Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Öfga-Karl Sigurbjörnsson

Karl SigurbjörnssonÞað er oft sagt að íslenska ríkiskirkjan sé einstaklega hófsöm og saklaus. Vissulega er hún hófsöm ef við berum hana saman við kaþólsku kirkjuna eða hvítasunnusöfnuði. En það er ekkert sérstakt afrek, ekki frekar en að það sé afrek að vera í efri hluta fjórðu deildar í fótbolta á Íslandi. Æðsti biskup hinnar svokölluðu Þjóðkirkju sýnir vel hvers vegna kirkjan er öfgafull en ekki hófsöm ef við notum eðlilegan samanburð.

Karl ófjötraður

Áður en Karl Sigurbjörnsson varð biskup, var hann óbreyttur prestur í Hallgrímskirkju. Þá hafði hann enga almannatengslasérfræðinga til þess að banna honum að skrifa greinar í blöðin og koma fram í sjónvarpinu með skoðanir sínar. Þeir vita nefnilega að þegar hann sleppur í fjölmiðlana á hinn óbreytti Íslendingur eftir að hneykslast á forneskjulegum og kristilegum ummælum hans. Fyrir um tuttugu og fimm árum síðan, þegar Karl var enn prestur, héldu ýmis kristileg félög ráðstefnu ýmis siðferðismál. Karl Sigurbjörnsson flutti erindi sem bar heitið „Fjölskyldan og hjónabandið“.

Kynlífið...

Kynlífið er að kristnum skilningi ekki bara fullnæging líkamlegra hvata, heldur tjáning náins, skuldbindandi, gagnkvæms persónusamfélags, þar sem karl og kona eru eitt, þar sem hið líkamlega og hið sérlega, tilfinningalega helst í hendur. Ath. hebr. orðið jada = kenna, þekkja, sem notað er um hið nánasta samlíf karls og konu, þess vegna er allt það, sem miðar að því að rífa kynlífið úr þessu samhengi, fordæmt út frá kristinni siðfræði, af því að hún leggur einhliða áherslu á hið líkamlega hvatirnar og afneitar hinu mannlega og stuðlar meðvitað að því að hjón virði öll siðræn gildi, sem fordæmir kynlífshyggju, eða eigum við að segja kynlífsdýrkun, samtímans. Kristileg siðfræði leggur áherslu á, að kynlíf eigi eingöngu rétt á sér innan vébanda hins gagnkvæma, skuldbindandi persónusamfélags, þ.e. hjónabandsins. (bls 81, feitletrun mín – Hjalti Rúnar)

Fyrr í erindinu var Karl búinn að leggja mikla áherslu að hjónabandið, sem guð stofnaði, væri auðvitað bara fyrir karl og konu. Núna kemur síðan í ljós að kristileg siðfræði leggur, samkvæmt Karli „áherslu á“ að kynlíf sé alltaf rangt ef viðkomandi eru ekki giftir.

Samkvæmt Karli er kynlíf fyrir hjónaband alltaf rangt. Kynlíf samkynhneigðra (sem geta augljóslega ekki gengið í hjónaband samkvæmt Karli) er einnig alltaf rangt.

...og fleira því tengt

Án þessa grunns er fræðsla um kynlíf gagnslaus eða jafnvel skaðleg að mati Karls:

Einhver vísir að kynlífsfræðslu mun vera í sumum grunnskólanna, svo sem frjálst framtak "Alþýðuleikhússins", en fræðsla um kynlífið eitt og sér nær engum jákvæðum tilgangi og getur verið beinlínis skaðleg, ef hinn siðferðilega grundvöll vantar, -og sú mun raunin, því miður. Þó ber að fagna því, að unnið hefur verið að því, að kristileg siðfræði verði fastur liður í námsskrá grunnskóla og útgefið tilraunalesefni í greininni og mun það bæta úr mikilli þörf. (bls 81-82)

Þegar kemur að getnaðarvörnum þá segir Karl að kristin siðfræði hallist að þeirri skoðun að það sé nú í lagi fyrir hjón að nota getnaðarvarnir (bls 84).

Breyttur eða bundinn?

