skilningi er auðvitað ekki hægt að vita að guð sé ekki til, en eins og þú segir eru líkurnar á tilvist hans afskaplega litlar.

Að mínu mati eru þær svo litlar að í daglegu tali er hægt að segja að þær séu engar. Beyond a reasonable doubt, eins og sagt er á ensku.

Allt þar til ný gögn koma fram í málinu, að sjálfsögðu ...


ArnarÞ - 05/03/10 18:02 #

Ég er 100% viss að það er enginn guð. AMK í formi kristinnar trúar. Er svona 99%viss að það er ekki guð.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 19:13 #

Svo eru það hreinar línur að þeir trúleysingjar sem segjast vera alveg 100% vissir að guð sé ekki til eru engu skárri en þeir trúuðu og þurfa virkilega að endurskoða hugmyndafræði sína.

ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ FULLYRÐA AÐ GUÐ SÉ EKKI TIL!

Einmitt. Og það er heldur ekki hægt að fullyrða að hann sé til.

Samt er það gert. Útsendarar kirkjunnar sækja á skólana og leikskólana með þá fullyrðingu. Og gegn því berjumst við.

Mér finnst, Davíð, að þú ættir að berjast með okkur.


Kári - 05/03/10 22:03 #

ég er nokkuð sammála Davíð. Bæklingurinn hefði ekki hitt í mark og fínt að honum hafi ekki verið dreift. En ég berst með ykkur.


Davíð - 06/03/10 04:09 #

Að sjálfsögðu berst ég með ykkur enda er ég þekktur í vinahópnum fyrir að soga að mér heitar trúarumræður ;)Mér finnst bara mikilvægt að detta ekki niður á sama plan og ríkiskirkjan og sumir hennar fylgjendur.

Ég stoppa stundum og spyr mig t.d. þegar ég tala við yngri frændsystkin mín um trú hvort ég sé að gera það sama og ég er að gagnrýna, þ.e. troða skoðunum í auðmótaða huga. Ég reyni alltaf að forðast það eins og ég get og í stað að boða trúleysi spyrja góðra spurninga sem fær fólk til að hugsa.

Svo hef ég friðað samviskuna með því að hugsa að þótt spjall mitt við frændsystkinin geti flokkast sem boð í einhverjum tilfellum þá sé ég að gefa mótvægi við það trúboð sem viðgengst í skólum :)


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 06/03/10 05:58 #

@Davíð

Góður punktur, ég sjálfur á ófá yngri systkin og frændsystkin.

Reyni að tala sem minnst um svona lagað við þau, eina sem mig langar að þau viti er að það er hægt að velja á milli mismunandi trúarbragða og trúleysis, einig að þau pæli aðeins í þessum hlutum. Mörg börn vita ekki af þessum valmöguleika.

En trú er nú samt bara svona 5% af heildarumræðunum, aðalega vísindi og mikilfengleiki heimsins ;)


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 06/03/10 09:43 #

Ef mig minnir rétt þá var þessi bæklingur skrifaður af einhverjum í Siðmennt. Svo var vísað á hann hér á Vantrú í einhvern tíma, eða eitthvað slíkt.

Nema hvað. Nú hef ég ekki lesið þennan bækling, gluggaði í hann smá fyrir löngu þannig að ég man ekki innihald hans. En er eitthvað að því að skrifa bækur fyrir börn þar sem trúleysi er kynnt?

Mega börn trúlausra ekki fræðast um afstöðu foreldra sinna með hjálpar einhverri bók? Er það trúleysisboðun að slíkar bækur séu til?


Carlos - 08/03/10 00:21 #

Mér finnst samfélagið furðufljótt að afgreiða bæði glærur, Bjarna og Finn (hér fyrir ofan). Sérstaklega í ljósi þess að Vantrúarsamfélagið hefur kvartað/kært til Guðfræðideildar og gefur því ekki gaum, að það tekur tíma að semja vandað svar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 07:46 #

Carlos, Finnur er ekki að gera athugasemdir hér í fyrsta skipti. Hvað finnst þér standa eftir ósvarað af athugasemdum hans?

