Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sunnudagsbréf

I

Í lok janúar var ein stöðubreyting hjá Vantrú, Þórður Ingvarsson tók við ritstjórnarstólnum af Birgi Baldurssyni. Nýi ritstjórinn kom sér þægilega fyrir og hóf örlitlar breytingar á vefnum, þó ekki svo djarfar að stefna félagsins hafi breyst, Vantrú er enn félag sem berst gegn hindurvitnum.

Það voru ekki margar áherslubreytingar hjá nýjum ritstjóra, enda er enn verið að fikra sig áfram í starfinu. Tekin verður upp sú nýbreytni að birta leiðara fyrsta sunnudags hvers mánaðar þar sem allt það helsta sem birtist á vefnum mánuðinn á undan er dregið saman og gerð stutt en ágætt skil. Einnig verður vísað í umræðu utan vefsins sem tengist trúleysi og trú almennt.

Auk þess verður reynt að hafa spes þemavikur í hverjum mánuði. Í febrúar var heil vika sem fór í að ræða um Íslam, sem lesendur virtust vera almennt sáttir við. Í þessum mánuði verður eydd vika í að ræða um hina Rómversk-Kaþólsku trú og vonum við að lesendur munu hafa gagn og gaman af. Lesendur mættu einnig gjarnan koma með ábendingar um hvað mætti taka fyrir einhverja vikuna sem svo yrði athugað af ritstjórn.

Í janúar og febrúar var spurt hvort að einhverjir í Vantrú væru til í að koma í tvo framhaldsskóla til að halda fyrirlestur er varðar trú og hindurvitni, í Menntaskóla Reykjavíkur og Borgarholtsskóla, sem að sögn gekk nokkuð vel og var vel tekið af þeim sem sóttu. Svo er aldrei að vita nema að Vantrú standi fyrir bingói þann tuttugasta og fyrsta mars næstkomandi.

II

Þann 31. janúar var birtur hinn árlegi Ágústínusarverðlaunarlisti sem veitt eru fyrir framúrskarandi framtak í guðlegum vísindum, en þetta er þriðja árið í röð þar sem þessu merku vísindi er upphafin af meðlimum Vantrúar, en verðlaunin voru því miður af verri endanum þar eð að þau voru engin. Það er náttúrulega draumurinn að þetta yrði einhvern tímann í framtíðinni að feiknarlega íbúðarmikilli hátíð þar sem prestar og prelátar mæta prúðbúnir og fara með gvuðlega innblásnar ræður eftir að hafa tekið við veglegum verðlaunum. En það verður langt í það.

Febrúar hófst með ágætu skoti á opinbera hugmyndafræði og svo tók við áðurnefnd Íslamsvika Vantrúar, sem stóð frá sunnudeginum 3. febrúar til þann 9. Spurningunni um ástæður þess hví Vantrú talar svona lítið um Íslam var svarað og vel það. Rýnt var í tvær íslenskar bækur er fjölluðu um viðfangsefnið, velt vöngum yfir því hvort kristni væri einhver vörn gegn Íslamistum og fleira til. Það hefði þó verið ágætt ef múslímar á Íslandi hefðu lagt eitthvað til málana þessa viku, en máske verður af þeirri bón síðar.

Nýtrúarhreyfingar, á borð við Pastafara, Kirkja undirsnillingana, iðkendur Eris (Fnord) og meira segja Jedi-samtökin og svo eru til hin sérstæðu farmkölt (cargo-cult) á ýmsum smáeyjum í Kyrrahafinu, þetta er eitthvað sem mætti ræða stöku sinnum um, enda áhugavert frá félags- og trúarbragðafræðilegum forsendum. Þann 15. febrúar var haldið hátíðlega uppá John Frum daginn á eyjunni Tanna í Vanutu í S-Kyrrahafi. Einum lesanda fannst þessi trúarbrögð hafa einhver kunnugleg stef:

Fólk með afbakaðar hugmyndir úr fortíðinni að bíða eftir einhverju sem aldrei kemur.#

Svo má til með að benda lesendum á góða úttekt hjá Jón Steinari Ragnarssyni um þessi sömu nýtrúarhreyfingu.

