Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sóknargjöld eru óréttlát

Nú þegar óveðursskýin hrannast upp í íslensku samfélagi er gott að skoða hlutina upp á nýtt. Spyrja sig hvað fór úrskeiðis og hvað hægt sé hægt að læra af þeim mistökum sem ollu þessum veðurbrigðum í atvinnu og peningamálum þjóðarinnar. Fólk er almennt sammála um að eytt hafi verið um efni fram og skuldsetning einstaklinga og fyrirtækja til þess að sýnast meiri og merkilegri sé rót vandans.

Fjölskyldur tóku dýr lán til að kaupa sér jeppa eða einbýlishús og fyrirtæki tóku lán til þess að kaupa önnur fyrirtæki eða gömbluðu á hlutabréfamarkaðnum. Græðgin í efnisleg gæði varð okkur að falli í þetta skiptið. Lausn vandans hlýtur að liggja í því að nú þarf að borga upp það sem lánað var fyrir. Endurskipulagningar er þörf.

Þótt þessi hugleiðing eigi ekki beina vísun í baráttu Vantrúar fyrir betra samfélagi snerta vindhviður óveðursskýjanna trúarlega þætti. Þetta bentu prestshjónin Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson á í nýlegri predikun. Tilefni predikunarinnar var þó annað þótt niðurstaðan yrði á endanum sú sem ég impra á hér að ofan.

Í dag greiða allir skattgreiðendur s.k sóknargjald, sem nemur um 13.000 krónur á ári til ríkiskirkjunnar en rúmlega 10.500 krónur á ári til þess trúfélags sem þeim hugnast. Sá sem er trúlaus þarf einnig að greiða sóknargjald, en þá renna peningarnir til Háskóla Íslands. Það er sem sagt ekki hægt að sleppa við að greiða sóknargjald. Þetta er óréttur sem Vantrú hefur alltaf barist gegn. Auðvitað er sjálfsögð krafa að þeir sem ekki tilheyra neinu trúfélagi sleppi við að greiða sóknargjöld. Að greiða sóknargjald til Háskóla Íslands í stað trúfélags er afar sérkennilegt. Af hverju HÍ? Hvað um Háskóla Reykjavíkur, Bifröst eða aðrir skóla á háskólastigi? Af hverju á HÍ að njóta ávaxta af þeim sem vilja standa utan trúfélaga?

Líkt og fjölskyldur og fyrirtæki þá þarf ríkið einnig að endurskipuleggja fjármál sín. Óréttlát skattheimta til þeirra sem vilja standa utan trúfélaga skiptir máli. Þetta er um 10 þúsund kall á ári, peningar sem ég er viss um að fólk vill fá að ráðstafa að eigin geðþótta. Þetta er ein ferð í Bónus og skiptir máli! Það ber að hafa það í huga að þetta fé er einungis notað til þess að reka starfsemi trúfélaganna og fólk þarf eftir sem áður að greiða fyrir kirkjulega þjónustu. Þetta á reyndar ekki við í tilfelli Fríkirkunnar í Reykjavík en þar er öll þjónusta innifalin í sóknargjöldunum. Fólk getur eftir sem áður gift sig, fermt börnin sín, jarðað eða skírt þótt það standi utan trúfélaga.

Tíuþúsund kall er kannski ekki miklir peningar á ári, en safnast þegar saman kemur. Á 10 árum gerir það 100.000 krónur. Það er skuggalegt að hugsa til þess að miðað við 80 ára meðalaldur má reikna með að hver íslendingur hafi greitt 720.000 krónur til trúfélagsins sem viðkomandi er skráður í, eða ekki skráður í. Vantrú hefur alltaf bent á að trúfélög eiga sjálf að innheimta sóknargjöld án hjálpar ríkisins. Það er fáránlegt að trúfélög njóti þeirra forréttinda umfram önnur félagasamtök að ríkið innheimti fyrir þau félagsgjöldin.

Mörgum hefur sviðið ofurlaun presta og bruðlið í kringum tilbeiðsluathafnir og tilbeiðslutæki ríkiskirkjunnar. Orgelgarmur mun ekki kosta undir 50 miljónum svo dæmi sé tekið. Meðallaun presta eru í kringum 600 þúsund. Prestahjónin sem ég minntist hér á fyrir ofan eru t.d með samanlagðar árstekjur sem nema 14.853.808 krónur. Næstum því 15 miljónir í árslaun! Þetta þætti mörgum alveg ágætar tekjur. Ekki síst þeim stéttum sem hafa áþekka menntun og prestar, s.s. kennarar, hjúkrunarfólk, ljósmæður og svo má lengi telja.