Nú hefur þú fengið allar glærurnar um Vantrú í hendurnar. Getur þú virkilega ekki enn gefið nokkuð álit á þeim? Sér í lagi þegar með fylgir vitnisburður um að þær gefi rétta mynd af kennslunni?


Carlos - 08/03/10 09:52 #

Ef þú ert að fiska skefjalausa fordæmingu yfir því að BR hafi togað Vantrú út á ystu nöf ofstækis og svert málstaðinn, einstaklinga o.s.frv. þannig að ekki sé hægt að þekkja félagsskapinn aftur og helst ætti að reka BR fyrir, þá nei, hana færð þú ekki frá mér.

Ég þekki Vantrúarpenna aftur af glærunum sem ég sá. Einstaka glæra sýnist mér gagnrýni verð og þurfa endurskoðun. Mér finnst vinnubrögðum BR til hróss, að hvergi felur hann samhengi hlutanna, alltaf er hægt að rekja sig til baka til textanna og samhengisins þar sem orðin féllu og því er gagnrýni möguleg.

Ég segi þetta samt undir því formerki eins og ég hef gert í allri þessari umræðu, að við höfum ekki nema einn lit í litrófinu til að leika okkur með og því lesið þið of mikið í hvort tveggja, glærurnar og þögnina og af of mikilli óþolinmæði.

Mér finnst í þessum svarhala áhugaverð önnur aths., sem reyndar missir algerlega af því að félagsvísindi, saga og guðfræði eru ekki raun- heldur hugvísindi og notast við dálítið önnur tól til rannsókna. BR rekur ummæli þar sem þau birtast. Enda ekki eins og Vantrú tjái sig í ritrýndum fræðitímaritum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 10:30 #

Carlos, athyglisvert að þú þurfir að sprengja skalann upp á efsta stig til að kreista fram neitun.

Varðandi meinta óþolinmæði: Nú er liðinn rúmur mánuður frá því að erindið var borið upp við deildarforseta. Hann vatt sér strax í að skoða málið með BR sér við hlið. Hins vegar hefur hann ekki enn séð ástæðu til að kalla okkur til fundar til að ræða við okkur. Ekki hefur hann leitt okkur til fundar við BR heldur. Þar sem deildarforseti er prófessor í "praktískri guðfræði" gæti maður haldið að svo praktísk viðbrögð kæmu til greina.

það tekur tíma að semja vandað svar.

Kröfur til svarsins hljóta þá að aukast með hverjum degi sem líður svo okkur er væntanlega óhætt að búast við miklu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 10:34 #

Ef þú ert að fiska skefjalausa fordæmingu yfir því að BR hafi togað Vantrú út á ystu nöf ofstækis og svert málstaðinn, einstaklinga o.s.frv. þannig að ekki sé hægt að þekkja félagsskapinn aftur og helst ætti að reka BR fyrir, þá nei, hana færð þú ekki frá mér.

Hvar hef ég farið fram á "skefjalausa fordæmingu"? Er þér virkilega alveg fyrirmunað að ræða málefnalega við mig/okkur? Vinsamlegast hættu að gera mér upp skoðanir.

Mér finnst vinnubrögðum BR til hróss, að hvergi felur hann samhengi hlutanna, alltaf er hægt að rekja sig til baka til textanna og samhengisins þar sem orðin féllu og því er gagnrýni möguleg.

Er virkilega í lagi að setja upp útúrsnúninga eða klár ósannindi í fyrirlestri ef með fylgir smátt letur? Þykir þér í alvörunni í lagi að gefa í skyn að ég sé þreyttur á trúfólki sem móðgast þegar það er kallað hálfvitar - þegar staðreyndin er að ég sagði það alls ekki? Á ég að trúa því að þér þyki eðlilegt að fullyrt sé að nafngreint fólk hafi verið kallað hlandspekingar þegar það er einfaldlega lygi. Ætlar þú að segja mér að það sé heiðarlegt að sýna heimasíðu einstaklings sem hefur skrifað athugasemd á Vantrú eins og gert var?

Já, merkileg eru fræðin sem stunduð eru í guðfræðideild ef þetta er raunin.


