Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Himininn er að hrynja!

Aðalríkur höfðingi Gaulverja í Ástríksbókunum lét bera sig á skildi til að draga úr meiðslum sínum þegar himnarnir hrynja. Núverandi æska hlær að Kjúlla litla sem upplifir himininn hrynja. Ótal teiknimyndir gera grín að rugludöllum með skilti sem segir að heimsendir sé í nánd og kirkjan lofar og prísar mann sem sagði fyrir 2000 árum að… heimsendir væri í nánd.

Hvernig stendur á því að við hlæjum að Aðalríki, Kjúlla litla og nötturum en tökum heimsendaspámanninn frá Palestínu fyrir 2000 árum alvarlega? Er ekki deginum ljósara að hann hafði rangt fyrir sér? Og hver er tilgangurinn með hrakspánum? Getur verið að það sé að skapa ótta?

Á fyrri hluta 20. aldar tókst nasistum að espa upp heila þjóð og etja henni út í heimsstyrjöld, og þó var heimurinn ekki búinn að ná sér eftir síðustu ósköp. Hvernig var þetta hægt? Nasistar voru snillingar í áróðurstækni og einn helsti hugmyndafræðingur þeirra í þeim efnum, Hermann Göring, sagði:

Auðvitað vill almenningur ekki stríð, hvorki í Rússlandi, Englandi, Bandaríkjunum né Þýskalandi. Það gefur auga leið. En þegar allt kemur til alls eru það þjóðarleiðtogarnir sem ráða stefnunni, og það er alltaf hægðarleikur að fá fólkið til liðs við hana, hvort sem um er að ræða lýðræði, einræði fasista, þingræði eða einræði kommúnista. …Hvort sem hann tjáir sig eður ei er alltaf hægt að fá almenning til að hlíta valdboði leiðtoganna. Það er hægðarleikur. Það eina sem til þarf er að segja að hann hafi orðið fyrir árás og fordæma friðarsinnana fyrir skort á ættjarðarást og að vilja stofna landinu í hættu. Þetta hrífur á sama hátt í hvaða landi sem er.

Undanfarin ár hefur trúleysi vaxið ásmegin hér á landi. Fólk skammast sín ekki lengur fyrir að viðurkenna að keisarinn er ekki í neinum fötum, kristin trú er barnaskapur í besta falli en vitfirring í því versta. Síðasta vígi kirkjunnar er að falla, siðfræðin. Fólk er farið að sjá í gegnum þá blekkingarhulu að gott siðferði hljóti að byggja á trú á kallinn á himnum. Það verður svo augljóst þegar kirkjan sjálf er helsti Þrándur í Götu framfara í siðferðismálum. Hún barðist með nasistum, gegn afnámi þrælahalds, gegn kvenréttindum o.s.frv. þegar hún var hætt að pynta fólk og lífláta fyrir sannar og ímyndaðar sakir. Og nú nýlega berst hún með oddi og egg gegn réttindum samkynhneigðra. Núverandi biskup kallaði það að henda hjónabandinu á sorphauga sögunnar ef samkynhneigðir fengju að kalla staðfesta sambúð sína hjónaband og faðir hans, biskup líka, kallaði það evrópska sérvisku að virða mannréttindi í skólum.

En undanfarið höfum við fengið að sjá að trúaðir ganga vígdjarfir í smiðju Görings og mála skrattann á vegginn til að þjappa fólki saman um launaseðilinn þeirra. Þeir segja að ef trúleysi nái fótfestu hér blasi við upplausn og hörmungar. Já, gott siðgæði hefur orðið fyrir árás og þeir sem spyrna ekki við fótum skortir ættjarðarást og vilja stofna landinu í hættu!

Fer ég með fleipur?

Missi kirkjan minnsta spón úr aski sínum eru þetta afleiðingarnar:

Afleiðingin verður tilgangsleysi, tómhyggja og að vera ófær um að treysta nokkrum eða neinu, og að öll viðmið til að byggja líf sitt á tapast.

-Herra Karl Sigurbjörnsson (Setningarræða á Kirkjuþingi 2006)


Guðlaus maður í afhelguðum heimi er skeytingarlaus um allt, ber ekki lotningu fyrir neinu. Dæmi þess sjáum við allt um kring í rányrkju, mengun og ofbeldi öllu, sem nú ógnar lífi og framtíð móður jarðar.

-Herra Karl Sigurbjörnsson (Í birtu náðarinnar)


Já, það er undiralda í okkar samfélagi, og hún þyngist. Það er alda vantrúar og guðleysis, oft á tíðum ofstækisfulls guðleysis sem litlu eirir og fátt virðir, nema það sem sjálfsagt þykir í hennar augum – hinn nýi rétttrúnaður.

