Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Athafnavani

Ríkiskirkjumenn gera mikið úr og réttlæta stöðu sína sem Lífsskoðunarfélag Ríkisins með því að vísa til trúfélagaskráningar og benda á að um 80% landsmanna séu skráð í þjóðkirkjuna.

Samkvæmt könnun Gallup á trúarlífi íslendinga frá 2004 segja samt einungis rétt tæp 40% aðspurðra að þeir trúi á guð og séu því kristnir í skilningi kirkjunnar.

Líkt og með stóran hluta Íslendinga var ég alinn upp á heimili sem ekki gerði mikið úr trú og trúarbrögðum en var samt algjörlega fast í menningu hefðarkristninnar, sem er svo sterk á Íslandi. Alls staðar í kring um mig sé ég eins fjölskyldur. Fjölskyldur sem teljast til dyggra meðlima þjóðkirkjunnar en eru í rauninni trúlausir þjónar hefðarkristninnar.

Þegar ég á við hefðarkristni á ég við að fjölskyldan er skráð í Þjóðkirkjuna en er samt ekki trúuð. Trúir sem sagt ekki á yfirnáttúrulegar verur eins og til dæmis þríeinan guð. Sækir ekki guðsþjónustur reglulega og iðkar ekki trú á neinn á hátt heima við né annars staðar en er samt sem áður pikkföst í athafnavana kirkjunnar.

Vana sem hefur í raun ekkert með trú að gera heldur einfaldlega “afþvíbara.” Hugsunarlaust áframhald á gamalli venju úr foreldrahúsum og þaðan úr afa og ömmuhúsi.Ákaflega þægileg og hentug sjálfvirk trúfélagsskráning barns í trúfélag móður og sinnuleysi margra foreldra í trúmálum veldur áframhaldi athafnavanans.

Þegar barn fæðist er það hugsunarlaust fært til skírnar hjá presti. Ekki af því að það hafi nokkuð með trú að gera heldur af því að þetta er alltaf gert svona og fólk spáir ekki í aðrar leiðir til nafngjafar og skráningar. Næstu samskipti fjölskyldunnar við kirkjuna eru svo áframhald á keðju athafnavanans þegar foreldrarnir gifta sig eftir fimm ár, ferming barnsins eftir fjórtán og jarðarför ömmu eftir átján ár.

Allt atburðir sem skipta fjölskylduna engu máli í trúarlegum skilningi enda stundar hún hvorki né leiðir hugann að trúmálum þess á milli. Aðeins inngrónir liðir í menningunni sem fólk fer í gegn um án hugsunar eða raunverulegra pælinga um innihald og tilgang.

Ég hef hugleitt þetta þegar ég hef verið við skírnir barna þar sem ég veit að foreldrarnir eru áhugalausir í trúmálum og reyndar nefnt þetta við kunningjafólk mitt eftir skírn. Þau hlógu þegar ég minntist á hefðarkristni og athafnavana og sögðu þetta alveg rétt hjá mér. Pabbinn hafði ekki komið í kirkju frá fermingu og vonaði að hann þyrfti ekki aftur í kirkju fyrr en í kistu. Sögðust bæði algjörlega trúlaus en hefðu bara skírt hjá presti af því að „allir gera það og svo er það svo hátíðlegt.“

Mín litla könnun í nærumhverfi mínu helst ágætlega í hendur, bæði við 80% skráninguna í þjóðkirkjuna og líka að innan við 40% þeirra sem skráðir eru nýti sér þjónustu hennar á trúarlegum grundvelli.

Hinir eru í raun hefðarkristnir og notfæra sér bara helstu athafnir kirkjunnar svo sem skírn, fermingu, giftingu og jarðarför af menningarlegum hefðarvana sem skapast hefur vegna ógnarvalds, hótana og nauðungar kirkjunnar yfir Íslendingum síðustu árhundruðin.

Sigurður Ólafsson 29.09.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Arnar - 29/09/08 10:41 #

Ég gæti sagt nákvæmlega sömu sögu, allir í kringum mig mæta bara í kirkjur þegar einhver deyr.. hálf þunglyndislegt eitthvað.


Svanur Sigurbjörnsson - 29/09/08 11:15 #

Sæll Sigurður og takk fyrir greinina. Þetta er þarft að minnast á því svona er þetta. Fólk virðist ekki hafa haft ímyndunarafl til að gera þetta öðru vísi þrátt fyrir trúleysi, en auðvitað var fólk félagslega útskúfað ef það dyrfðist að fara aðrar leiðir. Nú eru veraldlegar siðrænar athafnir Siðmenntar nýhafnar og hefur gengið mjög vel. Sumir hugsa þessu þó þegjandi þörfina. Fyrir marga er þetta uppvakning og mikill léttir. Loksins eitthvað fyrir mig! Það er svolítið sérstakt með Faðir vorið. Fólk á erfitt með að slíta sig frá því þó það sé trúlaust og það er vegna þess að það var þulið í barnæsku með þeim aftur og aftur. Þessi þula er sefandi og það að allir fari með hana í einu hefur ákveðinn áhrifamátt á mannshugann.


