Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboðsstöðvar og glæpir

ÞRÁTT fyrir titilinn fjallar þessi grein um skólahald, nánar tiltekið Vinaleiðina og kristnifræði. Skólastjóri dóttur minnar segir gagnrýnendur Vinaleiðar skorta umburðarlyndi og víðsýni (en í Kastljósinu 14. nóvember gat að líta umburðarlyndi og víðsýni hans). Af því tilefni vil ég vitna í nýársprédikun séra Sigurðar Pálssonar 2004. Hann sagði: "Umburðarlyndishugtakinu er gjarnan misbeitt og það látið tákna einhvers konar "mér er alveg sama afstöðu," eða "ég ætla ekkert að vera að halda minni sannfæringu á lofti." Það er ekki umburðarlyndi heldur afstöðuleysi. Um leið og umburðarlyndið gerir þá kröfu til mín að ég virði rétt annarra til sannfæringar og til að fylgja henni eftir, veitir það einnig mér rétt til þess að hafa sannfæringu og fylgja henni eftir. Að vera umburðarlyndur jafngildir ekki því að vera skoðanalaus eða þegja um sannfæringu sína. Sömuleiðis er vert að minna á að umburðarlyndinu eru takmörk sett. Eitt skýrasta dæmið um slíkar takmarkanir er mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Brot á þeim rétti sem hún á að tryggja verða ekki umborin, heldur flokkast þau undir glæpi."

Þegar Sigurður flutti þessa þrumuræðu var kæra foreldra gegn norska ríkinu til skoðunar hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þeir kvörtuðu undan að kristnifræðikennsla í skólum væri hlutdræg, margt í henni væri í raun trúariðkun og trúboð frekar en fræðsla og vildu þeir fá undanþágu frá þessari innrætingu væru börn þeirra sett í óviðunandi stöðu ekki síður en foreldrarnir.

Nefndin skilaði áliti í nóvember 2004 og úrskurðaði að kvörtun foreldranna væri á rökum reist og fyrirkomulagið í Noregi bryti í bága við mannréttindi þau sem séra Sigurður nefndi, sér í lagi ákvæðið: "Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu."

Fyrirkomulagið og kristnifræði á Íslandi er um margt lík því sem gerist í Noregi og úrskurður nefndarinnar á því fyllilega við hér. Ég hef þó ekki heyrt neinn talsmann þjóðkirkjunnar benda á þann glæp.

En þótt kirkjan skipti sér með afar óviðunandi hætti af kristnifræði í skólum, eins bjöguð og hún er, semji námsefni og haldi um það námskeið, hefur hún nú gengið skrefinu lengra í nokkrum skólum og komið þar fyrir fulltrúum sínum, prestum og djáknum. Það er Vinaleiðin, kærleiksþjónustan. Í grein í Morgunblaðinu 3. nóvember benti ég á að fyrirmynd Vinaleiðar í Mosfellsbæ væri klárt trúboð. Í annarri grein 17. nóvember sýndi ég fram á að yfirlýst markmið kirkjunnar með starfi hennar í skólum er boðun. Og í Fréttablaðinu 20. nóvember benti ég á hvernig kirkjan skilgreinir hlutverk sitt (boðandi), hvað felst í trúboði (boðun trúar) og að æðsta vald þjóðkirkjunnar, Kirkjuþing, segir tilgang Vinaleiðar vera trúboð (sbr. kristniboðsskipunina). Allt var það hægt með beinum vísunum í orð og æði kirkjunnar manna.

Þegar boðberar boðandi trúfélags eru komnir með skrifstofu og viðveru í skólum eru skólarnir orðnir trúboðsstöðvar. Í aðalnámsskrá segir þó: "Skólinn er fræðslustofnun ekki trúboðsstofnun...". Í grunnskólalögum er líka lagt bann við mismunun vegna trúarbragða og sömuleiðis í siðareglum kennara. Ef eitt trúfélag hefur aðstöðu innan skólanna og börn kristinna foreldra fá "þjónustu" sem aðrir geta ekki hugsað sér er það mismunun vegna trúarbragða og ekkert annað.

