Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

QLink hálsmen

qlink hálsmeniðMunið þið eftir orkuarmböndunum? Hér á landi voru seld armbönd sem áttu að bæta heilsu og kæta. Þetta var óskaplega vinsælt í eina tíð.

Lengi vel hefur nýaldarsinnað fólk keypt sér ýmisskonar kristalla til að hafa áhrif á heilsu og líðan. Þau trúa því að kristallar sendi frá sér allskonar tíðni og hafi þannig jákvæð áhrif á trúgjarna. Fólk ber þá í vasa eða hefur í bandi um hálsinn.

En kristallar eru náttúrulega kjánalegir. Nútíma fólk fellur ekki fyrir svona vitleysu því það áttar sig á því að grjót er bara grjót, jafnvel þó það sé fallegt.

Nútímafólk fær sér QLink hálsmen sem hefur verið "rannsakað vísindalega". Það er ekki laust við að sölumennskan í kringum QLink hálsmenið minni mig dálítið á orkuarmböndin og orkusteinana, nýaldarfrasar um orkusvið og óljósar fullyrðingar um rannsóknir.

Ég sá semsagt auglýsingu í Fréttablaðinu í vikunni sem vakti athygli mína. Þar er fullyrt að QLink hálsmenið geri allt þetta og meira til:

  • Dregur úr neikvæðum áhrifum rafsegulbylgja
  • Eykur þol gegn streitu
  • Eykur orku og úthald
  • Dregur úr þreytu
  • Eykur andlegt úthald og árverkni

Einnig er tekið fram í auglýsingunni að QLink hálsmenið sé borið af ýmsum heimsfrægum stjörnum á sviði dægurlagamenningar, stjórnmála og íþrótta.

Þetta eru engar smá fullyrðingar um virkni QLink. Reyndar eru nokkrar þeirra óljósar, t.d. eru neikvæð áhrif rafsegulbylgja umdeild og ég veit ekki alveg hvað átt er við með þoli gegn streitu. Það er aftur á móti ekkert óljóst við fullyrðinguna um að QLink auki orku og úthald. Þetta er fullyrðing sem einfalt ætti að vera að sanna með prófunum en ég finn engar slíkar rannsóknir. Vissulega er talað um rannsóknir á heimasíðu umboðsaðila en engar rannsóknir er að finna í ritrýndum fræðiritum og rannsóknirnar sem bent er á eru allar framkvæmdar af fólki á jaðri vísinda! Erfitt er að átta sig á því hvenær orkusvið líkamans fer úr jafnvægi og hvernig QLink fer að því að endurhlaða og bæta það. Ég vissi ekki einu sinni að það væri búið að sýna fram að orkusvið líkamans væri til.

Útvarpsþátturinn Ísland í bítið, sem Vantrú hefur haft ágæt tengsl við fjallaði nýlega um QLink. Hægt er að hlusta á upptöku á heimasíðu umboðsaðilans. Til að gera langa sögu stutta þá er þessi umfjöllun fyrir neðan allar hellur. Þáttarstjórnendur sjá ekki tilefni til að efast um nokkra af þeim mögnuðu fullyrðingum sem umboðsmenn tækisins setja fram, sölumaður fer að setja fram margar vafasamar fullyrðingar ótruflaður. Hlustendum stöðvarinnar var lítill greiði gerður með þessari auglýsingu.

Breska dagblaðið Guardian heldur út dálkinum Bad Science. Þar fjallaði Dr Ben Goldacre örlítið um þetta hálsmen og sýndi meðal annars fram á að þó í meninu séu rafrásir eru þær ekki tengdar við neitt og gera þar af leiðandi ekkert. Á myndbandi sést þegar Goldacre reynir að nema bylgjur frá QLink með mælitæki, ekkert mælist, QLink hefur sömu virkni og grjót. Enga.

Mikið væri gaman ef fjölmiðlar hér á landi myndu skoða fullyrðingar umboðsaðila QLink á sama hátt og Goldacre gerir þarna.

Að sjálfsögðu er ekkert athugavert við það að fólk vilji ganga með hálsskraut og QLink er svosem ekkert verri lukkugripur en margt annað, sumir eru með dýratennur eða klær í bandi um hálsinn vegna þess að þeir telja að það færi þeim lukku, aðrir nota trúartákn í sama tilgangi.

