Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vér fúndamentalistar

Alister E. McGrathÁ fyrirlestri Alister E. McGrath í hátíðarsal Háskóla Íslands í hádeginu í gær bar hinn landsþekkti og hógværi (að eigin sögn) trúmaður Davíð Þór Jónsson fram spurningu þar sem hann nefndi meðal annars til sögunnar öfgafulla trúleysingja (e: fundamental atheists). Spurning Davíðs snerist um biblíutúlkanir en mér þótti vísun hans í öfgatrúleysi áhugaverð.

Ég spurði McGrath skömmu síðar um þessa öfgafullu trúleysingja og hvort hugtakið hefði einhverja raunverulega merkingu. Væri trúmaður sem ferðast um heiminn og heldur fyrirlestra um trú til dæmis ekki alveg jafn öfgafullur og þessir meintu öfgatrúleysingjar.

Á næstunni munum við fjalla nánar um McGrath en í þessum pistli ætla ég að einblína á þessa spurningu.

Einstrengislegar skoðanir

McGrath svaraði í löngu máli en sagði í raun ósköp lítið. Ég gat þó ekki skilið hann öðruvísi en að þeir trúleysingjar sem gagnrýna trúarbrögð á ósanngjarnan máta væru öfgafullir en þeir sem ekki gagnrýna væru það ekki. Að mati McGrath eru þeir sem líta á heiminn svarthvítum augum eða hafa einstrengingslegrar skoðanir fúndamentalistar. Ég verð að játa að ég er nokkuð ákveðinn í mínu trúleysi og sumir gætu eflaust kallað það einstrengingslegt viðhorf en ég sé ekki að McGrath sé á leiðinni að skipta um skoðun og afneita Gvuði, að hans viðhorf sé á einhvern hátt "opnara". Ég er alltaf til í að skipta um skoðun ef ég fæ rök eða sannanir fyrir því að ég hafi haft rangt fyrir mér.

Richard DawkinsÞví miður gat ég ekki fylgt spurningunni eftir þar sem að lokum var komið en náði þó að ræða stuttlega við McGrath eftir fyrirlesturinn um öfgafulla trúleysingja og af hverju þeir fá þann stimpil frá trúmönnum eins og McGrath. Í samtali okkar rifjuðum við upp að einnig er algengt að talað sé um "herskáa" trúleysingja (e: militant atheists) og nefndi McGrath Dawkins í því samhengi en algengt er að Dawkins sé sagður herskár. McGrath kom með ágætan punkt, það er algengt að aðrir trúleysingjar noti þessa stimpla á þá trúleysingja sem þeim finnst ganga of langt. Þetta þekkjum við í Vantrú ansi vel.

Það er forvitnilegt að bera það saman hvaða skilyrði trúmenn þurfa að uppfylla til að fá stimplana öfgafullir eða herskáir. Þegar Davíð Þór bar upp spurninguna skilgreindi hann sjálfan sig sem hógværan trúmann en við vitum vel að hann lítur á félaga í Vantrú sem fúndamentalista.

Öfgafullir trúmenn

Baldur Freyr Einarsson Við höfum flest einhverja mynd af því hvernig öfgafullir trúmenn eru. Myndin sem kemur í huga okkar er af bókstafstrúðu fólki sem telur reglur trúarbragða æðri en reglur samfélagsins, trú þeirra er djúp og óhagganleg . Öfgafullir trúmenn eru íhaldssamir og telja að hið opinbera eigi að skipta sér af einkalífi fólks. Eru gjarnan á móti fóstureyðingum, getnaðarvörnum og kynlífi fyrir hjónaband, efast um Þróunarkenninguna en dettur ekki í hug að efast um nokkuð í Biblíunni enda vilja þeir kenna sköpunarkenningu í skólum. Öfgafullir trúmenn standa fyrir bænagöngu til mótvægis við gaypride og prédika yfir lýðnum að þjóðfélagið sé á leið til helvítis nema við aukum trúboð í skólum.

