Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skinhelgi kirkjunnar

Áhugamenn um trúleysi hljóta að fagna þessa dagana, og ekki bara vegna þess að þjóðkirkjan er í vandræðum. Út er komin í íslenskri þýðingu bókin The God Delusion eftir Richard Dawkins, eitt áhrifamesta rit síðustu ára, nefnist á íslensku Ranghugmyndin um guð". Þannig hljóðar hluti nýlegrar bloggfærslu Egils Helgasonar, sem hann kallar „Jól hjá trúleysingjum". Sem formaður Vantrúar og þýðandi nefndrar bókar get ég viðurkennt að ég fagna því vissulega að þær konur sem voru úthrópaðar siðblindir lygarar, geðsjúklingar og druslur hafa hlotið uppreisn æru.

Yfirlýstir trúleysingjar vita mætavel hvaða afleiðingar það hefur að voga sér að gagnrýna stjórnarskrárvarin sérréttindi ríkiskirkjunnar, ofurlaun presta, trúboð í leik- og grunnskólum, sjálfkrafa skráningu barna við fæðingu í trúfélag og fleira.

Þótt yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sé hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju og allir stjórnmálaflokkar stefni að því að afnema sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður þarf enn nokkuð hugrekki til að hafa orð á því. En vogi maður sér að gagnrýna þá trú sem kirkjan kennir sig við eða boðun hennar er það ekki bara túlkað sem ókurteisi heldur hættulegt ofstæki, hatur og niðurrifsstarfsemi af versta tagi. Samstundis er fullyrt að með því sé vegið að grunnstoðum samfélagsins af frekju og yfirgangi sem stafar að sjálfsögðu af brenglun, firringu og sjúku yfirlæti þeirra trúlausu.

Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur gerir sér enga grein fyrir hvað hann er gjörsamlega gegnsósa af kenningum kirkjunnar og þeim lúmska áróðri sem hún beitir á opinberum vettvangi. Í Vantrú höfum við lengi gagnrýnt kristna trú, kirkju og málflutning kirkjunnar manna. Fyrir vikið höfum við fengið að reyna á eigin skinni andúð kirkjunnar manna og ofurkristinna. Við þekkjum skítkastið, símhringingarnar, slúðrið og áhrif á atvinnu okkar. Meirihluti landsmanna hefur hins vegar litla þekkingu á málstað okkar og málflutningi en trúir líklega tröllasögum hinna helgu manna.

Kannski er ekki von á góðu þegar það er beinlínis kennt í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands að málflutningur Dawkins og Vantrúar „grafi undan allsherjarreglu og almennu siðferði" með því að „skerða málfrelsi trúaðra, andmæla almennum mannréttindum, leggja menn í einelti og fordæma minnihlutahópa á borð við gyðinga". Þegar okkur varð þetta ljóst var okkur illa brugðið, og þarf þó nokkuð til. Siðanefnd Háskólans hefur þessa kennslu nú til athugunar.

Þótt það sé lítið mál að kynna sér málflutninginn á vantru.is er auðveldara að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram og klappa sér á bakið fyrir að vera nú ekki neinn öfgamaður í trúmálum heldur umburðarlyndið holdi klætt. En vissulega er full ástæða til að gleðjast yfir útkomu bókarinnar „Ranghugmyndin um guð" á íslensku. Það er ekki ofsagt hjá Agli að þetta er hugsanlega eitt áhrifamesta rit síðustu ára, skrifað af stórmerkum vísindamanni og bráðskemmtilegum penna. Vonandi verður umræða um trúmál á vitrænni nótum þegar fleiri kynnast rökum Dawkins fyrir trúleysi.

Nú þekkjum við þrautagöngu kvennanna sem voguðu sér að segja sannleikann um háheilagan biskupinn. Í eftirmála þýðingar minnar vík ég að baráttu Helga Hóseassonar við kirkjuna og drep á eigin reynslu á því sviði. Þótt mér hafi tekist að fá úrskurð þess efnis að kirkjan hafi á mér brotið bólar ekkert á afsökunarbeiðni þaðan. Einhverra hluta vegna þykir kirkjunnar þjónum það nefnilega sjálfsagður réttur sinn og jafnvel skylda að troða boðskap sínum ofan í kokið á börnum, jafnvel þótt það sé þvert gegn vilja foreldranna.