Heiðrún - 29/09/08 21:53 #

Þetta er svo satt hjá þér. Ég tók fyrst eftir þessu u.þ.b. ári eftir fermingu þegar ég fór að pæla mikið í trúmálum og átta mig á að ég ætlaði að velja trúarleiðina fyrir mig. Ég áttaði mig á að ég (og flestir vinir mínir) vissi mjög lítið um kristna trú og Biblíuna þrátt fyrir fermingarundirbúninginn, en þar lærði ég að allir ættu að vera góðir við mömmu sína o.s.frv. Það er auðvitað rétt en að taka kristna trú snýst um meira en það. Mér finnst að það eigi að aðskilja ríki og kirkju. Þá geta þeir sem eru trúaðir mætt í kirkju en hinir ekki. En það virðist vera sátt um okkar séríslensku kristnu trú og trúarhefðir. Of margir vilja ekki breyta neinu. Ég er ekki sammála þér í því að íslenska kirkjan sé ógnarvald sem noti hótanir, allavega ekki síðustu 300 árin.


Ásta Elínardóttir - 29/09/08 22:22 #

Mér finnst einmitt vera kominn smá vitundarvakning í þjóðfélagið, eða þ.e.a.s. mér finnst fólk vera byrjað að ákveða sig hvort það sé trúlaust, guðlaust eða trúað.

Nú er ég ófermd líkt og móðir mín og því aldrei talist sem þjóðkirkjuþegn. Ég hef ávallt hagað mér samkvæmt mínu trúleysi og meðal annars staðið í ströngu við að spyrja fólk afhverju það gerir hluti (s.s. skíra, ferma og þess háttar) og núna nýverið hef ég verið að fá greinabetri (greinabetri kannski ekki besta orðið en hei gefið mér séns) svör þar sem manneskjan er þá trúuð að kirkjunnar sið og svo hef ég einnig tekið eftir því að fólk er að færa sig undan hefðinni og tekið sjálfstæðar ákvarðanir um trúleysi sitt og barna sinna sem ég sé t.d. í mæðrahópnum sem ég tilheyri en þar vorum við 4 af 9 sem sendum börnin ekki undir skírn og ekki nema 2 sem gerðu það "afþvíbara".


gimbi - 29/09/08 22:24 #

Svo ég höggvi nú í sama knérunn, enda er það viðkvæðið hér.

Það að átta sig á því að Bíflímyndirnar og furðusögurnar eru nú kannski ekki allar kórréttar, jafngildir ekki hinu að það sé ekkert merkilegra við þennan heim en bara það sem vísindamenn geta fjallað um.

Það er svo ótal margt í hlutskipti manna sem vísindamenn kunna engin skil á. Og þeir gera heldur ekki kröfur til þess að geta skýrt þvílíkar reynslusögur manna.

Annað væri beinlínis fáránlegt!

"Athafnavani" er reyndar orðskrípi. Vani byggir á athöfnum.

En gagnrýni ykkar á kirkjunnar menn á fyllilega rétt á sér.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/09/08 04:44 #

"Athafnavani" er reyndar orðskrípi. Vani byggir á athöfnum.

Hér er verið að tala um kirkjulegar athafnir, sbr. athafnaþjónusta. Vani byggir ekki á kirkjulegum athöfnum, er það nokkuð?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/09/08 09:18 #

Nú er ég ófermd líkt og móðir mín og því aldrei talist sem þjóðkirkjuþegn.

Ef móðirin hafði ekki fyrir því að skrá sig úr þjóðkirkjunni var Ásta skráð sjálfkrafa í ríkiskirkjuna við fæðingu - og báðar teljast því "þjóðkirkjuþegnar".

Hins vegar þarf að skíra barn til þess að það teljist löggildur meðlimur þjóðkirkjunnar, en það kemur ekki í veg fyrir að ríkiskirkjan hirði sóknargjöld af óskírðum "þegnum".