Herskáir trúmenn ganga skrefinu lengra og beita jafnvel ofbeldi til að ná sínu fram.

Öfgafullir trúleysingjar

Trúleysingjar hafa minna fyrir því að fá öfgastimpilinn og reyndar virðist stundum nægilegt að gagnrýna trúarbrögð opinberlega. Kannski telja einhverjir að nóg sé að hópur sé fámennur til að skilgreina megi hann öfgafullan, að meirihlutinn sé ávallt hógvær en þeir sem gagnrýna ríkjandi ástand séu óalandi öfgamenn.

Staðreyndin er að þeir trúleysingjar sem ég hef kynnst deila flestum skoðunum með hógværa trúmanninum Davíð Þór. Viðhorf okkar til mannréttinda eru vafalaust afar lík, ég veit að Davíð deilir skoðunum mínum á réttindamálum samkynhneigðra og þó við séum eflaust ósammála um margt í pólitík erum við alveg örugglega álíka miklir lýðræðissinnar. Það eina sem skilur öfgafullu trúleysingjana frá guðfræðinemanum hógværa er viðhorfið til kristinnar trúar. Hann trúir á Jesús, við ekki. Við erum á móti trúboði í skólum, ekki hann.

Benny HinnSamt er hann hógvær, við öfgafull. Hann í hinni hófsömu miðju en við úti á jaðrinum með fólki sem hatar homma samkynhneigð og telur að konan eigi að vera undirgefin. Það er víst ekkert sem greinir að hyskið sem flytur hingað til lands kraftaverkaloddara og þá sem benda á að svik séu í tafli.

Ég hef ekki orðið var við að herskáu trúleysingjarnir beiti ofbeldi til að fá sínu fram. Reyndar hafa trúmenn í einhverjum tilvikum endurskilgreint ofbeldishugtakið og sakað trúleysingja um andlegt ofbeldi þegar þeir gagnrýna trú þeirra. Því miður fyrir þá tek ég ekki mark á slíkri útvötnun á ofbeldishugtakinu því annars væri verið að fremja andleg fjöldamorð á trúleysingjum á hverjum sunnudegi.

Þetta er bara pólitík

Persónulega skiptir þetta mig litlu máli, fólk má kalla mig herskáan eða öfgafullan. Réttast þætti mér þó að það kallaði mig trúleysisnöttara því ég hef iðulega kallað trúheitt fólk trúarnöttara.

Mér þætti samt eðlilegt að það væri eitthvað samræmi í þessari hugtakanotkun. Það er bjánalegt að saka þá trúleysingja sem gagnrýna trúarbrögð um ofstæki eða öfgar, jafnvel þó sú gagnrýni sé stundum áköf og ósanngjörn að mati trúmanna. Ef ekki hljótum við um leið að skilgreina alla þá er boða kristna trú sem öfgamenn, fúndamentalista. Við hljótum að segja að allir þeir sem starfa hjá ríkiskirkjunni séu fúndamentalistar ef við notum þennan mælikvarða.

Í lok síðasta árs varð ansi mikil umræða um trúmál hér á landi í kjölfar umræðu um kristilegt siðgæði í grunnskólalögum. Í þeirri rimmu var ansi algengt að fulltrúar kirkjunnar settu fram ýkjur og jafnvel ósannindi um trúleysingja og málstað þeirra. Biskupinn gekk svo skrefinu lengra og sagði samtökin Siðmennt vera "hatrömm" samtök. Herskáa öfgafólkið var þá einnig orðið hatrammt.

Ég nefni þetta hér því þegar ég minntist á þetta nýverið við prest ríkiskirkjunnar á heimasíðu hans sagði hann mér að þetta hefði bara verið pólitík. Eflaust er það sama pólitík hjá trúfólkinu að tala um öfgafulla og herskáa trúleysingja og vel má vera að við þurfum að sætta okkur við að vera kölluð fúndamentalistar. Það breytir því ekki að það er snælduvitlaust að reyna að halda því fram að guðfræðineminn Davíð Þór Jónsson sé hógvær trúmaður en við í Vantrú og aðrir trúleysingjar sem látum raddir okkar heyrast séu fúndamental trúleysingjar. Við gætum alveg eins sagt að fólkið sem berst gegn mannréttindabrotum með Amnesty International sé öfgafullt en okkur dettur það ekki í hug.

