Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Svitakristallinn

Fyrir svosem áratug rak systir mín, ásamt manni sínum, sólaríum í þorpi úti á landi. Í tengslum við reksturinn pöntuðu þau svo inn hinar og þessar heilsuvörur til að selja kúnnum sínum.

Ein þessara heilsuvara var saltsteinn sem notaður er til að hamla svitalyktarmyndun, eins konar roll-on. Saltsteinn þessi er drullufín græja, það vantar ekki. Söltin drepa gerlagróðurinn sem býr til lyktina og hægt að hafast við án böðunar dögum saman ef því er að skipta, án þess að það bitni á umhverfinu.

Þegar þau gáfu mér eintak af slíkum í jólagjöf fylgdi með fjölritað blað sem útlistaði gæði vörunnar.

Þar var þetta kallað Náttúrukristall.

Ég spurði þau af hverju í ósköpunum þau væru að nota kristalsnafnið, þótt á ensku væri þetta kallað því nafni. Benti þeim á að í nýaldarkreðsum væru kristallar mikið dýrkaðir og fólk gæti fengið á tilfinninguna að verið væri að reyna að selja því eitthvað yfirnáttúrukjaftæði.

Og svarið sem ég fékk kom ekki á óvart. Þau höfðu bara þýtt þetta svona í hugsunarleysi og kunnu þá þegar eina sögu af kaupanda saltsteins hjá þeim. Sá hafði bara gengið með hann í vasanum og hélt að yfirnáttúrleg virkni „kristallsins“ myndi halda honum frá því að lykta af svita. Svo kom hann og kvartaði yfir vörunni þegar ekkert gerðist.

Mér kom þetta í hug þegar ég rakst nýlega á auglýsingu þar sem hinar ýmsu heilusvörur eru kynntar með þessu eilífa náttúru-forskeyti. Það virðist vera orðið viðtekið í sölubransanum að flagga náttúrunni á þennan hátt, því kúnnarnir flykkjast greinilega á allt sem þessu forskeyti er troðið á. Og sagan um svitakristallinn segir okkur hvernig trúgirni fólks fær það til að kaupa hvað sem er, ef réttu orðunum er klínt á dótið.

Takið vara af því þegar eitthvað er auglýst sem náttúru- eitthvað. Reynið í það minnsta að skilja að sálræn viðbrögð ykkar við þessu forskeyti byggja ekki á vitrænum grunni. Og alls ekki kaupa kristalla af nýaldarfólki til verndar og velgengni í lífinu, ef seljandinn getur ekki skýrt virkni vörunnar með eðlilegum hætti.

Saltsteinn systur minnar reyndist góður og gegn, en það var af því að efnasamböndin í honum hafa raunverulega virkni. Hún hefði ekkert þurft að kalla hann kristal, hvað þá náttúrukristal.


þessu tengt: Hugarstarf efahyggjufólks

Birgir Baldursson 03.11.2004
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Sigurður Ólafsson - 03/11/04 12:40 #

Já, það er margt skrítið í þessum "náttúrufræðum".

Eitt furðulegt fyrirbrigði er svo kallað "náttúrulegt sjávarsalt" sem selt er hér í heilsubúðum og víðar. Sumir kaupa þetta salt vegna bragðsins sem á að vera betra á ýmsan hátt (og sú ástæða er kannski góð og gild). Aðrir kaupa þessa vöru af því að hún er svo "náttúruleg" og þar af leiðandi hollari en venjulegt "iðnaðarsalt".

Við skulum skoða þetta aðeins nánar. Sjávarsaltið er unnið úr sjó, nánar tiltekið úr menguðustu höfum jarðarinnar, eins og t.d. Miðjarðarhafinu sem er viðbjóðslegur drullupollur. Þungmálmar og kvikasilfur, DDT, PCB og hvað þetta heitir nú allt saman, er þar í ríkulegu magni. Þetta skólp er þurkað í sérstökum tjörnum, og eftir situr saltið, geislavirkt og ríkt af "aukaefnum" sem gefa því örugglega mikinn karakter.

Hið svo kallaða "iðnaðarsalt" er hins vegar unnið úr námum þar sem saltið er tekið úr gömlum setlögum sem eru leifar forsögulegra hafsvæða sem voru til löngu áður en maðurinn, og mengun hans, kom til sögunnar. Kristaltær og ómengaður sjór, eins náttúrulegur og frekast er unnt, eða hvað? Þetta salt er því hreint og ómengað.