Birtist í Fréttablaðinu í dag, 21. september

Reynir Harðarson 21.09.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Ingó - 21/09/10 15:39 #

Hefur Vantrú prófað að fá að fara í grunnskólanna og kynna starfsemi sína þar og bjóða upp á einhverskonar kennslu eftir skóla fyrir börn og kenna þá siðfræði og þá skyldur sem eru settar á fólk í lýðræðislegu samfélagi.

Ég spyr að þessu þar sem kirkjan færi í sumum skólum að kynna starfsemi sína í grunnskólunum og væri þá ekki áhugavert að sjá hvað skólarnir myndu segja við Vantrú.


DawkinsFan - 21/09/10 15:59 #

Tek undir það, hefði mikinn áhuga á að fá slíka kynningu í skóla minna barna, t.d. mætti kynna þetta í lífsleiknitímum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/09/10 16:31 #

Vantrú hefur aldrei farið í grunnskólana og stefnir ekki þangað. Persónulega finnst mér afskaplega vafasamt að eitt tiltekið trúfélag fái að herja á grunnskólabörn hér á landi.

Vantrú hefur haldið kynningar/fyrirlestra í framhaldsskólum á þemadögum eða þegar hóað er í okkur.


Kristinn Geir - 21/09/10 17:01 #

Til lukku með bókina Reynir, frábært framtak og ég hlakka til að lesa þýðinguna þína. Mér finnst algjör vitleysa fyrir Vantrú að ganga í skólana til að kynna sjónarmið sem ætti (í fullkomnum heimi) að vera sjónarmið allra barna í landinu, í heiminum ef útí það er farið. Tabula Rasa á við í þessu samhengi, þ.e. börn ættu að vera óskrifað blað þangað til þau ná viskunni til að gera upp hug sinn varðandi þetta málefni, þau ættu ekki að vera forrituð með þeim hætti sem tíðkast í dag um gervalla veröld. Þetta er í mínum huga ein stærsta rót þess vanda sem trúarbrögð eru og hafa verið í gegnum aldirnar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/09/10 17:11 #

Takk, Kristinn Geir. Ég er alveg sammála þér, og Dawkins líka. 9. kafli bókarinnar fjallar um þetta, en hann heitir: "Bernska, misnotkun og undankoma frá trúarbrögðum".


Baldur Kristjánsson - 21/09/10 17:32 #

Þessi bók er mjög góð, ég las hana á ensku. En mér finnst lítil yfirvegun í þessum pistli -vaðið um víðan völl - kirkjan hrakin í hvert hornið af öðru, lúskrað á henni og prestum eins og þetta sé lokapistill höfundar. Nær hefði verið að fjalla um innihald bókar Dawkins þ.e. að guð sé ekki til og trúarbrögð þar með gagnslaus og til óþurftar. BKv. Baldur


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/09/10 17:34 #

Baldur, ég vona að ótti þinn við að þetta verði minn lokapistill reynist ekki á rökum reistur. Vissulega verðskuldar bók Dawkins heila grein, en það á líka við um allt hitt sem ég drap á.


Arnaldur Máni Finnsson - 21/09/10 22:24 #

Þakka þér þessa hrikalega ósmekklegu grein Reynir, blöndu af sjálfupphafningu, auglýsingamennsku og lágkúru af því tagi sem aðeins þekkist, eftir því sem á ykkur er best hægt að skilja, hvergi á viðlíka plani nema innan þjóðkirkjunnar. Ég vona innilega að úrskurður siðanefndar Háskólans varðandi kæru ykkar á hendur Bjarna Randveri komi fram sem fyrst svo ómálefnalegu skítkasti í kennsluna í guðfræði-og trúarbraðgafræðideild linni. En ég bið þig auðmjúklega um það eitt, svo ég geti tekið það fyrir á sviðstjórnarfundi hugvísindasviðs, hvaðan tilvitnanir þínar eru úr kennsluefninu sem um ræðir. Vona svo að þú getir haldið áfram, af heilagri reiði þinni, að níðast á barnaníðingum sem og öðru því ofbeldisfólki sem þér hentar, hvað svo sem þolendum í viðkomandi málum finnst um málflutning þinn. Góðar stundir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/09/10 22:38 #

