Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

V. Guðfræði í HÍ : Vantrú kynnt til sögunnar

Undanfarna daga höfum við fjallað um námskeiðið Nýtrúarhreyfingar sem kennt er við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Við sögðum frá því hvernig Bjarna Randveri finnst að fjalla eigi um trúfélög. Því næst sýndum við umfjöllun Bjarna um Níels Dungal og Helga Hóseasson. Í gær birtum við niðurstöðu Bjarna.

Í dag hefjum við yfirferð okkar um umfjöllun Bjarna Randvers um Vantrú. Til að gæta sanngirni munum við birta allar glærurnar í réttri röð. Vert er að taka fram að við gerum ekki athugasemdir við allar glærurnar, stundum gerum við athugasemdir við atriði sem okkur þykja ekki alvarleg en í sumum tilvikum blöskrar okkur efnið, efnisval og efnistök. Í þessum fyrsta hluta er ekkert alvarlegt á ferð, það kemur seinna.

Um Vantrú

Kynning á Vantrú

Bjarni Randver byrjar á því að kynna lesendum félagið Vantrú. Það er rétt að vefurinn var opnaður árið 2003 og ekki er fjarri lagi að tala um að "helstu upphafsmennirnir" hafi kynnst innan raða SAMT hjá Siðmennt. Réttara er þó að stofnendur Vantrúar kynntust á netinu, á spjallborðum og bloggsíðum. Flestir voru í SAMT þegar Vantrú var stofnað. Bjarni Randver vísar á persónulegar bloggsíður tveggja félagsmanna sem gæti virkað undarlegt þar sem félagið Vantrú er til umfjöllunar en við gerum ekki athugasemd við það að sinni, athygli Bjarna hlýtur að beinast að félaginu Vantrú á næstu glærum.

Félagið var stofnað árið 2004 og lög félagsins eru síbreytileg, á hverjum aðalfundi koma fram breytingatillögur og þetta er því lifandi skjal. Við gerum ekki athugasemdir við það sem Bjarni vísar á í lögunum en okkur þætti eðlilegt að taka lagagreinar í heild sinni, þannig er þriðja grein (4. á glærunni) svona í dag:

Tilganginum hyggst félagið m.a. ná með því að stuðla að gagnrýninni umræðu um trúmál og halda úti vefsíðu sem fjallar um trúmál, trúleysi og efahyggju. Félagið skal einnig vinna að tilgangi sínum með öðrum hætti s.s. útgáfustarfsemi eða fyrirlestrahaldi eða aðild að fyrirlestrum sem varða markmið þess.

Misskilnings gætir í síðasta punkti glærunnar þegar Bjarni Randver heldur því fram að Vantrú hafi stært sig af því að hafa hjálpað ákveðnum fjölda að skrá sig úr Þjóðkirkjunni. Hið rétta er að Vantrú hefur aðstoðað fólk við að leiðrétta trúfélagsskráningu, algjörlega óháð því hvort fólk er skráð í Þjóðkirkjuna, annað trúfélag eða ekkert. Það vill bara þannig til að flestir Íslendingar eru skráðir í ríkiskirkjuna og voru skráðir þar við fæðingu. Þess má geta að í dag hefur Vantrú aðstoðað 1154 við að leiðrétta trúfélagsskráningu. Þetta er eitt helsta verkefni Vantrúar en ef eitthvað er að marka glærurnar fjallar Bjarni Randver ekkert frekar um það í fyrirlestri sínum.

Góðkunningjar kirkjunnar

Önnur glæra í fyrirlestri Bjarna sýnir þennan fríða hóp meðlima í Vantrú.

The Ususal Suspects

Eins og lesa má í textanum þá birtir hann bara myndir af þeim sem hann telur vera virkustu meðlimina. Nokkrir af þessum einstaklingum eru teknir sérstaklega fyrir síðar í kúrsinum.