Þetta ósamræmi gengur einfaldlega ekki upp. Allt tal um fúndamental trúleysingja er að mínu mati bull.


Þessu lauslega tengt:

Matthías Ásgeirsson 03.09.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja , Vantrú )

Viðbrögð


Kristinn - 03/09/08 11:53 #

Góður pistill Matthías.

Mér dettur í huga að benda á eitt atriði, vegna þessarar setningar:

"Ef ekki hljótum við um leið að skilgreina alla þá er boða kristna trú sem öfgamenn, fúndamentalista."

Nú vilja eflaust margir trúmenn meina að hægt sé að breiða út boðskapinn án þess að vera beinlínis að gagnrýna trúleysi, - þó að slíka gagnrýni og ljótan boðskap um trúleysi sé vitaskuld að finna í ritningunni.

Þannig mætti halda því fram að jákvæð umfjöllun um trúleysi sé sambærileg við jákvæða umfjöllun um trú, en gagnrýni á trú verði að bera saman við gagnrýni á trúleysi.

Þannig sé messa í kirkju ekki það sama og pistill á Vantrú, eða á mínu bloggi, um hvað trúin sé röng og vitlaus.

En þar sem Biblían segir það alrangt og hreinlega syndsamlegt, illt og afkáralegt að fylgja ekki Jesú - hafi maður heyrt um hann, fellur þetta reyndar um sjálft sig hjá mér, nema auðvitað gagnvart kirsuberjatínurunum, sem vilja meina að kristni sé umburðarlynd og boðskapurinn einungis fallegur.

Hvað segir trúfólk um þetta? Davíð Þór?

Eiga trúlausir að gera ráð fyrir því að allir kristnir beri virðingu fyrir skoðunum okkar og virði ákvörðun okkar um að hafna trú - þrátt fyrir orð Biblíunar um infidelana - og þar með leggja mest upp úr kyningu á trúleysi á fallegum nótum?

Eða eigum við að gera ráð fyrir að þið lítið á okkur sem syndugt skítapakk og gagnrýna trú á þeim forsendum að hún boði fáránlegt ranglæti og misskiptingu, einmitt vegna þess sem hún segir um trúleysi?

Veltur ekki harkan í umfjölluninni dálítið á þessu atriði?

mbk,


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/09/08 14:17 #

Það er ekkert að harkalegri gagnrýni eða umræðu út af fyrir sig. Biskup ríkiskirkjunnar og sumir prestar gagnrýna m.a.s. oft og iðulega trúleysi og trúleysingja harkalega í stólræðum sínum. Vandinn er bara þessi að þegar trúleysingi gagnrýnir harkalega er hann stimplaður ofstækismaður, en biskup og prestarnir sleppa við allt svoleiðis, þótt enginn sé munurinn.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/09/08 14:45 #

Maður sem fylgir ritningunni í einu og öllu er bókstafstrúarmaður - og að öllum líkindum geðveikur, a.m.k. stórhættulegur öðrum mönnum. Um leið og trúmaður ákveður að líta fram hjá morð-boðunum Biblíunnar og öðrum óhroða í því riti er hann orðinn "hófsamur".

Ef marka má ummæli biskups, presta og fleiri sem hreykja sér á kristsjálknum eru trúleysingjar stórhættulegt fólk, hatrammt og siðlaust. Ef þið bendið mér á trúleysingja sem fullyrðir að allt sé leyfilegt - vegna þess að enginn guð er til - skal ég stimpla hann öfgafullan. Ég hef hins vegar ekki orðið var við neinn slíkan í hópi þeirra sem gagnrýna túarbrögð hér, eða aðra vitleysu.