Brynjólfur Þorvarðarsson hélt áfram með sína fróðlegu pistla um sagnfræði og trú og skrifaði einnig grein er birtist í Morgunblaðinu er heitir Siðferðisvandi þjóðkirkjunnar, þeirri grein var svarað með hatrömmum hætti af séra Gunnari Jóhannessyni, rottweilerhundur biskups, þar sem mestu púðri var eytt í að fara ófögrum orðum um Brynjólf, guð- og trúleysingja almennt og vitaskuld draga inní umræðuna Þýskaland nasismans, kommúnista-Rússland og -Kína og auðvitað Kambódíu í tíð Pol Pots, en viðlíka kjánar og Gunnar telja að hér sé á ferðinni afrakstur þjóðfélags sem byggist á guðleysi, en ekki peninga og völd, sem starfsfólk ríkiskirkjunnar ættu að þekkja nokkuð vel. En það er orðið einkennandi fyrir presta að gera sér upp sárindi, móðgast og vera með afar viðkvæma blygðunarkennd og ráðast beint að persónu í stað þess að slaka á og taka á málefninu, það að halda því fram, án þess að blikka, að allt það versta sem hent hefur á 20. öldinni og jafnvel í byrjun þeirri 21. sé sökum guðleysis er annað hvort vitfirra sem virðist engin takmörk sett eða allverulega slæmur skilningur á mannkynssögunni, og fullorðnir, háskólamenntaðir einstaklingar eiga að vita betur, hefði maður allavega í það minnsta haldið. Þetta er orðið ansi leiðingjarnt og í raun vandræðalegt.

Steindór J. Erlingsson birti hér lengri útgáfu af greininni sinni Sjálfhverfur þjóðkirkjuprestur þar sem hann amast réttilega útí predikun Maríu Sigurðardóttur. Þessi umdeilda predikun var einnig gerð að umræðuefni hér, hjá Gunnlaugi Þóri Briem og Torfi Stefánsson birti gestapistill á Annál varðandi sama efni. Það er með öllu ólíðandi að þetta pakk fái að halda uppi svona orðræðu, þetta svipar einna helst til þess að halda því fram að fólk af öðrum húðlit en náfölum eru skyni skroppnar skepnur. Já, rasismi, mannhatur og ekki sæmandi fólki sem þykist kenna sig við kærleika, umhyggju og, maður reynir að segja þetta án nokkurar kaldhæðni, umburðarlyndi.

Viktor J. Vigfússon birti grein í Morgunblaðinu um Biskup íslands, trúleysi og kærleik þar sem skotið var fast að Kalla biskup. Því miður brenglaðist sú grein eitthvað þegar hún fór í prentun hjá mogganum, en birtist hér í lengri útgáfu og óbrengluð. Kári Svan Rafnsson birti hér tölfræðilegar staðreyndir um skráningu trúlausa, og mánuðirinn endaði á smá Ricky Gervais-degi þar sem vísað var í nýlegt viðtal og tvö myndbönd úr uppistandinu Animals.

III

Sem endra nær eru sömu flónin sem fá hland fyrir hjartað þegar eitthvað stingur í augað, og vitaskuld er það siðapostulinn Jón Valur Jensson sem amast útaf einhverju smáræði því sem Matthías Ásgeirsson fór með í flimtingum. Sumir eru lagnari en aðrir að tönglast á tittlingaskít og Jón Valur er eflaust með einhverja gráðu frá einhverjum bréfaskóla í því. Það skondna við er að Jón þarf ekki að biðjast velvirðingar á neinu, nema gagnvart sínum gvuði, sem hann viðhefur um annað fólk, enda er maðurinn óskammfeilinn gervipíslarvottur:

í stað þess [að kæra Matta fyrir ummælin þá] stingur hann sig reglulega á þessu til að viðhalda píslarvættissáriu sem hann hefur af mikilli elju komið sér upp og grenjar svo undan.#

Ríkiskirkjuprestar stæra sig reglulega af aukinni kirkjumætingu á hverju ári, sem fer þó alltaf minnkandi frá ári til árs. Vídalínskirkjan tók upp á þeirri nýbreytni að sýna málverk af vampírum, að því er virðist. Það er þó ágætt að hafa smá fjölbreytni í óvættum, í staðinn fyrir uppvaking þá er haft blóðsugu, sem er nú sæmandi fyrir þessa spikfeitu ríkisstofnun. En því miður fór þessi gjörningur fyrir ofan garð og neðan hjá sumum sem þýðir enn færri kirkjugestir.