Carlos - 08/03/10 10:48 #

"athyglisvert að þú þurfir að sprengja skalann upp á efsta stig til að kreista fram neitun." Stundum er ágætt að marka ystu mörk (öfgarnar) til að meiningin komi í ljós.

"Kröfur til svarsins hljóta þá að aukast með hverjum degi" Rýni tekur tíma, biðin réttlætir hinsvegar ekki sleggjudóma á borð við

"Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands er auðvitað samtvinnuð ríkiskirkjunni. Vantrú hefur gagnrýnt þessar tvær stofnanir harkalega, og þeim stendur vissulega stuggur af Vantrú. Því kemur ekki á óvart að kennsluefni í þessari deild sem fjallar um Vantrú sé frekar hlutdrægt, það gengur samt ekki í háskóla sem vill láta taka sig alvarlega."

undir yfirskriftinni "Áróður". Til þess höfum við ekki nægilegt efni í höndunum.

Varðandi aðkomu mína að þessari umræðu (@Matti og öðrum sem málið varðar). Geri ég upp skoðanir? Eflaust geri ég það á stundum. Það var þó ekki ætlunin nú, ef síðasta athugasemd mín er lesin í samhengi og án þess að slíta hana í sundur.

Ég held að menn ættu að stíga hér varlegar til jarðar en þeir hafa gert á stundum. Meira vildi ég ekki sagt hafa. Ef það er "að gera upp skoðanir", þá eru menn og konur hér á vafasamri leið.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 10:56 #

Stundum er ágætt að marka ystu mörk (öfgarnar) til að meiningin komi í ljós.

Mér sýnist gagnrýni þín á okkur einmitt beinast að því að við förum út á ystu mörk, en þrátt fyrir það virðist meiningin í gagnrýni okkar fara alveg fram hjá þér.


Carlos - 08/03/10 11:42 #

Persónuleg gagnrýni mín á umfjöllun Vantrúar á óútgefnu efni BRS er þessi:

1) Ekki er gjörvallt verkið til grundvallar heldur lítill hluti þess.

2) Á grunni of takmarkaðs efnis ályktar Vantrú of glannalega.

3) Vantrú ætlar höfundi efnis og Guðfræðideild of lítinn tíma til að svara gagnrýninni.

Meira var það nú ekki.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 11:51 #

1) Ekki er gjörvallt verkið til grundvallar heldur lítill hluti þess. -Við gagnrýnum bara glærurnar og þær eru teknar fyrir í heild sinni.

2) Á grunni of takmarkaðs efnis ályktar Vantrú of glannalega. -Kannski til að meiningin komist til skila? Nei, við sjáum okkur ekki í lýsingum BR á okkur, en það er markmið hans að svo sé. Glærurnar draga upp einhliða og afskræmda mynd af Vantrú.

3) Vantrú ætlar höfundi efnis og Guðfræðideild of lítinn tíma til að svara gagnrýninni. -Við höfum ekki nefnt nein tímamörk en vekjum athygli á algjöru samskipta- og viðbragðaleysi þótt mánuður sé liðinn frá því að erindið barst.


Carlos - 08/03/10 13:26 #

Varðandi 1) Glærunum er ekki ætlað að standa einum. Þær eru vinnugagn, ekki lokaafurð. Kannski vill höfundur þeirra fá viðbrögð og gagnrýni.

Varðandi 2) Sitt sýnist hverjum og þá er alltaf gott að staldra við, sá sem þekkir sitt heimafólk í lýsingunni (kannski ætlar hann þeim eitthvað sem ekki var meint) og heimafólkið (sem ætti að spyrja sig af hverju það býður upp á þessa mynd).

Varðandi 3) Er það rétt skilið að Vantrú hafi fengið skrifleg svör frá Guðfræðideild fyrst? Væri hægt að sjá það bréf eða er það komið fram?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 13:38 #

  1. Þótt glærurnar séu í þínum hugarheimi e.t.v. forleikur að einhverju hlutlausu og réttsýnu meistarastykki BR þá geturðu ekki ætlast til þess að gagnrýni okkar beinist að hugsanlegri "lokaafurð". Við erum að gagnrýna "vinnugagnið" sjálft.