-Sr. Gunnar Jóhannesson


Og svo höfum við á hinn bóginn hatramma og þröngsýna heimshyggju sem hamast gegn trú í sérhverri mynd og leggur allt að jöfnu. - Seint verða ríki Hitlers og Stalíns kennd við frið og frelsi! Þau voru mestu manndráparar tuttugustu aldarinnar. Ríki sem settu manninn í öndvegi og leituðust kerfisbundið og markvisst við að ganga af allri guðstrú dauðri. Þau byggðu á guðlausri hugmyndafræði, sem gaf sig út fyrir að vera reist á vísindalegum forsendum og sögulegri nauðsyn. Og út frá þeirri forsendu sáu þeir Hitler og Stalín fyrir sér fyrirheitna landið rísa á fjöldagröfum milljónanna sem nauðsyn bar til að ryðja úr vegi.

-Herra Karl Sigurbjörnsson


Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.

-Herra Karl Sigurbjörnsson


Ég óttast mest, um þessar mundir, að samtíminn sé að verða ólæs á arfleifðina. Það ríkir hér, nú orðið, sorglegt ólæsi á heilaga ritningu og allt það góða sem hún hefur fært þessari þjóð. Hvernig eigum við, sem höfum fengið að erfðahlut svo mikilvægt kall til heilbrigðrar samfélagsstefnu, sem kristindómurinn færir okkur, að geta skilið, hver sé grundvöllur siðgæðis og þekkingar og mannskilnings, ef við kunnum ekki að lesa einföldustu tákn trúar og um leið menningar. Ef við horfumst í augu við samtímann, verður okkur ljóst, að hann getur ekki einu sinni skilið helstu bókmenntir vestrænnar menningar, af því að hann þekkir ekki táknmál arfleifðarinnar, trúarinnar, Biblíunnar.
Erum við þá eitthvað vitlaust klædd? Erum við t.d. ekki íklædd ótta og vantrú, þegar við lokum okkur inni í ráðleysinu yfir ofbeldi götulífsins, í stað þess að þyrpast út á göturnar og mæla gegn ógninni, sameinuð og af skilningi, þekkingu, kjarki - og réttvísi. Gildir ekki einmitt að skilja eymd þeirra, sem beita ofbeldinu,- að þeir ráfa um í vansæld fávísi og stjórnleysis, úr takti við raunsæja sjálfsmynd og mannlífsmynd og hafa misst fótfestuna í heimsku sinni. Það er eiginlega ekki rétt orð, heimska, heldur færi betur að líkja því við sjúklegt ástand. - Frelsi mannsins miðar að því að verða frjáls frá eymdinni, óöldinni, ógninni, heimskunni, og hafa vilja og þor til þess að takast á við ósköpin, óttalaust, sameinuð, - og í nafni Drottins. - Arfleifð þjóðmenningar okkar er dýrmæt. Þar mætast lög og trú í hlýju og þéttu handtaki. Hér er rúm fyrir alla þá, sem fylgja vilja lögum landsins.

-Sr. Birgir Ásgeirsson


Verði samtökum trúlausra og flestum “vísindamönnum” að þeirri ósk sinni að allri trú og trúarbrögðum verði kippt úr þjóðfélaginu og einstaklingarnir skildir naktir eftir og með innihaldsleysið og tilgangsleysið í lífi sínu, þá heldur rótleysið innreið sína í enn sterkari mæli en er í dag í þjóðfélaginu, með öllum þeim kræsingum sem því fylgir: Sbr. afþreyingariðnaðinn (fáum okkur spólu, það er svo leiðinlegt hérna), - og vímuefnavandinn sem lausn á firringunni vegna þessa alls (prófum eitthvað nýtt, veikt eða sterkt, vín eða ekki vín, efni eða pillur, það er svo leiðinlegt hérna), - og þá er stutt í mun auknara ofbeldi í þjóðfélaginu út frá þessum hópum en er í dag.

-Magnús Skarphéðinsson (Mbl. 9. nóv. 2006)


Andstæðingar kristninnar fara mikinn í nútímanum, hin andlega barátta er hörð og oft óvægin, það er enn reynt að grýta fulltrúa sannleikans og gæskunnar í þessum heimi, þess vegna er svo nauðsynlegt að við sem höfum játast Kristi, hin kristna kirkja standi saman og berjist góðu baráttunni, sem Jesús gaf okkur fyrirmynd af.

-Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson


Nú höfum við orðið vitni að átökum um lífsskoðanir verið áberandi hér á landi nú um vetur. Þar sem hin harða og kalda andstaða gegn kristinni sem einkenndi upphaf fyrri aldar sé gengin aftur í hatrömmum andtrúaráróðri. Hinn andlegi hafís guðleysisins lónar fyrir landi og ískalda og vonarsnauða þoku stafar af honum. Gegn því stendur hinn hlýi vorþeyr upprisutrúar og vonar.
Hvorum megin viltu vera? Hvora lífssýn viltu að barnið þitt aðhyllist? Hvort viltu vita það í hafís tómhyggju og vantrúar, eða í vorþey trúarinnar?
Trú og efi vega salt í lífi okkar allra. Eina stundina finnum við dragsúg vantrúar og vonleysis.

-Herra Karl Sigurbjörnsson


Ef þjóðin hættir að kunna sæmileg skil á inntaki kristinnar trúar, þá rýfur hún sambandið við sögu sína og menningu, gildismat og grundvöll. Verður sögulaus þjóð, lýður án fortíðar. Íslensk rokkstjarna sem er líka fræg í útlöndum, sagði í viðtali um daginn, að þessi hefðbundnu trúarbrögð hefðu gengið sér til húðar. Það væri nær að sækja sér guðlegrar og andlegrar uppbyggingar til náttúrunnar með umhverfisrækt. Já, mikil er þörfin að virða og varðveita náttúruna, um það efast fáir. En ætlar maðurinn að gera það á sínum forsendum? Þeir reyndu það í Austantjaldsríkjum og bönnuðu trúarbrögðin um margra áratugaskeið og sögðu að maðurinn væri almáttugur og Herra lífsins. Afleiðingarnar urðu skelfilegar, mannréttindi fótum troðin og náttúran víða rústum líkar.

-Sr. Gunnlaugur Stefánsson


Hópur siðblindingja hefur undanfarið stjórnað umræðunni í íslensku samfélagi. Alls kyns kröfur eru uppi um að slaka á trúarlegri kennslu í skólum og útrýma helst þeim kristnu gildum sem þó hafa verið ramminn utan um siðferði í samfélaginu. Víðtæk sátt er um að Þjóðkirkjan gegni sínu hlutverki þótt auðvitað megi ýmisleg lagfæra þar. Öfgahópar vilja afmá kynjamun með þvi að banna skilgreingu barna á fæðingardeild. Rugludallar hafa farið mikinn og þeir hafa fengið hljómgrunn í hættulegum órum sínum um að dauðhreinsa samfélagið. - Það er áríðandi að almenningur stöðvu framrás guðlausra og siðblindra. Taumlaust og óagað frjálslyndi getur aldrei orðið til annars en bölvunar fyrir alla. Minnihlutinn sem vill kasta góðum gildum fyrir róða má ekki stórna öllum hinum sem vilja lifa sínu lífi í anda þeirra góðu gilda sem eru grundvöllurinn að góðu og öfgalausu samfélagi.

-Reynir Traustason


Það eru ekki bara Rómverjar sem eru klikk.

Reynir Harðarson 01.10.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 01/10/08 15:02 #

Þetta lið er svo bilað að orð fá ekki lýst.


Valtýr Kári Finnsson - 01/10/08 20:26 #

Vá, það fær á mann að lesa þetta allt. En sú mannfyrirlitning.

P.S. Það voru nasistar sem sem fundu upp þotuna, og byggðu hraðbrautir, og komu lestarkerfinu á áætlun, og bönnuðu reykingar í almenningssamgöngum. Og kommúnistar sendu fyrsta gervitunglið á sporbaug um jörðu. Við verðum því að losa okkur við þetta allt saman. ÞAÐ ER SAMHENGI ÞARNA Á MILLI, SJÁIÐ ÞIÐ ÞAÐ EKKI?

Og best er ef að við búum öll í moldarkofum, sveltandi, og í elífri lotningu fyrir almáttugum gvuði og klerkum hans einsog á gullöld íslenskrar kristinar kirkju!


Valtýr Kári Finnsson - 01/10/08 20:27 #

Fyrirgefið mér ... ég held að ég hafi misst mig aðeins þarna.


gimbi - 01/10/08 21:51 #

Ertu ekki aðeins að missa þig?

Ég hnaut um þessa ályktun þína:

"Missi kirkjan minnsta spón úr aski sínum eru þetta afleiðingarnar:

Afleiðingin verður tilgangsleysi, tómhyggja og að vera ófær um að treysta nokkrum eða neinu, og að öll viðmið til að byggja líf sitt á tapast."