Vantrú og Siðmennt eru ekki einu félögin sem vilja hanka ríkið og ríkiskirkju fyrir mismunun, Ásatrúarfélagið er hefja málssókn gegn ríkinu vegna mismunar á sóknargjöldum og hafa leitað aðstoðar hjá norskum sérfræðingum í Evrópurétti þess varðandi og vilja auðvitað að öll trúfélög standi jafnfætis hér á landi. Þetta er ágætis skref í rétta átt og styðjum við hér í Vantrú þessa baráttu Ásatrúarfélagsins, en vonum jafnframt að þetta muni ýta sumum ráðamönnum til að íhuga í það minnsta þrennt; a) algjöran aðskilnað ríkis og kirkju, b) að félög á borð við Siðmennt og Vantrú, fái sömu réttindi og trúfélög, þ.e. lífskoðunarfélög og c) að almenningur utan trúfélaga fái að ráða í hvað trúvillingaskatturinn fari.

Í Bretlandi er komið upp sérkennilegt heilbrigðisvandamál sem rekja má til sérvisku og fávitahátt vissra hópa, en mislingatilfelli meðal ungabarna árið 2007 hafa hækkað um heil 30% síðan 2006. Viðlíka skítseiði hafa uppi flimtingar hér á landi um uppdiktaða skaðsemi bólusetninga, að það hafi hin og þessi áhrif á börn; geðsjúkdómar, sykursýki, heilablóðfall, mígreni eða krónískur viðrekstur, eða hvað annað sem þessum geðsjúklingum dettur í hug án þess að hafa nein haldbær rök eða rannsóknir til að styðja svoleiðis fullyrðingar. Þetta er "[f]ólk sem hefur alist upp í heimi þar sem mörgum skaðlegum sjúkdómum hefur verið útrýmt með bólusetningum virðist hætt að skilja nauðsyn þeirra.#" Vonandi að þessi lífshættulega skoðun sé ekki jafn útbreidd hér og annarstaðar á vesturlöndum.

IV

Þetta er febrúarmánuðirinn í grófum dráttum. Opinber umræða um trúmál hér á landi hafa verið nokk stopular, það virðist vera einsog fólk sé enn í lamasessi eftir hinn örlagaríka desembermánuð þegar Þorgerður Katrín fleygði hinni kristilegu siðgæðisbombu á Alþingi. Þetta mál er náttúrulega kærkomið og mun vonandi þokast í rétta, lýðræðislega og veraldlega átt, verst að það þurfti að koma upp í desember, en þá er hin kristilega hræsni í fullu blasti og vitaskuld þurftu margir að draga ýmsar skoðanir útúr rassinum á sér til að sýna fram á nauðsyn þess að viðhalda kristilegu siðferði í grunnskólum, án þess þó að útskýra hvernig þetta sérstæða siðferði er öðruvísi og betra en umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggja, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Hvað gerir kristilegt siðferði frábært? Ef eitthvað er að marka hvernig prestar, prelátar og hinir hatrömmustusu málsvarar kristni á Íslandi höguðu sér í þessari umræðu, þá telst kristilegt siðferði vera lygar, rógburður, hræsni, þröngsýni, hatur, óumburðarlyndi og hrein og bein vanvirðing fyrir manngildi.

Vonandi að það breytist eitthvað í framtíðinni, þegar þetta fólk lærir að anda með nefinu.

Þórður Ingvarsson 02.03.2008
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


óðinsmær - 03/03/08 14:25 #

það er ekki annað að sjá en að arftaki Birgis sé verðugur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.