Í síðustu viku hélt Vantrú fyrirlestra í Borgarholtsskóla. Á miðvikudags- og fimmtudagsmorgun ræddum við um hindurvitni í frjálsum tímum á þemadögum.
Vantrú hefur stefnt á að halda fyrirlestur í framhaldsskólum og við gripum tækifærið því fegins hendi þegar okkur var boðið að mæta í Borgarholtsskóla.
Við ákváðum að fjalla um hindurvitni almennt og meðal þess sem við ræddum var DNA heilun, blómadropar, smáskammtalækningar miðlar, stjörnuspeki, draugar, scientology og kristni. Markmið okkar var að sýna fram á að öll þessi hindurvitni eiga eitthvað sameiginlegt og við reyndum að færa rök fyrir því að öll eru þau skaðleg á einhvern máta.
Það er ekki okkar að dæma hvernig til tókst. Við lærðum heilmikið af því að halda þessa fyrirlestra, þurftum að skera efnið aðeins niður eftir fyrri daginn því þá tókst okkur ekki að komast yfir allt það sem við ætluðum að fjalla um. Seinni daginn tókst það nokkurn vegin. Við fengum ágætar spurningar og ábendingar.
Það var ánægjulegt að í þeim hópi sem hlustaði á okkur var nokkuð af efahyggjufólki og margir könnuðust við þær vísanir sem við komum með. Það er ljóst að þættir eins og South Park, Derren Brown og Penn & Teller hafa náð að útbreiða töluverða gagnrýni á ýmis hindurvitni. Þannig má gera ráð fyrir að flestir hafi heyrt megnið af gagnrýni okkar á miðla áður og því spurning hvort þörf sé á áróðri gegn slíkri svikastarfsemi. Við höldum að svo sé en vonum að í framtíðinni verði slíkur áróður óþarfur.
Vantrú stefnir á að þróa þessa fyrirlestra áfram og munum við vonandi bjóða upp á þá í fleiri framhaldsskólum á næstunni. Markmið okkar er að áheyrendur kynnist örlítið gagnrýni á hindurvitni, sjái rökin gegn bullinu og skilji að það er skaðlegt á ýmsan hátt.
Yngsta presti landsins þótti undarlegt að félagsskapur sem gagnrýnir trúboð í skólum væri að "útbreiða boðskap sinn" í framhaldsskóla, honum þótti það þversögn og málflutningur okkar "ekki trúverðugur".
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að túlka dylgjur prestsins því þessi gagnrýni er vafalaust eitthvað það vitlausasta sem ég hef lesið á gervöllu internetinu síðustu mánuði. Vissulega gagnrýnir Vantrú trúboð í leik- og grunnskólum. Að sjálfsögðu berjumst við gegn ásókn Þjóðkirkjunnar í framhaldsskóla þar sem kirkjan reynir að troða sér inn í lífsleiknikúrsa en við setjum ekkert út á að kirkjan haldi fyrirlestra í framhaldsskólum á þemadögum, ekki frekar en við gagnrýnum að Magnús Skarphéðinsson fjalli um drauga og geimverur á þeim vettvangi. Þó Vantrú stefni á að flytja fleiri fyrirlestra í framhaldsskólum fullyrði ég að okkur dreymir ekki um að fara í grunnskóla, hvað þá leikskóla. Jafnvel þó við vitum að best sé að ná til barna þegar þau eru ung. Okkur þykir slíkur áróður á þeim vettvangi ósköp einfaldlega siðlaus, mér finnst hugmyndin viðbjóðsleg og ég fordæmi Þjóðkirkjuna fyrir að stunda slíkan áróður gangvart börnum í opinberum skólum.
Í framhaldsskólum er fólk á aldrinum 16 ára og eldra, fólk sem er að verða eða orðið fullorðið. Við í Vantrú treystum okkur fullkomlega til að ræða um hindurvitni, þar með talið trúarbrögð, við fullorðið fólk. Hvort sem það er sammála okkur eða ekki. Berum þetta saman við prestana sem eiga afar auðvelt með að herja á börn en þegar kemur að því að svara gagnrýni frá fullorðnu fólki virðist vera minni vilji eða geta, þá hlaupa prestarnir í skjól og vilja sem allra minnst segja.
Presturinn ungi, sem finnst málflutningur okkar ekki trúverðugur, hefur meðal annars heimsótt leikskóla í Seljahverfi þar sem hann kennir börnum að tala við Gvuð. Ef prestinum þykir þetta á einhvern máta sambærilegt veit ég ekki alveg hvað skal halda, varla er hann svo vitlaus? Hvað annað er hægt að segja um slíkan samanburð?
Ég vona að þeir sem komu á fyrirlestur okkar í Borgarholtsskóla hafi haft eitthvað gagn og gaman að. Ég veit að við getum bætt fyrirlestur okkar töluvert og við munum vinna í því.
