Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vitnisburður

Vitnisburður og litríkar frásagnir eru ein þeirra vinsælustu og mest sannfærandi sannana sem gefnar eru til að réttlæta trúnna á hið yfirnáttúrulega og dulræna, auk gervivísinda. Þrátt fyrir það eru frásagnir og vitnisburður lítils virði þegar kanna á sannleiksgildi þeirra fullyrðinga sem þau eiga að styðja. Einlægar og lifandi frásagnir einhvers af því þegar hann hitti engla eða Maríu guðsmóðir, geimverur, drauga, Stórfeta, barn sem hélt því fram að það hafi átt fyrri líf, sá fjólubláar árur í kringum deyjandi sjúklinga, kynntist ótrúlegum vatnsleitara (e. dowser), svífandi gúrú eða töfraskurðlækni duga skammt til að sannreyna hvort að réttlætanlegt sé að trúa á slíka hluti.

Vitnisburður er óáreiðanlegur vegna fjölda ástæðna. Sögur geta breyst auðveldlega vegna skoðana manna, síðari lífsreynslu, viðbragða gegn þeim, sérstakra áherslna á einstök atriði o.s.frv. Flestar sögur breytast þegar þær eru sagðar og endursagðar. Atburðir verða ýktir. Tímaröð brenglast. Smáatriði verða þokukennd. Minni manna er ófullkomið og valkvæmt, oft er fyllt í eyðurnar eftir að atburðirnir gerast. Fólk mistúlkar reynslu sína. Reynsla er skilyrt af tilhneigingum, minningum og skoðunum þannig að skynjun manna gæti verið ónákvæm. Flestir eiga ekki von á því að vera blekktir, svo þeir eru e.t.v. ekki á varðbergi gagnvart þeim sem beita blekkingum. Sumir skálda upp sögur. Sumar sögur byggjast á ranghugmyndum. Stundum eru atburðir sagðir vera dulrænir einfaldlega vegna þess að þeir þykja ólíklegir þegar þeir eru ekki endilega svo ólíklegir. Semsagt, vitnisburði fylgja ótal vandamál og yfirleitt er ómögulegt að sannreyna hann.

Þess vegna hafa persónulegar reynslusögur af hinu dulræna eða yfirnáttúrulegum atburðum lítið vísindalegt gildi. Ef aðrir geta ekki upplifað það sama við sömu aðstæður þá er engin leið til þess að staðfesta upplifunina. Ef það er ekki hægt að prófa fullyrðinguna, þá er ekki hægt að segja til um það hvort að upplifunin reyndist rétt. Ef aðrir geta upplifað það sama, þá er mögulegt að prófa vitnisburðinn og ákvarða hvort þær fullyrðingar sem byggðar eru á honum séu traustsins verðar. Dulsálfræðingurinn Charles Tart sagði eitt sinn, eftir að hann sagði frá atburði sem var hugsanlega dulræns eðlis: “Förum með þetta inn á rannsóknarstofuna, þar sem við getum stýrt aðstæðunum nákvæmlega. Við þurfum ekki að hlýða á margra ára gamla sögu og vona að hún hafi verið sögð rétt.” Dean Radin hefur einnig útskýrt að vitnisburður er ekki góð sönnun fyrir hinu dulræna vegna þess að minni manna “er mun gloppóttara en flestir halda” og framburður sjónarvotta “getur auðveldlega brenglast”(Radin 1997: 32).

Vitnisburður um dulræna reynslu gagnast vísindunum lítið því halda verður valkvæmri hugsun og sjálfsblekkingu í skefjum í vísindalegum athugunum. Flestir miðlar og vatnsleitarar, til dæmis, skilja ekki einu sinni að það þurfi að prófa krafta þeirra við stýrðar aðstæður til að útiloka þann möguleika að þeir séu að blekkja sjálfa sig. Þeir eru fullvissir um að fjöldinn allur af jákvæðum viðbrögðum hafi réttlætt trúna á dulræna hæfileika þeirra. Ef miðlar og vatnsleitarar væru prófaðir undir stýrðum aðstæðum væri hægt að ganga úr skugga um það í eitt skipti fyrir öll að þeir séu ekki valkvæmir í sannanaleit sinni. Algengt er að slíkt fólk muni eftir þeim skiptum þegar því virtist ganga vel en aftur á móti hunsar eða gerir lítið úr þeim skiptum þegar ekkert gekk. Með prófum við stýrðar aðstæður er einnig hægt að ákvarða hvort önnur atriði á borð við svindl eru í spilunum.