Nú er lag að endurskipuleggja. Endurraða og byrja upp á nýtt. Löggjafinn þarf að gera það valfrjálst hvort þegnarnir greiði sóknargjald til trúfélaga (eða Háskóla Íslands) og ríkiskirkjan ætti í rauninni að taka orð Jesúsar sér til fyrirmyndar í þessum efnum en Jesús er óvenju skýrorður þegar kemur að auðsöfnum. Í Matt 10 segir t.d.:

21 "Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."
22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.
23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."
24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.
25 "Auðveldara er fyrir úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

Auðvitað gerum við okkur í Vantrú grein fyrir því að þessi óréttur verður ekki afnumin í einni svipan. Kirkjan hefur sterk ítök í öllum stjórmálaflokkum og margir stjórnmálamenn eru hræddir við að tapa atkvæðum um leið og snert er á trúarlegum stefjum í deiglu samfélagsins. Breytingarnar eru undir okkur komnar. Sterkasta vopnið sem við höfum er að leiðrétta trúfélagaskráningu sína og krefjast afnáms sóknargjaldakerfisins. Ein leið til að brúa bil beggja væri að á skattframtali gæti maður merkt við hvaða trúfélag maður vildi greiða í ellegar sleppa að greiða yfir höfuð.

Ef við viljum breyta samfélaginu til hins betra verðum við að byrja á okkur sjálfum.

Teitur Atlason 19.09.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


anna benkovic - 19/09/08 15:36 #

Tek undir hvert orð!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/09/08 18:20 #

Var Kjararáð eða kjaradómur ekki að hækka laun presta um 240.000 á ári? En það munar kannski ekki mikið um hálfa milljón í viðbót á prestshjón, það rétt dekkar rýrnun á jeppanum.


Ólína Gúmm - 20/09/08 03:03 #

hugmynd: væri ekki áhrifarík leið til þess að knésetja kerfið að fá nógu stóran hóp fólks til þess að flakka endalaust á milli trúfélaga, skrá sig úr einu félaginu í annað dag eftir dag eftir dag eftir dag eftir dag eftir dag eftir dag eftir dag hundruðum eða þúsundum saman!!! slíkt myndi kalla á aukamannskap hjá þjóðskrá og leiða í ljós fáránleikan við kerfið.


Stefán Vilberg Leifsson - 20/09/08 08:20 #

Þetta er ekki slæm hugmynd hjá Ólínu ef við viljum knýja fram breytingar eða að minnsta kosti skapa umræðu um óréttlæti þessa kerfis.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 20/09/08 10:27 #

Því miður. Það er bara hægt að breyta trúfélagaskráningu einu sinni á ári. Auðvitað hefur ríkiskirkjan komið auga á þennan skæru-möguleika :)

Besta ráðið er að benda á þennan órétt með bréfum til þingmanna osfr. Síðan á maður auðvitað ekki að taka þátt í ósómanum. Fólk á að vera duglegt að fræða vini sína og fjöluskyld um þetta ranglæti.

Fræðslan og upplýsingin vinnur á móti ósómanum.


evilpiggie - 21/09/08 16:44 #

Það væri áhugavert ef hægt væri að afnema þetta rugl um að menn þurfi að borga trúarskatt þótt þeir hafi enga trú. Þá kæmi væntanlega í ljós hversu mikils fólk raunverulega metur þjóðkirkjuna.


evilpiggie - 21/09/08 17:40 #

"Í dag greiða allir skattgreiðendur s.k sóknargjald, sem nemur um 13.000 krónur á ári til ríkiskirkjunnar en rúmlega 10.500 krónur á ári til þess trúfélags sem þeim hugnast. Sá sem er trúlaus þarf einnig að greiða sóknargjald, en þá renna peningarnir til Háskóla Íslands."