...sem Karl bissi sagdi í den.

Þú getur varla leyft þér svona túlkanir?

Er þetta bara svona: "paint -by-nymbers"?


Viðar - 01/10/08 23:36 #

"Hópur siðblindingja hefur undanfarið stjórnað umræðunni í íslensku samfélagi." og "Það er áríðandi að almenningur stöðvu framrás guðlausra og siðblindra"

Þættu hjá flestum hópum ásakanir nægar til að höfða meiðyrðamál.

Ég get vart trúað því að Reynir Traustason hafi ekki fengið sterk viðbrögð frá trúlausum og guðlausum eftir þennan rógburð í þessarri viðbjóðslegu grein.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/10/08 08:48 #

Nafni minn var bara að "lepja upp spýjuna" (orðalag Sigurbjörns Einarssonar, biskups og biskupsföður) úr munni herra Karls Sigurbjörnssonar.

Ég hef reyndar sent inn erindi til úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar þar sem ég hélt að hún liti á svona róg sem siðferðis- eða agabrot. En nefndin neitar að taka fyrir svona svívirðu á þeim forsendum að einstaklingur geti ekki kvartað, honum komi málið ekki við, nema biskupstetrið eða aðrir kirkjunnar menn nefni hann sérstaklega í fúkyrðaflaumi sínum.

Að sama skapi telst það ekki siðferðis- eða agabrot þótt sömu aðilar segi ítrekað ósatt og brjóti mannréttinda- og landslög, ef þeir eru að framfylgja stefnu kirkjunnar - ráðast inn í skóla.

Réttlæti fræðimanna- og farísea er vissulega ábótavant nú sem fyrr.


Viðar - 02/10/08 09:53 #

Maður veltir því fyrir sér hvað hefði gerst hefðu þessir menn verið að tala um Íslam í stað trúleysis, það hefði allt orðið vitlaust. Fyrir utan að þessir menn hafa ekki þor í að ráðast á íslamska trú.

Ég er ekki að segja að trúleysisstefnan á íslandi eigi að fara að haga sér eins og múslimaklerkar í miðausturlöndum en þegar svona er skitið yfir stefnuna er í lagi að vera með læti.


Gunnlaugur - 02/10/08 10:56 #

Hevý shit!

En hvenaer kemur grein á vantrú um gedbilunina sem býr ad baki óskynsamlegrar trúar velflestra veraldlegra yfirvalda á Íslandi sem og vídar í heimi hér á hina ósýnilegu hönd markadarins.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/10/08 16:07 #

Já, í þessum efnahagshamförum verða þær æ fleiri raddirnar sem halda því fram að kapítalisminn og hin frjálsa markaðshyggja byggi á bábiljum. Þetta er þó utan seilingar þess sem Vantrú einbeitir sér að. Við rekum ekki pólitískt rit hér.


Pétur Björgvin - 03/10/08 21:53 #

... nei, engin pólitík hér Birgir ... (ö


Sveinbjörn - 04/10/08 04:21 #

Hvílíkt bull, samhengislaust bull. Þið skiljið ekki að manneskjan er samsett úr mörgum lögum. Ef það væri ekki svo, hefði táknið enga þýðingu, en þið berjist.. Ég veit eiginlega ekki við hvað.


Sjonni - 04/10/08 04:48 #

Vá. Takk, Sveinbjörn. Ég hef bara aldrei pælt í þessu en núna sé ég þetta svo augljóslega. Auðvitað er manneskjan "samsett úr mörgum lögum." Hvernig ætti "táknið" annars að hafa þýðingu? Það hlýtur jú að segja sig sjálft að "táknið" verður að hafa þýðingu. Krefst ekki frekari útskýringa.


bevarca - 04/10/08 05:02 #

Af hverju að hata kirkjuna svona augljóslega? Hún er það sem hún er, og þú ert það sem þú ert. Hefur þú enga virðingu fyrir öðrum skoðunum??? Þó þær séu andstæðar þínum? Geturu þú ekki leyft öðrum að vera öðruvísi? Hvaðan fær þú þessa illsku þína? Þessa bælingu. Kirkjan er klikk, og hvað með það. En þú??? ertu miðill eða hvað ...


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 04/10/08 10:35 #

Gott að þú minntist á virðingu fyrir andstæðum skoðunum. Ekki það að ég sé sérstaklega hörundsár en það stingur mig einfaldlega þegar hálaunaðir opinberir starfsmenn láta útúr sér frasa eins og

"Hinn andlegi hafís guðleysisins" og "Hópur siðblindingja" og "og þá er stutt í mun auknara ofbeldi í þjóðfélaginu út frá þessum hópum en er í dag."