Þannig hljóta þeir trúleysingjar sem hér tjá sig að teljast hófsamir, a.m.k. á sama hátt og þeir sauðir kirkjunnar sem hæst jarma.


Svanur Sigurbjörnsson - 04/09/08 18:29 #

Ágætis hugvekja hjá þér Matti. Útvötnun hugtaka er því miður algeng og það er ótrúlegt að biskup stærsta trúarsafnaðar á Íslandi sem hefur háskólamenntun að baki sér skuli nota orðið "hatrammt" á svo óábyrgan máta. Þegar það er orðið "herskátt" að gagnrýna með rökum og "hatrammt" að biðja Þjóðkirkjuna að vera ekki með trúarlega starfsemi í opinberum skólum allra landsmanna og virða þannig mannréttindi, er fokið í ansi mörg skjól. Getur þetta talist andlegur leiðtogi? Hver getur vitað af þessu og verið enn í þessum söfnuði?
Sama á við um hugtakið "öfgar". Það þarf að vita hvernig það er skilgreint áður en því er kastað fram. Mikill áhugi á einhverju er ekki það sama og vera öfgafullur. Þetta virðast ekki margir skilja og nota því öfga- hitt og öfga- annað um allt mögulegt. Þetta er ýkt vitlaust ;-)


gimbi - 04/09/08 23:47 #

(...svo þetta verði ekki bara já-kórinn)

Þetta er ágæt og áhugaverð pæling hjá þér Matti. Og ég er alveg sammála þér í meginatriðum.

En þú ert svolítið að flæmast um með nokkrar skilgreiningar á því hvað má teljast vera t.d. „fundamental trúleysingi".

Þú virðist leggja að jöfnu þessi hugtök:

  1. Fundamental atheist
  2. Militant atheist og
  3. Öfgafullur trúleysingi.

Auðvitað er enginn trúleysingi „fundamental" í sama skilningi og Jésúhopparar með sitt Biflídund.

En trúleysingjar geta samt verið öfgafullir. Það er augljóst, eins og svo mörg dæmi sanna.

Einn háttur (sem á algerlega "pósitívískan" máta sýnir að sú er raunin) felst einfaldlega í þeim fjölmörgu dæmum um trúleysingja sem eru reiðubúnir að stökkva fram, hvenær sem færi gefst til að halda fram sinni hugmynd, líkt og þeir hugsi nánast um ekkert annað.

Eru það ekki „öfga-trúleysingjar"?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 08:10 #

Vandamálið er náttúrulega að ég veit allavega ekki um neina sem eru svona eins og þú lýsir. Heldurðu að við séum í vinnunni, fjölskylduboðum og partíum sífellt að ræða þessi mál? Nei, við fáum útrás í gegnum Vantrú.


Guðmundur I. Markússon - 05/09/08 08:41 #

Þetta er áhugaverð hugvekja hjá þér Matti.

Ég skelli mér í nei-kórinn -- tek fram að eftirfarandi er aðeins tilraun, kannski hugvekja:

Þetta snýst um tvær spurningar sem verður að aðskilja:

  1. Eru til fundamental guðleysingjar?
  2. Eru ákveðnir aðilar meðal guðleysingja fundamentalistar?

Mitt svar við 1. er einfalt: AUÐVITAÐ! Að sjálfsögðu eru til fundamentalistar meðal guðleysingja. Að halda öðru fram, eins og Dawkins hefur gert (sb. beina tilvitnun McGrath úr God Delusion), er naívt. Þetta segi ég ekki mér og öðrum guðleysingjum til vansa: Þetta er ekkert annað en að horfast í augu við að við guðleysingjar eru fólk.

Varðandi 2. er það matsatriði í hvert skipti og eitthvað sem alltaf verður umdeilanlegt. Eru Vantrúarpennar fundamentalistar? Stundum. Er Dawkins það? Stundum. Dett ég í þennan pitt? Vafalaust stundum. En það er aðeins mitt mat.

En hvernig má skilgreina fundamentalist atheist?