Meðlimur þjóðkirkju borgar 23.500 í þjóðkirkjuna. Meðlimur múslímsks safnaðar borgar 10.500 í sinn söfnuð og 13.000 í þjóðkirkjuna. Trúleysingi greiðir 13.000 í þjóðkirkjuna og ekki meir. Er þetta rétt skilið hjá mér? Væri þá ekki fínt að auglýsa þetta sem sparnaðarráð?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 21/09/08 22:37 #

Þú ert einhvað að misskilja. "Trúfélagið sem (trúlausum) hugnast að greiða til" er Háskóli Íslands, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.


evilpiggie - 22/09/08 12:21 #

Já, sorrý, meinti HÍ. Það sem mér fannst athyglisvert (ef ég skil þetta rétt) var tvennt. Annars vegar að meðlimir annars trúfélags en þjóðkirkjunnar greiða samt sem áður meira til þjóðkirkjunnar en sín eigins trúfélags. Hins vegar að trúleysingjar greiða tíuþúsundkalli minna en þeir ginnkeyptu. Og þess vegna varpaði ég því fram hvort ekki væri fínt að auglýsa þetta sem sparnaðarráð.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 22/09/08 12:45 #

En maður sparar ekkert við það, er ég nokkuð viss um.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 22/09/08 12:53 #

Sóknargjaldið er 10.500 krónur. Ríkiskirkjan fær svo aukalega 3.500 krónur frá ríkinu fyrir hvern og einn skráðan meðlim. Þetta er óréttur (gagnvart öðurm trúfélögum) sem er rökstuddur á þann hátt að kirkjan haldið við menningarverðmætum (í formi kirkna). Ásatrúarfélagið tapaði máli fyrir Hæstarétti fyrir nákvæmlega þetta atriðið fyrir skömmu.

Hver sá sem skráir sig úr ríkiskirkjunni sparar s.s ríkinu um 3500 krónur árlega.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/09/08 13:01 #

Annars vegar að meðlimir annars trúfélags en þjóðkirkjunnar greiða samt sem áður meira til þjóðkirkjunnar en sín eigins trúfélags.

Þetta er misskilningur.

Í dag greiða allir skattgreiðendur s.k sóknargjald, sem nemur um 13.000 krónur á ári til ríkiskirkjunnar en rúmlega 10.500 krónur á ári til þess trúfélags sem þeim hugnast.

Annað hvort, ekki hvort tveggja.


evilpiggie - 22/09/08 16:12 #

Olræt, takk fyrir svörin. Mér sýnist niðurstaðan því vera þessi: Þjóðkirkjumaður greiðir 13.000 á ári til Þjóðkirkjunnar. Ásatrúarmaður greiðir 10.500 á ári til Ásatrúarfélagsins. Trúleysingi greiðir 10.500 á ári til HÍ.

Er hins vegar tilfellið ekki það að enginn skattgreiðandi greiðir beinlínis þessar upphæðir? Borga ekki allir sömu skatta, en ríkið hins vegar borgar þessa peninga í samræmi við hversu margir eru skráðir í hvert trúfélag? Þá skiptir auðvitað engu máli fjárhagslega fyrir einhvern einstakling í hvaða trúfélag hann er skráður.

Eftir stendur samt að fróðlegt væri að beintengja þessar greiðslur við einstaklinga, þannig að það raunverulega kæmi við budduna að vera skráður í trúfélag. Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að meðlimafjölda þjóðkirkjunnar myndi fækka eitthvað við það.

Hitt er svo annað mál að ég sé ekki að það sé neinn möguleiki á að þessir peningar dugi til að rekja þjóðkirkjuna. 13.000 á ári per mann? Með öll þeirra kirkjur og orgel og prestalaun? Þeir hljóta að vera eitthvað meira á spenanum en þetta.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/09/08 16:46 #

Er hins vegar tilfellið ekki það að enginn skattgreiðandi greiðir beinlínis þessar upphæðir? Borga ekki allir sömu skatta, en ríkið hins vegar borgar þessa peninga í samræmi við hversu margir eru skráðir í hvert trúfélag? Þá skiptir auðvitað engu máli fjárhagslega fyrir einhvern einstakling í hvaða trúfélag hann er skráður.

Rétt. Ef allir meðlimir Þjóðkirkjunnar myndu skrá sig utan trúfélaga, þá myndum við spara amk ~750 milljónir á ári.


Viðar - 22/09/08 19:09 #

Beint til "evilpiggie"

Þú verður líka að taka með i reikninginn að það þarf að greiða aukalega fyrir alla prestsþjónustu, giftingar, skýrnir og jarðarfarir til dæmis, það gjald dugir næstum til að dekka prestslaunin og örugglega eru til dæmi um það að prestur hali inn jafnmiklu fé með þessum aukagreiðslum og laun hans eru hjá Þjóðkirkjunni.

