Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fimm mínútna biblían

Fimm mínútna BiblíanÞjóðkirkjuprestar reyna að varpa þeirri mynd á stofnunina sína að hún sé forsvarsmaður hófsamrar trúar og fræðilegrar umfjöllunar um biblíuna. Að ógleymdum málflutningi þeirra sjálfra, þá gefa bækurnar sem Skálholtsútgáfan, útgáfufélag ríkiskirkjunnar, einnig sterklega til kynna að svo er raunin alls ekki. Ein af þessum bókum er Fimm mínútna biblían, en hún er full af barnalegum biblíutúlkunum, vanþekkingu á biblíunni og trúarviðhorfum sem flokkast hæglega sem öfgatrú.

Hvaða bók er þetta?

Hugmyndin á bak við bókina er sú að maður hljóti að hafa tíma til þess að pæla í biblíunni í fimm mínútur á dag. Þess vegna er ein blaðsíða fyrir hvern dags ársins, með texta úr biblíunni og smá útskýringu frá höfundinum. Ekki slæm hugmynd, en því miður er höfundurinn Knut Tveitereid „ungdómsprestur“ í norsku ríkiskirkjunni.

Vanþekking á biblíunni

Höfundurinn virðist vera algjör bókstafstrúarmaður, þannig að honum er mikið í mun um að sanna algjöran áreiðanleika biblíunnar. Á einum degi er vitnað texta í öðru Pétursbréfi, þar sem höfundurinn, sem segist vera Símon Pétur, segist ekki segja „uppspunnar skröksögur“ heldur hafi hann verið sjónarvottur (2Pét 1.16-21). Undir heitinu „Upplýsingar frá fyrstu hendi“ segir Knut:

Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar við lesum ýmsar frásagnir Biblíunnar að mörg þeirra sem þar segja frá heyrðu og sáu það sem fram fór. Voru þátttakendur í viðburðunum. Upplýsingarnar eru því frá fyrstu hendi og voru ekki uppspunnar skröksögur:..(bls. 334)

Aðalgallinn við þessi rök er líklega sú staðreynd að annað Pétursbréf er að öllum líkindum fölsun, það er ekki eftir Pétur. Höfundurinn sem segist vera traustsins verður lýgur. Dæmið sem Knut kemur með fyrir áreiðanleika biblíunnar er frábært dæmi um óáreiðanleika hennar. Þetta er meira að segja viðurkennt í innganginum að bréfinu í nýju þýðingu biblíunnar:

Síðara almenna Pétursbréf var lengi eignað Pétri postula en nú álíta flestir að bréfið sé skrifað eftir daga hans og sé yngsta bréf Nýja testamentisins. Höfundur þekkir bréf Páls postula (3.16) og er bréfið að hluta til nær samhljóða Júdasarbréfi. Bréfið fjallar um endurkomu Krists. Menn virðast hafa verið farnir að spyrja: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama“ (3.4). #

Barnaleg túlkun

Ríkiskirkjupresturinn virðist hafa afar barnalegar skoðanir á ýmsum frásögnum biblíunnar. Ekki nóg með það að hann virðist tala um örkina hans Nóa eins og um hún hafi raunverulega verið til (bls 265), heldur virðist taka bókstaflega sögur sem ekki einu sinni höfundar frásagnarinnar gætu hafa litið á sem annað en skáldskap:

Stundum er það kostur að eiga einfalda trú
Fólk sem ekki trúir á Guð segir oft í samtölum eitthvað á þessa leið:
- Trúir þú því virkilega að móðir Jesú, hún María, hafi verið hrein mey?
- Trúir þú því virkilega að Jesús hafi lægt storm?
- Trúir þú því virkilega að Jónas hafi verið í maga hvalsins í þrjá daga?
- Trúir þú því virkilega að asnar geti talað?
Það er ekki auðvelt að gefa skynsamlegt svar við öllum þessum spurningum. Ég viðurkenni fúslega að þetta hljómar allt dálítið undarlega ef maður trúir ekki á Guð. En ef þú trúir á Guð á annað borð þá veistu að það er ekkert mál fyrir hann að koma því svo fyrir að ung kona ali barn en haldi þó meydómi sínum. Og það er heldur ekkert mál fyrir hann að kyrra storm eða að láta asna tala. Þetta er ekki flóknara en svo. (bls 273)