Ég tel að það séu þeir sem telja að ekki sé neitt compromis þegar kemur að trú og vantrú. Til dæmis, tel ég, ásamt sjálfagt flestum trúleysingjum, að engin málamiðlun sé á sviði vísinda og menntunar. Þess vegna kemur það ALDREI til greina að kenna sköpunarhyggju eða intelligent design í skólum (sem betur fer er það ekki vandamál hérlendis). Hérna á við að berjast með kjafti og klóm.

Hins vegar einkennist dagsdaglegur hversdagsleikinn úti í samfélaginu einmitt af gráum svæðum. Þar þurfum við compromis. Þar þurfum við að mætast á miðri leið og geta átt samskipti án stöðugra átaka. Hér á ekki við að berjast með kjafti og klóm, ekki alltaf amk.

Ég tel m.o.ö. að þeir guðleysingjar sem segja að hvergi megi gefa eftir, að hvergi sé hægt að gera málamiðlun, séu fundamentalistar. Þarna horfi ég sérstaklega til hugtaksins. "Fundamentalism" í kristinni trú vísar til þeirra bandarísk ættuðu hreyfinga sem líta svo á að það verði að snúa aftur í fundamentið, Biblíuna, og að engin málamiðlun sé möguleg.

Afstaða Dawkins minnir (amk. oft) á þetta: Að hafna supernaturalisma er fundamental og ekki hægt, ekki á neinum sviðum, að gera compromis með það. Til dæmis þessi tilvitnun:

... the big war is not between evolution and creationism, but between naturalism and supernaturalism ... the 'sensible' religious people are really on the side of the fundamentalists, because they believe in supernaturalism. That puts me on the other side (Dawkins í Wired Nov. 2006).

Sem sagt, ekkert compromis. Þetta er ekki aðeins stríð á sviði vísinda og menntunar heldur á öllum sviðum og þegar öllu er á botninn hvolft, eru allir trúmenn fúndamentalistar. Andstæðingar.

Sam Harris tel ég einnig gott dæmi, sb. þessi greinartitill:

Science must destroy religion (í J. Brockman, ritstj. 2006: What is your dangerous idea? s.150-153).

Í stuttu máli: Þeir sem telja (eða tala eins og) að ekkert compromis sé mögulegt lít ég á sem fundamentalista. Þetta á við hvaða fúndament sem er, hvort sem það er Biblían, naturalismi eða hráfæði.

Takið eftir því að með þessu hef ég skilgreint afstöðu Þjóðkirkjunnar til trúleysingja, húmanisma og trúaruppeldis sem fundamentalisma. Þjóðkirkjan telur að ekkert compromis sé mögulegt þegar kemur að því að vasast í trúaruppeldi æskunnar. Kristin fræði eru nauðsynleg til þess að tryggja heilnæmt uppeldi íslenskra barna. Því miður eru allt of margir sama sinnis í samfélaginu. Þessi afstaða er fundamentalismi. Ekkert má gefa eftir. Þetta sést best að áhrýnisorðum biskupsins um trúleysingja og hvernig kirkjan reynir að koma að skólastarfi.

(En eins og ég hef bent á í blaðagreinum er auðveld lausn á málinu: Leggja af kristin fræði og sinna fræðslu um kristna trú og þátt hennar í sögu okkar í gegnum trúarbragðafræði, bókmenntasögu og íslandssögu. Þetta myndi gera sjálft trúaruppeldið að hlutverki foreldra sem geta, t.d. nýtt sér sunnudagaskóla sem yfirleitt eru í næsta nágrenni.)

Kv. gim


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 09:01 #

Hvað áttu við með að Dawkins haldi því fram að það sé stríð "á öllum sviðum"? Þá með áherslu á "öllum".

Annars er greinin hans Harris hérna.


Jói - 05/09/08 09:12 #

Guðmundur, varðandi compromis, orðið sem þú ert að leita að er málamiðlun.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 12:56 #

En hvernig má skilgreina fundamentalist atheist?