Síðan borgar kirkjan varla krónu fyrir lóðirnar sem byggingar hennar standa á, því er sá kostnaður ekki sérlega mikill.

Síðan er fullt af fólki sem gefur aukalega til kirkjunnar, hvort sem það eru munir eða peningar, einhverjir sjóðir hingað og þangað eða fyrirtæki. Mikið af þessum orgelum og öðrum innanstokksmunum í kirkjum landsins eru keyptir fyrir gjafir (eða fengnir að gjöf).

Samkvæmt prestum og starfsmönnum þjóðkirkjunnar er þetta þó rétt hjá þér, þeir væla alltaf yfir fjárskorti. Hungrinu virðist aldrei linna í þeim maga. Mér finnst það hin mesta frekja að heimta meiri pening þegar við sitjum uppi með fjársveltar stofnanir á við Háskólann og spítalana.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/09/08 19:33 #

Viðar, í ljósi þess að byrjunarlaun ríkiskirkjupresta eru næstum því 500 þús á mánuði (Sælir eru fátækir!), þá þyrftu þeir að framkvæma ~70 giftingar til þess að tvöfalda launin sín (sjá Gjaldskrá um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar). Ræðan við greftrun kostar "bara" 8.900 kr.


Viðar - 23/09/08 14:31 #

Jæja, kannski ýkjur hjá mér en samt eru til dæmi að prestar framkvæmi fleiri en fjórar giftingar á dag, það gerist trúlega bara á einstökum tímum ársins og þá bara um helgar en samt.

9.300 fyrir fermingu? er það þá á hvern krakka eða fyrir alla athöfnina í heild sinni? Oft fermast tugir krakka á sama degi og getur það nú verið dágóður skildingurinn fyrir prestinn ef hver krakki borgar 9 þúsund kall, ef það fermast 20 krakkar er hann þá þegar kominn með hærri laun en ég hef á mánuði og það fyrir eins dags vinnu (og þó mun hann trúlega taka að sér önnur verk um daginn, kannski giftingu eða kistulagningu, jafnvel bæði).

Síðan eru prestar vinsælir í fyrirlestra í skólum og öðrum stofnunum, fá þeir greitt sér fyrir það eða er það inni launapakkanum þeirra hjá Þjóðkirkjunni?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 23/09/08 14:34 #

Við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að fyrirlestrar presta hjá félagasamtökum kosti um 10 þúsund kall.

-Dýrt er guðsorðið.. :)


Haraldur - 23/09/08 18:19 #

sælir. Mig langaði að benda á þessa slóð: http://www.kirkjan.is/?frettir/2008?id=70

þar sem kemur fram að mánaðarleg sóknargjöld eru 862 kr. Það er 10.344 kr. sem er tæplega en ekki rúmlega 10.500 kr. Einnig vildi ég benda á að það gjald sem ríkið borgar Þjóðkirkjunni fyrir hvern einstakling er 13.427 kr. Því er ríkið að fá 3.083 kr. meira á hvern skráðan einstakling heldur en trúfélög óháð Kirkjustofnunum eða HÍ.

Er nokkuð viss um að þetta sé rétt hugsað hjá mér, er einmitt að koma inn á þetta efni í lokaritgerð sem ég er að vinna að núna.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 23/09/08 19:05 #

Sæll Haraldur. Kerfið er þannig að allir borga sóknargjald. Fyrir hvern sem er svo skráður í ríkiskirjuna fær ríkiskirkjan svo EXTRA 3083 krónur (árlega)frá skattayfirvöldum.

-Um hvað er lokaritgerðin þin? :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/09/08 19:33 #

Ég sé ekki betur en að þú sért að endurtaka það sem Haraldur sagði.

Haraldur, á síðunni sem þú vísar á eru áætluð sóknargjöld ársins 2008. Endanlega tala var tíu krónum hærri á mánuði eða 872.-, 10.464,- á ári.


Sindri Guðjónsson - 24/09/08 13:45 #

http://ihald.blog.is/blog/ihald/entry/43638/

Þó að ég hafi verið trúaður þegar ég skrifaði þessa grein, þá var mér ekki alls varnað!


Haraldur - 24/09/08 18:27 #

Sælir félagar. Takk kærlega fyrir að benda mér á þetta Matti, gætirðu samt komið með link á hvar þú sást þessa endanlegu tölu? Ég þyrfti að hafa linkinn í heimildaskránni á lokaritgerðinni minni.