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort Karl sé gjörsamlega búinn að skipta um skoðun, eða þá hvort kristin siðfræði hafi gjörbreyst algjörlega á tuttugu og fimm árum. Ég man nefnilega ekki eftir því að hafa heyrt Karl minnast á þessi viðhorf sín nýlega. Við megum líklega ekki búast við svörum frá honum, því annað hvort þorir hann ekki að koma fram með þau eða þá að almannatengslafulltrúarnir eru búnir að banna honum að endurtaka þessar skoðanir sínar.


Heimild: Viðhorf og Vandi, 1982, Reykjavík, Salt.

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.09.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


gimbi - 11/09/08 23:17 #

Jæja, þar sem enginn virðist ætla að gera minnstu athugasemd við þessa grein, ekki einasta einn já-bróðir, þá í nafni umræðunnar kemur hér ein.

Áður en lengra er haldið, þá get ég mér þess til að hér sé komin greinin sem var dregin tilbaka vegna fráfalls föður Karls biskups.

Þá að efninu. Í fyrstu málsgreininni koma fram sérkennilegar hugmyndir. T.a.m. þessi:"Það er oft sagt að íslenska ríkiskirkjan sé einstaklega hófsöm og saklaus."

Aldrei hef ég heyrt að íslenska ríkiskirkjan sé "saklaus"!

Þarna er sleginn einhver furðulegur "eltihrellis-tónn" sem endurtekur sig í allri færslunni.

Auðvitað heldur sérhver sæmilega sómakær siðapredíkari (og fyrirgefið nándina í stuðlun) því fram að kynlíf beri ekki að stunda fyrir hjónaband.

Nema hvað!

Eru þetta einhver tíðindi?

Síðan kemur þessi staðhæfing: "Án þessa grunns er fræðsla um kynlíf gagnslaus eða jafnvel skaðleg að mati Karls"

og ef maður les skýringuna, þá ber þetta fyrir augu:

"fræðsla um kynlífið eitt og sér nær engum jákvæðum tilgangi og getur verið beinlínis skaðleg, ef hinn siðferðilega grundvöll vantar"

Er þetta ekki bara nokkuð gott hjá byskubi vorum?

Að lokum kemur þessi ályktun: "Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort Karl sé gjörsamlega búinn að skipta um skoðun, eða þá hvort kristin siðfræði hafi gjörbreyst algjörlega á tuttugu og fimm árum. Ég man nefnilega ekki eftir því að hafa heyrt Karl minnast á þessi viðhorf sín nýlega."

Ekki skil ég hvað er að vefjast svona fyrir þér, Hjalti.

Er það sú staðreynd að þú hefur ekki "heyrt Karl minnast á þessi viðhorf sín nýlega"!?

Hvað ertu eiginlega að fara?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/09/08 23:27 #

Aldrei hef ég heyrt að íslenska ríkiskirkjan sé "saklaus"!

Ég var ekki að halda því fram að fólk hafi notað þetta orð, en ég hef heyrt talað um að kirkjan sé engan vegin öfgafull og meira í þeim dúr.

Er þetta ekki bara nokkuð gott hjá byskubi vorum?

gimbi, þessi "siðferðisgrundvöllur" sem biskupinn ræðir um er sá að kenna börnum að kynlíf utan hjónabands sé rangt. Það er "þessi grunnur" sem hann talar um. Er það nokkuð gott að halda því fram að án þessa grunns sé kynfræðsla "gagnslaus eða jafnvel skaðleg"?

Hvað ertu eiginlega að fara?

Karl hefur ekki minnst á þessar skoðanir sínar nýlega. Ég velti því fyrir mér hvers vegna hann gerir það ekki og kem með þrjá möguleika:

  1. Það sem kristið siðgæði leggur áherslu á hefur gjörbreyst á 25 árum
  2. Karl hefur skipt um skoðun (líklega þá þvert á kristið siðgæði)
  3. Hann þorir ekki að segja frá skoðunum sínum (eða þá að almannatengslafólk sér til þess að hann gerir það ekki).

gimbi - 11/09/08 23:40 #

Sæll Hjalti.

Ok, ég er til í að fara með þér í tilvitnana-haminn þinn.

Hér er fyrsta vers: "Ég var ekki að halda því fram að fólk hafi notað þetta orð, en ég hef heyrt talað um að kirkjan sé engan vegin öfgafull og meira í þeim dúr."

Ég var ekki að halda því fram að þú værir að halda því fram að sú væri raunin.

Ég var bara að benda á ankannarlega lýsingu á íslensku Þjóðkirkjunni; þeirri að hún væri sögð vera, eins og þú sagðir: "saklaus".

