Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biskup Íslands, trúleysi og kærleikur

Felst hætta í því að viðurkenna að það eitt að líta í augu barna okkar eða faðma ástvini geti fyllt okkur óendanlegum kærleika, án þess að trúa á fórnardauða og upprisu Jesú? Er náungakærleikurinn sprottinn úr jarðvegi trúar á guð, en trúleysi “sálardeyðandi og mannskemmandi”? Þegar “Guði er úthýst úr lífi manns”, tekur þá “helsið og hatrið og dauðinn” við? Þetta virðist vera skoðun ef ekki vissa æðsta manns hinnar svonefndu þjóðkirkju Íslendinga, biskups Íslands. Tökum við sem teljum okkur siðmenntuð undir og setjum amen hér fyrir aftan eða er ástæða til að gera athugasemdir? Ég tel svo vera. Það ætti raunar að vera mikið áhyggjuefni fyrir þjóðkirkjuna og söfnuð hennar hvernig leiðtoginn hefur hagað málflutningi sínum. Lítum á nokkur dæmi:

Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála.[1]

Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.[2]

Ef börnin fá ekki lengur að heyra sögurnar af Jesú og læra boðskap hans, þá verða þau ... blind á birtu þess orðs og anda sem eitt megnar að lýsa, leiða og blessa í gleði og sorg, í lífi og í dauða.[3]

Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa. ...Guð hefur skapað okkur til samfélags við sig og hjarta manns er órótt uns það hvílist í honum. Þetta er grundvallarstaðreynd. Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.[4]

Trú á Guð er sem sagt ekki bara af hinu góða heldur uppspretta alls þess besta í samfélagi manna. Trúleysi er ekki bara vont heldur ógnar það mannlegu samfélagi og uppeldi barna okkar, ávísun á helsi, hatur og dauða. Ég mun í þessum skrifum leitast við að færa rök fyrir því að málflutningur biskups sé ósæmandi og geti beinlínis valdið skaða í samfélaginu.

Það skiptir máli hvað sá sem ber titilinn biskup Íslands og fer fyrir stærsta trúarsöfnuði landsins segir. Ekki bara fyrir þá sem tilheyra þessum söfnuði heldur líka okkur hin sem stöndum utan hans og höfum jafnvel “úthýst” Guði úr lífi okkar. Það er erfitt að elta ólar við dapurleg og jafnvel “mannskemmandi” viðhorf einstakra leiðtoga og talsmanna trúarsafnaða, en það er eðlilegt að gera kröfur til biskups. Hann talar fyrir hönd þjóðkirkjunnar og má því gera ráð fyrir að þar endurspeglist almenn viðhorf kirkjunnar þjóna. Ábyrgð og áhrif biskups hljóta að vera töluverð.

Hvert er inntakið í orðum biskups? Annars vegar upphefur hann trúna á Guð kristinna manna og leggur mat á hverju hún hefur áorkað. Hins vegar dregur biskup upp mynd af þeim sem ekki trúa á Guð og afleiðingum slíks trúleysis. Þessir hlutir tengjast auðvitað, en lítum fyrst á upphafningu trúar. Biskup er óumdeilanlega málsvari kristninnar og lýsir því eðlilega dásemdum trúar á Guð og Jesú Krist. Slík málsvörn getur þó verið með ýmsu móti, en til grundvallar henni liggur vanalega hin “helga” bók, Biblían. Öflugustu málsvara “helgra” rita köllum við bókstafstrúarmenn. Það er síðan háð tíma og rúmi, þ.e. viðkomandi samfélagi og þróun þess, hversu skelfilegar afleiðingar bókstafstrúarinnar og trúarvissunnar eru: menn drepnir fyrir að trúa ekki á “réttan” guð eða meinaður fullur aðgangur að samfélaginu vegna “rangrar” kynhneigðar. Það kann að vera langur vegur þarna á milli, en rótin er sú sama – vissan um sannleika þess sem ritað er í “bók bókanna” sem er “grundvöllur hins góða samfélags”.

