Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

XI . Guðfræði í HÍ: Síðustu glærurnar

Í dag verður farið yfir síðustu glærurnar í glærusýningunni um Vantrú. Þetta byrjar á glæru sem við birtum í byrjun umfjöllunarinnar.

Ef marka má þessa glæru þá hljóta þetta að vera niðurstöðurnar um málflutning og hegðun Vantrúar. Farið verður í gegnum þessar niðurstöður lið fyrir lið, og sem snemmbúna páskagjöf, látum við fljóta með nokkur valin orð í litlum stöfum fyrir neðan hverja millifyrirsögn.

Vonda fólkið

"...smána hvaðeina sem er öðrum heilagt"

Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum.

Þessi kennsla virðist að nær öllu leyti til þess fallin að vara verðandi guðfræðinga við mönnum sem eru að eyðileggja samfélagið með því að rjúfa friðinn í landinu og brjóta niður allsherjarreglu með því að brúka kjaft. Látið er líta út fyrir að Vantrúarseggir séu eingöngu orðljótt ofstopafólk sem vinnur gegn mannréttindum annarra og sé að öllum líkindum gyðingahatarar. Eða hvað? Til hliðsjónar má skoða greinina 11 klisjur um Vantrú sem birtist um jólin í fyrra.

"...umbera ekki trúartjáningu á opinberum vettvangi"

Kennum börnunum bænir! ætti að vera heróp og hvatning kirkjunnar. Og í því skyni ættum við að kalla til samstarfs foreldra og uppalendur, dagmæður, leikskóla og grunnskóla.

Trúartjáning er stöðugt í gangi út um allt samfélag og ekki erum við að amast yfir því. Við lítum þó svo á að ákveðin svæði eigi að vera friðhelg gagnvart trúaráróðri og fara opinberir skólar þar fremstir í flokki. Þetta álit okkar hefur verið rökstutt aftur og aftur hér í vefritinu, sem og í blaðagreinum og viðtölum við fjölmiðla. Kirkja hinnar þvertrúarlegu samræðu, með áherslu á skilning og umburðarlyndi, hefur aldrei sýnt okkur þann sóma að vilja ræða þetta tiltekna málefni við okkur. Við fáum í staðinn dylgjur og rangfærslur úr launsátri.

"...skerða málfrelsi trúaðra"

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Við köllum stöðugt eftir rökræðu, höfum opið fyrir athugasemdir á vefriti okkar og erum boðin og búin að efna til samskipta við alla og hvern sem er um þetta hugðarefni okkar sem trúmál eru. Kirkjan þykist kalla eftir samræðu en beitir okkur þöggun, ritskoðar eða lokar fyrir athugasemdir á vefsíðum sínum og úthrópar okkur sem öfgafólk, ofstækismenn og ofbeldisfulla brjálæðinga í því skyni að reyna að gera málflutning okkar tortryggilegan. Og svo erum það við sem skerðum málfrelsi annarra?

"...andmæla almennum mannréttindum á borð við að foreldrar veiti börnum sínum trúarlegt uppeldi og börn fái að tjá sig um trúarefni í skólum."

Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.

Hvergi höfum við andmælt þessu, foreldrar mega alveg veita börnum sínum trúarlegt uppeldi. Við andmælum trúboði í opinberum skólum, okkur finnst forkastanlegt að koma foreldrum í einhverja undarlega klípu þegar kemur að trú, uppeldi og skólamálum barna sinna. Rauði þráðurinn í okkar málflutningi er náttúrulega almenn mannréttindi.

"...leggja í einelti m.a. með uppnefnum þá sem hafa önnur viðhorf."

Níðið er ykkar eina innlegg í samfélagið. Ekert [sic] gott látið þið af ykkur leiða, engum hjálpið þið, engann huggið þið á erfiðum tímum

Við þessa staðhæfingu er hægt að skoða afar vandaða glæru sem telur upp ýmis gífuryrði og bölsótanir. Þetta er fyndin upptalning sem sýnir nær eingöngu að sumir meðlimir Vantrúar eru með frumlegan orðaforða.

Það sem vantar inn í hann hins vegar eru upplýsingar við hverju þessi gífuryrði eru óbeint andsvar við. Við erum kölluð siðlaus og níðingar og hvað eina. Við köllum hlutina sínum réttu nöfnum. Er virkilega hægt að tala um andlegt ofbeldi í tengslum við orðræðu ýmsra vantrúarmanna? Eða er þetta ekki bara óttalegur tepruskapur?

"...fordæma minnihlutahópa á borð við gyðinga"

Staðreyndin er sú að ekki er hægt að skjóta stoðum undir siðgæðisviðmið líkt og kærleika og umburðarlyndi á forsendum guðleysis.