En ég bið þig auðmjúklega um það eitt, svo ég geti tekið það fyrir á sviðstjórnarfundi hugvísindasviðs, hvaðan tilvitnanir þínar eru úr kennsluefninu sem um ræðir.

Um það getur þú lesið hér.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/09/10 22:40 #

... svo ómálefnalegu skítkasti í kennsluna í guðfræði-og trúarbraðgafræðideild linni.

Ef þetta er álit þitt á umfjöllun okkar, þá geturðu lesið yfir greinarnar okkar sem fjalla ítarlega um málefnið, eru málefnalegar.


Arnaldur Máni Finnsson - 21/09/10 23:56 #

Matti og Hjalti, ég þakka; en ég er að spyrja um þessar beinu tilvitnanir sem eru í greininni og vísað er til innan „gæsalappa“. Umfjallanir ykkar um glærur Bjarna hef ég lesið og þær eru málefnalegar - en mig rekur ekki minni í það ómálefnalega skítkast sem ég er að halda fram að fari fram í grein Reynis, ekki umfjöllun ykkar almennt. Ég hef fylgst með þessu máli í þónokkurn tíma og vona að þau skref sem stigin voru á fundi ykkar hjá félagi guðfræði-og trúarbragðafræðinema séu aðeins fyrstu skrefin á sameiginlegri heillabraut málefnalegrar umræðu um trúarbrögðin. Góðar stundir.


Arnaldur Máni Finnsson - 22/09/10 00:00 #

Þá á ég sérstaklega við eftirfarandi ívitnanir: þegar það er beinlínis kennt í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands að málflutningur Dawkins og Vantrúar „grafi undan allsherjarreglu og almennu siðferði" með því að „skerða málfrelsi trúaðra, andmæla almennum mannréttindum, leggja menn í einelti og fordæma minnihlutahópa á borð við gyðinga" Þakka svo skjót viðbrögð.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 00:19 #

Reynir er líklega að vísa í efstu glæruna hérna.

Ég hef fylgst með þessu máli í þónokkurn tíma og vona að þau skref sem stigin voru á fundi ykkar hjá félagi guðfræði-og trúarbragðafræðinema séu aðeins fyrstu skrefin á sameiginlegri heillabraut málefnalegrar umræðu um trúarbrögðin.

Það væri mjög gaman. Við erum svon sannarlga til í það! En vandinn er sá að ríkiskirkjufólk virðist vera afskaplega hrætt við það að ræða um þessi mál.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 01:02 #

Afsakið að ég hef ekki getað svarað en ég var á fundi um aðskilnað ríkis og kirkju. En ég sé að félagar mínir hafa svarað ágætlega.

Arnaldur talar um ómelefnalegt skítkast - sem er þegar betur er að gáð beint upp úr glærum guðfræði- og trúarbragðafræðideildar. Ég get vel skilið að menn haldi að við ljúgum þessu hreinlega, svo yfirgengileg er þessi "kennsla".

Ég tel mig ekki vera að "níðast" á barnaníðingi heldur að er ég að reyna að ljá þeim máls sem engan talsmann hafa. Hugur minn og samúð er með þolendum barnaníðinga.

Þá að "heillabraut málefnalegrar umræðu". Reyndar var það ég sem skipulagði fund okkar með félagi guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Að vísu voru ekki nema tveir eða þrír slíkir nemar á fundinum þótt fullt væri út úr dyrum. Ástæða þess að ég kem svo seint að þessari umræðu er að eftir fundinn í kvöld sat ég lengi vel á tali við Hjalta Hugason og Örn Bárð Jónsson í þeim tilgangi að auka skilning og draga úr spennu á milli Vantrúarmanna og Þjóðkirkjumanna. Ég vænti ávaxta þess spjalls fljótlega.