Þó svo að guð gæti vissulega látið þessa hluti gerast ef hann væri til, þá breytir það því ekki að nema maður sé virkilega mikill bókstafstrúarmaður, þá hlýtur maður að sjá að sögur um talandi dýr eru þjóðsögur. En það merkilegasta er að hann lætur söguna um Jónas og hvalinn í þennan lista. Jónasarbók virðist nefnilega miklu frekar vera einhvers konar dæmisaga heldur en frásögn af einhverju sem á að hafa átt sér stað (inngangurinn í nýju þýðingunni er aftur sammála því) . Ef dæmisögur Esóps væru í biblíunni myndi norski presturinn líklega líka trúa því að sporðdrekar og froskar gætu talað!

Upprisan

Knut er einnig úti að aka þegar kemur að umfjöllun hans á upprisunni. Hann segir til dæmis að einn af fjórum „stórmerkilegum atburðum“ sem gerðust um leið og Jesús dó hafi verið að:

grafir opnuðust og margir líkamar helgra látinna manna risu upp! Þeir gengu meira að segja um í borginni! (bls 263)

Já, það er líka stórmerkilegt að aðeins höfundur Matteusarguðspjalls hafi sagt frá þessum „atburði“ (eða þá sagnaritarar eins og Jósefus). Annað hvort fannst þeim fjöldaupprisa heilagra manna ekki nógu merkilegur atburður eða þá að þetta eru sögusagnir. Enn ótrúlegra er líklega kurteisi þessara helgu manna, en samkvæmt sögunni risu þeir upp við dauða Jesú á föstudeginum, en biðu með það að „ganga úr gröfum sínum og fara í borgina helgu“ eftir því að Jesús myndi rísa upp. (Mt 27.50-53)

Knut kemur líka með þau þreyttu rök að Jesús hljóti að hafa risið upp frá dauðum því að lærisveinarnir hans voru tilbúnir að deyja fyrir trúna á upprisu Jesú (bls 281). Knut virðist hins vegar vita að við vitum nánast ekkert um örlög lærisveinanna og að einu upplýsingarnar sem við höfum um dauða þeirra eru úr ritum sem eru augljós skáldskapur. Þess vegna talar hann um að „gamlar sagnir“ og „hefðir“ segi hitt og þetta um lærisveinana. Meintur píslardauði Péturs er gott dæmi, en Knut segir að hann hafi „[neitað] að láta krossfesta sig með sama hætti og Jesús og sneri höfuð því niður á krossinum.“ Heimildin okkar fyrir þessu er ritið Gjörðir Péturs, en í því riti talar hundur meðal annars við Pétur (Knut finnst það líklega ekkert ótrúlegt) og Pétur tekur þátt í einhvers konar galdraeinvígi (eins og í Harry Potter ) við trúvillingin Símon Magús sem tekur upp á því að fljúga um Róm.

Öfgar

Knut þessi telur djöfulinn vera raunverulega veru og segir að biblían segi frá nokkrum „staðreyndum“ um hann. Það er víst staðreynd að Satan var engill og að honum hafi verið varpað í undirdjúpin ásamt „fjölda engla sem gerðu uppreisn“, „hann tælir enn mennina frá Guði“ og að hann mun fá sinn lokadóm þegar Jesús kemur aftur (bls 251). Annars staðar í bókinni kemur fram að Satan spyr lesendurnar meðal annars „Stendur eitthvað í Biblíunni um að ekki megi stunda kynlíf áður en maður giftir sig?“ (bls 17). Knut vill greinilega meina það að í biblíunni komi fram að kynlíf fyrir hjónaband sé stranglega bannað í biblíunni og að það sé því djöfullegt.

