Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kukl í nærmynd á Rás 1

Kuklarar geta verið afar duglegir að kynna sín gervifræði. Í fjölmiðlum er útvarpið sérstaklega vinsæll miðill hjá þeim. Sumir þáttastjórnendur eru, því miður, ginkeyptir fyrir slíku og taka kuklfræðinga reglulega í viðtöl.

Kukl á Rás 1

Guðrún Gunnarsdóttir, annar þáttarstjórnandi Samfélags í nærmynd á Rás 1, er iðin við þann kola. Guðrún Bergmann er tíður gestur hennar. Hún virðist vera eins konar drottning kuklmenningar á Íslandi.

Viskukornin sem falla úr munni Guðrúnar Bergmann hafa verið ófá gegnum tíðina og hefur hún meðal annars tekið miklu ástfóstri við Candida-sveppinn ásamt Hallgrími Magnússyni lækni. Bók þeirra „Candida sveppasýking“ er ógleymanleg lesning þeim sem það á sig leggja.

Aldagamlar getgátur og hugarórar

Í þætti Guðrúnar Gunnarsdóttur og Hrafnhildar Halldórsdóttur frá í sumar var Guðrún Bergman að fræða landann um forn-kínverska læknislist og barst talið að svæðum í andlitinu sem eiga að vera í líkamlegu sambandi við ýmis innri líffæri og líffærakerfi.

Svona til faglegs fróðleiks vil ég nefna það fyrst að þessi forn-kínverska læknislist hefur ekki fengið annan fræðilegan dóm en að vera einungis frumstæðar getgátur og ímyndun manna til forna þegar vísindalegar aðferðir voru afar skammt á veg komnar. Fallegum jafnvægiskenningum (Yin og Yang) úr heimspeki var blandað við falleg litakort af yfirborði mannslíkamans ásamt kenningum um orkubrautir sem aldrei hafa fundist. Þetta er álíka úrelt og saga biblíunnar um sköpun heimsins. Hundruð menningarsamfélaga víða um heim eiga sér svipaðar sögur sem tilraunir til að útskýra fyrirbæri sem voru fjarri raunverulegum skilningi manna á öldum áður. Tilraunir til lækninga í formi kukls sem oft fylgdu slíkum útskýringum voru víða til og sums staðar voru (og eru enn) galdramenn í hlutverki lækna.

Það má segja að forn-kínversk læknislist sé eins konar gerviheilsufræði blönduð sagnalist sem á einfaldari íslensku kallast bara fallegt bull. Slíkar bullkenningar hafa oft ákveðna innri fegurð og skipulag, en þær eru ekki í neinu samhengi við raunveruleika málanna. Kínverjar (og Suður-Kóreumenn) hafa stutt þetta kukl með opinberum framlögum um nokkurt skeið en það hefur verið gagnrýnt harðlega af kínverskum læknum.

Fagleg gagnrýni Zhang Gongyao

Þar í fararbroddi er prófessor Zhang Gongyao frá Háskóla Mið-suður Kína en hann hefur beðið stjórnvöld um að leggja af fjárhagsstuðning við forn-kínverska læknislist.

Hann segir að hún beri ekki vitni um neinn skilning á mannslíkamanum né virkni meðala og tengsla þeirra við sjúkdóma. Hún sé eins og stefnulaust skip án kompáss sem komist ekki á áfangastað nema einstaka sinnum fyrir heppni.

Zhang Gongyao og meðgagnrýnendur hans segja þessa iðkun oftast gagnslausa og stundum hættulegt afkvæmi fornra galdra sem reiði sig á óprófaðan sambræðing hugmynda og framandleg innihaldsefni til að blekkja sjúklinga. Iðkendurnir hafa á reiðum höndum nóg af afsökunum ef að meðhöndlunin bregst.