En ég hlýt að þakka Arnaldi sérstaklega fyrir fögur orð og góðan huga.


Halldór Logi Sigurðarson - 22/09/10 07:49 #

Ég hvet Vantrú til þess að fara a.m.k. einu sinni í grunnskóla og kynna málefni, ekki til þess að breiða út faganaðarerindið heldur til þess að fá fram harða gagnrýni aumingja eineltu Þjóðkirkjunnar þar sem hún hreytir miskunnarlausum orðum um lygara og hálfvita í ykkur. Þið mynduð síðan segja að þetta hefði ekki verið til þess að vera með áróður heldur til þess að sjá hræsnina sem kirkjan kemur með þegar aðrir fá einnig réttindi, og ýta frekar á að henda burtu kristni og kirkju úr skólum og fá í staðinn alhliðar trúarbragðakennslu og jafnvel örlitla heimspeki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 07:51 #

Við þurfum ekki að fara í grunnskóla til að fá slík viðbrögð, það var nóg að heimsækja framhaldsskóla.


Arnaldur Máni Finnsson - 22/09/10 10:34 #

Þakka viðbrögðin, og elti ekki ólar við smáatriði eins og að þegar hlutir eru settir í beinar gæsalappir ætti að vera um beinar tilvitnanir að ræða.

Á glærunni er talað um Dawkins og fylgismenn hans sem þið mynduð teljast til, annarsvegar - en hins vegar að málflutningurinn sé „vatn á myllu haturshreyfinga“ sem að þið mynduð ekki teljast til, jafnvel þótt að einstaka meðlimur Vantrúar myndi skilgreina sig sem 'militant atheist'. Eða segir einhverstaðar: Vantrú er haturshreyfing sem... x og y og z? Það hefur Bjarni ekki sagt.

Þannig að framsetningin er röng, slitin úr samhengi og því „jafn-siðlaus“ (svo ég beiti til gamans vinsælum stílbrögðum) og kennsluaðferðir B.Randvers, að ykkar mati, sem þið hafið kært. Og ágæti Reynir, þú ert ekki einn um að taka þér stöðu með þolendum ýmiss níðingsskapar sem hefur átt sér stað í gegnum tíðina. Aftur á móti þarf sterkan vilja til að verða að fórnarlambi í ljósi þeirra níðingsverka kirkjunnar sem þú hefur reynt á eigin skinni. Þau eru skrámur í stóru stríði. Með ósk um áframhaldandi vinsamleg samskipti og að ykkur Ástu gangi vel að skipuleggja fundinn með Erni og Hjalta. Heiður þeim sem heiður ber.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 10:38 #

Aftur á móti þarf sterkan vilja til að verða að fórnarlambi í ljósi þeirra níðingsverka kirkjunnar sem þú hefur reynt á eigin skinni.

Hvað ertu að segja hér?


Arnaldur Máni Finnsson - 22/09/10 11:17 #

Er ekki verið að drepa málinu á dreif með þessari spurningu Matti, má ekki Reynir bara svara - þetta var nú til hans? Ég skal skýra þetta víst þú spyrð en tek fram að ég ætla mér ekki að fylgjast sérstaklega með þessum þræði til að svara hvaðeina sem ykkur dettur í hug að taka upp næst. Reynir segir í lokaorðum sínum „Þótt mér hafi tekist að fá úrskurð þess efnis að kirkjan hafi á mér brotið bólar ekkert á afsökunarbeiðni þaðan. Einhverra hluta vegna þykir kirkjunnar þjónum það nefnilega sjálfsagður réttur sinn og jafnvel skylda að troða boðskap sínum ofan í kokið á börnum, jafnvel þótt það sé þvert gegn vilja foreldranna.“ Okkur skal greina á um það hvort það að segja söguna af miskunnsama samverjanum og syngja svo „daginn í dag“ telst vera það að „troða boðskap“ „ofan í kokið á börnum“. Aftur á móti þá blöskrar mér sú fórnarlambs-staða Reynis sem hann tekur í greininni og það samasem-merki sem hann setur á milli sín/ykkar og þeirrar þöggunar (etc) sem þolendur kynferðisofbeldis af hálfu kirkjunnar manna hafa þurft að þola. Það er lágkúran sem ég vísaði til í upphafsorðum mínum hér ofar. Góðar stundir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 11:22 #