Höfundurinn telur einnig tungutal vera mjög mikilvægt:

Tungutal
Guð hefur gefið okkur náðargáfur svo að við getum stutt við bakið hvert á öðru. Ein af þessum gáfum er tungutal. Þegar fólk talar tungum þá flytur það boðskap frá Guði á ókunnu máli sem það skilur ekki einu sinni sjálft. (Þegar þú heyrir fólk tala tungum í fyrsta skipta [sic] þá kann það að hljóma dálítið geggjað!) Þá getur það gerst að sú manneskja sem talar tungum þýði það sem hún var að segja eða einhver annar nærstaddur svo fólk skilji hvaða skilaboðum Guð er að koma á framfæri. Þannig getur Guð talað til safnaða og einstaklinga. Opni fólk ekki eyrun fyrir boðskap heilags anda þá missir það af miklu." (bls 144)

Heimskulegar afsakanir

Knut kemur líka með afskaplega heimskulegar afsakanir gegn sumri gagnrýni á kristna trú.

Eitt af aðalvandamálunum við kristna trú er tilvist hins illa í heiminum. Í umfjöllun sinni um bölsvandann (bls 270) viðurkennir Knut að „því miður hefur ekki enn fundist fullnægjandi svar“ við því hvers vegna guð myndi leyfa böl eins og náttúruhamfarir. Knut segir að „[s]umt af því viturlegasta sem sagt hefur veriðum málið er reyndar að finna í Jobsbók“ (fyrir þá sem muna ekki eftir Job þá er mæli ég með fínni endursögn frá South Park og þessari fimm mínútna endursögn. Sem er undarlegt þar sem að svarið sem guð gefur í Jobsbók virðist bara vera: „Ég er miklu sterkari og vitrari en þú, þess vegna ættirðu ekki að efast um að ég hafi góðar ástæður.“

Ef Jobsbók nægir ekki, þá segir Knut líka að við heimsendi (sem verður „stórkostlegur“ (bls. 44)) muni guð hvorst sem er gera allt gott og lesandinn á að muna að „við erum í sigurliðinu“. Knut útskýrir hins vegar ekki hvers vegna guð gerir ekki allt gott núna strax og hann gleymir að minnast á að samkvæmt kristinni trú munum við sem erum ekki í „sigurliðinu“ enda í helvíti.

Annað stórt vandamál sem kristnir menn standa fyrir er þessi seinkun á endurkomu Jesú, þar sem að hann sagði í guðspjöllunum að hann myndi koma aftur þegar samtímamenn hans voru uppi:

Það eru rúm 2000 ár frá því að Jesús sagði að hann kæmi brátt aftur til að setja á fót ríki sitt þar sem ekki væri grátur, sorg né sársauki. Ástæða þess að hann er ekki kominn er sú að sem flest fólk á að fá tíma til að skilja að Guð vill að það tilheyri ríki sínu. Það er þolinmæði hans sem veldur töfinni. (bls 155)

Það er erfitt að átta sig á því hver þessi afsökun er eiginlega. Ég held að hann haldi því fram að Jesús hafi fyrst ætlað að koma „brátt“ aftur þegar hann var að labba um Galíleu, en að þegar hann kom til himna hafi hann ætlað að gefa fólki tíma til þess að gerast kristið. Það breytir því ekki að Jesús hafði þá rangt fyrir sér þegar hann sagði ætla að koma brátt aftur. Knut reynir þó að minnsta kosti að koma með svar, ég man ekki eftir því að hafa lesið svar frá íslenskum presti.

Eitthvað annað

Á heimasíðu Skálholtsútgáfunnar stendur að Fimm mínútna biblían sé „mjög nútímaleg og gerir efni Biblíunnar ótrúlega aðgengilegt“, það er ekki rétt. Bókin er skrifuð af öfgatrúarmanni innan norsku ríkiskirkjunnar sem hefur barnalegan bókstafstrúarskilning á biblíunni. Höfundurinn virðist vera svo viss um að heimskuleg afstaða hans sé rétt að það fólk sem aðhyllist ekki skoðanir hans sé á einhvern hátt illt: „Jesús á ekki í neinum vandræðum með að hitta heiðarlegt fólk." (bls 281)

Trúfélag sem gefur út svona skruddu getur ekki þóttst vera fræðilegt eða hófsamt. Það er alls ekki þess virði að eyða mínútu á dag í þessa bók, hvað þá fimm.