Við fordæmum svona ósanngirni og furðum okkur á hvað mönnum gengur til með svona grímulausum lygum. Menn ættu, áður en þeir fara að saka okkur um gyðingahatur, að byrja á að fletta upp í sálmum Hallgríms til að komast að raun um hvaða stofnun það er í samfélaginu sem duglegust er við að halda gyðingaandúð á lofti. Hvergi á vefriti okkar hefur sést neitt sem flokka má undir gyðingahatur, eða hatur yfirleitt.

"...ástunda guðleysistrúboð í neikvæðri merkingu þess orðs"

Guðfræðideildin er hluti þjóðkirkjunnar og hlýtur að starfa fyrir og í nánum tengslum við presta og söfnuði landsins, kirkjuna

Það má vera að félagið hafi komið með offorsi inní hindurvitnaumræðuna með digurbarkalegum málflutningi en það var ekki vanþörf á. Gegndarlaust bull hafði fengið að flæða um fjölmiðla hér áður fyrr og gerir enn. Síðan eru liðin sjö ár og við erum ekkert dónalegasta fólkið sem fyrirfinnst í þessu samfélagi.

Þau sjö ár sem félagið hefur verið starfandi hefur það gert eftirfarandi: skrifað greinar, svarað greinum, sent bréf, haldið fyrirlestra að ósk ýmissa framhaldsskóla, birt rúmlega 20 greinar í vinsælum prentmiðlum, haldið ólögleg bingó undanfarin þrjú ár, verið með bás á þungarokkstónleikum og aðstoðað fólk við að leiðrétta trúfélagsskráningu sína við ýmis hátíðleg tækifæri (17. júní, Gay Pride o.fl.).

Við höfum ekki: Gengið í hús og boðað trúleysi, samið kennsluefni um trúleysi fyrir grunnskóla, vígt vantrúboða til starfa í skólum eða haft nær óheftan aðgang að opinberum fjölmiðlum og stofnunum í um 100 ár til að boða trúleysi. Við erum hvorki með sérstakt barnastarf, né blöndum við boðskap okkar inn í stundaskrár þrettán ára barna, eins og kirkjan gerir með fermingarfræðslu sinni. Í stuttu máli: við erum ekki trúboðar.

Það er síðan áhugaverð vangavelta hvað er að "ástunda guðleysistrúboð í neikvæðri merkingu þess orðs", hvernig í ósköpunum er neikvæð merking guðleysistrúboðs? Er líka til neikvæð merking trúboðs? Og af hverju er mörgum svona mjög í mun að sýna fram á trúboð Vantrúar þegar við gagnrýnum trú og önnur hindurvitni og starfsemi tengt því? Kannski að "trúarrýni" sé meira viðeigandi. Trúarrýnendurnir á Vantrú.

Menntaskólakennarinn

Haldið ykkur fast: Þessi niðurstaða glærusýningarinnar uppi í Háskóla Íslands er, til að kóróna allt, skreytt afskaplega undarlegum vinkli. Þegar hinn hluti glærunnar er skoðaður þá er kynntur til sögunnar einhver "framhaldsskólakennari", einhver maður sem "tekur þátt í umræðum hjá Vantrú en óvíst er að hann teljist félagi".

Við vitum ekkert hver þetta er. Álykta mætti útfrá þessari glæru að hér væri verið að sýna fram á að Vantrú sé að "fordæma minnihlutahópa á borð við [...]" múslíma með því að klína á okkur þessum framhaldsskólakennara. Síðurnar hjá okkur eru öllum opnar og við berum enga ábyrgð á því hvað þeir sem tjá sig á þessum vettvangi skrifa á heimasíður sínar. Þetta er bara útí hött.

Rót alls ills?

Aftur er rætt um Dawkins, enda virðast íslenskir trúmenn telja að hann sé einhvers konar æðsti prestur okkar:

Vandinn við Root of all Evil?

Vandinn við kvikmyndina Root of all Evil?

Vandinn við kvikmyndina Root of all Evil?

Við nennum ekki að velta vöngum yfir þessum hugleiðingum og spurningum fræðimannsins. Root of all Evil? er ágætis heimildarmynd og gefur ágætis innsýn inní trúarbragðaflóruna. Eflaust finnst kirkjunnar fólki hún vera vitlaus og hræðileg.

Niðurstaða kúrsins í nokkrum orðum

Vonda og ljóta fólkið!

Þetta er síðasta glæran. Við ljúkum þessu síðar í dag með því að draga saman aðalatriðin, gefa aðgang að glærupökkunum og segja aðeins frá því sem er í gangi.