Það er ýkjur að halda því fram að allir þessir liðsmenn hafi fengið mikinn fjölda blaðagreina birtan í fjölmiðlum, meðlimir Vantrúar hafa verið misjafnlega duglegir við greinaskrif og sumir sem þarna er vísað til hafa einungis fengið eina eða tvær greinar birtar í dagblöðum frá því félagið var stofnað.

Að afla sér upplýsinga

Innblástur

Því verður ekki neitað að meðlimir Vantrúar hafa fengið innblástur frá ýmsum aðilum og vissulega þekkjum við til þeirra sem Bjarni Randver telur hér upp. Það er þó fróðlegt að sjá Richard Dawkins efstan á blaði því Dawkins var alls ekki áberandi á Vantrú fyrstu árin.

Kannski er honum og öðrum rótt að þykjast vita að Vantrú eigi einhverja eina fyrirmynd og að rót alls þess sem er ritað hér og sagt sé skrif eins manns. Það er bara ekki svo. Að vísu, ef það á að "kenna" einhverjum einum einstaklingi um tilvist Vantrúar, þá er það náttúrulega hinn eini og sanni Karl Sigurbjörnsson, biskup. En varla er hægt að telja hann vera einhvern andlegan leiðtoga okkar, þó hann sé endalaus uppspretta af misgáfulegum biblíuperlum, þessi flöktandi viti heimskulegra hugmynda. Það er eflaust hægt að finna meira um núverandi biskup ríkiskirkjunnar á Vantrú en allt sem skrifað hefur verið um Richard Dawkins á vefriti Vantrúar og á bloggum sumra meðlima samanlagt.

Við vitum ekki hvers vegna vísað er á síðuna nobeliefs.com, það getur vel verið að við höfum einhvern tímann notað eitthvað efni þaðan.

Dan Barker

Dan Barker

Það er einkennilegur lokapunktur Bjarna Randvers á glærunni um Barker:

„Tapaði dómsmáli fyrir hæstarétti Bandaríkjanna 2007.“

Er það eitthvað meginatriði? Segir það eitthvað um málstað Dans eða má vera að þessu sé varpað fram til þess eins að varpa rýrð á Dan Barker? En hvaða dómsmál er þetta? Þetta dómsmál var höfðað af Freedom from Religion stofnunni sem Barker er í forsvari fyrir og varðaði opinbera ríkisstyrki til trúfélaga og trúarhreyfinga. FFR töldu að þessir styrkir frá ríkinu brytu í bága við stjórnaskrána þar sem kveðið er um aðskilnað ríkis og kirkju. Hægt er að lesa nánar um þetta mál hér, hér og hér.

Fjórir spekingar spjalla

Glæra fimm er umslag mynddisks með samræðum Richard Dawkins, Daniels C. Dennetts, Sam Harris og Christopher Hitchens.

Richard Dawkins

Bjarni á skilið hrós fyrir að kynna nemendum sínum þetta merkilega samtal milli þessara málsmetandi trúleysingja. Vonandi hafa nemendur hans horft á þessar samræður og haft gagn og gaman að.

Á næstu glærum byrja síðan tilvitnanir í skrif meðlima Vantrúar og þá hefst fjörið.

Ritstjórn 19.02.2010
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Jón Frímann - 19/02/10 13:29 #

Afhverju er þessi maður í vinnu hjá HÍ ?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/02/10 13:37 #

Jón, ég held að hann sé alveg ágætur kennari, hann þarf bara að passa sig á því að vera fræðilegur þegar hann fjallar um hópa sem honum líkar ekki við.


Haukur - 19/02/10 15:02 #

"Matti tók myndina af honum þar og setti hana inn á Wikipediu."