En orðfæri þitt Hjalti, segir líka sína sögu um þig. Nefnilega þá sögu að þú ert í raun bundinn að einhverju leyti af hugmyndinni um erfðasyndina; þ.e. að þessi umræða varði yfirhöfuð "sekt".

Trúðu mér, sú er ekki raunin. ("there is no crueller concept, than that of sin")

Og því ég hlýt að spyrja þig, Hjalti, þessarar einföldu spurningar:

Hvaða reglu viltu halda að unglingum sem vilja stunda kynlíf? Viltu að þau láti vaða, og ef svo, skipta getnaðarvarnir einhverju máli??

Ef ekki, af hverju?

Svaraðu bara því og við erum komnir á gott ról aftur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/09/08 23:52 #

Ég var bara að benda á ankannarlega lýsingu á íslensku Þjóðkirkjunni; þeirri að hún væri sögð vera, eins og þú sagðir: "saklaus".

En orðfæri þitt Hjalti, segir líka sína sögu um þig. Nefnilega þá sögu að þú ert í raun bundinn að einhverju leyti af hugmyndinni um erfðasyndina; þ.e. að þessi umræða varði yfirhöfuð "sekt".

gimbi, til að byrja með er fáránlegt að reyna að tengja þetta erfðasyndinni einhvern veginn. En þú misskilur hvað ég átti við með "saklaus", ég var að tala um að einhver væri saklaus í merkingunni að hann gæti ekki gert neinum mein.

Annars lagði ég ekki mikla pælingu í val mínu á orðinu "saklaus"´.

Hvaða reglu viltu halda að unglingum sem vilja stunda kynlíf? Viltu að þau láti vaða, og ef svo, skipta getnaðarvarnir einhverju máli??

Ég tel amk að kynfræðsla án grunnsins sem Karl vill hafa (kynlíf fyrir utan hjónaband er rangt) sé afar gagnleg.


gimbi - 12/09/08 00:03 #

Jæja, áfram mjökumst við.

Þú segir: "Ég tel amk að kynfræðsla án grunnsins sem Karl vill hafa (kynlíf fyrir utan hjónaband er rangt) sé afar gagnleg."

Þú telur sumsé að kynlíf fyrir hjónaband sé afar gagnlegt?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 12/09/08 00:25 #

Kynlíf fyrir hjónaband er staðreynd, og verður það að öllum líkindum áfram. Þess vegna er fræðsla um kynlíf gagnleg burtséð frá trúarsannfæringum eða þessum grunni sem Karl byggir á. Það er nauðsynlegt að kenna unglingum hvernig þau geta varast þunganir og sjúkdóma því að "skírlífisfræðsla" eins og kaninn hefur lagt áherslu á virkar einfaldlega ekki. Kynhvötin er einfaldlega predikununum yfirsterkari.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 12/09/08 00:28 #

Ég tel kynlíf utan hjónabands afar gagnlegt.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/09/08 02:25 #

Þú telur sumsé að kynlíf fyrir hjónaband sé afar gagnlegt?

Gagn og gaman. En gimbi, við vorum að ræða um kynfræðslu. Karl segir að ef krökkum er ekki um leið kennt að kynlíf fyrir hjónaband sé rangt þá nái fræðslan "engum jákvæðum tilgangi og getur verið beinlínis skaðleg". Ég er ósammála þessu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/09/08 08:37 #

Fólk heldur að ríkisskirkjan sé hófsöm og meinlaus - sennilega af því að hún mælir ekki (lengur) með því að fólk sé tekið af lífi fyrir að fylgja ekki bókstafnum.

En samt sem áður er markmið hennar forheimskun og afturhald á kostnað almennrar skynsemi og framfara. Mér finnst það hvorki mein- né saklaust.


Oskar - 12/09/08 10:28 #

gimbi, þarna náðirðu að móðga góðan hluta íslensku þjóðarinnr og mig þar með talið. Ég stundaði kynlíf utan hjónabands og eignaðist fyrir vikið yndislegan son, ég stunda meira að segja enn kynlíf utan hjónabands og líkar það vel. Hvaða rétt hefur þú til þess að drulla yfir mig og svo marga, til dæmis samkynhneigða að kalla okkar kynlíf hvað.. ógagnlegt. Hundskastu bara bara í burtu, ef tveir fullvalda einstaklingar koma saman og stunda hvaða kynlíf sem er og það veitir þeim báðum fyllingu í lífið þá vil ég kalla það gagnlegt. Einnig að kenna börnum okkar um kynlíf þótt það sé fyrir utan þitt heilaga helvítis hjónaband.

