Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sunnudagsbréf

I

Það hefur töluvert gengið á í þjóðfélaginu síðan síðasta sunnudagsbréf birtist í september og það þarf varla að fjölyrða um það. En eins og við mátti búast þá fóru aðalrugludallarnir á stjá með allskyns yfirlýsingar um að leggjast á hné og biðja og stjórnmálamenn fóru að biðja gvuð að blessa landið í leiðinni, einsog það lægi þann ólgusjó sem fjármálakerfið er í.

Alister McGrath kom til landsins og hélt fyrirlestur og fabúleraði um ýmislegt. Hann olli þó ekki jafnmiklum usla hjá hörundsárum trúmönnum einsog Richard Dawkins gerði um árið. Þó er, og verður, töluvert ritað um McGrath hér á Vantrú.

Útgáfufélagið Raun ber vitni leit dagsins ljós með útgáfu á bókinni Andlegt sjálfstæði - ritgerðasafn eftir Robert G. Ingersoll og Pjetur G. Guðmundsson - en hún fæst m.a. hjá Bóksölu stúdenta.

II

Er íslenska ríkiskirkjan einhverskonar dempari á öfga- og bókstafstrú? Haukur Ísleifsson veltir því fyrir sér í pistlinum Hin dauða hönd ríkisvaldsins og kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki og bendir á að stór hluti Evrópu sé með aðskilnað ríkis og kirkju, og einnig lönd einsog Kanada, Japan og Ástralía. Svanur Sigurbjörnsson segir:

Með því að benda á þessi lönd í Evrópu er ljóst að það er eitthvað annað sem þarf að athuga í þessu samhengi en að ríkiskirkja sé einhver nauðsyn til að koma í veg fyrir slæma bókstafstrú.
Slíkt viðhorf finnst mér einnig ótrúlega metnaðarlítið og uppgjöf gagnvart trúarbákninu. Efling raunsæis, skynsemi, rökhyggju og húmanisma er besta forvörnin gegn barnalegri og einfeldningslegri bókstafstrú. Til þess ætti fólk að horfa frekar en að standa í stað.#

Alister E. McGrath hélt fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands og meðal þeirra sem sóttu þennan fund var Matthías Ásgeirsson. Hann reit greinina Vér fúndamentalistar og notar spurningu Davíðs Þór Jónssonar um öfgafulla trúleysingja. Trúleysingjar þurfa ekki að gera mikið til að vera taldir öfgafullir. Það er nóg að tala og/eða skrifa um trú og trúarbrögð á gagnrýnin hátt til að vera settur í sama flokk og nöttkeis sem drepa fólk. Þetta er tiltörulega ný vísa og vægast sagt illa kveðið. Ekki sé minnst á herskáa trúleysingja, en það er fólkið sem gefur út bækur um trú og trúleysi.

Alister McGrath er með ranghugmyndir um Richard Dawkins einsog Óli Gneisti Sóleyjarsson bendir á og það réttilega. En McGrath gengur með þá grillu í kollinum að:

... kjarni boðskapar trúleysingja nútímans sá að "trúarbrögð eru uppspretta alls ills".

Kunnuglegt stef sem byggir á þriggja þátta seríunni hans Dawkins sem heitir "The Root of All Evil?" og einsog glöggir lesendur ættu að taka eftir að þá er nafnið í formi spurningar. Hvorki Dawkins, né nokkur annar málsmetandi trúleysingi, heldur því fram að trúarbrögð séu rót alls ills.

Hjalti Rúnar Ómarsson las Fimm mínútna biblíuna sem Skálholtsútgáfan gefur út, en "hún er full af barnalegum biblíutúlkunum, vanþekkingu á biblíunni og trúarviðhorfum sem flokkast hæglega sem öfgatrú." Einn lesandinn, Björn Ómarsson, mælir sterklega með bókinni Misquoting Jesus: The Story Behind Who Changed the Bible and Why eftir Bart D. Ehrman og kemur auk þess með ágæta útlistun á þeirri bók. Henni furðar sig á svona útgáfu og spyr:

Það er sorglegt að vita til þess að stofnun sem ég bar mest virðingu fyrir af öllum kristilegum stofnunum skuli standa á bak við útgáfu svona rita á landinu. Ég hef svo sem vitað að prestar hennar geta sumir hverjir verið mjög vafasamir, en við erum að tala um stofnun í þessu dæmi og nógu hjákátleg var hún fyrir, en þetta gerir hana bara sorglega, er þetta virkilega hægt?

Teitur Atlason þýddi grein eftir sænska pistlahöfundinn Lisu Magnusson er fékk titillinn Trúarbrögðin eiga ekki sess í nútíma samfélagi. En inngangspunktur hennar er um ímam sem trylltist í jarðaför ungs drengs því "að lítill bangsi var með drengnum í kistunni." Og segir meðal annars:

Ég er þreytt á að vera opin og víðsýn og skilningsrík gagnvart fólki sem er vitlaust, þröngsýnt og skilningslaust. Það er líkt og fólk komist upp með hvaða svínerí sem er ef það er gert á forsendum trúar.