Haha, en skrýtinn hlutur til að gera sér mat úr. Svo var það strangt til tekið ég sem setti hana á Wikipediu þótt Matti eigi vissulega allan heiðurinn af henni og leyfði almenna notkun á henni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/10 16:05 #

Já, þetta er ekki beinlínis stórmál en það er ágætt að halda því til haga að ég setti myndina ekki inn á wikipedia heldur gaf leyfi til þess að hún væri notuð þar. Kannski var Bjarni einfaldlega að fara eftir notkunarskilmálum með lúmskum hætti því samkvæmt þeim þarf hann að geta höfundar og dreifa myndinni með sömu skilmálum, sem um leið gerir það að verkum að glærurnar hljóta að vera með sama cc leyfi.


Sveinn - 19/02/10 17:18 #

Ef það er cc-leyfi á glærunum, þurfiði þá að biðja hann um leyfi til að birta þær í heild sinni?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/10 17:24 #

Við báðum Bjarna um leyfi en höfum enn ekkert svar fengið. Ég er bara að segja að til að uppfylla skilyrði til að nota ljósmynd mína þurfa glærurnar að hafa sama leyfi og því þurfum við í raun ekki að biðja um leyfi - sem hentar okkur ágætlega. Öllum er semsagt heimilt að taka skjámyndir okkar af glærum Bjarna og nota með sömu skilyrðum. En þetta er nú útúrdúr, hvernig finnst ykkur myndasyrpan af meðlimum Vantrúar? Minnir hún á eitthvað?


Arnaldur - 19/02/10 17:46 #

Skritid afhverju hann er ad birta myndir af ykkur i thessum fyrirlestri. Er thad til thess ad thad se hægt ad gryta ykkur uti å gøtum, eda? ....frekar undarlegt. Skil ekki alveg afhverju hann tharf ad personugera vantru.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/10 17:54 #

Það kemur í ljós þegar við höldum áfram að fjalla um fyrirlestur Bjarna Randvers af hverju hann kýs að persónugera Vantrú. Fylgist með í næstu viku :-)


Sveinn - 19/02/10 18:09 #

Næstu viku :(


Björn Ómarsson - 19/02/10 18:19 #

hvernig finnst ykkur myndasyrpan af meðlimum Vantrúar? Minnir hún á eitthvað?

Hann hefur greinilega húmor, kallinn. Ég tók samt ekki eftir þessu fyrr en þú bentir á það. Væri einhver til í að gefa nafnalista svo ég viti hver er hvaða lærisveinn ;)


Bjarki - 19/02/10 18:20 #

Rosaleg „mugshot“ sería af hinum voðalegu Vantrúarmönnum. Ég myndi trúa þessu gengi til þess að brjóta á mér hnéskeljarnar ef ég meðtek ekki boðskapinn! :)


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 19/02/10 19:26 #

Þetta er svipuð framsetning og var á Bader Meinhof myndunum í gamladaga.

Svona myndmál er þekkt úr sögunni. Ekkert verið að velja glaðlegustu myndirnar af viðkomandi fólki(nema Óli Gneisti), heldur þvert á móti. Það hentar betur málflutningnum. Annars væri gaman að heyra Guðmund Odd Magnússon (Goddur) professor við LHÍ halda fyrirlestur um þessa framsetningu. Annars má ekki lesa of mikið í svona myndir. Þetta er aðalega soldið skondið :)


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 19/02/10 20:30 #

Ekkert verið að velja glaðlegustu myndirnar af viðkomandi fólki(nema Óli Gneisti), heldur þvert á móti. Það hentar betur málflutningnum. Annars væri gaman að heyra Guðmund Odd Magnússon (Goddur) professor við LHÍ halda fyrirlestur um þessa framsetningu. Annars má ekki lesa of mikið í svona myndir. Þetta er aðalega soldið skondið :)

Þessar myndir voru sumar lengi í notkun á netinu hjá meðlimum, svo þær eru sumar mjög eðlilegt val myndi ég segja. T.d. var Matti með þessa mynd af sér lengi vel og bloggaði sérstaklega um að hafa loks látið verða af því að skipta henni út - einmitt af því hann var svo fýldur að sjá (minnir mig) ;)


Arnold Björnsson (meðlimur í Vantrú) - 19/02/10 21:32 #

Já, enda reikna ég með að Bjarni Randver hafi valið þær af handa hófi. Mér finnst engu að síður þessi myndbirting Bjarna athyglisverð. Soldið eins og ég verið að sýna helstu ofstækismennina. En eins og ég sagði það er vafa samt að lesa of mikið í þetta.