  2. Ha? Ætlarðu að segja að ég, Helgi eða Níels "bjóðum upp á" þessa mynd. Sé svo bið ég þig vel að lifa.

  3. Ég kalla það ekki svar að senda tölvupóst og segjast vera að skoða málið.


Carlos - 08/03/10 16:52 #

1) Ég get ætlast til þess, að verkið í heild (glærur, úthendur og fyrirlestur) séu rýnd, ekki bara útvaldar glærur sem þið kjósið að birta. Ég hef það fyrir satt, að glærurnar séu vel á annað hundrað, og þið birtið hvað? 70 alls?

2) Hafa Vantrúarpennar ekki á köflum tjáð sig glannalega, til að meiða og til að koma andstæðingum úr jafnvægi? Kommon! Ekki vera svona viðkvæmur.

3) Hvað var bréf ykkar stórt, hve ítarleg er gagnrýni ykkar og eru þið til í að birta það í heild sinni? Má vera að það sé það ítarlegt, að það tekur lengri tíma en einn - tvo mánuði að svara?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 16:59 #

1) Ég get ætlast til þess, að verkið í heild (glærur, úthendur og fyrirlestur) séu rýnd, ekki bara útvaldar glærur sem þið kjósið að birta. Ég hef það fyrir satt, að glærurnar séu vel á annað hundrað, og þið birtið hvað? 70 alls?

Við birtum allar glærurnar þar sem fjallað er um Vantrú, jafnvel þær sem við höfðum ekkert út á að setja. Sástu ekki vísanir í færslunni á pdf skjölin sem innihalda upprunalegu glærurnar eins og þær komu frá BR? Það er hrikalega ómerkilegt að tala um að við birtum "útvaldar glærur".

2) Hafa Vantrúarpennar ekki á köflum tjáð sig glannalega, til að meiða og til að koma andstæðingum úr jafnvægi? Kommon! Ekki vera svona viðkvæmur.

Nei, Vantrúarpennar hafa ekki tjáð sig glannalega til að meiða eða til að koma andstæðingum úr jafnvægi.

Vert þú ekki svona viðkvæmur.

Hafa ekki allir tækifæri til andmæla hér á Vantrú? Hefur Vantrú sagt ósatt eða snúið út úr málstað trúmanna með sama hætti og gert var í þessu tilviki? Svarið er nei, Vantrú stundar ekki svona málflutning.

Annars er þetta fróðlegt. Vörn Carlosar snýst einfaldlega um að við í Vantrú eigum skilið að fjallað sé um okkur með óheiðarlegum hætti. Það er í lagi að fjalla svona um okkur vegna þess að við erum svo miklir ruddar. Við erum svo miklir ruddar vegna þess að ... BR segir það?


Carlos - 08/03/10 17:25 #

1) Ertu viss um að þið hafið þær allar? Ég hef ekkert fengið frá BR þannig og ég fekk engar Vantrúarglærur með .pdf pakkanu.

2) Vertu sjálfur ekki svona uppstökkur og viðkvæmur.

3) Megum við fá sjá bréfið sem þið senduð guðfræðideildinni, í heild og ekki bara innganginn? Getur verið að þar sé ástæðan fyrir seinaganginum að finna?

Það er fróðlegt, að árás hefst þegar gagnrýni verður einföld, bendir á augljósa hluti og spyr óþæginlegra spurninga, eller hur? Sú árás er strámaður, strámannsrökvilla, til að nota orðfæri Vantrúarfræða. Hún afbakar orð mín og staðhæfir þar sem nær væri að spyrja.

Hún skautar fram hjá því að ég geri mér fulla grein fyrir að þá tveir deila geta tveir farið yfir strikið.

Þannig aftur, Matti, aðeins minni viðkvæmni, hún á ekki við.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/03/10 17:36 #

1) Ertu viss um að þið hafið þær allar? Ég hef ekkert fengið frá BR þannig og ég fekk engar Vantrúarglærur með .pdf pakkanu.

