Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

1001 sjúkdómseinkenni

Candida

Algeng brella hjá sölumönnum gervilausna er að telja viðskiptavinum sínum trú um að þeir séu haldnir ýmsum kvillum og verði helst að breyta um lífsstíl (og kaupa söluvöruna um leið) til að fá bót meina sinna.

Til þess að láta kvillana hljóma sannfærandi og að sjúkdómseinkenni þeirra eigi við sem stærstan viðskiptahóp notast sölumennirnir oft við algeng og óljós einkenni sem nær allir finna fyrir einhvern tímann á ævinni. Dæmi um þessa aðferð má sjá í bókinni Candida sveppasýking – einkenni og lyfjalaus meðferð eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu Bergmann.

Hvað er candida?

Candida er ættkvísl sveppa sem lifir í mönnum. Þeir finnast í nær öllu fólki og lifa meðal annars á húðinni, en best líður þeim í þörmunum. Þessi sveppur er oftast meinlaus og býr í sátt og samlyndi við mannslíkamann. Ein tegund sveppsins, candida albicans, getur þó valdið sýkingum, eins og til dæmis sveppasýkingu í kynfærum eða þrusku í munni.

Hjá fólki með bælt ónæmiskerfi, eins og alnæmis- eða krabbameinssjúklingum getur sveppasýking af völdum candidasveppsins verið banvæn. Hjá heilbrigðu fólki er sýking af þessu tagi einfaldlega meðhöndluð með lyfjum sem koma sveppaflórunni aftur í jafnvægi.

Náttúrulækningar og candida

Candida sveppurinn er raunverulegur sveppur og getur valdið raunverulegum sýkingum í fólki. Í bókinni Candida sveppasýking er sveppurinn hins vegar sagður vera valdur að ógrynni einkenna. Bara á bókarkápunni má sjá nokkur af þeim einkennum sem gefið er í skyn að geti verið af völdum candida sýkingar:

Áhugaleysi – sífelldar áhyggjur – stöðugar efasemdir – sýking í ennis- og kinnholum – talvandamál –höfuðverkir – sviði við þvaglát – magabólgur – magasár – útbrot á húð – ofsakláði – köfnunartilfinning – hósti – sýking í hálsi – liðamótaverkir – exem eða þroti í húð – flasa – mikil svitamyndun – hnerri – blóðnasir – kláði í augum – eyrnaverkur – hálsbólga – kláði – brjóstverkir við innöndun – dökkir baugar undir augum – vökvasöfnun – þyngdaraukning – reiðiköst – pirringur

Athugið að þessi listi er ekki tæmandi. Eins og sjá má er þetta heil hrúga af einkennum, allt frá áhugaleysi til eyrnaverks. Engin af þessum einkennum eru skýr sjúkdómseinkenni, heldur geta þau átt við fjölmarga sjúkdóma.

Að auki eru mörg þeirra ekki endilega sjúkdómseinkenni heldur algengir og meinlausir kvillar. Hver hefur t.d. ekki verið pirraður? Hver hefur aldrei fengið blóðnasir, hósta eða höfuðverk, eða haft áhyggjur í einhvern tíma? Hér er candida sýking gerð að mögulegum sökudólgi fyrir þeim öllum, og boðið upp á svokallaða lækningu.

Ekki er vísað í neinar ritrýndar rannsóknir sem gætu fært sönnur á að candida sveppurinn sé jafn mikill skaðvaldur og haldið er fram. Né heldur er útskýrt hvernig vitað er að candida geti valdið t.d. reiðiköstum eða talvandamálum.

Sjúkdómavæðing

Stuðningsmenn náttúrulegra lækninga kvarta oft undan því að almenn læknavísindi eigi það til að sjúkdómavæða allt, bara til þess að geta grætt á aukinni lyfjasölu. Þessari kvörtun má auðveldlega vísa aftur til föðurhúsanna því fjöldamargar náttúrulegar lækningar ganga einmitt út á sjúkdómavæðingu.

Viðskiptavinum er talin trú um að þeir séu veikir, að líkami þeirra þarfnist nauðsynlega hreinsunar og að hann sé ófær um að verja sig sjálfur gegn sýkingum. Síðan er boðið upp á náttúrulega töfralausn. Þetta má kalla skólabókardæmi um að framleiða eftirspurn til að geta selt óþarfa vöru.

Rebekka Búadóttir 18.01.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Haukur Guðnason - 18/01/12 15:12 #

Góð grein og alveg merkilegt hve algengt er verið að bjóða fólki "lækningu" við allskins illa skilgreindum einkennum og hve vel svona bækur seljast.

Þetta kemur mér annars ekki á óvart miðað við höfundana sbr. þennan gullmola frá Guðrúnu:

"Magnesíum er eitt veigamesta snefilefnið, sem frumur líkamans þurfa nauðsynlega á að halda til að starfa eðlilega. Í því er að finna rúmlega 300 ensím, sem mörg skipta gífurlega miklu máli fyrir líkamann..." -MBL 11/5/2011

Það er alveg greinilegt að hún þarf drjúga upprifjun á grunnskóla efna- og líffræði.


Eiríkur (meðlimur í Vantrú) - 18/01/12 16:37 #

Þetta er sérstaklega snúin sjúkdómsgreining ef fólk er með áhyggjur af því að vera með candida.

Áhyggjurnar gætu auðvitað verið einkenni á sýkingu (væntanlega í framheilanum).

Og að greina á milli candida-áhyggna og svokallaðra non-candida-áhyggna getur verið mjög pirrandi.

Nema auðvitað að pirringurinn sé af völdum candida. Þá fer málið að vandast.

Svo er spurning hvort candida getur skert dómgreindina.

(góð grein annars)


haukurv - 18/01/12 17:17 #

Til fróðleiks þá er hér er greinin sem nafni minn vitnar í.

Og hér sést svo af hverju misskilningurinn stafar:

"Magnesium is needed for more than 300 biochemical reactions in the body."

Besta leiðin til að verða sér úti um magnesíum er svo í fæðu (grænu grænmeti sérstaklega), efast einhvern vegin um að það sé tekið upp að einhverju ráði í gegnum húð.

Það er ekki nóg með að reynt sé að selja ýmis konar "lækningar" heldur virðist vera að ef einhver glóra er í "sjúkdomnum" (t.d. candida sýkingar eru vissulega til og magnesíumskortur er ekkert sniðugur) þá eru úrlausnirnar sem boðið er upp á ansi oft byggðar á vægast sagt hæpnum grunni.


Erna Magnúsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 18/01/12 22:49 #

Flott grein! Alveg merkilegt hvað þessi Candida sveppur er fjölhæfur!

Þett með að taka epsom salt upp í gegnum húðina er alveg stórkostlegt. Þetta er eins og að segja einhverjum að fara í sturtu ef sá hinn sami er þyrstur... Bara að taka þetta upp í gegnum húðina....

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.