Arnold - 19/02/10 21:36 #

Annars skýrist þetta á næstu dögum og þá um leið afhverju ég dreg þessa ályktun. Sú mynd sem hann dregur upp af þeim sem komast í þennan hóp er ansi skæld og fjarri því að vera sanngjörn. En ég hef séð meira en komið hefur fram til þessa. Þetta kemur í ljós.


Örninn - 20/02/10 10:19 #

Sælir

Kannski hefur það farið framhjá mér en hefur verið rætt við fólk sem situr þennan áfanga hjá Bjarna? Hvað finnst þeim þá um þetta? Verður birt eitthvað slíkt viðtal sem dæmi?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/02/10 10:23 #

Við fengum glærurnar frá einstakling sem var í þessum áfanga og höfum rætt við annan. Það er ágæt hugmynd að taka viðtal. Best væri að fá viðtal við Bjarna Randver sjálfan.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/02/10 10:37 #

Þessar myndir voru sumar lengi í notkun á netinu hjá meðlimum, svo þær eru sumar mjög eðlilegt val myndi ég segja. T.d. var Matti með þessa mynd af sér lengi vel og bloggaði sérstaklega um að hafa loks látið verða af því að skipta henni út - einmitt af því hann var svo fýldur að sjá (minnir mig) ;)

Það var reyndar önnur mynd. Myndin sem Bjarni notar var send til Fréttablaðsins með grein og var notuð af Fréttablaðinu í hvert skipti sem minnst var á mig, mér til dálitlar mæðu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/02/10 11:48 #

Besta að impra á því að "[í] þessum fyrsta hluta er ekkert alvarlegt á ferð, það kemur seinna".

Ég tek eftir því að gamla lógó Vantrúar er efst á þessari glæru. Þegar glæran er uppfærð, 4. janúar 2009, voru liðin a.m.k. tvö ár síðan þetta lógó var fjarlægt af síðunni. Reyndar var þetta á moggabloggsíðu Vantrúar þar til fyrir nokkrum mánuðum og var væntanlega tekið þar, mér sýnist þetta vera iconið sem kom þegar kommentað var með notanda Vantrúar á moggalboggi. Eini staðurinn þar sem myndin er i dag held ég að sé á biblia.is

Ekki stórmál frekar en annað á þessum glærum - en dálítið forvitnilegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/02/10 13:46 #

Það er ýkjur að halda því fram að allir þessir liðsmenn hafi fengið mikinn fjölda blaðagreina birtan í fjölmiðlum, meðlimir Vantrúar hafa verið misjafnlega duglegir við greinaskrif og sumir sem þarna er vísað til hafa einungis fengið eina eða tvær greinar birtar í dagblöðum frá því félagið var stofnað.

Svona ykkur til fróðleiks, þá skrifaði ég þrjár greinar í Morgunblaðið árið 2002, áður en þetta vefrit fór í loftið. Árið 2004 svaraði ég einni kjallaragrein Davíðs Þórs Jónssonar í DV, en síðan hef ég ekkert birt eftir mig í blöðum, að ég muni.

En fyrsta greinin sem birtist eftir mig á Vantrú (og um leið fyrsta greinin sem birtist hér) var grein sem Mogginn vildi ekki birta. Áður hafði Sigurður Hólm hjá Siðmennt verið útilokaður frá tveimur dagblöðum þegar hann ætlaði að svara ótrúlegum ummælum biskups.