Hvað ertu að tala um?

Já, við höfum allar glærurnar sem nemendur námskeiðsins fengu varðandi þetta efni. Það hefur ítrekað komið fram að við erum ekki bara með glærur heldur einnig frásagnir nemenda sem sátu kúrsinn.

Glærurnar sem vísað er á í færslunni hér fyrir ofan eru:

Við birtum ekki aðrar glærur því þær eru ekki til umfjöllunar hér.

Þú dylgjar semsagt um að við birtum "útvaldar glærur" án þess að hafa nokkuð fyrir þér varðandi það. Við sögðum áður:

Í dag hefjum við yfirferð okkar um umfjöllun Bjarna Randvers um Vantrú. Til að gæta sanngirni munum við birta allar glærurnar í réttri röð.

-

2) Vertu sjálfur ekki svona uppstökkur og viðkvæmur.

Fyrirgefðu Carlos, það varst þú sem byrjaðir (svo við höldum þessu á leikskólastiginu).

3) Megum við fá sjá bréfið sem þið senduð guðfræðideildinni, í heild og ekki bara innganginn? Getur verið að þar sé ástæðan fyrir seinaganginum að finna?

Þú hefur séð megnið af því bréfi, umfjöllun Vantrúar um þetta mál byggir að mestu leyti á bréfinu. Ástæða þess að ekkert svar hefur borist frá Siðanefnd er að formaður nefndarinnar er staddur erlendis. Við höfum ekki fengið upplýsingar um það af hverju ekkert svar hefur borist frá Pétri Péturs.

Það er fróðlegt, að árás hefst þegar gagnrýni verður einföld,

Gerðu það fyrir mig, slepptu uppgerðarviðkvæmni. Síðasta athugasemd þín gekk einfaldlega út á að réttlæta þessa umfjöllun með vísan til þess að við í Vantrú værum ruddar.

Hún skautar fram hjá því að ég geri mér fulla grein fyrir að þá tveir deila geta tveir farið yfir strikið.

Þetta eru ekki deilur. Til að þetta væri deilur þyrfti BR að taka þátt. Þetta er ítarleg, heiðarleg og vönduð gagnrýni okkar á vinnubrögð BR.

Hefur það alveg farið framhjá þér að við erum að tala um kennslu í Háskóla Íslands?


Carlos - 09/03/10 08:33 #

Takk fyrir að vísa beint á glærurnar um frjálslyndu fjölskylduna, sem er pakki IV, ég hafði bara ekki fundið hann fyrr en nú. Hvar eru pakkar I og II? Hvað er þar að finna?

Gott að vita að við höfum séð megnið af bréfinu til guðfræðideildarinnar, en af hverju megum við ekki sjá "lítilræðið" sem útaf stendur?

Takk fyrir að ítreka að þið eigið í máli við Háskóla Íslands. Takk fyrir að minna á að gagnrýni ykkar er ítarleg og heiðarleg. Á móti lagar mig að benda á að til að svara ítarlegri, vandaðri og heiðarlegri gagnrýni tekur háskólakennari sér tíma til svara, lætur svardrög í hendur jafningja og jafnvel þeirra sem fjallað er um og birtir svo á ritrýndum vettvangi.

Slíkt svar, langar mig að benda á er byggt á öllum gögnum í málinu, glærum, úthendum, skrifuðum fyrirlestrum, gagnrýnisbréfum, öllu sem máli skiptir. Ekki bara sumu, sem annar aðilinn vill sýna og upplifir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/03/10 09:14 #

Carlos, það sem út af stendur hefur komið fram í athugasemdum okkar í greinunum. Þú ert ekki að missa af neinu (öðru en því sem fer ítrekað fram hjá þér þrátt fyrir síendurteknar ábendingar).

Ég veit ekki hvort ég á að þakka þér fyrir þá óra þína að halda að svar við erindi til deildarforseta þurfi að láta "í hendur jafningja og jafnvel þeirra er fjallað er um og birtir svo á ritrýndum vettvangi". Mér er ekki kunnugt um nauðsyn þessa farvegs.

