Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ofstæki og hatur

Ég er alinn upp í guðsótta og góðum siðum. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir og enginn er alslæmur. Hugmyndir mínar fékk ég úr umhverfinu, hvort sem það var úr kristni, Dýrunum í Hálsaskógi eða Hávamálum, en auðvitað lærði ég mest af mínum nánustu, sem aldrei töluðu illa um nokkurn mann.

En þegar ég varð fullorðinn lagði ég af barnaskapinn, eins og segir í afar leiðinlegri bók. Ég fór smátt og smátt að líta á guðsótta sem sorglegan misskilning og barnaskap, en hélt í að allir ættu að vera vinir, góðir hver við annan.

Ég tel það skipta máli hvernig heimurinn er og ekkert veit ég skemmtilegra en að fræðast um alheiminn, frá því smæsta til hins stærsta, en þó sér í lagi um mannskepnuna. Sökum þess hvað ég er gegnsýrður af kristni hélt ég lengi vel að mikilvægasta spurningin væri hvort til sé Guð, eða guðir. Reyndar eru ekki nema örfáar vikur síðan ég hélt þessu fram í samtali við biskupsritara. En nú hef ég skipt um skoðun.

Spurningin um tilvist guðs skiptir nákvæmlega engu máli, ef enginn guð er til. Sé almáttugur guð til skiptir tilvist hans þó auðvitað höfuðmáli. Ætli þetta þýði ekki að ég sé orðinn sannfærður trúleysingi, loksins. Í hugum trúaðra þýðir þetta auðvitað að ég er orðinn þröngsýnn ofstækismaður.

En hvað olli þessum sinnaskiptum?

Ég hef nú kannað hinstu rök tilverunnar markvisst í um þrjá áratugi, sem unglingur, námsmaður, fræðimaður og áhugamaður. Unglingurinn var ringlaður í ríminu. Námsmaðurinn komst að því að maður fær ekki einu sinni steina þegar maður biður guð um brauð, enginn lauk upp þegar bankað var. Fræðimaðurinn komst að því að til eru ótal skýringar á þeim fyrirbærum sem menn kalla yfirnáttúruleg, og ekki er einu sinni hægt að sýna fram á tilvist þeirra. Áhugamaðurinn hélt svo áfram að grufla í sögu, heimspeki, guðfræði, sálfræði o.s.frv. En ekkert af þessu dugði til að gera mig jafnafhuga öllum hugmyndum um guð og framkoma kirkjunnar manna og misviturra meðreiðarsveina hennar.

Í rimmunni um innrás kirkjunnar í skóla, og fleiri málum er tengjast ásókn kirkjunnar í börn landsmanna, hef ég séð svart á hvítu að trúin er ekki bara einhver fallegur misskilningur, barnalegar hugmyndir um Stóra-pabba á himnum í bland við viðkunnanleg og algild siðferðisgildi. Nei, trúin er umbúnaður og skálkaskjól manna sem hika ekki við að beita fyrir sig rangfærslum, útúrsnúningum, lygum og óhróðri um þá sem vilja vernda bernskuna. Kirkjunnar menn eru siðblindir eiginhagsmunaseggir sem gera allt til að koma ranghugmyndum sínum inn í barnshugi til að tryggja viðhald þeirrar helsjúku stofnunar, sem malar þeim sjálfum gull, í fullkomnustu svikamyllu allra tíma. Ég held ekki fram að mennirnir séu svona vondir, heldur eru þeir svona blindir.

Og af ofansögðu sést að ég er farinn að tala illa um annað fólk, lái mér hver sem vill. Ég hef enga samúð lengur með trúmönnum sem vilja troða sturlaðri heimssýn sinni upp á aðra, með góðu eða illu. Þolinmæði mín er gjörsamlega á þrotum. Það eru takmörk fyrir umburðarlyndinu og ég lít á það sem skyldu mína að hindra uppgang og viðhald stofnunar sem vinnur gegn heilbrigðri skynsemi, fyrir fimm þúsund milljónir króna af almannafé á ári, og stjórnað er af afturhaldssinnuðum og samviskulausum óheilindamönnum.

Þessir menn hafa sýnt hvað í þeim býr og við vitum hverju trúarbrögðin fá áorkað sé þeim gefinn laus taumur. Jú, jú, það er margt fallegt í boðskap Krists og upp til hópa eru kirkjunnar menn og trúað fólk eflaust hið mætasta fólk, en hugmyndir þeirra um alheiminn eru rangar, forheimskandi og beinlínis hættulegar.

Ég er sannfærður um að heimurinn væri betri án hindurvitna og ímyndaðrar sektar í bak og fyrir. Ég er sannfærður um að heilbrigð skynsemi er betri en þúsund ára tröllasögur, þótt þursinn sé kallaður algóður guð.

Ég er búinn að fá mig fullsaddan af helgislepju, hatursáróðri, heimsku og lygum kirkjunnar manna og ætla að berjast gegn forheimskun minna barna og annarra á opinberum vettvangi. Ég vil ekki að menn komist upp með rangfærslur, óbilgirni, ósannsögli og ósanngirni í nafni heilags sannleika.

Ég er sannfærður trúleysingi og bendi óhikað á hræsni kirkjunnar manna. Kannski er það ofstæki en hvað er að því að berjast gegn óréttlæti og heimsku?

