Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugarstarf efahyggjufólks

Er eitthvað fengið með því að vera efahyggjumaður? Er ekki hundleiðinlegt að vera alltaf að draga allt skemmtilegt og spennandi í efa, koma með einhver svona leiðinda-þunglyndiskomment á allt sem vekur tilhlökkun og von hjá venjulegu fólki?

Öðru nær. Sá sem tamið hefur sér efahyggju hefur öðlast dásamlegt tól sem fær hann til að vinsa fullt af þvælu út úr heimsmynd sinni. Slíkan mann gengur mun verr að pretta og blekkja en alla þá sem eru fullir af trúgirni og trúnaðartrausti. Lítum betur á þetta:

Þegar þú hittir fyrir einhverja þá sem duglegir eru að taka inn Lifestream Bioactive Spirulina geturðu skilið hvers vegna þeir dýrka þetta einstaka dökkgræna náttúrufæðubótarefni. Það má öfunda þá af því hvernig húðin geislar, augun eru skýr og sjálfir eru þeir bókstaflega að springa úr orku! Vísindamenn trúa því að þessi örsmáa Spirulina-jurt sé næstum því hin fullkomna fæða og margir rannsakendur trúa að hún geti bætt heilsu fólks umtalsvert og aukið orku.

- (Úr auglýsingabæklingi, lausleg þýðing BB)

Hvað finnst ykkur um þennan texta? Langar ykkur ekki heil ósköp til að stökkva af stað og ná ykkur í þessar dökkgrænu töflur? Nógu girnilega hljómar að minnsta kosti það sem fullyrt er í bæklingnum.

Eða nægir ykkur að vita að margir vísindamenn, líka þeir sem fást við rannsóknir, trúi á mátt Spirulina? Er það fyrir ykkur sönnun einhvers? Margir vísindamenn trúa líka á Guð og fullt af fólki sem starfar við rannsóknir trúir á mátt hans.

Sjáið þið ekki hvert ég er að fara með þessu? Vel getur verið að Spirulinajurtin sé algerlega málið og láti húðina skína, augun glansa, heilann dansa og drifkraftinn slaga hátt upp í áhrifin af meðalstóru amfetamínfixi - En það gleymist bara alveg að skýra frá nokkrum niðurstöðum í þeim efnum, heldur er aðeins tiltekið að einhverjir vísindamenn trúi á dæmið (rökvilla sem kallast "vísun í yfirvald"). Það kemur hvergi fram að þessir trúuðu vísindamenn hafi rannsakað efnið og komist að einhverjum niðurstöðum um það, eina rannsóknarniðurstaðan sem nefnd er í bæklingnum fjallar um það að næringarefni í náttúrlegu fæði á borð við Spirulinatöflurnar eigi líkaminn betur með að taka upp í blóðrásina en tilbúin vitamín og bætiefni úr efnagerðum.

Hvergi kemur fram að sú rannsókn hafi í nokkru tekið til vörunnar sem er til sölu.

Áfram heldur bæklingurinn:

Elizabet frá Dunedin, NZ er orðinn reglulegur notandi. "Ég er búin að taka inn Lifestream Bioactive Spirulina töflur í nokkrar vikur og hef strax tekið eftir undursamlegum breytingum í líkama mínum. Þetta líkist því helst að hafa öðlast nýtt líf, og heilastarfsemin, sem var áður fremur seinfær, er mun skarpari og skýrari líka. Ég er mjög ánægð með þetta efni, miklu ánægðari en með nokkurt annað efni sem ég hef prófað."

Nú hljótum við þó öll að hafa látið sannfærast og erum komin í úlpuna til að fara og kaupa inn þetta dýrðarefni, eða hvað? Nei, efahyggjuheilinn hefur enn talsvert við þennan kynningarmáta að athuga.

Þetta sem var þarna borið á borð fyrir okkur kallast vitnisburður og hann er vita gagnslaus þegar kemur að því að sýna fram á réttmæti eða tilvist einhvers. Þessi kona gæti til dæmis verið undir gargandi plasíbó-áhrifum sem ekkert hafa með innihald töflunnar að gera. Og kannski eru það einmitt slík áhrif sem verið er að selja, ágætlega holla vítamíntöflu, unna úr þarategund, sem með réttri auglýsingamennsku má selja trúgjörnu fólki í stórum stíl á þeim forsendum að hún hafi nánast lækningamátt og hífi greind og getu fólks upp í hæðir.

Ég er samt ekkert að halda því fram um þessa tilteknu vöru. Hún getur vel verið jafn frábær og auglýst er. Það eina sem vekur grunsemdir efahyggjumannsins eru þau atriði sem ég hef tiltekið: Ekki er vísað í neinar rannsóknarniðurstöður, heldur með þokukenndum hætti tiltekið að einhverjir vísindamenn trúi á mátt vörunnar. Í stað staðfestra niðurstaðna er svo haldið á lofti einum vitnisburði einnar manneskju sem telur sig hafa tekið andlegum og líkamlegum framförum við inntökuna.

Við efahyggjumenn tökum eftir öllu svona meðan flestir aðrir láta skrumið gott heita og kaupa vöruna í góðri trú. Þetta gildir ekki bara um fæðubótarefni, heldur einnig loftkenndari hluti á borð við hjálpræði Krists. Eða hvaða aðferðum beitir annars Krossinn til að ná inn meðlimum? Staðfestum rannsóknarniðurstöðum um að sálir kristinna manna fari til himna?

Nei, bara vitnisburði um bænheyrslu Guðs.

Birgir Baldursson 23.01.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.