Bjarna Randveri var í lófa lagið að setja sig í samband við okkur til að útskýra hvað honum gekk til. Það hefur hann ekki gert. Hann var beðinn að standa fyrir máli sínu á þessum vettvangi. Það hefur hann ekki gert. Hann hefði í það minnsta getað svarað beiðni okkar neitandi. Hann hefur ekki einu sinni haft fyrir því. Þetta er maðurinn sem gerir sig út fyrir að vera sérfræðingur í þvertrúarlegum samskiptum.

Deildarforseti hefði getað kallað okkur til fundar til að ræða málin. Það hefur hann ekki gert. Hann hefði getað reynt að koma á fundi til að leiða okkur og Bjarna Randver saman. Það hefur hann ekki gert. Þetta er maðurinn sem gerir sig út fyrir að vera sérfræðingur í praktískri guðfræði.

Út úr þessari æpandi þögn má lesa tvennt: A: Algjört skeytingarleysi. B: Algjört úrræðaleysi.

Siðanefnd hefur málið sem betur fer líka til skoðunar og í ljósi getuleysis guðfræðinganna bindum við auðvitað vonir við afgreiðslu hennar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/03/10 09:38 #

Takk fyrir að vísa beint á glærurnar um frjálslyndu fjölskylduna, sem er pakki IV, ég hafði bara ekki fundið hann fyrr en nú. Hvar eru pakkar I og II? Hvað er þar að finna?

Vísunin á pakka IV hefur verið í færslunni allan tímann. Ég sé reyndar nú að við hefðum átt að vísa á annan pakka frekar en þriðja þar sem umfjöllun um Helga Hóseasson og Níels Dungal er í honum. Okkar mistök. Það þarf ekki óprestmenntaða til að átta sig á síðustu slóðinni þannig að ég set inn vísun á fyrsta pakka líka: http://www.vantru.is/skrar/Frjalslynda_fjolskyldan_i.pdf

Í þriðja pakka er ágæt umfjöllun um Siðmennt en þó er þar ein afskaplega undarleg glæra sem BR hefur bætt við eftir hrun. Carlos getur kannski sagt okkur hvað veldur því að þeirri glæru hefur verið bætt í sarpinn.

Þá hefurðu allar glærurnar Carlos og getur dundað þér við að túlka þær á jákvæðan hátt fyrir BR. Eins og ég sagði áður, þá gefur þú þér væntanlega að BR hafi staðið fyrir framan nemendur og sagt þeim að efni glæranna gæfi ekki rétta mynd af Vantrú eða meðlimum félagsins!

Sendu BR beiðni og hann sendir þér þá örugglega.


Carlos - 09/03/10 10:19 #

"Siðanefnd hefur málið sem betur fer líka til skoðunar og í ljósi getuleysis guðfræðinganna bindum við auðvitað vonir við afgreiðslu hennar."

Ah, þannig að siðanefnd hefur málið? Þið kvörtuðuð eða kærðuð? Það er þá mál sem getur varðað áminningu eða starfssviptingu? Er það ástæðan fyrir því að við fáum ekki að sjá greinagerðina með bréfinu til Péturs Péturssonar? Þetta er þá ekki bara svona óformleg fyrirspurn eða kvörtun?

Tíðkast nú hin breiðu spjótin! Þá er ekki nema von að maðurinn vandi sig og segi ekkert hér. Hann hefur fræðilegan heiður að verja og hann verður aðeins varinn á vettvangi sem Háskólasamfélagið samþykkir. Sem er sem ég hef lýst, í ritrýndu verki sem er ekki bara hrist fram úr erminni.

Það er þá ekki skeytinga- eða úrræðaleysi heldur vandvirkni, nákvæmni og eðlilegur framgangsmáti stofnunarinnar sem veldur þögninni. Ég held að þið verðið að bíða enn um stund eftir því að svör komi.


Carlos - 09/03/10 10:27 #

Ég sé að ég hef ekkert í þennan slag við að bæta, æra manns er mér dýrmætari en svo að ég kasti til höndunum við að spjalla án ábyrgðar um hana. Auk þess sem ég hef ekki verið kallaður til verksins að verja eða sækja manninn.