Annars þá er þetta lokaritgerð í menntaskóla og er ekki alveg búið að ákveða titil og rannsóknarspurningar strax en þetta mun tengjast rekstri Þjóðkirkjunnar og gæti verið að ég komi inná laun presta og sóknargjöld t.d. en ég mun skoða þetta að einhverju leiti útfrá hagfræðilegu sjónarmiði og hugsanlega siðferðislegu sjónarmiði líka.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/09/08 19:05 #

Því miður get ég ekki vísað á heimildir á netinu, þessar upplýsingar höfum við frá Dóms og kirkjumálaráðuneyti. Við sendum þeim fyrirspurn fyrri hluta þessa mánaðar og fengum svar um hæl.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/09/08 19:06 #

Sæll Haraldur. Við sendum nú bara fyrirspurn á biskupsstofu (að mig minnir) og fengum nýjstu tölur.


Haraldur - 26/09/08 14:49 #

já ég skil, takk fyrir upplýsingarnar.


Árni Árnason - 28/09/08 11:49 #

Í sögu sem ég hef heyrt sagði eitt sinn maður:

"Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra."

Í þessum anda höfum við sætt okkur við ýmisst óréttlæti og tölum gjarna um að hlutir séu barn síns tíma, eigi uppruna sinn í öðrum tíðaranda o.s.frv. Umburðarlyndi gangvart fáfræði fyrri kynslóða heitir þetta á fínu máli og á að stilla okkur og róa.

Þetta á alls ekki við um helvítis sóknargjöldin.

Ég get orðið svo bálillur útaf þessum andskotans sóknargjöldum einmitt vegna þess að þau eru tilkomin GEGN betri vitund þeirra sem komu þeim á. Þau eru ekki inni í stjórnarskránni fyrir gamaldags hugsun eða fornan samfélagsanda, (að félagsgjöld til trúfélags séu í stjórnarskrá er auðvitað brandari útaf fyrir sig) nei þau eru í stjórnarskránni vitandi vits um ósanngirnina og óréttlætið sem í þeim er fólgin.

Þetta snerist augsýnilega um að skaffa kirkjuapparatinu peninga. Hvernig í ósköpunum komst þetta kjaftæði í stjórnarskrá? Jú hagsmunapotarar kirkjunnar, prestarnir ( hverjir aðrir ?) tróðu þessu inn, og til þess að breiða yfir það hversu fáránlegt þetta var voru þeir nógu kænir að leyfa öðrum "viðurkenndum" trúfélögum að fljóta með. Bæði var að ef önnur trúfélög hefðu ekki fengið að vera með hefði óréttlætið orðið áberandi, en það varð fyrir alla muni að fela, og svo hitt að viðurkennd trúfélög önnur en þjóðkirkjan voru öreindir í íslensku samfélagi á þessum tíma og skiftu því engu máli.

En nú voru góð ráð dýr. Aurahagsmunapotarar kirkjunnar sáu auðvitað í hendi sér að ekki mátti gefa neina undankomuleið frá því að Kirkjan fengi sinn skatt. Þá var einhver sem kom með þetta snilldarbragð: ( Gaman þætti mér að vita hvaða prestur var nógu gáfaður til að hugsa þetta upp ) Látum hina bara borga líka þó að þeir séu ekki í trúfélagi, þá verður engin fjárhagslegur hvati til þess að vera utan trúfélaga. Látum þá bara borga í eitthvað sem allir íslendingar eru stoltir af.

Það er algerlega á hreinu að gjald trúlausra til Háskólans er ekki tilkomið á hinn veginn. Það var sem sagt ekki þannig að menn hafi verið sérstaklega að leita að einhverjum tekjustofni fyrir Háskólann, og hugs-hugs-hugs a-ha, ég veit :Skattleggjum trúlausa.

Enn frekari sönnun þess að þessir kallar vissu uppá hár hvað þeir voru að gera, og vissu að það var hvorki sanngjarnt né réttlátt er sú staðreynd að þessi ákvæði stjórnarskrárinnar, um þjóðkirkju og sóknargjöld, eru auk upphafsdags Alþingis þau einu sem breyta má með almennum lögum.

Af hverju að setja eitthvað í stjórnarskrá sem breyta má með lögum ? Í þeirra orðastað má því segja: "Þetta er auðvitað rosalega hæpið og líklegt til að valda óánægju, en það má þá alltaf breyta þessu, ef einhver nennir, það nennir því vonandi enginn í bráð he - he - got you suckers."

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.