Vandamálið með QLink hálsmenið er að umboðsaðilar þess hafa sett fram ákveðnar fullyrðingar um virkni þess, fullyrðingar sem ekki standast rýni. Reynt er að pranga þessu glingri upp á fólk með óljósum sögum um að menið hafi hjálpað heimsfrægu íþróttafólki að bæta árangur sinn og að rannsóknir sýni að það virki [Gagnsemisrökvillan]. Rannsóknirnar sem vísað er til geta varla talist vísindalegar.

QLink hálsmenið er heldur ekki alveg gefins, einfaldasta útgáfa kostar 12.500.- og dýrasta útgáfa, úr gulli, kostar 80.990.-

Ég mæli með því að fólk sem þarf lukkugrip velji frekar fagran stein í næstu fjöru. QLink hálsmenið virkar ekki, umboðsaðilar þess eru að selja köttinn í sekknum og þeir sem hafa keypt svona men ættu ekki að hika við að fara til söluaðila og heimta endurgreiðslu, a.m.k. ef þeir hafa keypt menið útaf meintri virkni en ekki bara sem skraut.

Matthías Ásgeirsson 13.07.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


AG - 13/07/07 08:55 #

Sjitturinn titturinn.... hvar fæ ég svona hálsmen? Það vill svo til að ég leikmaður og þjálfari í handbolta og ég held að ef allir leikmenn (og ég auðvitað) keyptum svona hálsmen væri þjálfunin öllu auðveldari. Þess punkta hér:

Eykur þol gegn streitu Eykur orku og úthald Dregur úr þreytu Eykur andlegt úthald og árverkni

... sæi þá bara hálsmenið um og gerir þar með mitt starf öllu auðveldara.

Takk fyrir þetta Matti!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/07/07 23:00 #

Það eru gegnumgangandi einkenni á þeim áróðri sem á að skila okkur svona dóti í vasann (og peningum okkar í vasa annarra) að aldrei eru dregnar fram nokkrar rannsóknarniðurstöður sem sýna ótvírætt virkni þess sem selja á. Oftar en ekki er talað um rannsóknir sem fjalla um eitthvað annað í stærra samhengi í bland við yfirlýsingar um að söluvaran falli undir það sem rannsakað var þar. Og svo er fyllt upp í textann með vitnisburði fólks sem telur sig hafa haft gagn af vörunni.


Viddi - 13/07/07 23:20 #

Og aldrei eru tilætluð áhrif þessa minjagripi önnur en þau sem hægt er að ná fram með eðlilegu líferni. Allt það sem þetta hálsmenn á að gera er hægt að ná fram til dæmis með góðum svefni og heilbrigðum lífstíl, nema þessar "neikvæðu rafsegulbylgjur" ég er ekki nógu sjóaður í eðlisfræðinni til að ræað rafsegulbylgjur.

Maður fréttir aldrei af svona glingri sem á að gera eitthvað alveg einstakt, sem ekki er hægt að ná fram með heilbrigðum lífstíl. Það eru aldrei auglýstir orkusteinar sem gefa manni flugkrafta, eða röntgensjón.


FellowRanger - 14/07/07 18:59 #

Ég á ryksugu sem framleiðir ósýnilega mjólk sem enginn getur fundið fyrir. Proof me wrong. ;)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/07/07 12:48 #

Rakst á bloggfærslu frá því í apríl um QLink hjá félaginu Res Extensa.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 16/07/07 19:41 #

Þetta minnir mig á söguna um konuna sem var að selja auðtrúa fólki einhverjar glerkúlur sem áttu að hafa lækningamátt og seldi þær á fleiri þúsundir, þar til einhver glöggur komst að því að það var verið að selja eins kúlur í Rúmfatalagernum á nokkra hundraðkalla.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 16/07/07 19:58 #

Ég man vel eftir þessu glerkúlumáli. Þannig var að einhver svindlara-miðill laug því að viðskiptavini sínum að sá þyrfti að kaupa sérstakar kúlur sem birtust á einhverri töfraströnd í Kína. það var sagt að þessar kristalskúlur "mynduðust í sandinum" á þessari mögnuðu strönd. Annað hvort var sannfæringarkraftur svikamiðilsins svo mikill eða viðskiptavinurinn svo auðtrúa að sá keypti eina svona kúlu "úr sandinum í Kína" sér til eignar. Kúlan kostaði morðfé enda afar merkilegt og sjaldgæft náttúrufyrirbæri. Með lækningakraft í þokkabót!