Að lesa í andlit allskyns sjúkdóma

Guðrún Bergmann jós úr þessum fornu gervi-viskubrunnum í útvarpsþættinum og sagði m.a. að ennið tengdist smáþörmum og ristli. Bólur á enni væru því merki um vandamál þar(!). Ég sé þetta alveg fyrir mér. Þá áttu hrukkur á milli augabrúna og vera merki um lifrarsjúkdóma. Ég er með eina stóra fellingu þarna og hlýt þá að vera með brotna lifur enda svo baneitraður og geislavirkur að það má spara sparperurnar heima hjá mér. Það lýsir af mér, enda tala ég oft í farsíma. Þá eiga kinnarnar að endurspegla lungun. Kinnar blása út eins og lungun þegar hlaupið er hart þannig að engan skal furða að þarna væru sett samasemmerki á milli.

Á þessum tímapunkti var nafna hennar Gunnarsdóttir svo yfir sig hissa og ánægð yfir þessum sannindum að hún mátti til með að spyrja Bergmann um þurra húð í kinnum. Hún var ekki lengi að svara því til að það þýddi að „líffærið reyni að hreinsa sig“ þegar svo er ástatt og að þetta „tengdist oft meltingunni“.

Þá átti hakan að tengjast hormónakerfi líkamans og nefndi hún með því til gamans að bólur á höku höfðu áður verið kallaðar „graðbólur“. Það var nú samt að heyra á frú Bergmann að með þessu innskoti væri hún ekki alfarið að grínast. Þá kárnar gamanið.

Meltingin óvinur númer eitt

Svo var það lífræna rúsínan í pulsuendanum hjá frú Bergmann. Varfærnislega sagði hún að þykknun hára (væntanlega hjá konum) ofan við efri vörina þýddi að um uppsöfnun eiturefna í líkamanum gæti verið að ræða. Kannski er hún að meina kvikasilfrið sem forn-kínversku læknarnir gáfu Ghengis Khan og gerðu hann sturlaðan af? Nei þeir gætu ekki hafa gert slíka vitleysu með sitt yin og yang að leiðarljósi. Konur með fjölblöðrusjúkdóm eggjastokka geta fengið þykknun þessara hára. Ætli þær sætti sig við skýringu Guðrúnar?

Næsta spurning nöfnu hennar var: „Getur þú vitnað í rannsóknir því til stuðnings?“ Fyrirgefið, mig misminnti. Hún spurði aldrei að því. Ég var bara að vona það. Hún sagði hins vegar af og til með miklum áhuga og forundran í röddinni „jááá hááá...“ og gleði frú Bergmann jókst greinilega við hvert samþykki.

Í öðru viðtali sagði frú Bergmann að hún og Hallgrímur læknir væru sammála um það að um 80% af sjúkdómum ættu rætur sínar að rekja frá meltingarveginum. Ættum við þá að senda fólk á unglingsaldri í róttækar garnastyttingar? Sjálfboðaliðar í það gefi sig fram takk! Mig langar að heyra frá þeim hvaðan hin 20% koma. Candidasýking í kransæðum? Candidasýking í lungum? Magnesiumskortur?

Heildrænt kukl

Svo var það viðtalið 11. október síðastliðinn þegar viðmælendurnir voru Margrét Leifsdóttir, „heildrænn heilsuþjálfi“ frá „New York Institute of Integrative Nutrition“ og Hanna Laufey Elísdóttir, „næringar-mikroskópisti“.

Hanna Laufey sagðist geta lesið í blóðið undir smásjá hvert væri næringarástandið og stressið „því að líkaminn væri hannaður til að vera basískur“ og ef að fæðið væri of súrt myndi líkaminn „ströggla“. Sjúkdóma mætti rekja til „langvarandi súrnunar“. Hún sagðist sjá blóðkornin og „það sem lifir í æðunum í okkur, sveppina ...“

Ekki var það útskýrt með „sveppina“ en sveppir lifa ekki í blóði fólks með eðlilegt ónæmiskerfi. Kuklarar virðast ekki geta náð sveppum úr heilanum á sér þó að þeir séu þar ekki heldur. Sýrustig (pH) blóðsins er 7.4 þannig að það er örlítið basískt. Það þýðir ekki að „líkaminn sé hannaður til að vera basískur". Í alvarlegum veikindum þegar fólk liggur rænulaust á gjörgæsludeildum spítala í öndunarvélum þolir það betur að vera dálítið súrara (t.d. pH 7.32) í langan tíma en meira basískt.