Gerir þú þér grein fyrir því að prestur Þjóðkirkjunnar skírði dóttur Reynis án hans vilja eða samþykkis? Dóttur sem hann hefur forræði yfir. Vissir þú að það mál hefur farið í gegnum kerfi kirkjunnar en Reynir hefur aldrei verið beðinn afsökunar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 11:44 #

Arnaldur Máni, ætlarðu að standa við þau orð að í grein minni séu aðfinnslur við kennslu BR "ómerkilegt skítkast"?

Ég veit að gæsalappanotkun mín er ekki kórrétt samkvæmt strangasta skilningi en ég vildi koma því til skila að þessi orð væru beinar tilvitnanir. Réttara hefði verið að setja gæsalappir í kringum hvert atriði fyrir sig en útkoman hefði verið sú sama.

Þú segir að við myndum ekki teljast til haturshreyfinga en þar eru margir kirkjunnar menn þér hjartanlega ósammála.

Eða segir einhverstaðar: Vantrú er haturshreyfing sem... x og y og z? Það hefur Bjarni ekki sagt.

Veist þú um einhverja haturshreyfingu sem skilgreinir sig sem haturshreyfingu? Hver óbrjálaður maður sér hvað Bjarni Randver er að segja með þessari uppsetningu sinni og það þarf "sterkan vilja" til að skilja hann sem svo að Vantrúarmenn tengist á engan hátt þeim skelfilegu hlutum sem hann telur upp að geti leitt af málflutningi okkar.

Og ágæti Reynir, þú ert ekki einn um að taka þér stöðu með þolendum ýmiss níðingsskapar sem hefur átt sér stað í gegnum tíðina.

Var því einhvers staðar haldið fram? Er samstaða mín og samhugur með þöglum fórnarlömbum þá eitthvað ómerkilegri? Hver er tilgangurinn með svona athugasemd?

Aftur á móti þarf sterkan vilja til að verða að fórnarlambi í ljósi þeirra níðingsverka kirkjunnar sem þú hefur reynt á eigin skinni. Þau eru skrámur í stóru stríði.

Menn taka það eflaust misnærri sér þegar mannréttindi þeirra eru virt að vettugi en því hefur þó verið haldið fram að slíkt sé glæpur.

Og hver er þessi Ásta sem þú talar um?

Aftur á móti þá blöskrar mér sú fórnarlambs-staða Reynis sem hann tekur í greininni og það samasem-merki sem hann setur á milli sín/ykkar og þeirrar þöggunar (etc) sem þolendur kynferðisofbeldis af hálfu kirkjunnar manna hafa þurft að þola. Það er lágkúran sem ég vísaði til í upphafsorðum mínum hér ofar. Góðar stundir.

Þú gerir þér eflaust enga grein fyrir því hvað það er að vera úthrópaður ofstækisfullur, hatrammur og hættulegur siðleysingi bæði leynt og ljóst, af háum sem lágum. En ég fæ ekki betur séð en að þessi athugasemd þín endurómi að vissu leyti stærri sneiðar. Félagið Vantrú var beinlínis stofnað sem mótsvar við skítkasti í garð trúlausra og hvasst orðbragð okkar stafar fyrst og fremst af því að við höfum fengið okkur fullsödd af pakkanum en það er auðvitað túlkað sem skortur á umburðarlyndi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 15:09 #

Ætli Arnaldur Máni komi aftur?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 15:34 #

Ég vona að við fáum a.m.k. fréttir af næsta sviðstjórnarfundi hugvísindasviðs.