það var svo á útsölu í IKEA sem að runnu a.m.k 2 grímur á viðskiptavininn auðtrúa þegar hann sá heilan stafla, heilt Euro-bretti af þessum mögnuðu kúlu. Kúlan kostaði 399.- á tilboðsverði.

Viðskiptavinurinn var svo sár og svo vonsvikinn að hann braut odd af oflæti sínu og klagði í blöðin. Svikamiðillin þurfti sneyptur að endurgreiða viðskiptavininum "kúluna úr sandinum".

Það sem er líkt með söguna um þessa "kínakúlu" og þessu "Q-link"- glingri er fámuualeg ósvífni þeirra sem selja þetta ómerkilega rusl á okurveðri með loforð um að þetta bæti heilsu manns.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 16/07/07 22:25 #

Mér finnst þetta hálsmen og annað sem er selt auðtrúa fólki sem einhver galdra lausn fyrir hvers konar vandamálum, álíka vitlaust og ýmis hrukkukrem sem eru seld á tugir þúsunda til annarra álíka auðtrúa viðskiptavina.


óðinsmær - 17/07/07 01:35 #

  1. hvað er að íslenskum dagskrárgerðarmönnum og þáttastjórnendum? afhverju er aldrei spurt útí eitt einasta atriði sem er vafasamt? afhverju er alltaf bara brosað og hlegið?

  2. það er nú hægt að þykja vænt um fallega steina og hluti sem minna mann á eitthvað, en við því að telja þannig hluti bæta heilsu eða vitund þá er svar mitt bara eitt stórt NEI - samt er allt skárra en þetta Qlink, úff.

  3. Hvað varð um það að borða vel til að auka úthald?


Strengur - 18/07/07 22:06 #

Hvernig væri nú að slaka aðeins á með fordómana. Þið hafið væntanlega öll kynnt ykkur alla þætti málsins og skoðað allar rannsóknir sem liggja að baki. Allir hérna inni sprenglærðir vísindamenn.

Ég held ég hafi aldrei dottið inn á jafn neikvæða síðu. Og hef ég nú séð þær margar.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 18/07/07 22:37 #

Um hvaða fordóma ert þú að tala um eiginlega drengur. Fordóma útí QLink hálsmenið!?!? Þetta er al-heimskulegt komment, mætti halda það þú værir búinn að fjárfesta í þessu rusli!


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 18/07/07 22:38 #

Ágæti strengur. Ástæða þessarar síðu er gagnrýni á þetta heilsu glingur sem sífellt er verð að ota að almenningi. Heilsu-skran á borð við kristalla, segularmbönd, salt-innlegg, Brasilíugrjót og þetta hálfvitalega Q-link rusl.

Eina gagnið sem þetta gerir er að það færir innflytjendum Q-link einhvern aur.

Strengur! finnst þér í lagi að búa í samfélagi þar sem óprúttið fólk hefur fé af veiku og auðtrúa fólki? Óprúttið fólk á borð við það sem flytur inn þetta Q-link rusl. Vantrú.is veitir þessu liði viðnám og það er bara fínt.

Hvað varðar hvort við séum öll vísindamenn þá er svo ekki. Hérna er allskonar fólk. Nokkrir doktorar í raungreinum þ.m.t. Lyfjafræðingur, rithöfundur, bílasali, tölvukall, kennari, smali, arkítekt og svo má lengi telja. Við erum allskonar fólk sem eigum það sameiginlegt að vera komin með upp í kok af þessu handanheima-húmbúkki sem sumir gera sér að féþúfu.

Heldur þú virkilega að þeir sem standa á bakvið þetta Q-link rusl trúi á lækningamátt þessa skrans?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 19/07/07 04:28 #

Ekki þarf mikla vísindakunnáttu til þess að sjá í gegnum þessi QLink orkuhálsmen. Heilbrigð skynsemi dugar flestum ágætlega. Eftir nokkur ár eiga fáir eftir að muna eftir þeim, eitthvað annað nýaldar-orku-kukldót verður komið í staðinn.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 19/07/07 08:00 #

Munið þið ekki eftir "segul-armböndunum"? Það var svona kukl-bóla. Þetta seldist svo vel að allt logaði í málaferlum milli innflytjanda þessara armbanda. Allir kváðu sig hafa "orginal" segularmbönd og fullvissuðu landsmenn að einungis þeirra vara virkaði.