Næring í öðru formi

Þá tók Margrét heilsuþjálfi við. Hún sagði að „frumnæring okkar er samband okkar við annað fólk“. Það er ljómandi að leggja áherslu á heilbrigða tengslamyndun en það telst almennt ekki til næringarfræði nema þá helst hjá blóðþyrstu fólki frá Transylvaniu.

„Svo kemur númer tvö næring í formi fæðu“ bætti hún við. Þá sagði þáttastjórnandinn „jáááh“ líkt og dyr hefðu opnast fyrir henni og bætti við síðar „maður á svo erfitt með að trúa því að þetta sé jafn mikilvægt“.

Hér er verið að tala um andlega og líkamlega næringu eins og sagt er og eru tæpast einhver stór tíðindi sem maður vitnar í að hafa lært í skóla. En svo kom gullkornið: „eins og þegar við erum ástfangin, þurfum við lítið að borða, því þá erum við að fá ótrúlega mikla næringu í öðru formi“. Tár runnu niður kinnar mínar og ég fann að við þessa fallegu tilhugsun nærðust frumur mínar.

Elektrónur og sýru-basi

Vék nú talinu aftur að sýru-basa fræðum Hönnu Laufeyjar sem fór að tala um orkugjafa fæðunnar og kom þar í ljós ný tilgáta sem kollvarpar öllum fræðum næringarfræðinnar. Hún sagði að „orkan okkar kemur frá elektrónunum en ekki frá kolvetnum eða próteinum“.

Enn og aftur eru kuklarar að koma með kenningar sem væru verðar Nóbelsverðlauna ef sannaðar því að þær myndu sýna að við hin höfum vaðið í villu og svima þegar við gáfum hungruðu fólki kolvetni þegar það hefði í raun átt að fá elektrónur. Rafkleyf efni eins og sölt eru vissulega lífsnauðsynleg en þau eru ekki orkugjafar sem slíkir.

Vissulega eru elektrónur (rafeindir) snar þáttur í orkumyndun hvatbera í frumum líkamans en þær verða að koma frá hráefnum orkunnar; kolvetnum (sykri) og fitu. Mest af orkunni myndast með hjálp ferlis við lok niðurbrots sykurs eða fitu þar sem súrefni er nauðsynlegt (frumuöndun). Það yrði þó engin orkumyndun án kolvetna og fitu (og próteina í svelti).

Maður ræðst ekki á salthaug eða annað elektrónuríkt til að endurnýja forðasykur vöðvanna og lifrarinnar milli æfinga. Það má kenna aumingja sykrinum um ýmislegt en að gera lítið úr mikilvægasta hlutverki hans, annan helsta orkugjafa líkamans, er ansi hart.

Hanna Laufey ráðleggur grænmeti og vatn (til að „sinna elektrónunum“) og það er rétt niðurstaða fyrir heilsuna út frá röngum forsendum. Hún hefði getað sagt það bara strax og stytt þáttinn verulega.

Sögutími á Maður lifandi

Svo vitnaði Margrét í bók sem heitir „Spark“ og þar var sagt að rannsakað væri við Duke háskóla árið 2000 að hreyfing hefði meiri áhrif til batnaðar á þunglyndi en þunglyndislyfið Zoloft. Þessu er ég sammála enda viti menn, það var vitnað í klíníska rannsókn.