Biskup er viss. Trúin er grundvöllur siðferðis, en trúleysi mannskemmandi. Það er ekki ætlun mín hér að rökræða áhrif og afleiðingar trúar í gegnum aldirnar. Menn deila um hvort trúarbrögðin hafi verið mikill orsakavaldur styrjalda og hamlað gegn þróun mannréttinda eða hvort þau hafi verið okkar helsta framfaraafl og jafnvel sá áhrifahvati sem gerði raunvísindin yfirhöfuð möguleg, eins og biskup hélt nýlega fram[5]. Ég læt hér nægja að fullyrða að jákvæð áhrif trúarinnar eru umdeilanleg manna á meðal. Í raun tel ég að vissa biskups gangi í berhögg við þróun viðhorfa kristinna manna á Vesturlöndum og flestra presta þjóðkirkjunnar. Þar hefur dregið úr áherslu á bókstafstrú og tilbeiðslu, en sjónum frekar verið beint að breytni okkar gagnvart náunganum, kærleika og umburðarlyndi. Það umburðarlyndi hefur náð til þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð og jafnvel þeirra sem ekki trúa á hið yfirnáttúrulega.

Flest trúarbrögð hafa sem betur fer þróast með jákvæðum hætti, þótt þau séu misjafnleg stödd á þeirri vegferð, sbr. það ofstæki sem Íslam getur af sér. Hin vestræna lútherska kirkja er kannski lengst komin í að losa sig við bábiljur sem áður voru bjargföst trú. Það er óralangt síðan fallið var frá því að jörðin væri flöt, aldir frá því að jörðin missti sess sinn sem miðja alheimsins og nokkuð um liðið frá því þorri kristinna manna hætti að trúa því að Guð hafi skapað heiminn fyrir u.þ.b fimm þúsund árum. Fljótt á litið mætti álykta að kirkjan í dag sé búin að samþykkja flest af því sem vísindin hafa sagt okkur um eðli manna og alheims. Hún sinni nú fyrst og fremst því að styðja, hugga og leiða í sorg og gleði, að vísu með væntingum eða vissu um að eitthvað taki við eftir dauðann. Við nánari skoðun er alls ekki svo. Því sem kirkjan á erfiðast með að kyngja er þekking okkar á uppruna og eðli mannsins. Ég geri ráð fyrir að biskup, sem lofar vísindin, treysti að miklu leyti á það sem þau segja okkur og sé jafnvel nokkuð sáttur við þróunarkenningu Darwins. Þegar hins vegar kemur að kenningum um uppruna og þróun siðferðiskenndar þá er er biskup ekki bara efins – hann hafnar þeim möguleika að náungakærleikurinn sé okkur eðlislægur. Aðeins trúin á Guð geri okkur siðuð, vonin um að rétt breytni samkvæmt forskrift Guðs færi frelsi og eilífð, óttinn við helsi og dauða ef við förum ekki að vilja himnaföðurins.

Hvers vegna rígheldur biskup í þá vissu að gott siðferði sé háð trú á æðri máttarvöld? Ætti hann ekki að geta fallist á að gott siðferði sé eftirsóknarvert í sjálfu sér? Er það hættulegt fyrir kirkjuna að samþykkja að hvert og eitt okkar geti komist að þeirri niðurstöðu að heiðarleiki, umhyggja, ábyrgð og umburðarlyndi sé það sem við viljum standa fyrir í þessu eina lífi okkar? Vissulega molnar þar með undan fótum þeirra kenninga sem boða að maðurinn breyti þá aðeins rétt að hann óttist almættið. Biskup telur kannski að þá yrði of stórt skarð hoggið í grunn kirkjunnar, þótt ekki yrði í sjálfu sér eftirsjá af slíkri vantrú á manngildi sem telur loforð og hótanir um hvað tekur við í öðru lífi nauðsynleg til að við hegðum okkur skikkanlega í þessu. Stendur og fellur kirkjan með þeirri kenningu að kærleikur fáist aðeins ef við meðtökum jólaguðspjallið sem “heilagan sannleika”?