Þetta er búið að vera skemmtilegt spjall, en ég get ekki tekið frekari þátt í því, því að ég þarf líka að verja eigin starfsheiður sem kennari og guðfræðingur. Ég skulda starfsfélögum meir en að kasta til höndunum þegar ég fjalla um verk þeirra.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/03/10 10:31 #

æra manns er mér dýrmætari en svo að ég kasti til höndunum við að spjalla án ábyrgðar um hana.

Svo við séum nákvæma, þá er það æra BR sem er þér dýrmæt. Æra meðlima Vantrúar er þér lítils virði eins og samræðurnar hafa sýnt.

Að sjálfsögðu lætur þú þig hverfa þegar þú hefur fengið allar glærurnar í hendur :-)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/03/10 10:33 #

Ah, þannig að siðanefnd hefur málið?

Carlos, ertu með athyglisbrest á svona háu stigi? Í greininni stendur:

Við brutum meira segja ísinn og sendum Bjarna Randveri bréf. Við höfum líka haft samband við rektor Háskóla Íslands, siðanefnd Háskóla Íslands og meira að segja dr. Pétur Pétursson, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, fékk bréf frá formanni Vantrúar þann 5. febrúar.

Sjá líka fyrri athugasemd Matta.

Breiðu spjótin fengum við berskjölduð beint í kviðinn í kennslustund í Háskóla Íslands. Að sjálfsögðu verjum við heiður okkar.


Carlos - 09/03/10 13:18 #

Mér þykir líka leitt að orð mín skiljist sem svo að ég vilji halla á Vantrú til að vernda BR. Það var ekki ætlun mín og skil ekki hvernig það er fengið út.

Ítreka að ég vil ekki dæma í máli sem ég hef engar forsendur til. Get ekki búið þær til nema með því að vinna illa og hroðvirknislega, en það er ekki boði.

Ef það er alger flótti, þá hafið þið sigrað. Njótið vel.


Carlos - 09/03/10 14:06 #

Vel á minnst, athyglisbrestur minn er að aukast með árunum. Ég tók nánast ekki eftir því fyrr en ég var búinn að senda og fara út í búð að Vantrúarpennar hafa enn ekki látið okkur hafa neitt nema fögur orð um greinagerð, svokallað "lítilræði" sem fylgdi bréfinu til Háskólans.

Er það lítilræði e.t.v. svo magnað að ekkert dugir nema útúrsnúningur og málþóf til að fela að það er ekki komið á vefinn enn? Er það kannski alls ekkert lítilræði?

Mig grunar að innihald þessa lítilræðis ráði því hve lengi tekur að svara. Grunar án þess að vita, því að ólíkt því sem Matti heldur fram, hef ég ekki allt efnið, ekki allar forsendur né löngun til að dæma í málinu. Hvorki með né móti, Vantrú eða Bjarna Randver.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/03/10 14:21 #

Varstu ekki farinn? Við gætum birt myndbandsupptöku af BR hrækja á ungabarn, þú myndir heimta ábyrgðaskírteini upptökuvélarinnar auk þess að kenna ungabarninu um.

Mér þykir líka leitt að orð mín skiljist sem svo að ég vilji halla á Vantrú til að vernda BR. Það var ekki ætlun mín og skil ekki hvernig það er fengið út.

Ég fæ það út með því að skoða athugasemdir þínar. Ég átta mig t.d. ekki enn á því hvernig á því stendur að þú getur ekki játað að tilvitnun í mig, þar sem ég ku furða mig á trúmönnum sem móðgast þegar þeir eru kallaðir hálfvitar, er afskaplega villandi og óheiðarleg. Sér í lagi þegar fram hefur komið að sú tilvitnun var ekki seitt í neitt fegrandi samhengi í fyrirlestrinum.

Þú skrifaðir í athugasemd hér fyrir ofan:

Ég þekki Vantrúarpenna aftur af glærunum sem ég sá. Einstaka glæra sýnist mér gagnrýni verð og þurfa endurskoðun. Mér finnst vinnubrögðum BR til hróss, að hvergi felur hann samhengi hlutanna, alltaf er hægt að rekja sig til baka til textanna og samhengisins þar sem orðin féllu og því er gagnrýni möguleg. (feitletrun mín - Matti Á.)