Já, ég man einmitt eftir því að hafa sótt fyrirlestur hjá Magnús S. á þemadögum (imbruviku) í FG 97. Þá leyfði hann okkur að heyra upptöku af "velheppnuðum" miðilsfundi þar sem þau hjálpuðu einhverri konu að komast yfir í eftirlífið vegna þess að hún var föst á stað þar sem allt var fullt af ormum og pöddum og hún fattaði ekki að hún var dáin, þau þurftu að segja henni frá því.. ?!?
Vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta.
Gaman að sjá "trúboða" starf hjá Vantrúinni, mennirnir með allt á hreinu! Berandi boðskap sem byggist á saumaklúbbssamræðum, frábært.
Guðmundur, viltu vera svo vænn að útskýra athugasemd þína betur og/eða færa einhver rök fyrir máli þínu? Varstu viðstaddur annan hvorn fyrirlesturinn?
Hvenær er svo ætlunin að koma með fyrirlestra í framhaldsskóla út á land hefði ekki haft neitt á móti því að hlýða á ykkur hérna fyrir austn fyrir tvem vikum.. en annars góður punktur hjá þér að það er allt annað að halda fyrirlestra fyrir fólk sem hefur tekið ákvörðun um að vera með eða á móti eitthvað sem grunnskóla og leikskólabörn hafa mjög líklega ekki gert
Vá hvað þetta er nú hlægilegt. Þið hafið verið að "væla" endalaust yfir "trúboði" kirkjunnar í skólum og svo fariði sjálf í skólana og predika um hvernig við ættum að breyta okkar siðum og vera einsog þið trúlaus.
(Svo langar mig líka að benda á setningnu sem kemur þegar maður er að kommenta "Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum" eina sem ég hef lesið á þessari síðu eru stanslausar ærumeiðingar í garð trúfélaga sér í lagi Þjóðkirjunnar.)
Takk fyrir og vonandi verður þetta birt.
Vá hvað þetta er nú hlægilegt. Þið hafið verið að "væla" endalaust yfir "trúboði" kirkjunnar í skólum og svo fariði [sic] sjálf í skólana og predika [sic] um hvernig við ættum að breyta okkar siðum og vera einsog þið trúlaus.
Lastu ekki greinina sem þú ert að setja athugasemd við? Ég fjalla um nákvæmlega þessa gagnrýni í greininni sjálfri.
Auk þess prédikuðum við ekki í skólanum, sögðum fólki ekki að það ætti að breyta sínum siðum og sögðum engum að hann ætti að vera trúlaus.
(Svo langar mig líka að benda á setningnu [sic] sem kemur þegar maður er að kommenta "Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum" eina sem ég hef lesið á þessari síðu eru stanslausar ærumeiðingar í garð trúfélaga sér í lagi Þjóðkirjunnar [sic].)
Þá hefur þú augljóslega ekki lesið mikið á þessari síðu. Auk þess tel ég vafasamt að tala um að trúfélag hafi æru.
Ég er nú ekki kristinn en ég las nú greinina og sé nú engan mun á því sem að kirkjan er að gera og þið. En svo skil ég ekki alveg hvert þú ert að fara með að vera tala um að trúfélög hafa ekki æru? Ef þetta séu nú ekki fordómar sem ég hefði haldið að ættu ekki að vera í nútímasamfélagi.
Ég er nú ekki kristinn en ég las nú greinina og sé nú engan mun á því sem að kirkjan er að gera og þið.
Í fyrsta lagi, þá gagnrýnum við trúboð í leikskólum og grunnskólum. Í öðru lagi, þá var þetta opinn fyrirlestur á þemadögum, ekki var skyldumæting. Í þriðja lagi, þetta var ekki hluti af námsefni. Í fjórða lagi, við gerðum þetta í sjálfboðavinnu. Í fimmta lagi, einungis hluti fyrirlestarins snerist um kristni og önnur trúarbrögð. Í sjötta lagi, ég get lítið gert við skilningsleysi þínu, ég fjalla ítarlega um þetta í greininni.
En svo skil ég ekki alveg hvert þú ert að fara með að vera tala um að trúfélög hafa ekki æru?
Einstaklingar hafa æru, ekki félög eða hópar. Auk þess er það kjaftæði í fyrri athugasemd þinni að hér séu "stanslausar ærumeiðingar í garð trúfélaga sér í lagi Þjóðkirjunnar [sic]". Hér er stanslaus málefnaleg gagnrýni.
Bentu mér á "ærumeiðingar" í garð trúfélaga hér á síðunni. Til að standa við dylgjur þínar þarftu helst að taka nokkur dæmi.