Það sem ég tel alvarlegast við boðskap biskups er hvaða kenndir hann vekur. Það blasir við að biskup átelur ekki bara menn sem hafa látið slæmt af sér leiða, nauðgara, morðingja, svikara, og dregur þá ályktun að þeir séu trúlausir og að trúleysið hafi valdið siðleysinu. Biskup notar orðið hatrammur um einstaklinga í samtökunum Siðmennt, sem hafa gert það að sínu sérstaka hjartans máli að efla almennt siðferði og ábyrgð hvers einstaklings gagnvart náunga sínum. Þetta eru hatursfullir trúleysingjar samkvæmt biskupi. Trúleysi er “mannskemmandi”. Þessu valda trúlausir menn. Trúlausir menn eru þar með vondir menn. Þetta er boðskapur biskups. Hvað gerum við við vonda menn? Brennum á báli? Bannfærum? Útilokum frá embættum og athöfnum? Fyrirlítum? Vorkennum? Það hefur auðvitað breyst með tímanum og er háð því í hvaða samfélagi við lifum. Við mannskemmandi trúleysingjar getum prísað okkur sæl fyrir að vera uppi á Íslandi á 21. öldinni. Ég verð því miður að segja að málflutningur biskups hefur auðveldað mér skilning á ofstæki trúar og kirkju fyrr á öldum.Við getum vonað að hann hafi lítil áhrif á líf okkar í dag, en gæti verið að fleirum en mér hugnist ekki að þessi kærleiksboðskapur biskups hafi greiðan aðgang að skólum barna okkar?

Grein minni er ekki ætlað að vera árás á kirkjuna. Sá misskilningur er stundum uppi að trúleysingjar hafni öllum afurðum trúar eða því sem kirkjan stendur fyrir og hefur áorkað. Svo er auðvitað ekki. Það er nauðsynlegt að skilja á milli annars vegar gagnrýni á trú og málflutning trúaðra, og hins vegar viðhorfs til þeirra fjölmörgu þjóna kirkjunnar sem helga líf sitt umhyggju fyrir náunganum. Trú er staðreynd í lífi fjölmargra og kirkjan hefur hlutverki að gegna. Það er ekki þar með sagt að forsvarsmenn hennar séu hafnir yfir gagnrýni. Málefnaleg gagnrýni er öllum nauðsynleg og jafnvel hinum trúlausu á að leyfast að hafa skoðun á því hverjar hinar raunverulegu stoðir kirkjunnar eru. Ég leyfi mér að efast um að boðskapur biskups sé til þess fallinn að efla kirkjuna. Gæti ekki verið að styrkur hennar fælist frekar í að opna fyrir öllum sem meðtaka kærleiksboðskap, trúuðum jafnt sem trúlausum? Ætti þjóðkirkjan, sem nýtur sérstakra forréttinda á meðal trúfélaga, sem Íslendingar meira og minna fæðast inn í, ekki að gæta þess sérstaklega að vera auðmjúk og umburðarlynd í stað þess að vera hrokafull og viss? Það er mín trú að þjóðkirkjan muni ekki dafna nema hún leggi áherslu á jafnrétti og umburðarlyndi. Að hún opni dyr sínar fyrir öllum sem telja hana geta gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu, veitt styrk í erfiðleikum og sorg og verið vettvangur til að stuðla að góðu siðferði. Einnig þeim sem ekki meðtaka trú á hið yfirnáttúrulega eða bókstaf fornra handrita.


[1]Karl Sigurbjörnsson, “Enn þetta ár er sú leið fær”, prédikun flutt í Dómkirkjunni á nýársdag, 1. janúar 2003.
[2]Karl Sigurbjörnsson, “Hvernig manneskja viltu vera?” flutt í Áskirkju, 6. mars 2005.
[3]Karl Sigurbjörnsson, “Undan eða eftir tímanum”, flutt í Hallgrímskirkju, 2. desember 2007.
[4]Karl Sigurbjörnsson, “Heilbrigð eða óheilbrigð trú”, flutt í Hvalsneskirkju, 9. desember 2007.
[5]Karl Sigurbjörnsson, “Á áramótum”, flutt í Dómkirkjunni, 1. janúar 2008.