Ásta Elínardóttir - 30/09/08 14:28 #

Mér var sagt á meðgöngu minni að barnið mitt yrði skráð á sama hátt og ég í hagstofunni semsagt utan trúfélaga. Og að ég á sínum tíma ásamt systkinum mínum hefðu verið skráð á sama hátt og móðir okkar sem sagði sig úr þjóðkirkunni 18 ára að aldri. Allaveganna eru móðir mín, ég, litla systir mín og dóttir mín ekki skráðar í þjóðkirkjuna heldur utan trúfélags þó að faðir minn og maki minn eru báðir skráðir í þjóðkirkjuna.

Er hagstofan kannski að ljúga að mér er þeir segja mig skráða rétt? Þ.e.a.s. utan trúfélags? Og ef svo er hvernig fæ ég það þá leiðrétt fyrir mig, móður mína, systir mína og dóttur mína?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/09/08 14:45 #

Nei, þetta er rétt hjá þér Ásta. Reynir setti þann fyrirvara að ef móðir þín hefði verið skráð í trúfélag hefði sú skráning erfst til þín og svo þinna barna. Trúfélagaskráning erfist í kvenlegg.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/09/08 15:48 #

Ásta, þú getur sent fyrirspurn um skráningu þína (og dóttur þinnar) á vefsíðu Þjóðskrár, hérna, ef þú vilt vera viss.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/09/08 18:35 #

Það er reyndar ágætis hugmynd að senda fyrirspurn um þetta. Ég veit persónulega um mann sem skráði sig utan trúfélaga og svo þegar hann forvitnaðist um það nokkru síðar hvort hann væri ekki örugglega skráður rétt þá kom í ljós að hann var skráður í einhvern lítinn jesúsklúbb (votta jehóva eða 7unda dags aðventista eða eitthvað álíka) og hann þurfti að þá að láta leiðrétta það því Hagstofan hafði greinilega klúðrað þessu. Þannig að það er alls ekki vitlaust að senda fyrirspurn því Hagstofan hefur gert mistök í þessu áður.


F - 30/09/08 23:53 #

Var í heimsókn á Íslandi síðastiðið sumar og fór í 5 brúðkaup. Var að pæla eftir það að það vantar fyrirtæki á Íslandi, sem myndi sérhæfa sig í spennandi SKEMMTILEGUM ókristnum athöfnum. Pælið í því hvað væri hægt að gera þessi fyrirbæri skemmtileg, t.d. giftingar, með því að halda þetta upp á fjalli, inn í hellum eða hvar sem fólki dettur í hug!!Hægt að nota ímyndunaraflið!!....Eða jafnvel að hafa þetta inn í kirkjum ef fólk endilega vill þetta "afþvíbara" dæmi en hafa raunverulegt val um hvort þetta sé kristin athöfn eða ekki. Þar sem vandinn liggur í því að fólk nennir ekki að vera með eitthvað vesen í núverandi kerfi og skírir bara þrátt fyrir að vera ekki neitt trúað. Þurfum þess vegna að byrja á byrjunni að aðskilja ríki og kirkju, þannig að allir gætu notað kirkjurnar fyrir svona eins og þeim sýndist, hvort sem þeir eru kristnir eða ekki!


Svanur Sigurbjörnsson - 01/10/08 10:52 #

Til "F" hér að ofan Sæll/sæl Siðmennt er með þessa þjónustu sem þú nefnir. Hún byrjaði í lok maí og hefur gengið vel. Í þeim athöfnum má nota ímyndunaraflið innan þess ramma sem hæfir viðfangsefninu. Siðmennt er ekki fyrirtæki heldur hugsjónafélag og því er þjónusta þess ódýr. Upplýsingar um þjónustuna má finna á www.sidmennt.is


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 19/01/09 02:21 #

Að ofan talar Ásta Elínardóttir um ákveðna vitundarvakningu í þjóðfélaginu, og ég er sammála því. Ég hef tekið eftir því að sífellt fleiri í mínum kunningjahópi ákveða að nefna það hversdagslega að þeir séu trúleysingjar, eða merkja sig þannig á „Fésbókinni“. En það hefur líka komið mér á óvart að ákveðnir kunningjar merkja sig sem mótmælendakristnir, eða lúþerskir og þannig fram eftir götunum.

En það sem mér finnst jákvætt við þetta allt saman er að þrátt fyrir ákveðna fordóma sem maður heyrir úr öllum áttum - „Hvernig geturðu kennt muninn á góðu og illu án trúar?“, „Trúleysingjar eru siðlausir“, „Allir hafa einhverja trú“ og jafnvel „Vísindi eru trúarbrögð líka“ - þá eru mun fleiri tilbúnir til að segjast vera trúlausir en áður. Það að margir aðrir séu trúaðir ætti ekki að koma mér á óvart; í gamla daga voru nánast allir trúaðir. Mikið af þessu trúaða fólki stundar eflaust hefðarkristni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.