Það má því segja að biskup sé uppspretta þess að Vantrú varð til, en þó ekki síst sökum þess hvað okkur sem ætluðum að svara honum var gert erfitt um vik að fá aðgang að fjölmiðlum til þess.

Sigurði Hólm var boðin þátttaka í að koma þessu vefriti á fót, en hann afþakkaði.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/02/10 14:41 #

Ég hef sent tvær greinar í Fréttablaðið, önnur var birt en hin endaði á vefnum. Það er nú allt.


Sveinn - 20/02/10 20:26 #

Ég ætla helst ekki að stela þræðinum, en...

Ég var í VR2 í HÍ í dag og rakst þar á plaggat sem auglýsti einhvern umræðufund. Ég veit ekki hvort þetta tengist félaginu, en hún hljóðar svona:

VANTRÚ Í GUÐFRÆÐI OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐIDEILD

Kynning og umræðufundur! Spurningar og svör?

Staður og stund: Aðalbygging H.Í. Stofa 229 Mánudaginn 22. febrúar 2010 Frá kl. 11:40 til 13:00

Allt áhugafólk um eilífðarmálin velkomið

Þessu fylgdi svo mynd af "sköpun Adams" eftir Michelangelo, nema hvað búið var að setja heila í stað gvuðs.

Eins og ég segi veit ég ekkert hvort þetta tengist félaginu Vantrú eða hvað, mig langaði bara að láta ykkur vita.


Sigurður - 21/02/10 09:28 #

Sveinn, sjá hér.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 21/02/10 09:39 #

Vá, það er magnað að sjá mynd af sjálfum sér á glæru úr fyrirlestri í Háskólanum! Ég er aðeins í vafa um hvernig eigi að túlka myndbirtinguna, einkum vegna þess að Jössi sjálfur er með. En helst dettur mér í hug eitthvað af þessu:

1) Við erum þjófarnir, krossfestir með Jesú. Vondir í jarðlífi, en höfum séns á frelsun. Þeir sem hanga Jesú til hægri handar munu vera með honum í himnaríki, hinir fara til helvítis.

2) Við erum lærisveinarnir, þeir sem ekki nenntu að verja trúna og sviku málstaðinn. En gátum blaðrað úr okkur allt vit af minnsta tilefni.

3) Öll serían er "The Usual Suspect", þeir sem berjast gegn hinni réttu trú. Jesú er með okkur í liði. Við hinir erum "Seven" (tvær myndir sem ég held mikið upp á!)

4) Myndaröðin sýnir dæmigerðan áttfaldan nornakabal, oktoad, við erum særingamennirnir sem kirkjan ætti helst að brenna svo sálir okkar hljóti frelsun.

5) Ef platónskri talnafimi er beitt á upphafsstafi okkar í þeirri röð sem þeir birtast fæst 666^2


Carlos - 21/02/10 16:29 #

Það er alltaf merkilegt að sjá sig í verkum annarra. Gamla lógóið á glærunni, átta litlar passamynir í snyrtilegri röð. Ummæli um að maður hafi fengið "margar greinar birtar".

Ég held að Vantrú "líði" núna fyrir það hve vel ykkur hefur tekist að koma máli sínu fyrir almenningssjónir. Nú eru þið viðfangsefnið, ekki málstaðurinn sem þið berjist fyrir, annað en umræðurnar hér á vefnum.

Um glærurnar má ýmislegt segja. Ég myndi ekki láta svona glærur frá mér ... myndi ekki gefa háa einkunn fyrir þæref nemandi skilaði svona glærum í kúrsi hjá mér.

Ég myndi nota myndirnar af meðlimunum í eina "collage" glæru ásamt nöfnum, bara til að gera eitthvað með prýðilegt myndefni. Ég myndi alls ekki henda gamla lógóinu, en hafa hitt líka. Gamli draugsi er nefnilega dálítið flottur. Ég hefði minna af texta og meira af myndum, líka skjáskotum af vefnum með umræðum o.s.frv. Punktana sem eru á glærunum myndi ég hafa á efnisvef og laga eftir því sem við á.