Öfga-Karl Sigurbjörnsson er einstaklega hófsamur og saklaus fordildaður fordómapúki og áður en hann var höfuð hatrömmu stofnuninnar sem er ríkiskirkjan þá var hann prestur í Hallgrímskirkju. Hjalti Rúnar gerir 25 ára gamalt erindi Karls, er hét "Fjölskyldan og hjónabandið" sem hann flutti á kristilegri ráðstefnu um ýmis siðferðismál , að umtalsefni í grein sinni. Erindið fjallar að mestu um "rétt" kynlíf, þ.e. að karl og kona eiga eingöngu að stunda kynlíf og helst í hjónabandi. Hjalti veltir vöngum hvort að biskupinn sé búinn að skipta um skoðun. En það virðist nú ekki vera.

Reynir Harðarson er búinn að fá sig fullsaddan "af helgislepju, hatursáróðri, heimsku og lygum kirkjunnar manna" og vill ekki að "menn komist upp með rangfærslur, óbilgirni, ósannsögli og ósanngirni í nafni heilags sannleika." Í hugvekjunni Ofstæki og hatur greinir ögn frá viðsnúningi hans frá barnatrúnni í trúleysi, innrás kirkjunnar í skóla og fleira. Þóra Ingvarsdóttir tók þessu nokkuð nærri sér í færslu er heitir Játningar siðblinds lygara og spyr:

Hvort er ég kristin við upphaf 21. aldar eða gyðingur um miðbik þeirrar 20.?

Ég geri orð Reynis að mínum : Kristlingar vita ekkert göfugra en hlutverk fórnarlambsins. Og má til með að bæta við að þetta er agalega smekklaus og algjörlega dæmigerð "spurning" hjá henni Þóru - þ.e. að ýja að því að trúleysi og nasismi eigi einhverja samleið.

Brynjólfur Þorvarðarson gerir kafla í einni víðlesnustu og elstu skáldsögu að umtalsefni í greininni Morðóður andstæðingur manntals drepur 70.000 sem fjallar að mestu um blóðþyrstan og hatursfullan sadistavætt að nafni Jahve og óbilgirni þessara sögupersónu að myrða eins mikið af fólki og unnt er útaf duttlungum.

Í vor var sjötta Cairo-ráðstefna um lýðræði og frið í Mið-Austurlöndum sem Vésteinn Valgarðsson segir frá í greininni Bræðralag múslíma. Þar bendir hann á þá athyglisverðu blöndu af arabískum þjóðernissinnum, sósíalistum og íslamistum sem telja að vestræn heimsvaldastefna ógni lýðræði og friði í þeim heimshluta. Þetta er afar merkileg og skemmtileg lesning er veitir manni góða innsýn um pólítík og trú í múslímaríkjum.

Íslendingar eru skyldugir til að greiða trú- og trúvillingaskatt. Teitur Atlason bendir á að þessi sóknargjöld eru óréttlát og þó að upphæðin sem borgað er í ríkiskirkjuna, önnur trúfélög eða utan sé ekki himinhá þá er það ansi óréttlát að þeir sem standa utan trúfélaga fá ekki ráða hvert gjaldið fer, en upphæðin rennur til Háskóla Íslands. Evilpiggie hefur þetta að segja:

Það væri áhugavert ef hægt væri að afnema þetta rugl um að menn þurfi að borga trúarskatt þótt þeir hafi enga trú. Þá kæmi væntanlega í ljós hversu mikils fólk raunverulega metur þjóðkirkjuna.

Á þessum agalega áhugaverðu tímum er athyglisvert að veita því athygli hvað fólk getur verið gráðugt. Í hugvekju minni um græðgisvæðingu gvuðlegra manna huga ég að sólundun og fjármokstri ríkiskirkjunnar í gagnslausa hluti, grobbið í sumum prestum um fádæma dýr kaup og auk þess leitast ég eftir réttlætingu á þessum gífurlegu launum sem ríkiskirkjuprestarnir eru með. Árni Árnason kemur með þessa hugleiðingu:

Prestar eiga í raun alls ekki að hafa laun, því að þeir eru ekki að vinna. Þeir eru í besta falli að sinna áhugamáli og eiga eins og við hin að gera það í sínum eigin tíma. Ég gæti næstum því borið virðingu fyrir safnaðarpredikara sem væri múrari eða pípari að atvinnu, og sinnti trúarstarfinu af einskærri trúardellu á kvöldin og um helgar. Ég er meira að segja handviss um að það er ekki einu sinni guðshugmyndinni þeirra þóknanlegt að vinna enga sómakæra vinnu en baða sig ævilangt í ljómanum og sjúga peninga út úr hugfötluðum.#

Prestar geta sýnt alveg afskaplega rætin viðbrögð við gagnrýni einsog Frelsarinn bendir réttilega á. Þegar trúleysingjar benda á "mannréttindabrot ríkiskirkjunnar gegn börnum í skólakerfinu" eða "að siðferði biblíunnar sé oft slæmt með því að benda á texta sem prestar forðast eins og heitan eldinn" þá:

[...]messar ríkispresturinn niður til lýðsins: “Gagnrýni trúleysingja eru ekkert annað en öfgar og bókstafstrú.”