Það er kirkjunnar mönnum til háðungar að halda allt í einu fram að hlutverk presta sé ekki boðun. Óheiðarleika sinn og tvískinnung má þjóðkirkjan opinbera en verra þykir mér þegar gagnrýni á Vinaleiðina er túlkuð sem andstaða við stuðning við nemendur. Ég varði t.d. undanförnum árum að störfum við barnavernd og ber hag barna mjög fyrir brjósti. Ég vil stuðning við þau sem mestan en óháðan trúarbrögðum í skólum. Því finnst mér þessi útúrsnúningur sérlega níðingslegur.

Kristin trú er ekki hafin yfir gagnrýni og þjóðkirkjan enn síður. Sumum hættir þó til að stimpla og úthrópa gagnrýnendur hennar siðlausa og vonda, sér í lagi guðfræðingum. Af þeim sökum veigra margir sér við að tjá neikvæða skoðun á kristni eða kirkju, þeir hafa upplifað á eigin skinni þá andúð og skilningsleysi sem af því hlýst. Þetta er skoðanakúgun. Ég fylgi sannfæringu minni hins vegar eftir og krefst þess af yfirvöldum að þau komi í veg fyrir lögbrot í skólum og gjarnan glæpi í leiðinni.

Sinna mín hefur kostað ómældan tíma, hugarangur og vinnutap. Viðhorf mitt og samstarf við skóla dóttur minnar hefur beðið óbætanlegan skaða. Ég hef ekki aðgang að þeim tæpu fjögur þúsund milljónum króna sem þjóðkirkjan fær árlega, þótt (minnkandi) skattgreiðslur mínar fari í þá hít. Ekkert einkafyrirtæki styrkir málstað minn, líkt og Sund hf. kostar Vinaleiðina. Í ljósi aðgerðaleysis yfirvalda er eina leiðin að réttlæti e.t.v. rándýr og tímafrek lögsókn sem vafalaust yrði túlkuð sem aðför að almennu (kristnu) siðgæði og kærkomnum stuðningi við nemendur.

Má ég frábiðja mér svona vinarþel og kærleika?


birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2006

Reynir Harðarson 15.01.2007
Flokkað undir: ( Skólinn , Vinaleið )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 08:50 #

Þetta er stórglæsileg grein. Öll rök og réttlæti standa með þér Reynir.


Þorsteinn Ásgrímsson - 15/01/07 11:02 #

Maður heldur það stundum að maður sé eitthvað klikkaður að standa með þér og vera sammála þér í þessari baráttu. Þegar flestir aðilar annaðhvort sleppa því að taka afstöðu í þessu, hallast til kirkjunnar afstöðu eða taka beina afstöðu með henni og virðast hafna öllum rökum (allavega frá okkar sjónarhóli), verður maður stundum að efast um sjálfan sig og sínar skoðanir.

En eins og svo oft áður, frábær og þörf grein. Væri óskandi að yfirvöld/skólastjórn/aðrir viðkomandi færu nú að tjá sig um þetta mál af viti og með rökum. Maður er orðinn þreyttur á útúrsnúningum og almennri vitleysu.


Ester - 15/01/07 11:19 #

Hæ, ég ætlaði nú reyndar ekki að segja neitt tengt þessarri grein heldur er það meira tengt þjóðskrár/trúfélagsumræðunni sem var í gangi í nóvember. Ég var ein af þeim sem uppgvötaði sér til mikillar hrellingar að ég var skráð í þjóðkirkjuna þótt ég hefði skráð mig úr henni fyrir mörgum árum síðan, þannig að ég sendi til þeirra nýtt fax. Síðan var ég að athuga skráninguna mína í dag og það kom í ljós að ég er skráð í HVÍTASUNNUSÖFNUÐINN síðan 29. nóv! Ég er búin að vera að reyna að ná í manninn sem sér um þetta í allan dag en það gengur e-ð brösulega.... Mér datt í hug að þið hefðuð áhuga á að fá að heyra þetta.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 11:38 #

Ætli þeir ráði bara lesblint fólk hjá Þjóðskránni?!?