En ég myndi, sem viðfangsefni þessara fyrirlestra, ekki fara í einhverskonar sjálfspyntingar eða "píslarvottaham", eins og mér sýnist BÞ gera (í gríni?), heldur njóta þess að fá möguleika á að skoða mig með augum annarra.

Vera má að eitthvað sé hægt að læra á þessu. Vera má að félaginu sé boðið til samtals sem skilur eitthvað eftir sig, annað en vont bragð í munni.


Carlos - 21/02/10 16:43 #

Varðandi lið 5 hjá BÞ ... frábærlega fyndið ef satt er!


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/02/10 01:05 #

Takk fyrir kommentið Carlos.

Vantrú hefur unnið stórsigur, krysslingar eru komnir í nauðvörn með persónuárásum. Bara það eitt að Bjarni skuli helga okkur heilum námsáfanga í HÍ er meiri háttar (hmm.... þetta eru kannski auðveldar einingar)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/02/10 08:11 #

Binni, þú hefur ekki verið að fylgjast með. ;) Þetta er ekki áfangi um Vantrú, heldur er þetta kynning á Vantrú í áfanga um nýtrúarhreyfingar.


Teitur Atlason - 22/02/10 11:33 #

Ég veit ekki hvað mér að að finnast um þessa mynd af mér á glæru upp í Háskóla. Svolitið skrýtið, sér í lagi þar sem Bjarni er gamall kennari minn.

En það er jú ekki hægt að segja að neitt þarna sé beinlínis rangt, það er bara ljósið sem varpað er á alltsaman. það er annarlegt.

-Ekki akademískt.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/02/10 11:58 #

Hjalti, ég veit svo sem að þetta er ekki áfangi "um" vantrú, svona tæknilega séð. En mér sýnist ljóst af umfjölluninni hérna að þetta snýst í rauninni eingöngu um Vantrú.

Sú kynning sem Dungal og Helgi fá er inngangur að því að rakka niður Vantrú, þeir eru notaðir sem dæmi um andlega vanstillingu guðleysingjans, en á sama tíma eru þeir bendlaðir rækilega við Vantrú - sá fyrri sem hetja og fyrirmynd, sá síðari sem "samherja" sem gefur "óvart" innsýn í brenglaðan hugarheim Vantrúarmanna í dag.

Það var því viljandi að ég skrifaði að áfanginn fjallaði um Vantrú, því hann gerir það.


Carlos - 23/02/10 09:36 #

Mér finnst það reyndar dálítið undarlegt að Vantrú sé kynnt í áfanga um "nýtrúarhreyfingar", ég hefði sjálfur fjallað um hreyfinguna í áfanga um samræðuguðfræði. Það hefði strax í upphafi dregið úr misskilningi um að hér sé um "vörn" eða "baráttu" að ræða.

Hitt er annað mál, að þegar við höfum tjáð okkur á opinberum vettvangi eru orð, myndir, lög og samþykktir hætt að vera "okkar" heldur þeirra sem fjalla um okkur.

Mér finnst athyglisvert að sjá hvernig meðlimir Vantrúar bregðast við því að sviðsljósið beinist nú að því sem þeir hafa skrifað og byggt upp. Ég segi ekki að viðbrögðin svipi til viðbragða okkar sem vorum fyrst fyrir gagnrýni þeirra ... en áhugaverð viðbrögð engu að síður.

Ég get ekki séð að "kirkjan sé komin í bullandi vörn" heldur sýnist mér Bjarni Randver geri sér far um að greina, skilja og gera fólki mögulegt að ræða við Vantrú á vitsmunalegum forsendum. Ekkert meir en það.