Sigurður Ólafsson furðar sig á athafnavana sína nánustu og annarra, þ.e. fólk sem er áhugalaust um trú og jafnvel trúlaust en skíra samt barnið sitt hjá presti, ferma það og/eða gifta sig í kirkju af því að:

„allir gera það og svo er það svo hátíðlegt.“

Maður má til með að benda á að Siðmennt býður einatt uppá nákvæmlega sömu þjónustu án þess að troða biblí, gvuð og djísí krísí inní athöfnina.

III

Þjóðkirkjan er óstöðvandi í að narra til sín ung börn. Stofnunin auglýsti fyrir stuttu barnastarf kirkjunnar fyrir alla krakka. Auglýsaherferðin var afbökuð og birt í litla pistlinum Krakkar mínir.

Töluverð umræða myndaðist í kjölfarið á fleygum orðum stríðsglæpamanninn og nasistanum Klaus Barbie og fannst sumum þetta vera heldur ósmekklegt. Óli Gneisti bendir á að:

[...] aðalatriðið við hana að hún sýnir hve fráleitt það er að halda að ótti við dóm guðs sé ávísun á gott siðferði. Hún er líka ágæt fyrir það að við trúleysingjar þurfum að búa við þann lygaáróður að Hitler og nasistar almennt hafi verið trúlausir, það er gott að minna reglulega á hve trúaðir flestir þeirra voru í raun til að vega upp á móti því.

Okkur gengur bagalega að ræða eitthvað um Vísindakirkjuna. En máske að sumir lesendur fengu smá smjörþef af költinu í myndbandinu Vísindakirkjan og ég sem John Sweeney tók saman fyrir fréttaskýringaþáttin Panorama.

Svo má maður til með að benda á spjall Vantrúar og hvet ég sem flesta til að taka þátt í þeim funheitu umræðum sem stundum geta átt sér stað þar.

Alkasamfélagið eftir Orra Harðarsson kom út fyrir stuttu þar sem tónlistarmaðurinn stiklar á þeim gífurlega skorti af meðferðarúrræðum sem í boði er á landinu, þ.e. meðferðarúrræði sem troða ekki almættinu inní meðferðina og reyna gera drykkjusjúka einstaklinga að aumingjum sem geta ekkert að drykkjunni gert án þess að trúa á eitthvað yfirnáttúrulegt.

IV

Nú ber að varast varúðarorð frá fólki sem stólar eingöngu á eitthvað sem ekki er til. Og ekki eru þau lengi að berast þegar hrægammar hefja sig til flugs:

Séra Baldur: “Kirkjan og kreppan!”, Séra Pálmi: “Hriktir í hjónaböndum vegna áhyggja”, Hjálparstofnun kirkjunnar: “Margir þurftu aðstoð í skólabyrjun”, Séra Þórhallur: “Messað gegn bölsýnistali”, Gunnar í krossinum: “Trúarleiðtogar landsins leggjast á bæn í kreppunni”, biskup ríkiskirkjunnar: "Kreppa er tækifæri" og Laugarneskirkja: "Boðið upp á uppörvun og leiðsögn í sparnaði".

Og ekki sé minnst á talnaspekinga og dulspámenn sem voru náttúrulega fyrir löngu búnir að sjá þetta fyrir með því að rýna í stöðu himinhnattana, kaffibolla, spákúlu og handanheima en biðu náttúrulega eftir því að þetta mundi skella á áður en þeir sögðu almenningi frá að þetta vissu þeir allan tíman. Vonandi falla sem fæstir fyrir þessu húmbukki og bulli því þjónustan sem þessir kónar bjóða er ein versta fjárfesting sem völ er á.

En það er aldeilis merkilegt að bænir og predikanir náðu ekki að hindra kreppuna og það mun ekkert lagast ef allir leggjast á hné og spenna greipar. Hvað þá að pólítikusar biðja almættið að blessa landið. Það er engin lausn fólgin í því.

Þórður Ingvarsson 12.10.2008
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


evilpiggie - 12/10/08 16:29 #

Noh, bara kvótaður á vantru.is. Það endar með því að ég neyðist til að gera alvöru úr því að skrá mig í ykkur. Bjóðið þið nokkuð upp á hagstæð húsnæðislán?


evilpiggie - 12/10/08 16:30 #

b.t.w. gott framtak hjá ykkur. Það eru ekki margir viðkomustaðir á vefnum sem maður getur heimsótt daglega og fengið nánast alltaf eitthvað áhugavert að lesa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.