Birtist í Morgunblaðinu í styttri útgáfu þann 17. febrúar sl.

Viktor J. Vigfússon 28.02.2008
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/02/08 13:29 #

Þess má geta að séra Gunnar Jóhannesson (rottweilerhundur biskups) er búinn að svara þessari grein.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/08 13:47 #

Það var nú einmitt m.a. vegna þessara ummæla biskups sem þetta vefrit komst á laggirnar.


Kristján Hrannar Pálsson - 28/02/08 16:59 #

Þessi svargrein Gunnars er ótrúlegt rugl. Hann er fastur í þeirri þröngsýni að við séum hvort eð er öll sköpuð af Guði og þaðan komi siðferði okkar, hvort sem við séum trúuð eða ekki.

Hvernig rökstyður hann þá fullyrðingu að sjálfshyggja sé mesta böl okkar daga? Hvers vegna þarf að halda í þá takmörkuðu og vanþróuðu heimssýn að eitthvað sé annað hvort gott eða vont? Hvaða voðaverk í nafni guðleysis er hann að tala um? (ætli hér sé ekki gamli misskilningurinn með kommúnismann og guðleysið). Hvernig á "trú" á vísindi að vera sambærileg trú á Jesú?

Það er frústrerandi að þeir þori ekki að hafa athugasemdakerfið opið. Ég vona fyrir hans hönd að það sé ekki vísvitandi.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/08 17:26 #

Trú.is virðist almennt vera búið að loka á athugasemdir.

En í þessari svargrein finnst mér þetta merkilegasta setningin [með feitletrun frá mér]:

En ef hugsað er eftir þessum brautum þá skal þess minnst að hryllilegar gjörðir hafa verið drýgðar í nafni guðleysis, með skelfilegum afleiðingum fyrir milljónir manna, gjörðir sem á stundum leiddi mjög eðlilega af þeim grundvallarviðhorfum sem guðleysi byggir á.

Af öðrum ummælum Gunnars er ljóst að hann er þarna að tala um fjöldamorð sem voru framin í kommúnistaríkjum. Mikið væri gaman ef presturinn gæti útskýrt hvers vegna fjöldamorð leiða "mjög eðlilega af þeim "grundvallarviðhorfum sem guðleysi byggir á".


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 29/02/08 00:24 #

Það er ekki hægt að rökræða við þetta lið.


Björn Ómarsson - 29/02/08 15:54 #

Góð grein Viktor.

Mér þótti sérlega gaman að svargrein Gunnars, sérstaklega orðunum:

"[Guðleysinginn] getur m.ö.o. ekki grundvallað siðferði sitt á öðru en eigin viðhorfum og persónulegu skoðunum"

Nú spyr sá sem ekki veit: er trú á guð ekki viðhorf? Er sú skoðun að siðferði skuli byggja á kristnum grunni ekki persónuleg? Eða er það hreinlega ekki skoðun?

Að auki finnst mér margt rangt við setninguna:

"Sé maðurinn ekkert annað en efni og orka sem eru mótuð af tilviljanakenndri og blindri þróun er erfitt að sjá að til sé algilt siðferði sem okkur beri að fylgja."

Veit Gunnar eitthvað um þróunarkenninguna? Ef maður kastar jatsí-teningum 10 sinnu og velur alltaf 6-urnar, er val manns þá tilviljunarkennt? Ég verð þó að lýsa yfir yfirmóta ánægju minni með það að Gunnar hafi fundið "algilt siðferði"; þá eru víst öll siðferðisleg álitamál úr sögunni. Gott mál.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 29/02/08 16:10 #

Já, það vantar algjörlega útskýringar á því hvernig Gunnar hefur fundið þetta algilda siðferði. Ég get vel trúað því að hann telji guðinn sinn hafa skoðanir á því hvað sé rétt og rangt, en ég veit ekki hvers vegna hann heldur að þær skoðanir séu algildar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.