Ásta Elínardóttir - 22/09/10 17:35 #

Hann Arnaldur Máni karlinn var að tala um mig þegar að hann nefndi Ástu, en hann hélt að þessi fundur væri eitthvað skipulagður af mér þar sem ég hef verið að spá í að koma svona skemmtilegum fundi í skipulag. En þið greinilega urðuð fyrri til, ég hefði nú samt ekkert á móti því að fá að heyra aðeins nánar um þetta hjá þér Reynir þ.e. hvort von sé á einhverri stórkostlegum málfundi og þá hvort pláss sé fyrir guðfræði og trúarbragðafræðinema með í leikinn.

Ég myndi nú samt ekkert búast við honum Arnaldi aftur hér inn í bráð þar sem hann verður svo ósköp æstur og krúttaralegar af því að ræða við ykkur og forðast því þær aðstæður. En hann mun samt eflaust kíkja aftur á endanum þó ekki verði inn á þennan tiltekna þráð eins og hann segir sjálfur hér ofar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/09/10 18:03 #

Æ, greyið skinnið. Er það orðbragðið sem fer svona illa í snáðann? Hann hlýtur að jafna sig ef hann sest til dæmis með góða bók.

Það er ekki von á stórkostlegum málfundi í fyrstu atrennu heldur afar vandmeðförnum þreifingum og slíkt er auðvitað enginn leikur, hvað þá barnaleikur :) *

  • :) Á að vera broskarl og er sett til marks um að orðin beri að skiljast sem góðlátlegt grín. Við biðjum þó auðvitað alla þá sem sárnar svona munnsöfnuður velvirðingar.

Ásta Elínardóttir - 22/09/10 18:18 #

Nei nú hló ég upphátt Reynir og það gerist ekki of oft skal ég þér segja.

En þessi glæsilegi broskarl ætti eflaust að geta sefa sárt hjarta ef svo vera skyldi að það rækist hér inn að lesa þennan óttalega munnsöfnuð er flæðir hér upp um allar trissur.


Snáðinn - 23/09/10 10:56 #

Þrennt: Ég bað um eitt; hvar beina tilvitnun væri að finna. Reynir viðurkenndi að hafa blandað saman ýmsum vísunum í glæru sem fjallaði um haturshreyfingar - ekki Vantrú (ef til vill gæti sjálfsgreining hans á að Vantrú sé haturshreyfing blandast inní málið). Ergo - málatilbúnaðurinn er á röngum forsendum, þarmeð óréttlætanlegur.

Að lokum; ég biðst afsökunar hjá hinum háa herra Harðarsyni á því að hafa ætlað að hann væri að tala um heimsóknir presta/trúboð í skólum, þegar hann er raun fórnarlamb grófs ofbeldis af hálfu kirkjunnar, fyrir tilstuðlan fyrrverandi konu sinnar/barnsmóður. Þessvegna á hann fullan rétt á því að taka sér stöðu meðal allra þeirra sem hafa reynt á eigin skinni þöggun kirkjunnar. Ég er þeirrar skoðunnar að hafi Svavar Alfreð Jónsson ekki hlotið áminningu fyrir tiltekið mál, þá ætti hr. Harðarson að hringja í hann og krefjast afsökunarbeiðni. Það er ekki á mína ábyrgð hvort Reynir fær - eða sættir sig við hana.

Buhu


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/09/10 10:59 #

blandað saman ýmsum vísunum í glæru sem fjallaði um haturshreyfingar - ekki Vantrú

Reynir talar um málflutning Vantrúar, Bjarni Randver segir að málflutningurinn sé „vatn á myllu haturshreyfinga“.

Svo þykir mér þú gera ansi lítið úr trúboði í leik- og grunnskólum. Það er svosem ekkert nýtt frá ríkiskirkjusinnum.