En rétt, þessi umræða á ekki heima undir þessari grein. Svona á best heima á spjallinu eða undir grein sem fjallar um þetta eins og þessari hérna


Viddi - 15/01/07 13:16 #

Ég skil ekki hvernig fólk getur virkilega stutt þessa Vinaleið í einu og öllu, það er bara ofar mínum mannlega skilningi. Þetta er klárt brot á mannréttindum barna og foreldra, klárt brot á grunnskólalögum og bara öllum almennum kurteisisreglum sem við Íslendingar höfum tamið okkur í gegnum aldirnar. Það eru engin grá svæði í þessu, það er ekkert á reiki, þetta er hreint og beint bannað, og ég bara skil ekki hvernig fólk sér í gegnum fingur sér með svona mál. Að styðja þessa vinaleið er augljós vantrausts yfirlýsing á lögin og löggjafarþing Íslendinga.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 14:49 #

Ég er hættur að versla við Olís (Sund hf.). Bojkottum Olís!


Geiri - 15/01/07 16:06 #

Góð og málefnaleg grein Reynir. Baráttan er rétt að byrja.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 17:27 #

Ég þakka hlý orð. Það er athyglisvert að enginn hefur enn séð ástæðu til að svara mér. Getur verið að meðmælendur Vinaleiðar viti upp á sig skömmina?


Humm - 15/01/07 22:04 #

Afhverju flytur svona fólk ekki bara til lands þar sem trúarbrögð fá ekki að vaða uppi. Kína t.d?


JB - 15/01/07 22:17 #

Líklega þar sem það er bara önnur tegund af kúgun í kína.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 23:22 #

Humm, ég minntist einmitt á hvernig ástandið gæti verið í Kína í grein um hlutlausa skóla hér á vantrú fyrir stuttu.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/01/07 00:19 #

Afhverju flytur svona fólk ekki bara til lands þar sem trúarbrögð fá ekki að vaða uppi. Kína t.d?

Af hverju velurðu Kína en ekki lönd eins og Frakkland og Bandaríkin?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/01/07 15:54 #

Þótt margir stuðningsmenn Vinaleiðar hafi séð þessa grein í Morgunblaðinu og eflaust nokkrir hér er eina svarið: "Því flyturðu bara ekki til Kína?" Þetta "svar" er sent frá netfangi við Háskóla Íslands svo maður hlýtur að ætla að þar fari nemandi í guðfræði. Aumt er það.


Humm - 17/01/07 02:12 #

Hér skrifaði ég undir netfang birtist hvergi ;) Þá á ekki að koma fram hvaðan það er, er það nokkuð. Ég er ekki að læra guðfræði svo það sé á hreinu. Er að læra sagnfræði. Ástæðan fyrir að ég nefndi Kína er sú að þar er trúboð almennt bannað. Er það ekki í Bandríkjunum og Frakklandi, þó það sé ekki leifilegt í skólum og aðskilnaður við trú meiri en í öðrum vestrænum samfélögum.


Humm - 17/01/07 02:13 #

En Davíð er mitt nafn og er ég Guðmundsson ;)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/07 02:58 #

Ástæðan fyrir að ég nefndi Kína er sú að þar er trúboð almennt bannað. Er það ekki í Bandríkjunum og Frakklandi, þó það sé ekki leifilegt í skólum og aðskilnaður við trú meiri en í öðrum vestrænum samfélögum.

Og höfum við einhvern tímann beðið um að allt trúboð verði bannað? Ef ekki, hvers vegna ertu að tengja okkur við Kína?

En við höfum talað gegn trúboði í skólum, alveg eins og í Frakklandi og Bandaríkjunum. Hvers vegna valdirðu ekki þessi lönd? Kannski af því að það eru ekki 'vond' lönd?


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 17/01/07 10:11 #

Nefnum norðurlönd fyrir utan Ísland og Færeyjar. Það er hvergi þannig að prestar herji á börn í skólanum með þessum hætti.


Humm - 17/01/07 13:42 #

Mér finnast Bandaríkin og Frakkland alls ekki fyrirmyndarsamfélög, ef út í það er farið. Kannski endurspeglast það af því að ég er hálfur Svíi og jafnaðarmaður með meiru

Ég nefndi Kína af því ég nefndi eitt land. Vissulega ætti Frakkland og Bandaríkin að vera Mekka þeirra sem lýta trúariðkanir í skólum hornauga.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.