P.S. Þetta verður kannski moddað en mér er alveg sama.


gimbi - 12/09/08 19:22 #

Þetta sagði Karl: "fræðsla um kynlífið eitt og sér nær engum jákvæðum tilgangi og getur verið beinlínis skaðleg, ef hinn siðferðilega grundvöll vantar"

Er þetta það sama og að vera á móti kynfræðslu? Er þetta öfgafullt, Hjalti?

Oskar, slakaðu á og lestu hægar. Það er ekki verið að ræða um hvort þú stundaðir kynlíf fyrir giftingu. Ekki heldur um homma.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/09/08 19:28 #

Er þetta það sama og að vera á móti kynfræðslu?

Hver sagði það? Eins og ég skrifaði síðast þá segir Karl að ef krökkum sé ekki um leið kennt að kynlíf fyrir hjónaband sé siðferðislega rangt, þá er kynfræðsla gagnslaus eða jafnvel skaðleg.

Er þetta öfgafullt, Hjalti?

Já, það er öfgafullt.


Heiðrún - 12/09/08 23:21 #

Hið siðferðilega gildi kynlífsins sem Karl minnist á er ekki eingöngu að kynlíf eigi að vera innan hjónabands heldur einnig að í kynlífi sé tjáning náins, skuldbindandi, gagnkvæms persónusamfélags, þar sem karl og kona eru eitt, þar sem hið líkamlega og hið sérlega, tilfinningalega helst í hendur. Ekki slæmt.

Það vantar algjörlega að fá siðferðilega kynfræðslu í grunnskólana. Unglingar fá þessa fræðslu ekki heima hjá sér. Það er ekki nóg að tala bara um smokkinn þó það sé hluti af þessu.

Það hefur pottþétt orðið siðferðisleg hnignun í kynlífsmálum frá því að 68 kynslóðin fræga kom sá og sigraði með frjálsum ástum. Hættulegir kynsjúkdómar, brjálæðislega margar fóstureyðingar, einnig fullt af börnum sem enginn vill kannast við. Og svo hafa flestir orðið varir við klámvæðingu nútímans og kynlífsiðnaðinn.

Það er ekki beint spennandi að ala upp dætur í þessu þjóðfélagi. Sem betur fer eru mínar stelpur bara litlar ennþá.

Ég held að það væri gott að fá viðhorf biskupsins og fleiri heilbrigðra, trúaðra og vantrúaðra inn í umræðuna.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/09/08 10:58 #

Þú lætur eins og þessir tveir punktar hjá Karli séu ekki samtengdir en þeir eru það.

Mig minnir að ég hafi nýlega séð könnun sem sýndi að íslenskir unglingar væru að verða eldri þegar þeir lifðu fyrst kynlífi. Ég finn hins vegar engar samanburðartölur í fljótu bragði.

Hvað áttu við "siðferðileg gildi" og "siðferðisleg hnignun"? Þetta eru frekar óljósir punktar. Hvað nákvæmlega ætti að kenna í kynfræðslu sem ekki er þegar gert. Ertu að tala um raunveruleikann eða ertu að tala um þá ímynd sem fjölmiðlar hafa hag af því að skapa af unglingum?

Ef ég hef skilið rannsóknir sem hafa verið gerðar rétt þá séu vandamálin fyrst og fremst tengd áfengisneyslu og þar eigi forvarnirnar fyrst og fremst við. Unglingsstúlkur eru líklegar til að sjá eftir kynlífi sem á sér stað þegar þær eru drukknar. Augljóslega er ekki hægt að segja að sökin sé hjá þeim því punkturinn í kynfræðslu stráka ætti að vera sá að það sé siðlaust að nota áfengi til að fá stelpur til að sofa hjá sér.


DoctorE - 17/09/08 18:26 #

Held að þetta sé fyrsta kommentið mitt.. Kristilegt "No sex + no education" hefur algerlega feilað í usa... Kynlíf í augum þessara manna tel ég að sé eingöngu til þess að búa til nýja sauði í söfnuðinn

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.