Hjalti Rúnar Ómarsson 05.09.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Sigurjón - 05/09/08 13:54 #

Þessi afsökun á seinkomu Krists er alveg kostuleg og frábært dæmi um svona ad hoc "útskýringar" presta á vandamálum kristninnar... jú og annarra trúarbragða líka.

Gaman væri að spyrja hann þá hvort Jesús muni yfirhöfuð snúa aftur á meðan fólk heldur áfram að eignast börn. Þau þurfa jú að fá tækifæri til að skilja að Guð vill að það tilheyri ríki sínu.


Valtýr Kári - 05/09/08 14:30 #

Bíddu ha! Talandi asni? Ég vissi um talandi snákinn sem að fokkaði öllu upp í gróðurræktunarstöðinni Eden, en asni? Hvar?Hví er ég að heyra um þetta fyrst núna.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 15:02 #

Já, kristinfræðikennsla er í lamasessi.


Björn Ómarsson - 05/09/08 19:04 #

Þetta fannst mér skemmtileg grein, sérstaklega þar sem ég var að enda við að leggja frá mér bókina "Misquoting Jesus: The Story Behind Who Changed the Bible and Why" eftir nágranna minn, Bart D. Ehrman. Þessi stórgóða bók fjallar ítarlega um það afhverju maður getur ekki einusinni treyst því að það sem maður les í biblíunni eigi raunverulega að vera þar!

Meðal þess sem höfundurinn bendi á er að afritarar biblíunnar á fyrstu og annarri öld breyttu textanum til að hann félli betur að þeirra Theológísku, pólítísku og félagslegu gildum. Dæmi eru:

Theológískar breytingar: afritarar áttu það til að breyta textum sem snéru beint að guðleika Jesú Krists til að taka af allann vafa: texti 1. Tim. 3:16 segir í flestum handritum (afsakið að ég á þetta bara á ensku): Jesus christ is "God made manifest in the flesh". Þetta er frekar afdráttarlaust, en upphaflega var textinn: jesus christ "was made manifest in the flesh". Frekar tvírætt, finnst mér.

Pólítískar breytingar: Gyðingahatur jókst mjög á fyrstu öldunum eftir krist. Afritarar áttu það til að breyta texta guðspjallanna svo að Gyðingar fengu verri útreið. Dæmi um þetta eru seinustu orð Jesúss í lúkasarguðspjalli ("faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera"). Þessi orð má túlka sem fyrirgefningu guðs á syndum Gyðinga, og þessvegna var þessum orðum sleppt í mörgum handritum.

Félagslegar breytingar: Það eru góðar ástæðuur til að ætla að hlutur kvenna í kirkjum frumkristninar hafi verið mjög mikill. Bréf Páls bera þetta með sér, en afritarar (sem voru ekki sammála Páli um aðkomu kvenna að kirkjunni) breyttu bréfunum hans. Dæmi er þessi frægi texti um að Konur skuli þegja í kirkjunum (1 corrinthians 14), og svipaður texti í 1. Tim. 2:11-15, um að konur skuli ekki kenna, né hafa neitt vald yfir karlmanni. Páll skrifaði líklega hvorugann textann, þetta eru seinni tíma viðbætur.

(Þetta vekur hjá mér spurningar um það hversu réttmæt gagnríni vantrúarmanna á "grænsápu-biblíunna" er, en ég hef ekki kynnt mér þá gagnríni nógu vel til að geta ályktað um það)

Ég get ekki mælt nógu mikið með þessari bók fyrir alla sem hafa minnsta áhuga á biblíunni, trúaða og trúlausa. Þetta er fyndin og fróðleg bók eftir höfund sem veit um hvað hann er að tala, en er ekki fangi guðfræði sinnar, eins og þessi Knut Tveitereid virðist vera.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 20:16 #

Já, Ehrman er góður og alveg þess virði að líta á fleiri bækur hans.


anna benkovic - 05/09/08 23:22 #

Er að kenna "brauð lífsins" (kristin fræði) og finnst alltaf skrítið þegar "guð" er að tala við og velja "Ísraelsmenn"?