Kirkjan mætti allveg vera eins og hún er ef þetta væri ekki rekið fyrir skattpening.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/10/08 11:29 #

Bevarca, er það virðingarleysi við skoðanir annarra að benda á þær, birta þær? Finnst þér mikil virðing borin fyrir trúleysi og trúlausum í þessum tilvitnunum í greininni?

En ég er ekki miðill, nei.

Sveinbjörn, takk fyrir ábendinguna. Við berjumst gegn þeirri forheimskun sem birtist svo augljóslega í þessum tilvitnunum í greininni og gegn klikkun kirkjunnar almennt. Og við berjumst gegn því að ríkið styrki þessa klikkun með fimm þúsund milljónum króna árlega.

Við teljum heilbrigða skynsemi ekki mannskemmandi ofstæki. Fái hún að ráða blasir ekki við tilgangsleysi, tómhyggja, skeytingarleysi, siðleysi og náttúruauðn, að okkar mati. Þarna greinir okkur og sanntrúaða á.

Það er ekki hatur, virðingarleysi eða illska að benda á árásir opinberra starfsmanna sem kalla sig fulltrúa gæskunnar og sannleikans.


Sveinbjörn - 05/10/08 05:56 #

Kirkjan er órjúfanlegur hluti af tiltekinni lífsskoðun. Það vitum við, en þurfum við ekki að velja á milli þess að ráðast á kirkjuna sem stofnun, eða skiptast á skoðunum um eðli trúarinnar?


Sveinbjörn - 05/10/08 06:42 #

Mér virðist stundum eins og manneskjan sé ekki allskostar með sjálfri sér, öfugt við flest önnur dýr sem ég hef hitt. Frelsi hennar t.d er mun flóknara viðfangsefni en flug fuglsins. Ég spyr sjálfan mig, hvað ætli felist í þessum mun á okkur og dýrunum? Við erum samferða í þróunarsögunni, á því leikur enginn vafi. Við höfum mjög sérhæft tungumál, önnur dýr kunna að hafa það einnig, en tungumál okkar er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Ekki síst vegna þess að við eigum eitt orð sem er guð. Það er stórfurðulegt. Ég held að kisan mín kannist ekkert við þetta orð. Hvað er það í vitund minni sem kallar það fram?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/08 10:38 #

Við höfum líka eitt orð yfir kjaftæði.

Sveinbjörn, um hvað í andskotanum ertu að tala? Er þetta eitthvað óráðstal af vegum ofskynjunarsveppa?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/08 11:14 #

Ekki sé minnst á öll þessi orð yfir "að skíta á sig", "drulla uppá bak" og að ógleymdu "mikil skelfingar óskapnaðar óþefur er af þessum viðbjóði!". Dísus fokking kræst.

Stundum, Sveinbjörn, er gott að kreppa saman puttana áður en maður pikkar og hugsa sig vel og vandlega um áður en maður ýtir á "Senda"

Þetta tiltekna bull fær svo gjörsamlega að standa.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/08 13:15 #

Sveinbjörn spyr hvað valdi því að menn, ólíkt öðrum dýrategundum, gangi um með guðshugmyndir. Þetta er góð spurning og ég hef margoft gert tilraunir til að svara henni, t.d. hér:

Hvað er það í vitund minni sem kallar [orðið guð] fram?

Innræting fyrst og fremst. Þetta er smit gamalla hugmynda kynslóð eftir kynslóð af þeirri ástæðu einni að þær eru samfélagslega viðurkenndar og jafnvel að þeim hlúð og þær ríkisstyrktar, eins og hér á landi.

En samfélagsleg viðurkenning hugmynda hefur ekkert með réttmæti þeirra að gera. Um leið og menn byrja að spyrja sig um réttmætið gufa þessar hugmyndir oftar en ekki upp eins og dögg fyrir sólu.

Hlutverk okkar sem höldum úti þessu vefrit er fyrst og fremst að hvetja fólk til að spyrja út í réttmætið.


Finnur - 05/10/08 13:58 #

Ég ætla bara rétt að vona að danskurinn og Lárus Páll haldi áfram að auðga umræðuna hérna með skrifum sínum og varðveiti þannig lágmarksstaðal á umræðunni.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 05/10/08 20:42 #

Þetta voru kanski soldið gróf viðbrögð hjá þér Þórður, en hvað með það :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.