Kjarni málsins, svo ég svari fyrri athugasemdi þinni, kemur fram í greininni. Hann er þessi. Við höfum aldrei gagnrýnt Þjóðkirkjuna eða önnur trúfélög fyrir að kynna málstað sinn á þemadögum eða við álíka tækifæri í framhaldsskólum. Það er því beinlínis ekkert hlægilegt við þetta mál, fyrir utan illa ígrundaðar athugasemdir þínar.
Í fyrri athugasemd sinni sagði Svenni:
Takk fyrir og vonandi verður þetta birt.
Ólíkt Þjóðkirkjumönnum stundum við ekki stífa ritskoðun á þessum vef. Allir (fyrir utan einn einstakling) hafa hér tjáningarfrelsi svo lengi sem þeir tjá sig málefnalega og eru sæmilega kurteisir.
Auk þess fara allar athugasemdir hér beint á vefinn en bíða ekki samþykkis eins og á síðum Þjóðkirkjufólks.
Þegar þú meinar allir nema einn er þá átt við mig? Á ég ekki að fá að tjá mig að því að ég er ekki sammála hugsunum ykkar, meirihlutans á síðunni?
Nei, það er ekki átt við þig. Voðalega er þér mikið í mun að gera Vantrú að einhverjum ritskoðurum og sjálfan þig að fórnarlambi í leiðinni! Ætti sú staðreynd að þú hefur ekki verið ritskoðaður að vera nóg til að þú vitir að ekki er átt við þig?
„Að sjálfsögðu berjumst við gegn ásókn Þjóðkirkjunnar í framhaldsskóla þar sem kirkjan reynir að troða sér inn í lífsleiknikúrsa en við setjum ekkert út á að kirkjan haldi fyrirlestra í framhaldsskólum á þemadögum, ekki frekar en við gagnrýnum að Magnús Skarphéðinsson fjalli um drauga og geimverur á þeim vettvangi."
Svenni - þeir útskýra hérna í stuttu máli hvað þeir voru að gera. Ég sé ekkert að þessu, og þeir segja sjálfir að þeir setji ekkert út á hluti sem eru á þemadögum. Það er alls ekki sambærilegt trúboði í grunn- og leikskólum.
Ég er ekki tengdur Vantrú en er þeim sammála í þessu (og mörgu öðru).
Nú er ég framhaldsskólanemi ... fyrir svolitlu hafði kirkjan samband við skólann minn, og spurði hvað skólanum þætti um að hafa kvöldvöku fyrir framhaldsskólanemendur í kirkjunni. Skólinn þyrfti ekki að gera neitt, bara samþykkja að kirkjan myndi bjóða uppá þetta, kannski leyfa kirkjunni að setja upp auglýsingu einhversstaðar. Þetta yrði utan skólatíma, og algjörlega valfráls mæting. Skólinn hafnaði þessu alfarið, og sagði að trúmál og skólamál ættu ekki saman - þau gætu ekki stutt svona uppákomu, þó hún yrði hvorki á vegum skólans né í skólabyggingunni, fyrst þetta yrði auglýst sem trúartengd kvöldvaka fyrir framhaldsskólanemendur.
Nú spyr ég, í tengslum við greinina hér að ofan: var þetta rangt hjá skólanum? Er allt í lagi að hafa uppákomur tengdar trúarlegum málefnum á vegum skólans ef þær eru utan kennslustunda og valfrjáls mæting?
Ég sé ekkert að því að kirkjan auglýsi sína eigin viðburði í framhaldsskólum og komi og haldi kynningar þegar henni er boðið. En þegar almennir skólar eru farnir að halda starfsmenn á vegum kirkjunnar og láta þá ganga í störf fagfólks gegnir það öðru máli.
Líkt og Birgir sé ég ekkert að því að kirkjan auglýsi starfsemi sína í framhaldsskólum, t.d. með veggspjöldum og kynningarfundum.
Mér finnst aftur á móti ekki eðlilegt að trúarathafnir séu haldnar í skólahúsnæði. Ekki skortir Þjóðkirkjuna húsnæði þannig að ég skil ekki af hverju hún þarf að nota húsnæði skólanna.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Viddi - 04/03/07 11:43 #
Það hefði verið óskandi hefðu þið kíkt á þemadaga hér í Flensborg í seinustu viku.
Í staðinn komu bæði í heimsókn Magnús Skarp (annað árið í röð) og Gunnar nokkur kenndur við Krossinn. Fullmikið af bulli fyrir minn smekk en það var áhugavert að hlusta á þetta og á tímum virkilega kómískt. Sem betur fer held ég að fáir hafi gleypt við áróðri Gunnars eða Magnúsar. Mér fannst koma í ljós skemmtilegur kontrast hjá þeim þar sem Magnús er samkynhneigður en Gunnar er tja enginn hommavinur en báðir gátu þeir þá lofað Jésú og bullað í Jésu nafni, heppilegt fyrir þá.