Ef vitnisburður er vísindalega séð einskis virði, hvers vegna er hann svona vinsæll og sannfærandi eins og raun ber vitni? Nokkrar ástæður eru fyrir því. Vitnisburður eru oft svo líflegur og ítarlegur að hann virðist trúanlegur. Oft kemur hann frá áhugasömu fólki sem virðist heiðarlegt og traustsins vert, án nokkurra sjáanlegra ástæðna til þess að reyna blekkja okkur. Oft kemur hann frá fólki sem hefur nokkurs konar stöðu kennivalds, eins og því sem hefur doktorsgráðu í sálfræði eða eðlisfræði. Að sumu leyti þá er vitnisburður trúverðugur vegna þess að fólk vill trúa honum. Oft eru menn vongóður um árangur af nýrri meðferð eða fyrirmælum. Vitnisburður manna er gefinn of skjótt eftir reynsluna meðan að hugarástand þeirra mótast af lönguninni til að fá jákvæðar niðurstöður. Reynslan ásamt vitnisburðinum sem lýsir henni fá meira vægi en æskilegt er.

Að lokum er rétt að minna á að vitnisburður er oft notaður á mörgum sviðum lífsins, þar á meðal í læknavísindum, og að veita slíku vitnisburði athygli er álitið viturlegt, ekki kjánalegt. Læknir mun nota frásagnir sjúklinga sinna til að draga ályktanir varðandi ákveðnar lyfjagjafir eða meðferðir. Sem dæmi þá mun læknir nota frásögn sjúklings um viðbrögð hans við nýju lyfi og beita þeim upplýsingum til að ákveða hvort breyta þurfi skammtastærðinni eða skipta yfir í annað lyf. Þetta er nokkuð skynsamlegt. En læknirinn getur ekki verið valkvæmur þegar hann hlustar á frásögn með því að heyra einungis þær fullyrðingar sem hæfa fyrirfram ákveðnum skoðunum hans. Með því hættir hann á að skaða skjólstæðing sinn. Né heldur ættu venjulegir menn að vera valkvæmir þegar þeir heyra vitnisburði um einhverja dulræna eða yfirskilvitlega reynslu.

Skeptic's Dictionary: anecdotal (testimonial) evidence


Helstu heimildir

Radin, Dean. (1997). The Conscious Universe - The Scientific Truth of Psychic Phenomena. HarperCollins.

Stanovich, Keith E. How to Think Straight About Psychology, 3rd ed., (New York: Harper Collins, 1992).

Lárus Viðar 11.05.2007
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Sindri Guðjónsson - 11/05/07 08:28 #

Dómstólar reiða sig oft á framburð vitna...


Viddi - 11/05/07 09:53 #

En sjaldan fá menn sakfellingu sem byggð eru eingöngu á vitnisburði samborgara. Vitnisburður getur verið fínn plús, svona smá auka, en hann dugar aldrei einn til að staðfesta eitt né neitt.


Árni Árnason - 11/05/07 10:37 #

Dóttir mín vann verkefni í sálfræði í H.Í. þar sem ca. 30 framhaldsskólanemendur tóku einskonar áreiðanleikapróf vitna. Hópnum var sýnt stutt myndband, ljósmyndir, teikningar, og einhver ritaður texti. Síðan var hópurinn látinn taka próf í því sem hann sá og heyrði.

Þvælan sem kom út úr því var alveg ótrúleg.

Þarna var þó fólk sem hafði enga fyrirfram skoðun á efninu, og hafði engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að reyna að gera sig ekki að fífli.

Hvernig skyldu þá vitnisburðir þeirra vera sem eru með fyrirfram væntingar, eða mótaða afstöðu ?

Ég gef a.m.k. ekki túskilding með gati fyrir vitnisburð trúarnöttara.


Sindri Guðjónsson - 11/05/07 13:46 #

Árni, gefur þú "túskilding með gati" fyrir vitnisburð vantrúarnöttara með "fyrirfram væntingar" og "mótaða afstöðu" (búnir að gefa sér að fyrirbæri og upplifanir eigi sér náttúrulegar skýringar)?

Hverjum er ekki sama um það hvaða vitnisburði þú ætlar að taka alvarlega? :-)

Ég tek hins vegar að sjálfsögðu undir þá fullyrðingi að vitnisburðir séu ekki mjög áreiðanlegir sem slíkir, og dugi ekki einir og sér til að sanna eitt né neitt.

Viddi, vitnisburðir hafa oft gríðarlega mikið vægi, og oft úrslitaáhrif í málum þar sem engum öðrum sönnunargögnum er til að dreifa.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/07 14:05 #

Já, t.d í nauðgunarmálum þar sem fórnarlambið er trúverðugt og meintur brotamaður ótrúverðugur. En þar er vitnisburðurinn líka alltaf prófaður kerfisbundið til að sjá hvort frásögnin breytist með tímanum, standist innri lógík o.s.frv.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 11/05/07 21:46 #

Skoðið endilega þetta og sjáið hversu athugul þið eruð. Vitnisburður er með því alóáreiðanlegasta sem til er.


Árni Árnason - 11/05/07 22:56 #

Já Sindri, é.g treysti vantrúarnöttaranum betur til að horfa objectivt á það sem hann vitnar um.