Ritstjórn 04.03.2010
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 13:13 #

Vandinn við glæruröðina Vantrú

Um hvers konar kynningu er að ræða?

-Heimildarýni eða áróður?

-Hver er tilgangurinn með glærunum?

-Út frá hvaða forsendum er gengið?

-Hvernig hefur Bjarni Randver undirbúið sig?

-Bera glærurnar vott um að Bjarni Randver hafi kynnt sér framlag Vantrúar, svo sem á sviði lagasetningar, skólahalds, stefnumörkunar stjórnmálaflokka og almennrar umræðu um trúmál í þjóðfélaginu?

-Í hverja er vitnað í glærunum og hvernig?

-Njóta þeir sem vitnað er í sannmælis?


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 14:33 #

Þetta með þennan framhaldsskólakennara er ótrúlegt í orðsins fyllstu merkingu. Það er svakalega erfitt að trúa því að Bjarni sé að grafa upp einhvern skít út í bæ og reyna að klína honum á Vantrú með einhverjum krókaleiðum. En þarna er það svart á hvítu.

Hvað gengur manninum til? Er þetta bara svona svakalega mikil andúð sem hann ber til okkar?


Þröstur Hrafnkelsson - 04/03/10 14:46 #

Ég bíð enn eftir viðbrögðum frá HÍ og/eða Bjarna Randver. Hvaða kennari getur ekki varið eða svarað fyrir kennslu sína þegar hún er gagnrýnd?


Andrea - 04/03/10 14:57 #

Ástæðanf yrir að Bjarni Randver hefur ekkert svarað fyrir sig er einföld - hann einfaldlega hefur ekkert sér til málsbóta. Ef honum þætti þetta kennsluefni virkilega málefnalegt og laust við allt siðleysi hefði hann mætt á fundinn í HÍ og sagt eitthvað sér til málsbóta. Það að hann gerði það ekki segir meira en nokkur orð.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 15:36 #

Megin vandinn við herskáan málflutning Dawkins og fylgismanna hans gegn þeim trúarbrögðum [...]

Allt í einu skilur maður betur þessa óskaplegu þörf Bjarna, sem fram kom í fyrri glærum, að gera nokkra af stofnmeðlimum Vantrúar að sérlegum fylgismönnum Dawkins.


Friðrik Tryggvason - 04/03/10 19:54 #

Hafið þið sýnt rektor þetta?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 20:12 #

Já, Friðrik. Eins og sjá má í næstu grein.


Arnaldur - 04/03/10 23:51 #

jæja ef thetta eru vinnubrøgdin hjå HI thå geta their gleymt thvi ad komast å top 100 lista yfir bestu håskola i heimi (ekki ad thad hafi verid miklar likur å thvi fyrir, reyndar bara oraunhæft bladur)....

...HI hrapar nidur nokkur hundrud sæti vid thetta rugl.

Thessi fyrirlestur hans Bjarna er til håborinnar skammer HI og thad ætti umsvifalaust ad svifta thennan mann kennslustødu sinni med skømm!!

Thakka ykkur i vantru fyrir ad vera målsvari skynseminnar, thid heyrid thad ekki nogu oft!


Sigurður Karl Lúðvíksson - 12/05/11 20:08 #

Ég er þessi framhaldsskólakennari. Ég er fyrst að sjá þetta núna, athyglisvert :)

Skrítið að hann segir að múslimafélag Íslands hafi haft samband við morgunblaðið, væri gaman að vita hvar hann hefur fengið þær upplýsingar, ekki heyrði ég neitt frá morgunblaðinu. Einnig segir hann að þeir hafi haft samband við framhaldsskólann, það barst aldrei til mín.

Annars var þessi grein ætluð til gera heiðarlega tilraun til að fá á mig Fatwa, það tókst ekki, ég er enn á lífi :)


Einar - 22/12/11 15:17 #

Þessar rangfærslur og þvæla er þetta virkilega kennsluefni á háskólastigi? - Kennari lætur gamminn geysa um andúð sína á Vantrú.. og þetta er til PRÓFS!?! - Hvað er í gangi?

Ég held að það sé kominn tími til að aðskilja prestaskólann frá HÍ.


Rökkvi Vésteinsson - 16/01/12 15:41 #

Hvaðan koma athugasemdirnar í smáa letrinu undir athugasemdum Bjarna Randvers eins og "Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum."??


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/01/12 15:46 #

Frá hinum siðaða og kurteisa Karli Sigurbjörnssyni, biskup. Þessi orð skópu Vantrú.

Svo er þetta m.a. frá Þórhalli Heimissyni, öðrum guðfræðingum og úr lögum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.