Reynir Harðarson 14.09.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/09/08 17:03 #

Þóra Ingvarsdóttir virðist ekki hrifin af þessum pistli og skrifar bloggfærslu: Játningar siðblinds lygara

Ég er kölluð siðblind, heimsk, og lygari á opinberum vettvangi. Ofstæki gegn mér er réttlætt með því að ég sé boðberi óréttlætis og heimsku. Mér er sagt að vegna skoðanafrelsis eigi skoðanir mínar ekki heima á almannafæri. Ég má ekki umgangast börn annarra nema með því skilyrði að ég lofi að veitast ekki að þeim með vitfirrtum hugmyndum mínum. Það er dæst yfir því að ég þurfi endilega að ala mín eigin börn upp við villutrú mína – get ég ekki leyft þeim að hugsa sjálfstætt? Það er rætt, og notað gegn mér, hve mikill hluti harma heimsins sé eiginlega mér og skoðanasystkinum mínum að kenna. Mér er tjáð að ég eigi ekki heima í nútímasamfélagi, nema þá ég láti af hugvillu minni. Það er hæðst að því sem er mér kært, og ef ég kvarta yfir því er mér bent á syndir feðra minna – við eigum þetta nú eiginlega skilið.

Hvort er ég kristin við upphaf 21. aldar eða gyðingur um miðbik þeirrar 20.?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/09/08 18:17 #

Æ,æ. Vesalings skinnið. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru vegna nafn míns... er það ekki? Kristlingar vita ekkert göfugra en hlutverk fórnarlambsins. Sendi henni smálínu:

Mér var bent á að þú hefðir tekið greinarstúf minn á vantrú.is til þín. Engin deili kann ég á þér en ef þú ætlar þér að skríða í sæng ríkiskirkjunnar, eða hefur hreiðrað um þig þar nú þegar, finnst mér fórnarlambskomplex þinn undarlegur. Ef þú vilt staðsetja þig á miðri 20. öld væri nær að setja þig í SS eða Hitlersæskuna, frekar en ofsóttan minnihlutahóp. Ein reich, ein fuhrer.... Einn guð, einn leiðtogi.

Ef þú getur kinnroðalaust sagt að játningar kirkju þinnar séu gáfulegar, bið ég þig vel að lifa.


Henni - 14/09/08 18:41 #

Mér hefur nú fundist hún vera ágæt hún Þóra. Hún er allavega ekki að viðra neina bábilju á bloggi sínu eins og margir kreistlingar.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 14/09/08 19:23 #

Hún er ugglaust ágæt þessi Þóra. En mér sýnist hún samt viðra bábyljur eins og aðrir kristnir. það er per se engin skömm af því.

En hvað er það annað en bábylja að trúa á ósýnilega veru í himninum sem hefur skrifað 10 reglur fyrir okkur mennina til að fara eftir. Sendir síðan son sinn til að slátra honum í frumstæðri fórnarathöfn.

Hugsið ykkur eitt ágætu lesendur. það Þykir ekkert af því að halda þessu fram en það er farið með það eins og mannsmorð að segjast hafa þessum fullyringum.

Þóra er pottþétt alveg ágæt manneskja. Ég hafna því þó að vantrúaðir séu að ofskækja hana. Að höfundur pistilsins hér fyrir ofan sé að ofsækja hana. Þetta eru ekki ofsóknir. Ofsókir eru t.d þegar trú á fyrirbærin sem ég lýsti hér fyrir ofan er troðið ofan í leikskólakrakka. Ofsóknir eru þegar sumir (þeir sem eru ekki í ríkiskirjunni) eru látnir sitja eftir meðan "hinir" fara í messu.

það er bara svo stutt síðan að trúarbrögð (sérstaklega ríkiskristnin) var alveg stikkfrí gangnvart gagnrýni. Þegar Vantrú kemur fram á sjónarsviðið er eins og hinir ríkiskristnu komi alveg af fjöllum.

"Ha? - Er hér staddur meðal vor manneskja sem trúir ekki á guðinn okkar?"..

Trúarbrögð eru ekki hafin yfir gagnrýni fremur en önnur mannanna verk.


Arnold Björnsson - 14/09/08 19:43 #

Munið að trúarbrögðin og kirkjurnar eru stórvirk áróðurstæki sem vinna 24/7 við að koma áróðri sínum á framfæri. Kallað boðun í öðru nafni. Þetta er grunnur t.d. kristninnar og þungamiðjan. Þeir sem ekki samþykja þennan áróður eru úthrópaðir af starfsmönnum kirkjunnar. Það að einhver skuli þurfa að fara leynt með að trúa ekki þessum mjög svo ótrúverðugu goðsögum biblíunnar segir allt sem segja þarf um hverjir stunda ofsóknir og hverjir ekki.


anna benkovic - 15/09/08 19:28 #

FINNST ENGUM PRESTI (MEÐ LAUN Í KJARADÓMI) KOMINN TÍMI TIL AÐ TALA UM EFNAHAGSÁSTAND MARGRA ÍSLENDINGA? KRÓNAN FELLUR OG FELLUR OG VERÐBÓLGAN KOMIN Í TÆP 15%...ÞETTA ERU ALVARLEG TÍÐINDI FYRIR FÁTÆKT FÓLK. HVAR ERU PRESTARNIR? HVAÐ ER TRÚIN Á KRIST? HVAR ER GUÐ?


Siggi - 16/09/08 15:56 #

Gat nú ekki annað en hlegið af síðasta commenti. :P

Kannski að við förum að biðja fyrir hagstæðara gengi eins og þessir sem fóru að byðja fyrir bensínverðinu úti?


Björn Ómarsson - 17/09/08 15:49 #

Góði Guð,

Fyll'ann takk. 95.

Amen

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.