Ásta Elínardóttir - 23/09/10 14:59 #

Þú hlýtur nú að sjá það Matti hvert hann er að fara með þessum tengingum sínum og þú ert alveg að spila með. Það er rangt af þér og ég trúi ekki öðru en að þú sért að fatta það.

Að sjálfsögðu eruð þið ekki að bera saman trúboð í skólum og kynferðisofbeldi. Eða það ætla ég rétt að vona sem manneskja sem hefur "lent" í báðum þessum aðstæðum og get á engan hátt verið sátt við að þær sé settar saman við borð í alvarleika, þó svo að í báðum tilvikum finnist mér vera brotið á mér.

Rétt hefði verið að benda á eins og ég fæ best skilið að tala sé verið um aðgerðarleysi krikjunnar almennt eins og það birtist oft á tíðum en ekki vera að bera saman brotin sjálf.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/09/10 15:08 #

Þú hlýtur nú að sjá það Matti hvert hann er að fara með þessum tengingum sínum og þú ert alveg að spila með.

Ég verð að játa að þegar Bjarni Randver heldur því fram (í glæruröð um Vantrú) að málflutningar Dawkins og fylgismanna hans (en þar á undan hafði hann talið Dawkins upp sem einn áhrifavalda okkar) sé vatn á myllu haturshreyfinga - þá sé hann að fjalla um málflutning okkar.

Einnig þykir Arnaldur Máni gera lítið úr gagnrýni okkar á trúboð í skólum þegar hann segir í fyrri athugasemd:

Okkur skal greina á um það hvort það að segja söguna af miskunnsama samverjanum og syngja svo „daginn í dag“ telst vera það að „troða boðskap“ „ofan í kokið á börnum“.

Þar tel ég Arnald Mána gera lítið úr trúboði í leik- og grunnskólum - en eins og hann veit höfum við gagnrýnt slíkt trúboð hér á Vantrú.

Annað var ég ekki að reyna að segja í síðustu athugasemd minni.


Ásta Elínardóttir - 23/09/10 15:32 #

Aahhh ég sé núna að það er enginn að ræða sama hlutinn einmitt núna. Eða þá að ég er í mínum nýja umburðarlyndi að reyna að sjá eitthvað form úr einhverju sem er ekki til.

En ég var ekki að tala um glærurnar hans Bjarna því ég er ykkur (vantrú) fyllilega sammála þar um rangfærslur og lélega skipulagningu.(þó svo að ég vilji trúa því að Bjarni hafi gert það óvart en ekki viljandi)

Nei ég var að tala um það sem Arnaldur ýjar að aftur og aftur þar til í síðasta kommenti undir í lokinn þar sem hann spyrnir sama þöggunn kirkjunnar (þá vegna kynferðisbrotamálanna) og svo skírn Reynisdóttur (ég set það í flokk með trúboði í skólum en ekki kynferðisbrotum) á mjög svo hreinskiptinn máta.

Það er það sem ég var að tala um en augljóslega ekki þú, því ég er þess handviss um að þú sért mér sammála um að svona hluti ber maður bara ekki saman undir neinum kringumstæðum.

Og að sjálfsögðu hefur Arnaldur og aðrir kristlingar ekkert á móti sögustundum og söng því hver hefur það? Það er hinsvegar kennslan á því að innihald þessara sagna og söngva sé satt sem málið snýst um og þessvegna skilur hann og þeir væntanlega ekki hvað stóra málið er í mótmælum okkar sem ekki vilja trúboð í skólum.


Vigfús Pálsson - 23/09/10 21:16 #

Fyrsta setningin í þessum pistli hljóðar svo...

"Áhugamenn um trúleysi hljóta að fagna þessa dagana, og ekki bara vegna þess að þjóðkirkjan er í vandræðum. Út er komin í íslenskri þýðingu bókin The God Delusion eftir Richard Dawkins, eitt áhrifamesta rit síðustu ára, nefnist á íslensku Ranghugmyndin um guð"."