Þetta fjaraði út eins og aðrar bólur. En spurningin sem eftir stendur er þessi. Ef þessi segularmbönd virkuðu svona vel (mikið var auglýst um ágæti þessara armbanda), ef þau virkuðu svona vel, afhverju hætti fólk að nota þau?


Strengur - 19/07/07 13:39 #

Viðurkennið það bara. Um leið og þið lásuð orðið "Orkuhálsmen" þá voruð þið búnir að gera upp hug ykkar. Þið þurftuð ekkert vita meira. Það eru fordómar. Þegar fólk dæmir fyrirfram án þess að kynna sér allar hliðar.


Andri - 19/07/07 13:59 #

Af hverju koma þeir ekki með svona orkusverð sem ég get notað til að höggva hausinn af siðlausum kuklsölumönnum. Ég er viss um að það myndi jafna orkustöðvarnar í líkama mínum og koma mér í gott skap. Þar að auki gæti ég ímyndað mér að ég sé He-man í þokkabót. By the power of Greyskull!


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/07/07 15:06 #

Viðurkennið það bara. Um leið og þið lásuð orðið "Orkuhálsmen" þá voruð þið búnir að gera upp hug ykkar.

Lastu ekki um fjöllunina? Ef það hefði verið raunin þá hefðum við sagt "QLink orkuhálsmen: Þau eru rusl" og það hefði verið öll umfjöllunin en hérna fyrir ofan er þessi fína grein sem sýnir svart á hvítu hve mikið rusl þetta er og meira segja vísað í Bad Science sem tók þetta apparat í sundur.

Niðurstaðan er að þetta er kjaftæði sem selt er til auðtrúa fólks sem heldur að seglar og ótengdar rafrásir gefi frá sér einhverja "orku".

Strengur - opnaðu augun! Það er verið að hafa þig að fífli.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/07/07 15:19 #

Það er rétt, ég hef fordóma gagnvart fyrirbærum sem þessum - en ég skoðaði málið, athugaði fullyrðingar framleiðenda og seljanda, kíkti á rannsóknirnar sem þeir minnast á og las nokkrar erlendar umfjallanir.

Mikið væri gaman að fá efnislega gagnrýni á þessa grein frá Streng, ekki bara þetta væl um fordóma.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 19/07/07 16:34 #

Strengur er örugglega búin að kaupa sér svona Q-link rusl...


húbíkkí - 23/07/07 00:36 #

Heimir og sú sem er með honum láta reglulega hafa sig að fíflum í þessum þáttum. Brosa framan í þetta lið og spyrja ekki gagnrýna spurninga. Man þegar Sigríður Klingenberg var hjá þeim. Hún var með orkusteina sem virkuðu gegn fíkn - Allri fíkn! Eina sem maður þurfti að gera var að hafa steininn í vasanum og hann myndi draga alla fíkn að sér. Ég spyr til hvers erum við að eyða öllu þessu í SAA, landspitalan ofl ef steinar redda málinu? Heimir bara brosti og þótti þetta nokkuð merkilegt hjá norninni!

Annars eruð þið að gera frábæra hluti með kjaftæðisvaktinni. Ætla að skora á ykkur að hlusta á þáttinn Mín leið sem er milli 2 og 4 held ég á útvarpi sögu og taka fyrir á vaktinni ykkar. Húmbúkkið nær nýjum hæðum þar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/07/07 10:26 #

Ég skal reyna að hlusta á þennan þátt, en værir þú ekki bara til í að skrifa grein um hann á kjaftæðisvaktina fyrir okkur? Við erum afskaplega fegin þegar við fáum aðsendar greinar og oft hafa lesendur okkar betri forsendur til að skrifa um viss mál.

Þú mátt skrifa greinina undir dulnefni ef þú vilt, sendu okkur bara póst á póstfang ritstjórnar sem er neðst hægra megin á forsíðunni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.