Þar er líka talað um "ísraelsmenn" sem voru leiddir frá Egyptalandi?

Minnir endilega að þetta hafi verið Gyðingar?

Var ekki Jerúsalem í Júdeu á þessum tíma?

Finnst Öll min þekking vera núll með þessum "nútímafræðum"....en kannski er þetta svona í gamla testamenntinu?

ÉG á svo gamla útgáðu (og þar er þetta ekki svona) en hvernig er nútímaútgáfan? Eru allir Gyðingar á tímum Móse Ísraelsmenn?

Ef svo hvar eru Júdeumenn þá?....og Jerúsalem? (er að tala um Brauð lífsins, sem þykist vera að lýsa gamla testamennti)???

PS;

Þetta er skyldunámsefni fyrir tíu ára grunnskólanema á öllu Íslandi!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/09/08 23:35 #

Valtýr Logi:

Þú getur lært um söguna af Balaam og asnanum hans í Legóbiblíunni

Björn Ómarsson:

Er Bart Ehrman nágranni þinn?

Annars mæli ég með bókinni hans um hinn sögulega Jesú, mjög góð: Jesus: Apocalyptic Prophet of the New Millennium

Hef ekki lesið Misquoting Jesus (en hef lesið svipaða bók eftir hann, The Orthodox Corruption of Scripture), en hún er örugglega góð.

Varðandi það að 1. Tim. 2:11-15 sé síðari tíma viðbót, þá eru 1. og 2. Tímóteusarbréf og Títusarbréfið (kölluð hirðisbréfin) öll talin vera fölsun (þeas ekki eftir Pál). Kannski veistu þetta, en mér fannst það hljóma eins og þú héldir að bara þessi hluti 1Tím væri ekki eftir Pál. Annars eru bréf Páls full af versum sem eru hugsanlega ekki eftir hann.


Björn Ómarsson - 06/09/08 01:11 #

Hjalti:

Jújú, ef orðið nágranni er notað í frekar víðum skilningi eru slíkir snillingar eins og Dr. Bart Ehrman og Dr. Miguel Nicolelis nágrannar mínir. Og gettu nú hver ég bý ;)

Kommentið mitt var þegar orðið frekar langt, þannig að ég var ekki að hafa fyrir því að segja að Tim. bréfin hafi (líklega) verið skrifuð í Páls nafni að honum látnum. Það var líklega gert til að auka vægi bréfanna (svona eins og þegar börn segja: "Mamma sagði að ég mætti leika með bílinn núna!") Ég tek það samt fram að ég hef ekki mikla þekkingu á biblíufræðum, ég var bara að endursegja nokkra púnkta úr bókinni.

Það sem Dr. Ehrmann segir að sé grunvallarmunurinn á þessari bók og öðrum um sama efni er að þessi bók er skrifuð fyrir leikmenn. Maður þarf ekki að vita neitt um þetta efni til að hafa gagn og gaman að þessari bók.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/09/08 13:29 #

Jæja, nú er komin út ný íslenskuð Biblía sem er kannski þess verð að lesa.

Þessi fimm mínútna Biblía er greinilega argasta bull, eins og fimmtíu tíma Biblían.


Henni - 06/09/08 18:34 #

Það er sorglegt að vita til þess að stofnun sem ég bar mest virðingu fyrir af öllum kristilegum stofnunum skuli standa á bak við útgáfu svona rita á landinu. Ég hef svo sem vitað að prestar hennar geta sumir hverjir verið mjög vafasamir, en við erum að tala um stofnun í þessu dæmi og nógu hjákátleg var hún fyrir, en þetta gerir hana bara sorglega, er þetta virkilega hægt?


sæl anna - 07/09/08 18:14 #

Sæl Anna, bara að svara spurningunni þinni. Ísraelsmenn urðu ekki Gyðingar fyrr en þeir komu til Judeu - voru ekki búnnir að koma þangað fyrr en eftir flóttan frá Egyptalandi og eftir það er hægt að tala um gyðinga.