Í fyrstu var erfitt að gera sér grein fyrir hver er að skirfa hvað, en ég held að það vanti gæsalöpp fremst. Annars væri fyrsta málsgreinin marklítil. Svo virðist vera að hér sé verið að vitna til bloggs hjá Agli Helgasyni, frekar en Reynir Harðarson sé að lýsa eigin tilfinningum.

Mér er nokk sama um hver þykist vera betri og meiri siðferðispostuli en aðrir. En þegar einhver fagnar vandræðum annarra og telur að trúlausir hljóti að vera samsinna, þá er mín fyrirlitning einlæg í þess garð sem gleðst.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/09/10 21:52 #

Kæri Vigfús:

Ég er í Vantrú og ég lít á ríkiskirkjuna sem kýli á þjóðfélaginu, einskonar illkynja, peningasjúgandi, dómsdagspredikandi krabbamein sem þarf að skera í burtu. Þessi stofnun er í vandræðum í dag og þau vandræði eru líkleg til að auka þrýsting á aðskilnað og líkleg til að auka úrskráningum úr kirkjunni. Þetta þykir mér gott. Þetta er ástæðan fyrir því að ég persónulega fagna vandræðum kirkjunnar, að sama skapi og ég myndi fagna því ef krabbamein á ástvini mínum (ástvinur minn er þjóðin í þessu tilfelli, þar sem 75% vilja ríkiskirkjuna aðskilda) myndi lenda í vandræðum með vöxt sinn. Fögnuður minn er af þessu sprottin. Ef það er siðferðislega rangt að fagna því að illkynja æxli eigi erfitt uppdráttar þá viðurkenni ég fúslega siðferðisbrest minn.

(Ég tek hinsvegar fram að orsakir erfiðleika kirkjunnar nú nýlega eru þyngri en tárum taki og auðvitað vildi ég óska, sem og allir aðrir í Vantrú að þessir hlutir hefðu aldrei gerst)

Einnig var Reynir að benda á 2 ástæður til að fagna og er hin útgáfa bókarinnar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/09/10 08:57 #

Fyrstu setningar greinarinnar eru tilvitnun í blogg Egils Helgasonar en ég hef áður skrifað grein um Þórðargleði Vantrúar og þar sagði ég:

Þótt Vantrúarmenn fagni því fölskvalaust að hulunni er flett af skinhelgi og vanhæfni ríkiskirkjunnar í siðferðismálum er hugur okkar jafnframt hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna brota hennar og getuleysis.

Í þessari grein benti ég á tvö gleðiefni: Að konurnar hafa fengið uppreisn æru og að bókin er komin út.

Svo þarf annað hvort afar undarlega heilaleikfimi eða stæka fordóma til að halda því fram að ég líki nauðgunartilraunum biskupsins eða barnamisnotkun við nokkuð sem ég hef mátt þola. En í greininni benti ég á að við höfum kynnst því að kirkjan neitar að horfa í eigin rann, viðurkenna nokkur brot en fyrst og fremst höfum við kynnst andúð kirkjunnar manna í okkar garð, sem guðfræðineminn Arnaldur endurspeglar hér svo ágætlega.

Ég minni líka á það sem ég sagði í "Þórðargleðinni":

Innan kirkjunnar starfa ótal sómamenn og konur sem nú líða fyrir afbrot og afglöp yfirmanna hennar fyrr og síðar. Þau eiga samúð okkar.


Snáðinn - 24/09/10 11:08 #

Reynir, það þarf bæði undarlega heilaleikfimi og stæka fordóma til að komast að þeirri niðurstöðu að guðfræðineminn Arnaldur endurspegli andúð kirkjunnar manna í ykkar garð. Ómálefnaleg framsetning kennsluefnis og alhæfingar um vinnubrögð í guðfræði-og trúarbragðafræðideild, þar sem Arnaldur er í forsvari fyrir nemendur, voru ástæða skrifa hans. Rökræðuna okkar í milli má sjá hér að ofan. Þeirri samræðu er lokið, og hélt ég í vinsemd. En verði þér að góðu Reynir. Og til lukku með þýðingu bókarinnar. Arnaldur Máni Finnsson

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.