Hins vegar dró fljótt fyrir sólu því að þær ráku endahnútinn á því að segja frá því að á fundi um ADHD og mataræði sem halda ætti á Maður Lifandi myndu tvær mæður segja reynslusögur sínar. Það væri svo mikilvægt að heyra reynslusögur af fólki þar sem:

[...] oft vantar rannsóknir til að sanna hitt og þetta en kannski er okkur foreldrum þegar við erum að eiga við svona verkefni kannski bara svolítið sama um rannsóknir. Við erum kannski bara tilbúin að prófa. ... Við erum ekki að gera neitt sem skaðar okkur [...]

Þær Margrét og Hanna Laufey bera nýstárlega fræðititla og vilja því væntanlega gefa í skyn að þær séu menntaðar en hvers virði er slík menntun ef í kjölfarið er hægt að láta sem rannsóknir séu eitthvað sem manni sé sama um?

Það þarf ekki að rannsaka það mikið meira að grænmeti og vatn gerir börnum og fullorðnum gott, en það er ekki sjálfgefið að tilraunir með að sleppa öllu hveiti, geri og sykri sé heilbrigt fyrir börn.

Einnig ef að eitthvað nýtt er á markaði sem inniheldur áður óþekkt efni eða jurtir ætti rannsaka virkni þeirra og hvort að fullyrðingar seljenda um áhrif þeirra standist eða ekki. Foreldrar eiga að gæta þess að gefa ekki sér eða börnum sínum matvöru eða fæðubótarefni af vafasömum uppruna og það þekkist yfirleitt á ótrúlegum yfirlýsingunum á virkni þeirra. Því miður eru apótekin full af þess konar vörum.

Kuklarar í þekkingarfræðilegri óráðssíu

Vissulega er málfrelsi á Íslandi og það ber að virða en RÚV er útvarp sem kostað er með skattfé og þar á að vanda fræðsluefni rétt eins og í skólum landsins. Það er ekki boðlegt að vikulega sé ófaglærður þáttastjórnandi að gefa dúllulegum en ófaglærðum aðilum málpípu fyrir gervifræði og kukl.

Það er ekki hægt að kalla þessi starfsheiti eins og „næringar-micróskópisti“ raunveruleg fagheiti því að þau eru klárlega uppdikteraðar blekkingar. Spyrjið hvaða raunvísindamann eða lækni sem er um sannleiksgildi þess að „orkan okkar komi frá elektrónum en ekki kolvetnum“.

Það er ekki boðlegt að svona þekkingarfræðilegri óráðssíu sé útvarpað með reglubundnum hætti á kostnað allra landsmanna sem viðteknum sannleik. Ef að þessi þjóð ætlar einhvern tíman að komast sem þekkingarsamfélag á meðal fremstu þjóða heims verður hún að geta greint hismið frá kjarnanum og skilja það að heilbrigðisfræði eru ekki léttmeti til að leika sér með á svig við alla viðurkennda grunnþekkingu raunvísindanna.

Ófaglært fólk með furðulega titla á ekki að kenna öðru ófaglærðu fólki um vísindi eða heilbrigðisfræði því að það er ekki fært um það. Heilbrigðisfræði eiga ekki endilega að hljóma fallega, þau eiga að vera sönn og prófuð. Þetta kann að hljóma ferkantað í eyrum sumra en þegar að því kemur að gefa heilsufarslega ráðgjöf og meðferð er lítið pláss fyrir villur og rangar leiðir.

Svanur Sigurbjörnsson 31.10.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Ómar - 31/10/12 12:49 #

Mjög sammála þessum pistli, en svona til að taka smá kjaftæðisvakt á Kjaftæðisvaktina þá vildi ég benda á að salt er ekki "elektrónuríkt", amk ekki í meira mæli en annað efni. Klóríðjónir í salti væri kannski hægt að kalla elektrónuríkar en natríumjónirnar sem eru elektrónu-fátækar núlla það út.