Ég tel að það séu þeir sem telja að ekki sé neitt compromis þegar kemur að trú og vantrú. Til dæmis, tel ég, ásamt sjálfagt flestum trúleysingjum, að engin málamiðlun sé á sviði vísinda og menntunar. Þess vegna kemur það ALDREI til greina að kenna sköpunarhyggju eða intelligent design í skólum (sem betur fer er það ekki vandamál hérlendis). Hérna á við að berjast með kjafti og klóm.

Guðmundur, skil ég það rétt að þú telur alla þá sem segja að það komi aldrei til greina að kenna goðsögur sem vísindi í opinberum skólum séu "fundamental" trúleysingjar?

Er þetta ekki frekar óvenjuleg skilgreining hjá þér á "fundamental"? Myndirðu segja að þetta sé sú skilgreining sem er notuð þegar kristnir menn eða múhameðstrúarmenn eru kallaðir "fundamentalistar"?


Gudmundur I. Markússon - 05/09/08 16:15 #

Hjalti, þetta er sú skilgreining sem kristnir fundamentalistar komu með sjálfir á sínum tíma í byrjun 20. aldar, að mig minnir -- að þeir væru að snúa aftur í fúndamentið, sem sagt Biblíuna, og engin málamiðlun sé með orð Guðs. Sköpunarhyggja, og allt það. Þess vegna held ég að hún sé ekki óvenjuleg. Ég er fyrst og fremst að nota hugtakið á þennan hátt. En það er rétt, að hugtakið er nú oft notað um þá sem eru herskáir, og þetta fer oft saman.

Guðmundur, skil ég það rétt að þú telur alla þá sem segja að það komi aldrei til greina að kenna goðsögur sem vísindi í opinberum skólum séu "fundamental" trúleysingjar?

Nei, þarna misskilur þú mig alveg. Ég á ekki við þá sem berjast gegn trú á þennan hátt í skólakerfinu, heldur þá sem telja að baráttuna verði að flytja á öll svið samfélagsins, þar sem ídeal útkoman er sigur yfir supernaturalisma*. Ég tel tilvitnunina í Dawkins skýrt dæmi um þetta.

(hvaða orð er það, Jói? "yfirnáttúruhyggja";)

En ég tek einnig fram að ég kastaði þessu fram meira til umræðu en nokkuð annað.

*Orðskýring: Það þarf ekki að þýða að þeir haldi að fullnaðarsigur muni vinnast, heldur er það idealið. "Imagine no religion" og allt það.


frelsarinn@vantru.is (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 17:21 #

Augnablik Guðmundur. Grundvallaratriðið er að biblían er sama verkið og mun ekki taka breytingum. Vísindi eru kenningar sem taka breytingum, jafnvel kollvarpast með nýjum niðurstöðum. Sá sem vill að vísindi verði kennd í skólum getur og verður aldrei fundamentalisti. Ef hægt væri að sanna á vísindalegan hátt að einhver "vera" hafi skapað lífið á jörðinni myndu trúleysingjar taka því eins og menn. Þá væri það kennt í skólum möglunarlaust. Ef "veran" væri spaghettískrímslið gæti ég lofað þér að fundamentalistar kristninnar myndu kalla það gvuð til að "sanna" trú sína. Þannig er algjör grundvallar hugmyndafræðilegur munur á trúmanni og trúleysingja. Annar heimurinn er lokaður í bókstaf og dogma, en hinn algjörlega opinn en háður skynsemi og sannanlegum rökum.


Guðmundur Ingi Markússon - 05/09/08 18:38 #

Hmm ... ég er ekki að tala um að vísindi séu sambærileg við trúarbrögð. Hef aldrei haldið því fram.

Sá sem vill að vísindi verði kennd í skólum getur og verður aldrei fundamentalisti.

Ég er hjartanlega sammála. Hélt það hefði verið skýrt í svari mínu til Hjalta. Ég, sem er líka guðleysingi, vill vísindin sem mest í skólum. Ég tel, eins og ég sagði að ofan, að ALDREI komi til greina nein málamiðlun þar.