Gagnrýni er möguleg vegna þess að við í Vantrú eyddum miklum tíma í að rekja tilvitnanir BR í okkur. Við getum gagnrýnt vegna þess að við lásum upprunalega textann í réttu samhengi, ólíkt BR þegar hann kynnti textann fyrir nemendum sínum. Lesendur Vantrúar sjá þetta í réttu samhengi, nemendur BR sáu áróður, dyljgur og ósannindi.

-

Ef þú hefur heimildir fyrir því að eitthvað merkilegt komi fram í greinargerð Vantrúar, sem ekki hefur komið fram í þessum færslum, máttu endilega fræða okkur um það.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/03/10 15:07 #

Hvað þarf að mata þetta ofan í þig oft, Carlos:

Carlos, það sem út af stendur hefur komið fram í athugasemdum okkar í greinunum. Þú ert ekki að missa af neinu (öðru en því sem fer ítrekað fram hjá þér þrátt fyrir síendurteknar ábendingar).

Ég get glatt lesendur með því að svar hefur loksins borist frá hæstvirtum forseta Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands.

Hugmyndir Carlosar um ítarlegt svar í ritrýndu verki reyndust órar einir en á morgun kemur afrakstur mánaðarlegu prófessorsins á forsíðu hér, "vandvirkni" hans og "nákvæmni" í öllu sínu veldi.

Við veitum þá aðgang um leið að athugasemdum þeim sem fylgdu með glærunum svo öllu sé til haga haldið.


Carlos - 10/03/10 08:01 #

Gott að vita að svör eru á leiðinni, ásamt greinagerðinni, Reynir. Sjáum til með hugarórana ...

Athyglisvert, að þú hafir upptökur af BR hrækja á barn, Matti. Fyndið að þú skulir nefna það, en þar sem ég kenni m.a. stafræna myndvinnslu, myndi ég að sjálfsögðu heimta EXIF upplýsingar og digitalska orginala... eða trúir þú e.t.v. að þessi mynd sé sönn?

http://www.flickr.com/photos/george_eastman_house/2720790706/

Hélt ekki ;)


Carlos - 10/03/10 08:02 #

Úps, ég átti víst að vera farinn, eða svo segir Matti. Sjáumst þá þegar fleiri gögn eru á forsíðunni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/03/10 08:18 #

Ég get falsað hvaða exif upplýsingar sem er auk þess að ég talaði um myndbandsupptöku en ekki ljósmynd. En af hverju þarftu að taka þessu líkingu bókstaflega? Gerir þú þér far um að túlka allt sem ég/við segjum á versta mögulega veg?

Nei, ég sagði ekki að þú ættir að vera farinn, þú sagðist vera farinn. Ég spurði.

Er þessi aðferð sem þú notar í samræðum við okkur kennd í guðfræðinni? Ah, alveg rétt :-)


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/03/10 09:55 #

Matti. Það vantar allan húmor í þig, þetta er bara brandari. Djók, skilurru. Allir guðfræðingar eru að undirbúa sig fyrir uppistandið í apríl. Svo ég held að Carlos sé að sprella.


Carlos - 10/03/10 16:21 #

Gaman að þessu, hvað þarf lítið og saklaust til að fá menn upp á háa C. Ég sem hélt að blikkandi broskallinn hefði verið nægur túlkunarlykill, til að vega upp á móti ólundarfærslunni á undan.

Dragið djúpt andann og höldum svo til næstu atrennu með bros á vör og léttri lund.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/03/10 16:51 #

Það er nú ekki skrítið að það komi smá ólund í fólk þegar það þarf í sífellu að vera endurtaka og endurendurtaka það sem þegar hefur verið sagt.

Gott að þú hafir svona gaman af þessu og léttir þér lund og geð.

Og hver segir svo að við gerum ekki neitt fyrir neinn? Æ, já, alveg rétt. ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.