Annað dæmi um svona vitleysu sem fær brautargengi í útvarpi var viðtal sem ég heyrði um Kabbala-vatn þar sem að vitnað var í allskonar hluti um kristalbyggingu í vatninu og að það væri vísindalega sannað að Kabbala vatn hefði aðra kristalbyggingu heldur en venjulegt vatn. Þáttastjórnandinn kastaði inn nokkrum "Í alvöru!" og "ertu að meina þetta!", en gleypti allt gagnrýnislaust. Ég fékk næstum því heilablóðfall við að hlusta á þetta rugl.


Svanur Sigurbjörnsson - 31/10/12 13:10 #

Sæll Ómar Já það er rétt athugað hjá þér með saltið. Ég setti það inn sem dæmi um efnasamband sem þó getur tekið þátt í því að flytja elektrónur eða jafna út plús/mínus jónaðar hleðslur í líkamanum.

Gott dæmi með Kabbala-vatnið. Alls kyns afbökun á efnafræði á sér stað meðal kuklara því að þeir vilja hljóma vísindalega.


Árni Árnason - 01/11/12 20:59 #

Það er auðvitað arfaslakt að sjálft ríkisútvarpið sé að bjóða kuklurum áheyrn alþjóðar fyrir bull sitt. Útvarp saga er þó sínu afkastameiri í bullvarpi. Þar koma fram menn eins og Guðlaugur "stjörnuspekingur" ( hver gaf honum þá nafnbót ?) og Hermundur Rósinkrans "talnaspekingur" ( sömuleiðis sjálftekin nafnbót ) auk alls kyns nýaldarspekúlanta sem lækna fótbrot með þurrkuðum laufblöðum, eða svona næstum því.

Ég heyrði eitt sinn í þætti talnaspekings þegar maður hringdi inn. Hann sagðist heita Árni ( nafni minn) og eftir flóknum útreikningum fyrir tölugildi stafanna í nafni hans kom út talan 3 að mig minnir. Út frá henni fékk maðurinn persónulýsingu sína, heilsufarssögu í fortíð og framtíð. Auk mikilvægrar greiningar á hæfileika og áhugasviði fylgdu mjög jákvæðir punktar um manngæsku og heiðarleika.

Samkvæmt upplegginu gat "talnaspekingurinn" aðeins verið að lýsa þessu öllu út frá nafninu Árni. Þá vitum við það allir íslenskir Árnar eru eins. Og fólk gleypir við þessu. Það gleypir svo sem við Jesús og því öllu, en þar er líka aðeins stærri lygamaskína að baki.


Svanur Sigurbjörnsson - 01/11/12 21:12 #

Já maður hélt að kuklið væri bara á reglubundinn hátt á Útvarpi Sögu og því var það leiðinlegt að sjá að þáttastjórnandi á RÚV skyldi taka þátt í þessu. Það ætti að byrja að kenna krökkum frá 10 ára aldri að þekkja loddara. kv. -Svanur


Ingibjörg Ósk - 02/11/12 08:52 #

hahaha, þetta minnir mig bara á þetta: http://www.youtube.com/watch?v=eac3X1gVkzQ þó að þetta sem kemur fram hjá rúv sé ekki alveg jafn nasty..

en þeir sem nenna ekki aðhorfa á videoið, þá er þetta kona sem drekkur sitt eigið þvag, því henni var talin trú um að það myndi hjálpa eitthvað varðandi krabbameinið hjá henni.. hún hætti allri læknismeðferð & er að stunda þetta eingöngu.. þó það sé í enginn að græða á henni hvað þetta varðar reyndar, en fólk verður að passa sig þegar það er að gefa fólki ráð.. því sumir gleypa bara við öllum andsk. þegar þeir eru hræddir eða lýður illa..


Svanur Sigurbjörnsson - 02/11/12 10:55 #

Ágætlega þétt þvagið hjá henni enda er hún að setja ofan í sig það sem líkaminn hefur hafnað. Manni verður hálf ómótt að sjá hana drekka þetta. Hætti að horfa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.