Ég er aðeins að kasta fram ákveðnu módeli eða skilgreiningu á því hvað fundamentalisti er, sem síðan er hægt að máta á mismunandi hluti, og hafna er svo ber undir.

Ég hallast að því að sá sem berst gegn sköpunarhyggju í barátunni millu evolution og creationism sé ekki fundamentalisti. Hann er aðeins að standa vörð um vísindin og upplýsinguna.

Sá sem hins vegar víkkar út sviðið yfir í baráttu gegn ÖLLUM supernaturalisma er fundamentalisti -- ein afleiðing þess er sú að öll mörk útmást og ALLIR trúmenn verða andstæðingar (sb. Dawkins).

En, með vísun í athugasemd Hjalta, þurfa slíkir menn ekki endilega að vera herskáir. Dawkins er gott dæmi um það - sb viðtalið við McGrath.


gimbi - 05/09/08 18:58 #

Óli Gneisti, ég þekki mann sem vingaðist við föður minn. Þegar honum var orðið ljóst að um vináttu milli þeirra væri að ræða, þótti honum ástæða til að taka sérstaklega fram að hann gæti því miður ekki mætt í útför föður míns í kirkju (ef og þegar þar að kæmi), því hann væri trúleysingi.

...öfgafullt?

Það er misjafn sauður í mörgu fé.


Guðmundur Ingi Markússon - 05/09/08 19:07 #

Óli Gneisti, það var ekki ætlunin að horfa fram hjá þér, afsakaðu það. Ég vona að mín svör til Hjalta og f hafi skýrt hvað ég meina.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 20:12 #

Guðmundur: Þú setur þetta náttúrulega svo ólíkt upp og þeir sem við erum að tala um. Þeir setja upp hógværu trúmennina og fundamentalist trúleysingjana sem andstæður þó munurinn sé einungis hvorum megin línunnar. Okkur er eiginlega sama hvernig fólk stimplar okkur en bendum á tvöfeldnina sem liggur þar á bak við.

Gimbi: Ég veit ekkert um sögu þessa trúleysingja sem þú nefnir. Ég get hins vegar sagt af eigin reynslu af jarðarförum að mér finnst prestar oft vanvirða þann látna þannig að mér finnst það sárt. Ég hef líka lent í því að í ræðu prestanna sé ýmislegt sem er beinlínis árás á guðleysingja og ég á erfitt með það svoleiðis á þeim stundum. Þriðja atriðið er að mér finnst ég á köflum vera að vanvirða trú fólks með því að koma með mína afstöðu inn í kirkju, miklu frekar heldur en með þeirri gagnrýni sem ég hef skrifað á Vantrú.


Jon Steinar - 03/09/10 05:29 #

"Ég trúi því að guð sé til." Er fundamental afstaða og er rígbundin við trúmenn. Engin hófsemd þar. "Ég veit það ekki, hvort guð er til og læt það því liggja milli hluta í mínu lífi þar til annað kemur í ljós" Er hófsöm afstaða, sem ekki byggir ´ályktun, trú eða ógrunaðri fullyrðingu. Það er afstaða trúlausra og getur með engu talist til fundamentalisma. Fundamentalimi er náttúrlega kallaður svo af því að menn taka ssér fúndament, sem ekki er kvikað frá. Hjá kritnum fundamentalistum er sökkull Biblían. Trúlausir eiga ekkert slíkt að byggja á. Þeir láta ér ngja almenn líkini og staðreyndir og byggja ekki líf sitt utan um fabúlur, sem ekki er sýnt að hafi nokkurn kost né áhrif í lífi þeirra.

Sá sem telur ig hafa öll svörin um tilvistina klár í kiljuformi þegar hann kemur í heiminn, getur ekki lært né þroskast eðlilega. Það er hinn innbyggði vitmunalegi erfðagalli þessa fólks, sem bara versnar með aldrinum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.