Annars eru vitnisburðir ekki það sama og vitnisburðir ef út í það er farið. Sumir vitnisburðanna á Omega myndu til dæmis senda vottinn beint á Klepp ef hann væri ekki í vernduðu umhverfi.

"hverjum er ekki sama..." spyrð þú. Þér er greinilega ekki sama, ég veit ekki um aðra.


FellowRanger - 12/05/07 03:37 #

Algjör snilld þetta youtube myndband. Ég fattaði ekki neitt.


Viddi - 12/05/07 11:00 #

Ég yrði greinilega afleitt vitni því ég kolféll á þessu youtube-myndbands-prófi, eins og álfur út úr hól.


Sindri Guðjónsson - 16/05/07 03:27 #

Jú, Árni, mér er alveg sama. Alveg 100% sama. Þú mátt alveg fá að ráða því hvaða vitnisburðum þú tekur mark á, og hverjum ekki. Truflar mig ekki hið minnsta.


Árni Árnason - 16/05/07 17:24 #

Ef þér er sama Sindri, þá veit ég ekki hverjum er ekki sama. Ég hef engin tök á að kanna það til hlítar hvort og þá hverjum er ekki sama hvað mér finnst eða held. Merki það helst á því að menn nenna helst að tuða ef þeim er ekki sama, og þar sem þú fórst að tuða gerði ég ráð fyrir því að þér væri ekki sama, þó að þú reyndir að láta líta svo út að þér væri sama. Veit ekki alveg hvaða tilgangi það þjónar að vera með sérstakar yfirlýsingar um að manni sé sama.

Má ég ráða því hverju ég tek mark á? Þakka örlætið.

Ekkert af þessu breytir þó því að vitnisburður trúmannsins er ekki virði túskildings með gati.

Ég horfði mér til skemmtunar á vitnisburð í Fíladelfíukirkjunni ( sýnt á Omega ) þar sem læknar voru, að sögn, búnir að dæma svo að ungur drengur myndi ekki geta gengið framar, en með því að allir í götunni bæðu fyrir honum afstýrði Guð þeim hörmungum, og drengurinn ( nú fullorðinn maður) stökk upp á sviðið þessu til sönnunar. Helelúja -lof sé Guði- Halelúja.

Svo blakaði hann eyrunum og flaug út um gluggann. ( sérlega guðrækin frænka hans Þorlákshöfn bað honum þeirra hæfileika, svona úr því að hún var komin í samband hvort sem var)

Enginn spurði hvort það gæti hent að lækningin tengdist öðru en bæninni. Enginn spurði af hverju allir hinir ( svona cirka skrilljón lamaðir í hjólastólum ) væru ekki á harðahlaupum eftir mörg mannár af bænakvaki.

Og votturinn ? Já hann er hvorki meira né minna en yfirlögregluþjónn. Klassi að eiga sakleysi sitt undir vitnisburði hans. Or not.


Sindri Guðjónsson - 01/06/07 23:17 #

Árni kom hér með órökstudda fullyrðingu: "Ég gef a.m.k. ekki túskilding með gati fyrir vitnisburð trúarnöttara", sagði hann. Fullyrðingin var órökstudd, einkum og sér í lagi fyrst að Árni nefnir sérstaklega "trúarnöttara", sem hann hafði fram að því ekkert talað um.

Árni rökstyður mál sitt í síðasta innleggi, sem er málefnaleg og ágæt háðsádeila á meintan mátt bænarinar og trúgirni. Hefði sá rökstuðningur komið strax, hefði ég haft einhverja ástæða til að hafa einhvern áhuga á skoðunum Árna.

Það kemur fram í síðasta innleggi að t.d. yfirlögregluþjónn sé meðal "trúarnöttara". Eflaust myndi Árni telja mig "trúarnöttara", þar sem ég og sá ágæti yfirlögregluþjónn erum að miklu leyti skoðana bræður.

Ég benti á það í vinsemd að hin órökstudda "blammering" Árna í fyrsta innleggi skipti mig engu máli, mér væri alveg sama, og hafði svokallaðan broskarl með.

Ef að ég segði án nánari útskýringa að ég gæfi ekki "túskilding með gati" fyrir vitnisburði efahyggjumanna, myndi það hafa eitthvað gildi? Væri það umræða? Væri ástæða til að gefa því gaum? Nei! Eitthvað haldbært þyrftu að koma máli mínu til stuðnings.

Mér þykir leitt að Árni skynji skrif mín sem tuð. Ef til vill ætti ég að líta þannig á hans skrif, sem eru niðrandi í minn garð og annarra "trúarnöttara".

Að lokum: Ég held að það sé ekki slæmt að eiga sakleysi sitt undir vitnisburði Geirjóns (hins margnefnda yfirlögregluþjóns). Geirjón getur verið heiðarlegur og gegn maður, óháð því hvort að hann sé haldinn einhverjum ranghugmydnum um trúmál eða ekki. Þetta er leiðinda Ad Hominen.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.