Bestu kveðjur


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/09/08 19:29 #

Henni, þetta sýnir okkur bara að kennisetningar hinnar "virðulegu" Þjóðkirkju eru sama reivíng lúnasíið og hjá rest. Prestar hennar eru hins vegar snillingar í því að drifa athyglinni frá því.


anna benkovic - 08/09/08 07:23 #

Takk fyrir svarið. Er þá hægt að tala um "Ísraelsmenn" fyrir flóttan frá Egyptalandi? Voru þeir Ísraelsmenn án þess að vera gyðingar?


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 09/09/08 19:22 #

Mer finnst bara alveg með ólíkindum að ennþá skuli allt þetta trúarbull hafa svona sterk ítök í fólki eftir þúsundir ára. Biblían er skrifuð svo mikið í skipunar og boðunarformi og nær þvi auðveldlega tökum á þeim sem haldnir eru guðsótta og hafa smitast af boðunum um helgi hennar.

En takk fyrir góðan pistil Hjalti.


Gunnlaugur - 10/09/08 01:59 #

Takk fyrir fróðlegan og fínan pistil — alveg var ég grunlaus um að þessi fimm mínútna biblía væri svona langt inni á evangelísku línunni. Afsökunin fyrir seinkun lausnarans er óborganleg. Og náðargáfan tungutal! Jedúddamía.

Anna Benkovic sagði: „Þetta er skyldunámsefni fyrir tíu ára grunnskólanema á öllu Íslandi!“ Passar það? Er þessi fimm mínútna biblía sem hér er lýst virkilega hluti af námsefninu í kristnum fræðum í barnaskóla?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 10/09/08 02:01 #

Nei, þar var Anna að tala um bókina "Brauð lífsins".


Gunnlaugur - 10/09/08 02:02 #

Æ, afsakið, sé við annan yfirlestur að hún átti við „Brauð lífsins“.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/09/08 02:27 #

...alveg var ég grunlaus um að þessi fimm mínútna biblía væri svona langt inni á evangelísku línunni

Ég á eftir að skrifa um Alfa-námskeiðið, sem mér sýnist (skv heimasíðu Alfa á Íslandi) vera kennt í amk 15 kirkjum Þjóðkirkjunnar. Það er álíka brjálað, verra ef eitthvað er.


Aðalbjörn Steingrímsson - 10/09/08 13:00 #

Trúarbrögð eru brögð til að stjórna fólki og móta skoðarnir þess. Frá upphafi vega hafa styrjaldir og önnur ofbeldisverk mannanna verið í nafni trúarbragða allskonar.Orðmælgi kennismiða trúarbragða er ótrúleg í orðsins fyllstu merkingu og verða áfram því miður. Meðan mannskepnan vill ekki skilja og læra um lífið, afneita staðreyndum sem eru flestum augljósar, flýja raunveruleikann með trúarrugli sem skín þarna í gegn í fimm mínútna biblíunni.


Rúnar Friðriksson - 16/09/08 23:22 #

Kíkti aðeins á 5min. biblíuna og hvað haldiði? Febrúar 2008 hjá þeim eru 30 dagar! upps Hvað varð um kristilegan prófarkarlestur :-) ?


Ægir - 18/09/08 13:44 #

Það eru rúm 2000 ár frá því að Jesús sagði að hann kæmi brátt aftur til að setja á fót ríki sitt þar sem ekki væri grátur, sorg né sársauki. Ástæða þess að hann er ekki kominn er sú að sem flest fólk á að fá tíma til að skilja að Guð vill að það tilheyri ríki sínu. Það er þolinmæði hans sem veldur töfinni. (bls 155)

mig þykir þetta svo fávitalegt hann er búinn að koma aftur og aftur á hverjum degi jafnvel áður en hann "fæddist" kom hann á hverjum degi... á fornárum var ekki til ljósaperan svo fólk bjuggu til guð úr sólinni... Sólin = Allt sem er gott í trúarbrögðum Myrkrið = Allt sem er illt í trúarbrögðum

þetta er bara simple trúarbrögð urðu til útaf fornfeður okkar voru hræddir við myrkrið og töldu því "guð" ( sólina ) vera að vernda þá..

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.