Hvor varan ætli sé nú hollari?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/11/04 13:04 #

Góður punktur. Það er augljóst að „náttúrulegt“ selur big tæm án þess að fólk hugsi nánar út í hvað liggur að baki. Nýi „náttúrukoddinn“ hlýtur að vera betri en aðrir koddar (sem þó innihalda fjaðrir en ekki gerviefni) og nýja „náttúrusjampóið“ fer auðvitað miklu betur með hárið en þessi gömlu. Hvert ætli hið virka náttúruefni sé í því? Hland?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/11/04 13:29 #

Ég var að finna í pússi mínu „hreina íslenska náttúruafurð“, nefnilega Eðalsalt. Skýringarnar á miðanum eru þessar: Framleitt úr jarðsjó og inniheldur natríumklóríð 41%, kalíumklóríð 41%, magnesíumklóríð 14%, magnesíumsúlfat 3% og snefilefni s.s. kalsíum, járn og joð upp á 1%.

Samkvæmt mínum kokkabókum er venjulegt matarsalt eða borðsalt hreint natríumklóríð. Þetta er því ekki salt heldur sölt. Það útskýrir bragðleysið.

Slagorðið á miðanum er 60% minna natríum. Ég hélt að natríum væri okkur nauðsynlegt til að taugaboðin gætu ferðast hindrunarlaust yfir taugamót. Síðan hvenær varð þetta frumefni okkur óhollt?

Ætli sé ekki best að maka þessu Eðalsalti bara í vota handakrikana :)


Kalli - 04/11/04 16:51 #

Spurningin er þá hvort kalíumklóríðið sem kemur í stað natríumklóríðsins sé eitthvað hollara? Við þurfum öll salt til að lifa af, en okkur dugar nú bara flestum víst það salt sem er í matnum sem við étum venjulega og oft er það meira en nóg.

Of mikið af þessu er víst ekkert gott...

En nú veit maður kannski afhverju sjávarsalt getur verið svona gott? Ég held samt að ég skoði á umbúðirnar áður en ég kaupi þannig.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/11/04 16:59 #

Það eina neikvæða sem maður hefur heyrt um saltneyslu er að salt bindur vatn í líkamanum. Og hvað er svona hræðilegt við það? Fyrir nú utan það að líkaminn bregst við með greinilegum hætti ef hlutfall natríumklóríðs í vökva líkamans stígur um of - við verðum þyrst, drekkum vatn og málið er leyst.


Kalli - 04/11/04 19:33 #

Ég játa fúslega fáfræði mína á þessu sviði. Maður heyrir í sífellu hamrað á að of mikil salt neysla sé óholl, en maður þarf vonandi ekki að segja neinum að hlutirnir séu ekki endilega sannir þó hamrað sé á þeim í sífellu.

En ágætt ef þetta er ekki óhollt, þar sem ég hef lítinn áhuga á að breyta saltneyslunni minni...


Hjördís - 11/11/04 14:14 #

Mér hefur verið sagt að salt geri fólk ófrjótt. Ég efast þó um það.


Snæbjörn - 11/11/04 15:23 #

Of mikil saltneysla er afar varasöm þar sem hún veldur háum blóðþrýstingi. Held að mörkin á milli hóflegrar og óhóflegrar neyslu séu e-s staðar á bilinu 5 - 8 grömm á dag, yfirleitt neyta íbúar Vesturlanda vel of mikils salts.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/11/04 16:26 #

Saltmagn vökva líkamans er álíka og sjávar og heyrt hef ég þá skýringu að ástæða þess sé einfaldlega sú að þaðan komum við, landlífverurnar. Ef of mikil saltinntaka veldur of háum blóðþrýstingi er það vegna þess að vatnsinntakan er ekki næg til mótvægis. Því mætti alveg eins snúa þessu við og segja að Vesturlandabúar drekki of lítið vatn.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 11/11/04 18:41 #

Leiðrétting: Saltmagnið er svipað og það var í sjónum þegar fyrstu lífverur með frumuhimnu urðu til. M.ö.o. það mætti segja að vatnið í líkama manns og primordial soup forfrumlífsaldar séu einn og sami hluturinn. Ef maður vill vera skáldlegur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/11/04 18:43 #

Aha, takk fyrir þetta.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.