Carlos - 23/02/10 09:39 #

Eitt enn í sambandi við "nýtrúarhreyfingar". Skyldi það vera, að meðlimum Vantrúar skuli sárna það meir að vera flokkaðir með hreyfingum sem á erlendu máli hafa stundum verið kallaðar "Cults"? Mér sárnaði það óhemju að vera flokkaður sem fulltrúi þeirra (heimsendakölt, galdraprestur ...) á sínum tíma.

Getur verið að umræðan verði hlaðin bara út af því hvar umfjöllunin á sér stað, óháð því hve vel eða illa tekst til?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 09:45 #

Carlos, það á eftir að koma í ljós af hverju okkar "sárnar". Það er þó ágæt vísbending í þessari færslu.

Eins og fram kemur í þessari færslu:

Vert er að taka fram að við gerum ekki athugasemdir við allar glærurnar, stundum gerum við athugasemdir við atriði sem okkur þykja ekki alvarleg en í sumum tilvikum blöskrar okkur efnið, efnisval og efnistök. Í þessum fyrsta hluta er ekkert alvarlegt á ferð, það kemur seinna

Við höfum einnig nokkrum sinnum tekið fram að við gerum ekki athugasemd við að fjallað sé um Vantrú heldur hvernig það er gert.

Við förum rólega yfir sögu. Færsla gærdagsins féll niður vegna hádegisfundar í HÍ. Í dag klukkan eitt birtist næsta færsla í þessar framhaldssögu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 10:05 #

Carlos sagði:

...sýnist mér Bjarni Randver geri sér far um að greina, skilja og gera fólki mögulegt að ræða við Vantrú á vitsmunalegum forsendum. Ekkert meir en það.

Carlos, þú ert greinilega velviljaður maður og vantrúaður á sjónskekkju trúmanna en glöggur ertu ekki. Eða þykir þér þessi samantekt á "málflutningi" okkar bjóða upp á samræður á "vitsmunalegum forsendum"? Er þessi óhróður "ekkert meir(a) en það"?


Carlos - 23/02/10 10:18 #

Hvernig getur athugasemd um að tiltekinn "málflutningur er vatn á myllu þeirra sem..." verið óhróður um persónu? Reyndar skuldar Bjarni Randver dæmi um það, að málflutningurinn og viðmótið leiði til þess sem hann álítur.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 10:21 #

Ég ítreka að glöggur ertu ekki, Carlos.

Óhróðurinn í glærunni sem ég benti á beinist að málflutningi, ekki persónum. Að vísu vantar ekki óhróður um persónur í glærum Bjarna en ég á ekki von á að þér auðnist að sjá það.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 11:10 #

Þessar glærur eru einhver sterkasta vísbending sem ég hef séð lengi um þá hugarfarsbyltingu sem er að verða í vestrænum samfélögum. Við í Vantrú stöndum framarlega í þeirri byltingu.

Kristin trú er á gríðarlega hröðu undanhaldi og verjendur hennar grípa til sífellt örvæntingarfullra aðferða.

Yfirleitt er það staðfesting á sterkri stöðu í málflutningi þegar andstæðingurinn fer að beita persónulegum árásum. Glærur Bjarna bera þess einmitt merki, hann fjallar ekki efnislega hvorki um Vantrú eða vantrú, en hann gerir sitt besta til að sverta þá einstaklinga sem eru áberandi í baráttunni.

Þegar blandast saman kristið siðferði og tapaður málflutningur þá er ekki von á góðu. Við getum reiknað með fleiri og svívirðilegri árásum en í hvert sinn sem ofsi krossverjenda eykst missa þeir stuðning samfélagsins.

Elsta stofnun samfélagsins, stofnun sem er enn ósnertanleg innan stjórnkerfis og stjórnmála, lætur býfluguna Vantrú espa sig upp. En ástæðan er ekki samtökin Vantrú sem slík heldur sú breyting á afstöðu almennings sem sér kristna trú og kirkju sem fáránlegt fornaldarfyrirbæri. Vantrú er toppurinn á ísjakanum, skotmark sem krossvarnarmenn sjá og geta ráðist á.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.